Borgarstjórn 4. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Skýrslu innri endurskoðunar um Sorpu:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka þá tillögu sína úr borgarráði að stjórnarmaður borgarinnar axli ábyrgð og víki og helst á öll stjórnin að gera það einnig. Niðurstöður skýrslunnar eru afgerandi, stjórnunarhættir eru ámælisverðir, segir í skýrslunni. Skuld er skellt á framkvæmdarstjórann. Hann hefur vissulega mikla ábyrgð en hún er fyrst og fremst að halda utan um daglegan rekstur og vissulega að halda stjórn upplýstri um málefni sem tengjast Sorpu. En stjórnarmenn bera stærstu ábyrgðina. Stjórnarmenn skulu, eins og segir í skýrslu innri endurskoðunar, óska eftir og kynna sér öll þau gögn og allar þær upplýsingar sem stjórn telur sig þurfa til að stýra fyrirtækinu. Byggðasamlagskerfið er gallað kerfi eins og það er núna ef stjórn stendur sig ekki þá er varla von á góðu. Ekki er langt síða að á fundi borgarstjórnar var leitað samþykkis fyrir ábyrgð á láni til að mæta framúrkeyrslu Sorpu. Nú neyðist meirihlutinn til að skoða málið og treystir sér aðeins til að gera það undir verndarvæng SSH. Það hefði þurft að grípa fyrr í taumanna. Ef borgin ætlar að taka þátt í byggðasamlagi þá þarf hún sem stærsti eigandinn að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við ábyrgð og eignarhald og skipa þarf stjórn sem hefur einhverjar þekkingu á málefnum Sorpu.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og breytingatillögu meirihlutans:

Tillaga Sjálfstæðisflokksins er út af borðinu enda náði hún ekki nógu langt. Að því leyti er tillaga meirihlutans sem nú er lögð fram skárri enda meira í takt við tillögu Flokks fólksins frá í september 2019 þess efnis að „borgarstjórn samþykki að aðild borgarinnar að byggðasamlögum verði skoðað með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu borgarbúa að þeim“. Flokkur fólksins hefur ítrekað sagt allt frá upphafi kjörtímabils að byggðasamlög eins og þau starfa nú eru ólýðræðisleg og fjarlæg hinum almenna borgara. Tillaga Flokks fólksins var felld í september og Sjálfstæðisflokkur sat þá hjá. Sá hluti breytingartillögu meirihlutans sem er ásættanlegur er: „að farið verði yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaganna til að tryggja hagsmuni eigenda þeirra“. En það sem hugnast ekki Flokki fólksins er samkrull með utanaðkomandi ráðgjöfum og Samtökum Sveitarfélaga. Flokkur fólksins getur því ekki stutt þessa tillögu meirihlutans. Flokkur fólksins telur borgarmeirihlutann of háðan Samtökum sveitarfélga á höfuðborgarsvæðinu með hin ýmsu mál. Reykjavík er sjálfstætt sveitarfélag, lang stærst og að á gæta fyrst og fremst hagsmuna borgarbúa. Ef byggðasamlag á að vera lýðræðislegt þurfa stjórnunarheimildir að vera í samræmi við ábyrgð en svo eru byggðasamlög náttúrulega ekkert lögmál.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósialistaflokks um að gera könnun á viðhaldsþörf íbúða Félagsbústaða:

Flokkur fólksins hefur margítrekað að Félagsbústaðir haldi betur utan um leigjendahópinn. Það er áríðandi að reyna að ná til leigjenda, þeir hafa reynt að ná eyrum yfirstjórnar en ekki gengið nógu vel. Leigjendur hafa leitað m.a. til Flokks fólksins og beðið um aðstoð að ná til yfirstjórnar Félagsbústaða. Það segir sig sjálft þegar svo er komið þá er eitthvað ekki að virka. Ákall um hlustun er vegna ólíkra þátta, verið er að láta vita af vandamáli með húsnæði eins og myglu og leka. Dæmi eru um að fólk sé orðið fársjúkt og jafnvel enn ekki búið að leysa málið. Dæmi er líka um að ýmis erfið tilvik komi upp t.d. í stigagöngum sem leigjendur sjálfir geta ekki leyst utan opnunartíma skrifstofu. Flokkur fólksins hefur verið með ýmsar tillögur til að vekja stjórn Félagsbústaða til vitundar um þessi mál. Lagt hefur t.d. verið til að símatímum verði fjölgað í tvisvar á dag, milli kl. 11 og 12 og 15 til 16. Einnig að neyðarnúmer sé fyrir viðhaldsþjónustu utan hefðbundins opnunartíma skrifstofu. Flokkur fólksins hefur lagt til að sett verði á laggirnar teymi til að taka á óvæntum tilvikum/tilfellum sem upp koma utan opnunartíma, eitthvað sem ekki getur beðið. Margt hefur sem sagt verið reynt.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð borgarráðs frá 23. janúar og fundargerð borgarráðs frá 30. janúar:

