Umhverfis- og skipulagsráð 14. desember 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 18. nóvember 2022 þar sem óskað er eftir ábendingum frá fagnefndum sveitarfélaga við tillögu að loftlagsstefnu höfuðborgarsvæðisins:

Eftir lestur loftslagsstefnunnar vill Flokkur fólksins minna á tillögu flokksins um skógrækt til kolefnisjöfnunar frá Rauðavatni og langleiðina að Hengli. Þar eru mörg svæði sem henta til skógræktar. Tillagan var ekki aðeins felld heldur kaus meirihlutinn að misskilja hana illilega. Sektir bíða til Evrópu ef ekki er staðið við lofaða losun. Skógrækt reiknast sem kolefnisbinding svo og endurheimt votlendis. Á öllum Reykjanesskaga er skógrækt nærtækur kostur. Leggja þarf áherslu á að minnka sóun. Endurnýting kolefnis þarf að vera virk. Þannig á t.d. að nýta allt metan sem myndast á svæðinu sem orkugjafa. Sömuleiðis á að nýta allan glatvarma og sóun frá matvælageiranum, hefja söfnun á endurnýjanlegum úrgangi svo sem fitu sem brenna mætti í stað olíu. Landbúnaður eins og hann er stundaður hér veldur verulegri losun en kemur Reykjavík lítið við. Framleiðsla á lífeldsneyti er mjög orkukrefjandi þar sem orkunýting er aðeins um 20 % og er ofmetinn kostur. Mikið er talað um orkuskipti en minna gert eða vitað um þau. Miklu betra er að nota rafmagnið beint og t.d. reyna að vera með beintengda strætisvagna við rafmagns loftlínu. Samgöngur eru lítill hluti orkunotkunar, en ástæða er til að breyta vali á samgöngumátum með tilliti til losunar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 1. desember 2022 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna umferðaröryggisbætandi aðgerða í tengslum við tímabundið skólahúsnæði við Ármúla:

Það er mikilvægt að bæta umferðaröryggi í kringum þá staði þar sem börn koma saman og gildir einu hvort um sé að ræða til náms eða leikja. Tillaga meirihlutans gerir ráð fyrir að setja tvær malbikaðar öldur í götuna og gera miðeyju. Hugsanlega væri nægjanlegt að hafa þessa hefðbundnu kodda. Hér er um að ræða umfangsmiklar breytingar og spurning hvort þær séu gerðar á réttum forsendum. Ármúli telst ekki til íbúagötu. Hefur verið haft samráð við atvinnurekendur í þessari götu um þessar fyrirhuguðu breytingar? Hraðabreytingar þurfa alltaf að hafa augljósan tilgang og ákvarðanir um slíkt þurfa að vera teknar í samráði við íbúa. Hvort sem þarf að auka eða minnka hraða þá þarf samráð. Margt annað í aðstæðum þarf að taka inn í myndina. Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana þá togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma. Annars vegar því minni hraði því færri óhöpp. Hins vegar því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins, meiri umferðartafir og svifryksmengun. Umferðaröryggi þar sem börn fara um er þó ávallt forgangsatriði hvernig sem á það er litið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga að sérákvæði fyrir  Hafnarstræti, milli Kolasunds og Tryggvagötu verð i göngugata með undantekningu fyrir vörulosun kl. 07-11 á virkum dögum en kl. 08-11 á laugardögum og sunnudögum:

Fyrir liggur tillaga skipulagsyfirvalda um göngugötu í Hafnarstræti, milli Kolasunds og Tryggvagötu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur alltaf sagt að hann er ekki á móti göngugötum. Vandinn er bara alltaf sá sami og það er aðkoman að göngugötum fyrir þá sem koma akandi og þá sem eiga erfitt með gang. Nýleg könnun Maskínu sýnir vandann svart á hvítu. Eftir því sem fólk er eldra þeim mun neikvæðara er það gagnvart göngugötum. Þeir sem búa fjær miðbænum eru neikvæðari gagnvart göngugötum en þeir sem búa nálægt. Þessar niðurstöður koma ekki á óvart. Flokkur fólksins lítur á þetta með þeim hætti að þeir sem búa lengst frá miðbænum eiga í basli með að komast í bæinn til að njóta göngugatna. Almenningsvagnar virka ekki vel fyrir alla hópa og þeir sem vilja koma á bílum sínum óttast að fá ekki bílastæði. Ákveðinn hópur treystir sér ekki í bílastæðahúsin og má þar nefna einna helst eldra fólk og öryrkja. Miðbærinn með sínum ágætu göngugötum sem nú á að fjölga þjóna einna helst íbúum miðbæjarins og ferðamönnum. Verslun, almenn og fjölbreytt verslun eins og hún var er ekki lengur í miðbænum sem skartar einna helst veitingastöðum, krám, börum og verslunum fyrir ferðamenn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 6. desember 2022 um sérákvæði fyrir umferð í hverfum:

