Aðgerðir til að auka sveigjanleika starfsfólks Reykjavíkurborgar við starfslok vegna aldurs ganga of skammt að mati Flokks fólksins. Nýlega samþykkti borgarráð tillögur starfshóps um sveigjanleg starfslok sem settur var á laggirnar í september á síðasta ári. Hópurinn var skipaður fulltrúum Reykjavíkurborgar og viðsemjenda borgarinnar auk þess sem hann hafði samráð við hagaðila, m.a. öldungaráð borgarinnar eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Hins vegar var ekki haft samráð við Félag eldri borgara samkvæmt þeim upplýsingum sem Flokkur fólksins hefur aflað sér.
Meðal niðurstaðna starfshópsins voru tillögur um að skoða hvort megi koma til móts við kröfur um aukinn sveigjanleika við starfslok við undirbúning komandi kjarasamningsviðræðna. Einnig að setja á laggirnar þróunarverkefni til tveggja ára sem mun þó aðeins taka til afmarkaðra hópa starfsmanna. Flokkur fólksins telur að þetta séu tímafrekar tillögur og mun því lítið gerast í þessum málum næstu misserin.
Tíminn er dýrmætur, spýta þarf í lófana
Reykjavíkurborg segist vilja vera leiðandi í þessu máli en í raun hefur ekki mikið gerst frá 2018. Þá lofaði borgarstjóri að unnið verði í að auka sveigjanleika starfsfólks við starfslok á kjörtímabilinu sem þá fór í hönd. Flokkur fólksins vill að gengið sé röskar til verks í þessu máli. Vissulega má fagna hverju skrefi sem tekið er í átt að sveigjanlegri starfslokum. Mannekla í ákveðnum störfum á þó ekki að stýra því hvort fólki sé leyft að vinna eins lengi og það langar og getur. Missir er fyrir samfélagið að sjá á eftir fólki af vinnumarkaði fyrir þær einar sakir að ná sjötugsaldri. Um er að ræða dýrmætan mannauð. Það eru mannréttindi að geta tekið ákvarðanir um sín atvinnumál eins og annað í lífinu.
Sveigjanleg starfslok er pólitísk ákvörðun. Fella þarf brott þakið í þessum efnum enda er það einstaklingsbundið. Aukinn sveigjanleiki varðandi það hvenær og hvernig fólk lýkur atvinnuþátttöku getur leitt til bæði efnahagslegs og heilsufarslegs ábata fyrir samfélagið. Flokkur fólksins segir burt með girðingar og hindranir þegar kemur að aldri og atvinnumálum.
Birt í Morgunblaðinu 27. ágúst 2022