Umhverfis- og skipulagsráð 10. maí 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Kynning á tímabundinni göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut við Vogabyggð.

Flokkur fólksins fagnar því að byggja eigi tímabundna göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í júní 2022 um að strax yrði hafist handa við að byggja bráðabirgða göngubrú yfir Sæbraut við gatnamót við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg. Þarna eru sennilega ein hættulegustu gatnamót Reykjavíkur. Vogabyggð er orðin fjölmenn byggð, en þannig er málum háttað að börnin í hverfinu þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla, frístundir og fleira. Íbúar Vogabyggðar hafa ítrekað gert kröfu um að borgaryfirvöld standi við áform og gefin loforð um göngubrú. Samkvæmt þinglýstu samkomulagi við lóðarhafa frá 2016-17 mátti gera ráð fyrir göngubrú árið 2019. Flokkur fólksins hefur einnig ítrekað farið fram á að hlustað verði á kröfur íbúa Vogabyggðar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga að uppfærðum leiðbeiningum um hvílustæði, dags. 4. maí 2023. Breyting frá fyrri útgáfu fellst í að ábyrgð á upplýsingagjöf til íbúa og rekstraraðila er færð til borgarinnar.

Leiðbeiningum er fagnað og sjálfsagt að uppfæra. Eins og Flokkur fólksins bókaði um síðast þá er kannski óþarft að það þurfi að vera fimm metrar frá hvílustæði að gangbraut. Er ekki einmitt gott að tengja hvílustæði gangbrautum og tengja þau þar með gangandi umferð en síður eða ekki bílastæðum? Svo er það hin hliðin og hún er sú að sums staðar kann að vera að þetta passi illa í aðstæður eða hvort það sé sniðugt að taka bílastæði í hvílustæði. Það er skoðun fjölmargra að sífellt sé verið að ganga á bílastæði í borginni. Ákveðinn hópur fólks er hættur að koma í miðbæinn á bíl sínum og enn eru þeir fjölmargir sem treysta sér ekki í bílastæðahúsin. Með þessu hvílustæði eru þeir sjálfsagt ánægðastir sem búa á svæðinu og túristar. Hvílustæði eru einnig án efa vinsæl þegar sólin skín. Það er líka sjónarmið að það sé fráleitt að taka bílastæði undir hvílustæði allt árið um kring á stöðum þar sem fyrir er skortur á bílastæðum. Í mörgum tilfellum er þetta sniðugt til tímabundinnar notkunar yfir sumarmánuðina ef það skapar ekki hættu og torveldar aðgengi slökkvi og björgunarliðs.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Að lokinni auglýsingu er lagður fram að nýju skipulagsuppdráttur og leiðbeiningar frá JVST og Teiknistofunni Tröð, dags. 9. desember 2022, síðast br. 8. maí 2023 fyrir svæði 3 í Vogabyggð sem afmarkast af Dugguvogi til vestur, Tranavogi til norðurs, Súðarvogi og strandsvæði Elliðaárvogs frá austurs til suðurs.

Flestar athugasemdir lúta að bílastæðum sem verður nánast útrýmt. Kvartað er yfir samráðsleysi, að ekki sé hlustað og kynningar séu ófullnægjandi. Í einni athugasemdir er því mótmælt að verið sé að fjarlægja bílastæði sem tilheyra lóðarhöfum. Ýmist verið að banna stæði eða fækka þeim verulega. Einnig er verið að breikka stétt svo bílar komast ekki með aðföng að húsum. Þetta mun takmarka alla starfsemi. Þetta er jú atvinnusvæði hverfisins eins og segir í gögnum skv. deiliskipulags hugmyndunum. Fulltrúi Flokks fólksins telur þetta ekki ganga, svona er ekki hægt að valta yfir fólk. Hér er um að ræða hverfi sem gæti hafa orðið skemmtilegt með blöndu af íbúðabyggð og atvinnustarfsemi ef ekki hefði verið þétt svona mikið. Öfgar í þéttingu byggðar og bann við bílum er með öllu óraunhæft. Viðskiptavinir munu ekki sækja þjónustu á svæðið ef þeim er meinaður aðgangur á bíl sínum. Þetta er galli að mati Flokks fólksins og munu margir þeir sem glíma við einhverja hreyfiskerðingar ekki geta búið þarna. Hvernig á fólk að komast frá stæði og að útidyrum sínum? Mörg þessara nýju hverfa eru aðeins fyrir ákveðna hópa samfélagsins, þ.e. þá sem geta lifað bíllausum lífsstíl.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Kynntar tillögur að því að breyta grassvæðum í náttúruleg svæði:

Flokki fólksins líst vel á þessa hugmynd um að minnka sláttur á grassvæðum og breyta þeim í náttúruleg svæði með fjölbreyttum gróðri. Flokkur fólksins lagði einmitt fram tillögu síðastliðið vor um að hætt verði að slá gras á mönum og umferðareyjum. Gott að það eigi að gera þetta á fleiri svæðum til að auka líffræðilegan fjölbreytileika. Vonandi verður þetta verkefni kynnt vel fyrir borgarbúum svo það skapist skilningur fyrir verkefninu

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram fundargerð SORPU nr. 479, dags. 10. apríl 2023 liður 6:

Starfshópur skipaður af Sorpu með fulltrúum Sorpu að mestu komst að þeirri niðurstöðu að ákjósanlegasta staðsetningin fyrir nýja endurvinnslustöð sé við Arnarnesveg. En er það hlutverk Sorpu að skipuleggja umhverfið? Er það ekki skipulagsyfirvalda? Þetta ætti ekki að vera eitthvað sem Sorpa stjórnar því skipulagsmál eru ekki verkefni Sorpu. Hér eiga kjörnir fulltrúar að koma að borðinu. Og nú þarf sem fyrr að forðast ráðgjafarfyrirtæki en reynsla af þeim er misjöfn. Svona skipulagsmál þarf að ræða pólitískt og taka ákvörðun af yfirvegun og þekkingu

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um AldinBioDome í Elliðarárdalnum, sbr. 21. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023. Einnig er lagt fram svar skrifstofu skipulagsfulltrúa, dags. 24. apríl 2023. USK23030294

Árið 2019 var þessi gróðurhvelfing mikið í umræðunni og sannarlega umdeild. Borgarráð samþykkti að veita félaginu Spor í sandinn vilyrði fyrir lóð í Stekkjarbakka í Breiðholti til að byggja þar gróðurhvelfingu fyrir Aldin BioDome. Borgin ætlaði að taka á sig 80% skuldbindinga og fyrirtækið 20%. Þetta var umdeilt enda stórt og mikið mannvirki í miðri náttúrunni. Það eru t.d. áhyggjur af ljósmengun af mannvirkinu. Fulltrúi Flokks fólksins hugsaði á þessum tíma að aðalatriðið væri þó að eiga samtal við fólkið og jafnvel yrði íbúakosning. Ekkert hefur heyrst minnst á Aldin BioDome í mörg ár. Samt var búið að auglýsa og samþykkja þessar framkvæmdir áður en búið var að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar sem hafði efasemdir einmitt vegna ljósmengunar. Þá mælti Skipulagsstofnun með að leitað verði afstöðu Heilbrigðiseftirlits um viðmiðunarmörk vegna umferðarhávaða fyrir þjónustuíbúðir, fyrirkomulag á fráveitulögnum og önnur atriði. Svo margt annað var óljóst í þessu stóra verkefni. Hverjar eru fyrirætlanir með hana er ekki vitað enn sbr. svar skipulagsfulltrúa. Engar upplýsingar eru um hvort rekstraraðili Aldin BioDome hafi hætt við áformin. Lóðaúthlutun og samningagerð er á verksviði Skrifstofu borgarstjóra. Þetta mál er allt stórskrýtið að mati Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um niðurrif á Íslandsbankahúsinu, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 12. apríl 2023. Einnig er lögð fram umsögn byggingarfulltrúa, dags. 5 maí 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsingar um hvenær hefja á niðurrif á Íslandsbankahúsinu við Kirkjusand? Íbúar er þreyttir á þessu ófremdarástandi en eigendur segja niðurrif handan við hornið. Fengin var umsögn byggingarfulltrúa sem hefur í raun engin svör nema bara að tafir séu á ferlinu, ekki hafi verið gefin heimild í deiliskipulagi fyrir niðurrif. Vandinn er sífellt sá sami, það skortir alla skilvirkni. Hlutir ganga á hraða snigilsins. Vissulega er það skiljanlegt að ekki sé ráðist í lagfæringar á húsi sem á að rífa. Það er ekki hægt að kenna eigandanum um þetta því deiliskipulags vinnunni er ekki lokið og hún er á ábyrgð skipulagsyfirvalda. Þegar sú vinna er frá er komið að eigandanum að senda inn umsókn. Það er því ekki við eigandann að sakast nú. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandssjóðum, sem eiga húsið, eru öll leyfi fyrir niðurrifi komin og gögnin komin á borð Skipulagsstofnunar. Ekkert virðist því vera að vanbúnaði um að hefjast handa.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ákvörðun um útboð á sorpi til brennslu, tímalengd ferlisins og urðun í Álfsnesi, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 19. apríl 2023.

Vísað til umsagnar Sorpu bs. USK23040147

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ráðstafanir til að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra samhliða innleiðingu flokkunarkerfis sorpu, sbr. 13. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. apríl 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23040215

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um söfnun matarleifa við heimili á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. apríl 2023.

Vísað til umsagnar Sorpu bs. USK23040217

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að snjallvæða gönguljós á Miklubraut, móts við Kjarvalstaði:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gönguljósið á Miklubraut á móts við Klambratún/Kjarvalsstaði verði stillt betur. Þarna myndast gríðarlegar umferðarteppur vegna þess að gönguljósið logar allt of lengi. Vegfarendur er fyrir löngu búnir að þvera Miklubrautina og komnir úr sjónlínu þegar enn logar rautt. Þetta teppir umferðina allt upp í Stigahlíð á móts við gamla Tónabæ og lengra austur. Sami vandi er á móts við HÍ. Þarna vantar snjallljós, flæðiljós til þess að bílar geti ekið af stað þegar vegfarendur eru komnir yfir í stað þess að enn logi rautt á bílaumferð og engin að fara yfir götuna. Þetta er ólíðandi aðstæður fyrir alla svo ekki sé minnst á mengun meðan bílar bíða. Umferðaröngþveiti er djúpstæður vandi í Reykjavík sem er heimagerður vandi. Hægt er að taka af mestu agnúana ef vilji er fyrir hendi.