Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir (Flf):
Virðulegi forseti. Lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda voru samþykkt síðasta sumar. Í 1. gr. laganna segir að markmið þeirra sé að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi við meðferð mála og hagkvæmni og öryggi. Jafnframt er það markmið laganna að meginboðleið stjórnvalda verði stafræn. Þetta er allt vel enda stafrænar lausnir framtíðin. En á hinum stafræna veruleika er önnur hlið. Með þessum lögum er nefnilega einnig verið að kasta fyrir borð meginreglum stjórnsýslulaga þar sem algjörlega er undir hælinn lagt að landsmenn sjái mikilvæg skjöl er varða hagsmuni þeirra svo þeir geti brugðist við þeim og nýtt sér andmælarétt sinn og gætt hagsmuna sinna í hvívetna. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að samkvæmt 7. gr. getur birting skjals í rafrænu pósthólfi haft sömu réttaráhrif og stefnubirting í raunheimum. Lítið fór fyrir varúðarorðum um málið enda drukknaði það í Covid-fréttum. Rafræn áhersla er orðin svo rík í vitund margra að hætta er á að gleyma þeim sem eru jafnvel einungis með heimasíma og póstkassa. Í samfélaginu verður að ríkja sveigjanleiki. Hið opinbera verður að bjóða upp á að miðla gögnum rafrænt og í raunheimum. Það eru ekki allir í aðstöðu til að nota rafræna ferla og hafa þarf það í huga, t.d. eru ekki allir með tölvu eða hafa aðgang að tölvu eða treysta sér til að nota tölvu ef því er að skipta. Við verðum að taka tillit til þarfa fólks af erlendum uppruna, eldra fólks, fatlaðs fólks og allra sem af einhverjum ástæðum geta ekki nýtt sér stafræna upplýsingagátt. Fyrir marga er best að fá að mæta á staðinn og ræða við starfsmann í eigin persónu. Undanfarið hef ég heyrt fjölmargar reynslusögur um þessi mál. Á Alþingi má sú hugsun aldrei ríkja og ráða að eitthvað eitt passi fyrir alla.