Umhverfis- og skipulagsráð 14. september 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Landakotsreitur, breyting á deiliskipulagi. Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Landakotsreits:

Flokki fólksins finnst ávallt mikilvægt að hlustað sé á fólk, haft við það samráð þegar verið er að breyta hverfinu þeirra og taka til greina vel rökstuddar athugasemdir. Umfram allt mega skipulagsyfirvöld ekki valta yfir borgarbúa. Landakotsreiturinn er hér á dagskrá og hafa komið athugasemdir frá íbúum á Öldugötu 25 sem mótmæla harðlega þessum áformum sem þarna eru fyrirhugaðar. Rétt er að draga þær fram hér í bókun. Athugasemdir ganga út á að grenndargámar verða ekki í opnu rými, tengdir þjónustukjörnum, heldur verða staðsettir við götu og ekki er tekið á því hvernig fólk, sem kemur akandi með sorp, geti lagt bílum sínum meðan það flokkar í ílátin. Við blasir, miðað við umferðarþunga og ásókn í bílastæði á svæðinu, að raunin verður sú að fólk einfaldlega stöðvar bifreiðar sínar í götunni, meðan það athafnar sig við gámana eins og segir í athugasemdum. Einnig eru rök að barnafjölskyldum hefur fjölgað mikið í hverfinu á undanförnum árum. Mörg þessara barna sækja leikskóla við Öldugötu eða Landakotsskóla. Fleiri öryggisþættir eru tilteknir. Með þessari tillögu er því almennu öryggi og umferðaröryggi gangandi og akandi vegfarenda stefnt í hættu, þvert á það sem fullyrt er í kynningargögnum um tillöguna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Friðlýsing á Blikastaðakró-Leiruvog, kynning:

Fagna ber að friðlýsa á fjörur og nágrenni þeirra sem eru Blikastaðakró. En eins og kunnugt er hafa borgaryfirvöld gengið langt í að eyðileggja náttúrulegar fjörur, en markmið friðlýsingar svæðisins er að viðhalda og vernda til framtíðar náttúrulegt ástand mikilvægs búsvæðis fugla og sjávarhryggleysingja. Þetta mætti oft hafa í huga.

 

Ný mál Flokks fólksins lögð fram að nýju til framvísunar:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um umferð í miðbænum á hátíðum:

Tillaga Flokks fólksins að ekki verið lokað eins mikið fyrir bílaumferða á menningarnótt og 17. júní eins og tíðkast hefur. Gengið er allt of langt í að loka fyrir bílaumferð og með því er loku fyrir það skotið að ákveðinn hópur geti lagt leið sína í bæinn. Frítt í strætó og skutluferðir leysa ekki vanda þeirra sem eiga erfitt um gang og komast hvergi nærri hátíðarsvæði borgarinnar vegna lokunar gatna fyrir bílaumferð. Ekki einu sinni bílar með stæðiskort á leyfi til að aka inn á lokað svæði.

Hávær gagnrýni hefur heyrst vegna strætóferða á menningarnótt ýmist vegna þess að þeir væru of fáir, of seinir eða óku oftar en ekki fram hjá fólki. Vegna svo róttækrar lokunar fylltust vagnar af fjölskyldum með barnavagna. Hvernig á einstaklingur með líkamlega fötlun að nota strætó undir þessum kringumstæðum. Eins sniðug og skutluþjónusta er þá var hún ekki að virka á menningarnótt. Skoða þarf hvað þarf að gera öðruvísi og betra til að slík þjónusta gangi upp.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um Bílastæðasjóð og stæðiskort fyrir hreyfihamlaða:

Í minnisblaði borgarlögmanns til borgarstjóra kemur fram að borgarlögmaður telur að Bílastæðasjóður Reykjavíkur hafi gerst brotlegur við umferðarlög, og hafi brotið á réttindum fatlaðs fólks, með því að innheimta gjald hjá handhöfum stæðiskorta fyrir notkun bílastæða í bílastæðahúsum. Óskað er upplýsinga um brot Bílastæðasjóðs og hvað Reykjavíkurborg hyggst gera í því máli. Verður krafist skaðabóta? Fulltrúi Flokks fólksins telur málið alvarlegt og óskar upplýsinga um hvort aðgengis og samráðsnefnd Reykjavíkur muni ekki fjalla um málið og álykta um að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða skuli undanskildir gjaldskyldu í borgarlandinu, hvort sem er í bílastæðahúsum, bílskýlum eða á götum úti? Í meira en þrjú ár hefur bílastæðasjóður brotið á þeim sem aka á P-merktum bílum. Árið 2019 voru ný umferðarlög samþykkt þar sem skýrt er kveðið á um að handhöfum stæðiskorta sé heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án greiðslu og einnig að handhafar stæðiskorta megi leggja í sérmerkt bílastæði í öllum göngugötum.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samþykkt um göngugötur, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 17. ágúst 2022.

Í samþykkt um göngugötur í Reykjavík þá kemur fram í fjórðu grein að íbúar á göngugötu geti sótt um svokallað göngugötukort til að hafa aðgang að bílastæði. Eingöngu er gefið út eitt göngugötukort fyrir hvert bílastæði. Flokkur fólksins spyr hvort ekki sé hægt að gefa út fleiri en eitt kort við sérstakar aðstæður? Vísað er jafnframt í umfjöllun um þessi mál í Kjarnanum: https://kjarninn.is/skodun/laerdu-a-thetta

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.