Svör til Samtaka 78 frá Flokki fólksins í tilefni Alþingiskosninga 2021

1.      Hefur framboðið sett sér stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum?

Nei framboðið hefur ekki sett sér tiltekna stefnu þegar kemur að því að efla hinsegin fólk í stjórnmálum. Framboðið leggur engu að síður áherslu á að fólk í stjórnmálum endurspegli  fjölbreytni og fjölmenningu á þeim vettvangi sem og öðrum. Flokkur fólksins styður að hinsegin fólk hafi nákvæmlega sömu réttindi og annað fólk enda stríðir það gegn réttlæti og lýðræði að fara í manngreinarálit varðandi almenn mannréttindi. Flokkur fólksins fordæmir allan hatursáróður og hatursglæpi og vill bæta lög sem snerta hatursglæpi.

 

2.      Er hinsegin fólk sýnilegt á listum framboðsins?

Nei en Flokkur fólksins hefur lagt áherslu á að það sé með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu og einnig að frambjóðendur spanni sem breiðast aldursbil.

 

3.      Hvað hefur framboðið gert í réttindabaráttu hinsegin fólks áður? (ATH. þau sem hafa áður verið með manneskju á þingi svara hér)

Flokkur fólksins hefur lagt áherslu á mannréttindi fyrir alla og fagnar hverju skrefi sem tekið er á Alþingi í átt að auknum réttindum, mannréttindum, lýðræði og samkennd. Flokkur fólksins fagnar þeim áföngum sem náðst hafa og þakkar það ötulli baráttu hinsegin fólks og samtaka þeim tengdum. En betur má ef duga skal.

4.      Er framboðið tilbúið til að taka undir markmið Samtakanna ’78 að koma Íslandi í fyrsta sæti Regnbogakorts ILGA-Europe?

Flokkur fólksins á Alþingi styður það og allt sem hjálpar samtökum minnihlutahópa til að komast á þann stað þar sem þau geta haft áhrif til góðs.

 

5.      Er framboðið tilbúið til að efla hagsmunasamtök hinsegin fólks og fullfjármagna þau?

Já. Flokkur fólksins hefur skýra framtíðarsýn í baráttumálum hinsegin fólks. Flokkurinn var stofnaður í kringum minnihlutahópa s.s. eldri borgara og öryrkja og til að stuðla að réttlátari tilveru fátækra. Hinsegin fólk er minnihlutahópur sem standa þarf vörð um svo fengin réttindi tapist ekki. Komist Flokkur fólksins til áhrifa á þingi mun hann huga að hagsmunum hinsegin fólks eins og annarra minnihlutahópa í samfélaginu. Kjörorð Flokks fólksins er Fólkið fyrst, og svo allt hitt, og undir þeim hatti er allt fólk.