Flokkur fólksins óskaði eftir að umræða um áhrif og afleiðingar verkfalls ef úr verður yrði tekin á dagskrá borgarstjórnar en því var synjað. Samninganefnd starfar í umboði borgarstjóra. Sem fulltrúi í velferðarráði vill borgarfulltrúi bóka um hvernig landslagið verður hjá þeim sem þiggja þjónustu velferðarsviðs komi til verkfalls. Um 700 starfsmenn í 450 stöðugildum leggja niður störf á velferðarsviði í næstu viku komi til verkfalls. Annars vegar hálfan dag og hins vegar í sólarhring. Í vikunni þar á eftir eru það annars vegar tveir sólarhringar og hins vegar hálfur dagur. Um 2000 notendur munu fá skerta þjónustu. Verkfallið nær til félagslegrar heimaþjónustu og öryggis innlits, gistiskýla, heimili fyrir tvígreinda einstaklinga, hjúkrunarheimilin, búsetu fyrir geðfatlaða og félagsmiðstöðvar. Tillögu Flokks fólksins um að borgin komi upp aðstöðu þar sem húsgögn og húsbúnaður fæst gefins hefur verið felld með þeim rökum að ekki sé þörf á slíkri aðstöðu og sé hætta á að ef ný verði sett á laggirnar þá ógni það þeim sem fyrir eru. Flokkur fólksins undrast úrtölur skrifstofu umhverfisgæða Þessu er auk þess mótmælt enda talið að nákvæmlega svona aðstaða sé einmitt ekki til. Sú aðstaða sem er til selur húsgögn og húsbúnað gegn vægu gjaldi. Þessi gengur hins vegar út á að fá húsgögn gefins.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 29. janúar og fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 22. janúar:

Flokkur fólksins hefur lagt fram eftirfarandi tillögur er varða dýrahald í borginni og þar með hunda. Tillögurnar eru að: aðgengi hunda og aðstöðu hundaeigenda verði endurskoðað, vísað frá; rýmri reglur fyrir gæludýr verði í strætisvögnum, vísað frá; heimilt verði að halda hunda- og kattasýningar í íþróttamannvirkjum, vísað frá; hundagjald öryrkja og eldri borgarara verði fellt niður, vísað frá; innheimta hundagjald fari í uppbyggingu á hundasvæðinu á Geirsnefi, vísað frá; innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirliti hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, felld. Fram hefur komið að þeim hefur verið vísað til stýrihóps um málaflokksins utan einnar þótt það komi ekki fram í fundargerð. Þess er vænst að þær fái faglega meðhöndun stýrihópsins og haft verði þétt samráð við hagsmunaaðila. Best hefði verð ef aðili frá hagsmunasamtökum hefði átt sæti í hópnum. Meðal hundaeigenda í borginni er gríðarlega óánægja og vantraust til hundaeftirlits. Verkefnum þeirra hefur snarfækkað vegna samfélagsmiðla og er hvorki fugl né fiskur frá því áður var. Engu að síður er þessi hópur krafinn um gjald sem síðan er sagt að skuli þjónusta alla. Þessu þarf m.a. að breyta.

Tillaga Flokks fólksins um að víkka út Jafningafræðsluna og jafningjafræðslu almennt séð

Tillaga Flokks fólksins um að fjölga stöðugildum Jafningjafræðara um tvö stöðugildi, að fræðslan nái til fleiri sviða og skoðað verði hvort betur henti að ráða yngri þjálfara sem hefðu það hlutverk að miðla/þjálfa tómstundum/leikjum og list.  Fræðarar eru nú 11 og fræða ungmenni um það sem endurspeglar unglinga- og ungmennamenningu hvers tíma. Nú anna fræðarar ekki eftirspurn og skortur er á fræðurum yfir vetrartímann. Markmiðið með fjölgun er að  Jafningjafræðslan geti unnið meira í samræmi við reglur um Jafningjafræðslu sem er „að starfa allt árið um kring og heimsækja félagsmiðstöðvar, grunn-, framhalds- og vinnuskóla og fræðslan snúi að margvíslegum málefnum og hópeflisleikjum“

Flokkur fólksins leggur jafnframt til að  aldursbil „fræðara“ færist neðar og kallist þeir þá jafningjaþjálfarar. Þjálfun yngri jafningjaþjálfara er annars eðlis en fræðara Jafningjafræðslunnar enda um að ræða önnur svið. Þeirra hlutverk væri aðeins að þjálfa/miðla svo sem tómstundum, leikjum, (spila á spil, hljóðfæri, syngja), leiklist, hönnun, saumi , teikun, málun, leirun, dansi (Street dans, Fortnite, Zumba, Hiphop), jóga, skapandi hreyfingu eða annað sem barn telur sig hafa færni í og langar til að miðla.
Þjálfun gæti t.d. átt heima í félagsmiðstöðvum og SFS/tómstundastarfi grunnskólanna. Ávallt skal þess þó gætt að því að ungmenni verði aldrei sett í  aðstæður sem þau ráða ekki við.