Það eru götur í borginni þar sem það er lífsspursmál að hraði verði lækkaður og það kyrfilega merkt hver hámarkshraðinn er. Í þessu sambandi má nefna Laugarásveginn sem er sérstök gata fyrir þær sakir að hún er löng, breið og tengir saman hverfi. Sú gata er einstaklega hættuleg. Það er mikil mildi að ekki hafi orðið alvarlegt slys þar. Það verður að lækka hraða í íbúðagötum, götum sem liggja að skólum og þar sem börn eru á ferð. Þær götur sem engir skólar eða íbúðahús standa beint við er hins vegar engin nauðsyn að lækka hraðann niður í 30 eða 40 km/klst. Hraðabreytingar þurfa alltaf að hafa augljósan tilgang og ákvarðanir um slíkt þarf að taka í samráði við íbúa, hvort sem eigi að auka eða minnka hraða. Margt annað í aðstæðum hverju sinni þarf að taka inn í myndina. Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana þá togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma. Annars vegar því minni hraði því færri óhöpp. Hins vegar því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins, meiri umferðartafir og svifryksmengun. Umferðaröryggi þar sem börn fara um er þó ávallt forgangsatriði hvernig sem á það er litið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lagður er fram skipulagsuppdráttur og leiðbeiningar frá JVST og Teiknistofunni Tröð, dags. 9. desember 2022, fyrir svæði 3 í Vogabyggð:

Bílastæði eru ekki heimil innan lóða íbúðabygginga. Heimilt er að vera með bílakjallara frá götuhæð. Þetta er galli að mati Flokks fólksins og munu margir þeir sem eru háðir bílum til að komast leiðar sinnar ekki geta búið þarna. Bílastæði fyrir fólk með hreyfihömlun eru staðsett við Kænuvog og Súðavog. Hvernig á fólk að komast frá stæði og að útidyrum sínum? Mörg þessara nýju hverfa eru aðeins fyrir ákveðna hópa samfélagsins þ.e. þá sem geta lifað bíllausum lífsstíl. Hér er verið að mismuna fólki að. Fordómar í garð fólks sem þarf eða vill nota bíl hafa aukist á vakt síðasta og þessa meirihluta.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Árshlutauppgjör umhverfis- og skipulagssviðs fyrir janúar til september 2022 ásamt bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins fært úr trúnaðarbók umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 30. nóvember 2022, þar sem árshlutauppgjörið hefur verið lagt fram á fundi borgarráðs:

Nettó útgjöld sviðsins voru 10.327 m.kr. eða 511 m.kr. umfram fjárheimildir eða um 5,2%. Það sem er síst ásættanlegt er ef stjórnsýslan er að fara mikið umfram fjárheimildir því það gefur til kynna að að árangursríkari fjármálastjórnun er ábótavant. Hér er verið að vísa í alls kyns kostnað í tengslum skrifstofu. Sameina þarf skrifstofur og verkefni, einfalda ferla og þjónustuleiðir. Hugsa þarf hvert skref út frá “kúnnanum”, hvernig er hægt aðkoma betur á móts við þarfir borgarbúa? Sviðið á að veita framúrskarandi þjónustu, svara öllum skeytum og erindum og um fram allt að geta sett sig í spor þeirra sem nota þjónustu umhverfis- og skipulagssviðs. Sorphirðan (þ.m.t.viðhaldskostnaður) fer umfram fjárheimildir. Flokkur fólksins hefur lagt til að bjóða út eitt póstnúmer í sorphirðu til að kanna hvort það sé hagkvæmara en það fyrirkomulag sem nú ríkir. Reykjavík er eitt sveitarfélaga sem ekki bjóða útþennan rekstur. Flokkur fólksins hefur ákveðinn skilning á að vetrarþjónustan fór fram úr heimildum. Veturinn í fyrra var óvenju snjóþungur eins og allir vita.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um flugelda, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu þjónustu og samskipta, dags. 7. desember 2022:

Flokkur fólksins lagði til að umhverfis- og skipulagsráð hvetji borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda. Hér er aðeins talað um hvatningu með það að markmiði að draga úr flugeldum í desember og janúar. Svifryk frá flugeldum er talið varasamt og heilsuspillandi vegna efna sem eru í því. Bent hefur verið á af ýmsum sérfræðingum að loftmengun af völdum flugelda hefur neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa. Í umsögn er ljóst að ekki á að gera neitt við þessa tillögu heldur talað um að halda á áfram að vara fólk við hættunni og segja því að gæta sín og dýra sinna. Umsögnin tekur í raun ekki á tillögunni sem var skýr og skorinorð. Í umsögninni er talað um hreinsun og förgun flugelda sem kemur þessari tillögu ekkert við. Málið er að það þarf að finna leiðir til að fá fólk til að draga úr kaupum á flugeldum á sama tíma og tryggt sé að slysavarnafélögin fái fjármagn til að halda úti sínu góða starfi. Ef um væri að ræða eitt kvöld væri málið ekki eins alvarlegt. Skotið er upp flugeldum fyrir áramót og ekki hætt fyrr en mörgum vikum eftir áramót.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Fossvogsbrú, sbr. 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. október 2022:

Fossvogsbrú hefur tafist von úr viti m.a. vegna útboðsmistaka og þurfti Reykjavíkurborg að greiða skaðabætur ásamt Kópavogi. Það er mat Flokks fólksins að skoða eigi þann möguleika hvort ekki mætti aka almennum bifreiðum yfir brúna. Þar sem það er ákveðin hætta á umferðarvanda verði nýi Skerjafjörður einhvern tímann að veruleika. Umferð um Hringbraut er löngu sprungin. Fram kemur í svari að framkvæmdir við Fossvogsbrú hefjist í lok árs 2022 með gerð fyllinga. Flokkur fólksins mótmælir að eyðileggja eigi fjörur sem eru orðnar fágætar í borgarlandinu. Svo er alveg óvíst hvort nýr Skerjafjörður verði yfir höfuð að veruleika í ljósi þess að flugvöllurinn er ekki á förum þar sem ekki hefur fundist ný staðsetning fyrir hann.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna byggingar Gaju, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022. Einnig er lagt fram svar SORPU bs., dags. 2. desember 2022:

Framkvæmdir vegna GAJU hafa frá upphafi kostað 5.406 mkr. Kostnaður vegna ráðgjafar er hingað til um 15,1 milljónir króna og kostnaður vegna úrbóta um 8,4 milljónir króna, samtals um 23,5 milljónir króna. Viðgerðum á GAJU er ekki lokið og er áætlaðar kostnaður vegna úrbóta 60 milljónir króna. GAJA, gas- og jarðgerðarstöð hlýtur að vera framkvæmd sem flokkast sem hrakfallasaga. Hún hefur kostað um 4,5 milljarða en hefur verið ónothæf. Nú eru dýrar endurbætur í gangi. SORPA hefur tapað málaferlum við byggingarverktaka upp á 90 milljónir, hækkað gjaldskránna úr öllu hófi og þurft að greiða fyrrum framkvæmdastjóra háar skaðabætur. Stjórnun hefur ekki verið í lagi sem erfitt er að bæta úr sem er hætta þegar um byggðasamlag er að ræða. Vert er að skoða að Reykjavíkurborg stígi út úr samkeppnisrekstri sem þessum. Ekki er að sjá að þessi rekstur gangi vel né sé íbúum Reykjavíkur hagkvæmur, undir stjórn b.s. Kerfisins sem er meingallað fyrirkomulag sérstaklega þegar eigendur eru misstórir eins og raun ber vitni þegar horft er til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um heildarfjölda íbúða, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 30. nóvember 2022:

Sú fyrirspurn sem hér er lögð fram er eðlileg og við henni er nauðsynlegt að fá gott svar. Spurt er um hvernig íbúðirnar sem eru tæpar 60 þúsund skiptast í eignaríbúðir annars vegar og leiguíbúðir hins vegar. Einnig er óskað eftir fjölda ósamþykktra íbúða sem vitað er að búið er í eða grunur leikur á að sé búið í. Segir í svari að þessar upplýsingar séu ekki til. Það er afleitt að borgin hafi ekki upplýsingar um hve mikill fjöldi íbúða er ósamþykktur. Skemmst er að minnast hins hræðilega bruna á Bræðraborgarstíg. Taldi Flokkur fólksins þá víst að Reykjavíkurborg ásamt Slökkviliðinu og HMS færu í að gera úttekt á ósamþykktum íverustöðum í borginni. Var þetta allt kannski misskilningur? Vitað er að ákveðinn hópur býr í ótryggu húsnæði þegar kemur að brunavörnum og í sumum tilfellum ósamþykktu húsnæði. Í þeirri erfiðu tíð sem ríkir á húsnæðismarkaði eru fátækir og efnaminna fólk nauðbeygt til að leita sér skjóls í húsnæði sem jafnvel telst ekki vera mannabústaðir. Því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er þá aukast líkur á því að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði þar sem brunavörnum er ábótavant. Þetta er mikið áhyggjuefni í ljósi vaxandi fátæktar í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um talningar á nagladekkjum, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022.:

Svarið er án nokkurs rökstuðnings. Efla á að sjá um talningar og ræður til þess háskólanema. Kostnaður er trúnaðarmál. Háskólanemendum virðist vera stýrt með símtölum sem kosta 7-8 þúsund krónur hvert. Er hér verið að spara fyrir borgina? En fyrirspurnin beindist að því hvort þetta vinnulag væri hagkvæmt. Enn er óskað eftir svari við því. Það vakti undrun Flokks fólksins þegar í ljós kom að verkfræðistofa var fengin til að sjá um talningar á nagladekkjum með tilheyrandi umsjónarkostnaði. Nú þegar fjárhagur borgarinnar er á heljarþröm kemur í ljós að áfram á að greiða verkfræðistofunni háa upphæð fyrir það eitt að telja nagladekk. Flokkur fólksins telur að starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs geti annast verkefni af þessu tagi. Fjárhæðin sem EFLA fær fyrir talningarvinnuna er trúnaðarmál sem þýðir væntanlega að Sviðið óttast að upplýsa um upphæðina af því hún er há. Hvað er að frétta af gagnsæinu sem meirihlutinn boðar?. Það er ekki boðlegt að upplýsingum sé haldið leyndum fyrir borgarbúum.Það þarf ekki að ráða sérfræðinga á háum töxtum til að „telja“. Bent er á að einingarverð verkfræðistofunnar er tæpar 15 þúsund/klst. Hver hálftími sem er skráður á samskipti- sennilega eitt símtal, kostar sitt, eða rúmar sjö þúsund krónur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að íbúðir standi ekki auðar, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 30. nóvember 2022:

Tillagan gengur út á að móta reglur sem komi í veg fyrir að íbúðarhúsnæði standi autt til lengri tíma og gildir þá einu hvort íbúðin er eignaríbúð, leiguíbúð eða félagslegt leiguhúsnæði á vegum borgarinnar. Standi húsnæði autt í meira en 6 mánuði leggur Sósíalistaflokkurinn til að beita skuli sektum. Flokkur fólksins telur að gera þurfi greinarmun á hvort íbúð sé t.d. eignaíbúð einstaklings eða félagslegt húsnæði á vegum borgarinnar. Erfitt er að fylgjast með hvort eigendur séu með íbúðir auðar. Öðru máli gegnir ef íbúðin er í eigu borgarinnar. Ítrekað hefur verið bent á að íbúðir Félagsbústaða standi auðar og sumar svo mánuðum skiptir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um þetta og fengið þau svör að verið sé að standsetja þær. Árið 2018 fékk Flokkur fólksins það svar að 90 íbúðir Félagsbústaða væru auðar vegna standsetningar. Vert væri að spyrja um hvað þær eru margar nú. Flokkur fólksins hefur einnig bent á óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal. Brögð eru af því að lóðareigendur byggi ekki á lóðum. Dæmi eru um að lóðir hafi staðið auðar í 15-16 ár. Hér er mikilvægt að setja kvaðir þannig að lóðarhafi fái ákveðinn tímaramma til að byggja á lóðinni ella skili hann henni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um bætt útsýni í Reykjavík fyrir borgarbúa, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 30. nóvember 2022:

Þetta er góð tillaga. Það er sorglegt að sjá hvað búið er að byggja há hús við ströndina og víða búið að fylla fjörur til að koma fyrir háum húsum. Þetta er skemmdarverk. Það þarf að setja ný viðmið í aðal- og deiliskipulagi sem kveður á um að því nær sem byggingar eru strandlengju þeim mun lægri skuli þær vera. Með því að láta háar byggingar standa fjær strandlengju og þær lægri nær tryggjum við að sem flestir hafi útsýni frá heimili sínu. Þetta ætti að tryggja í öllum nýbyggingum í hverfum borgarinnar. Í þessu samhengi má minnast á að fyrirhugað er að skemma einn fallegasta útsýnisstað yfir borgina, Vatnsendahvarfið og koma þar fyrir hraðbraut, (3. Áfanga Arnarnesvegar), Þarna verður mikið skemmdarverkið unnið sem er ófaturkræft og byggja á þessa risa framkvæmd á tæpu 20 ára umhverfismati. Víða í borginni eru komin skuggahverfi, þar sem þétting byggðar hefur farið út í öfgar. Kirkjusandur er eitt dæmi þess. Þar eru nýjar blokkir skyggja á útsýni og lægri blokkir frá Bjargi íbúðafélagi eru látnar dvelja í skugganum án útsýnis. Hér hefði mátt snúa dæminu við. Að taka af fólki útsýni og birtu hefur neikvæð áhrif á heilsu. Þetta hafa rannsóknir ítrekað sýnt.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bækling Nordic Safe, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. nóvember 2022.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK22110144

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs, sbr. 24. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. nóvember 2022.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK22110147

 Ný mál lögð fram:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um nýtingu íbúða Félagsbústaða:

Eins og flestir vita þá er húsnæðismarkaðurinn gríðarlega erfiður og því mikilvægt að nýta íbúðir Félagsbústaða sem best. Í þeirri erfiðu tíð sem nú ríkir á húsnæðismarkaði er viðkvæmasti hópurinn, innflytjendur,öryrkjar,eldri borgarar og einstæðar mæður í erfiðustu stöðunni og neyðast oft á tíðum til að leita sér skjóls í húsnæði sem jafnvel telst ekki vera mannabústaðir. Ítrekað hefur verið bent á að íbúðir Félagsbústaða standi auðar og sumar svo mánuðum skiptir. Fulltrúi Flokks fólksins spurði árið 2018 hversu margar íbúðir væru auðar hjá Félagsbústöðum og þá voru 90 íbúðir auðar vegna standsetningar. Flokkur fólksins spyr hvað margar íbúðir séu auðar núna hjá Félagsbústöðum vegna standsetningar eða vegna annarra ástæðna? USK22122900

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort ekki eigi að taka áskorun fjölmargra og hætta við að loka Siglunesi:

Hvernig ætlar meirihlutinn að taka á áskorun fjölmargra að hætta við að loka Siglunesi eins og meirihlutinn hefur lagt til? Flokkur fólksins minnir á tal um samráð og að hlusta á fólk. Starfsemi Siglunes er einstök, fyrst og fremst fyrir þær sakir að þar er ekki rekið hefðbundið íþróttastarf. Iðkendur stunda ekki æfingar, keppa ekki og þar er engin afreksstefna. Þar fá öll börn, og sér í lagi þau sem ekki finna sig í hefðbundnu afreksstarfi íþróttafélaganna, að finna kröftum sínum farveg til að eflast og þroskast á jafningja grundvelli. Skorað hefur verið á meirihlutann að taka mál Siglunes til skoðunar áður en ákveðið verður að loka 55 ára farsælli starfseminni endanlega. Má þar meðal annars skoða stofnun hollvinasamtaka sem létt gætu róðurinn til að afstýra því slysi sem fylgdi því að leggja starfsemina af fyrir þau þúsundir barna sem Siglunes þjónar. USK22122901