Greinargerð

Markmið Jafningjafræðslunnar er metnaðarfullt og nær yfir mörg svið m.a  að skemmta sér saman og byggja upp vináttutengsl. Fræðslan einskorðast núna að mestu við að fræðslu sem miðar að því að styrkja sjálfsmynd og byggja upp sjálfstraust og öryggi. Sá þáttur getur aðeins verið í höndum eldri fræðara sem hafa gengið í gegnum strangt ráðningarferli og þriggja vikna undirbúningsnámskeið.

Meðal grunnskólanema býr mikil færni á ýmsum sviðum og finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins það eftirsóknavert að skoða hvort þau hafi áhuga á að miðla til annarra barna sem vilja meðtaka og læra. Þjálfun yngri þjálfara gæti tengst sérstökum tómstundadögum í skólum/félagsmiðstöðvum eða á þemadögum, sem dæmi um nálgun. Slíkir dagar krefjast skipulagningar og samvinnu þeirra sem að koma (nemendur, kennarar, starfsmenn félagsmiðstöðva). Á slíkum dögum þyrftu allir að fá tækifæri.
Flokkur fólksins leggur til að fulltrúar Hins Hússins hitti fulltrúa SFS og félagsmiðstöðva til að fara yfir hvaða möguleikar eru í stöðunni.

Jafningjafræðarar fræða ungmenni í Vinnuskólanum á sumrin. Flestir fræðarar Jafningjafræðslunnar eru í námi á vetrum.  Á veturna þegar þau eru byrjuð í skólanum hafa þau þurft að fá frí úr tímum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að fræðslan geti verið jafnari allt árið og þannig í meira samræmi við reglur Jafningjafræðslunnar. Eftirspurn eftir fræðurum er mikil. Starfsemin eins og hún er í dag er langt því frá fullnýtt ef tekið er mið af reglum um Jafningjafræðsluna.

Flokkur fólksins leggur til að reyna að semja um að fræðarar Jafningjafræðslunnar fái einingar/punkta sem hluta af áföngum t.d. í íþróttum og/eða félagsfræði. Mælst er til að ÍTR eigi frumkvæði að slíku samtali við framhaldsskólana/menntayfirvöld.

Fleiri stöðugildi gætu auðveldað Jafningjafræðslunni að sinna þessu mikilvæga hlutverki sínu því þá myndi fræðslan dreifast á fleiri fræðara. Í þessu samhengi má geta þess að vetrarfræðslan er fjármögnuð með styrk frá Lýðheilsusjóði þar sem fræðararnir fá greitt fyrir hverja fræðslu.

Hugmyndafræði Jafningjafræðslunnar er gulls ígildi. Það er löngum þekkt að börn og unglingar meðtaka oft betur og skýrar fræðslu, kennslu og leiðbeiningar frá jafningjum sínum frekar en fullorðnum. Fræðsla Jafningjafræðslunnar er gagnvirk og unnin á jafnréttisgrundvelli. Grundvöllur jafningjafræðslu er að sá sem kennir og sá sem meðtekur  hafi svipaðan reynsluheim. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur mikinn áhuga á að fleiri geti notað góðs af, bæði sem miðlarar og einnig sem meðtakendur.

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

Það er vissulega alltaf tregafullt þegar góðri tillögu sem hefur verið vandleg undirbúin er kastað á glæ. Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst þessi afgreiðsla meirihlutans bera vott um þröngsýni og ótta að færa út kvíar í þessum málaflokki. Ein ástæðan fyrir tillögunni er að Jafningjafræðslan getur ekki sinnt sínu hlutverki samkvæmt reglum um Jafningjafræðslu. Fræðarar eru nú 11 og fræða ungmenni um það sem endurspeglar unglinga- og ungmennamenningu hvers tíma. Nú anna fræðarar ekki eftirspurn og skortur er á fræðurum yfir vetrartímann. Markmiðið með fjölgun er að Jafningjafræðslan geti unnið meira í samræmi við reglur um Jafningjafræðslu sem er „að starfa allt árið um kring og heimsækja félagsmiðstöðvar, grunn-, framhalds- og vinnuskóla og fræðslan snúi að margvíslegum málefnum og hópeflisleikjum“ Samkvæmt upplýsingum frá fjármálastjóra eru laun og launakostnaður vegna 1 stöðugildis 375 þúsund krónur á mánuði. Þennan kostnað mætti taka af liðnum ófyrirséðu. Hér væri hægt um vik, alla vega hefði verið alveg óhætt að vísa tillögunni til íþrótta- og tómstundasviðs til að moða úr. Tillagan gekk einnig út á að skoða hvort hægt er að virkja eldri grunnskólanema til að miðla tómstundum/leikjum, listum og verklegum greinum. Það er ekkert nýtt að ungt fólk er móttækilegt fyrir boðskap frá þeim sem eru á svipuðu aldursbili og það sjálft.