Umhverfis- og skipulagsráð 19. október 2022

Bókun Flokks fólksins við reglur um visthæfar bifreiðar, tillaga:

Skipulagsyfirvöld leggja til að reglur um bifreiðar sem eiga rétt á visthæfum skífum verði ekki endurnýjaðar þegar þær renna út í árslok 2022. Þetta eru vonbrigði. Flokkur fólksins hefði frekar talið nauðsynlegt að útvíkka þessar reglur til þess að hvetja þá sem það geta að kaupa vistvæna bíla og flýta enn frekar fyrir orkuskiptum. Með því að endurnýja ekki þessar reglur er í raun verið að refsa þeim sem eiga vistvæna bíla. Meðal raka skipulagsyfirvalda er að nú sé hlutfall rafmagnsbíla mun hærra en þegar reglurnar voru settar. Flokki fólksins finnst þá enn frekar ástæða til að þessar reglur um ívilnanir séu í gildi. Visthæfar skífur eru enn mikilvægar sem hvati fyrir íbúa til að ferðast um á vistvænum ökutækjum. Við eigum langt í land með að ná fullnægjandi árangri í orkuskiptunum og því er hvorki tilefni né ástæða til að slaka neitt á í þeim efnum.

Bókun Flokks fólksins við Kirkjustræti og Templarasund, kynning, tillaga:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar góða kynningu og tekur fram að vert sé að leggja bæði vinnu og metnað í hönnun á þessum stað. Umhverfið og göngusvæðið þarna þarf að vera vel hannað og fallegt og hugsa þarf einmitt til framtíðar með þá hönnun, eins og virðist gert í þeim tilögum sem kynntar voru. Fulltrúi Flokks fólksins telur þó að í þessu eins og öðru er kemur að hönnun mannvirkja, þá þurfi að hafa í huga bæði kostnað og forgangsröðun. Flokkur fólksins minnir á að í sögulegu samhengi getur bæði hönnun og framkvæmdir rokið fram úr öllum áætlunum og farið úr böndum. Hugmyndir um kostnað ætti skilyrðislaust að birta, því að margt sem nefnt er verður dýrt. Fulltrúi Flokks fólksins tekur fram að ákveðin lokun á aðgengi almennings á hluta þessa svæðis sé ekki í takt við þá hugmyndafræði að aðgengi skuli vera gott og jafnt fyrir alla, fatlaða sem ófatlaða. Gera þarf ráð fyrir akstur P merktra bíla og að þeir geti lagt í sérmerkt stæði á svæðinu. Það er enginn staður í Reykjavík sem hægt er að útiloka alveg að einhver bílaumferð fari um.

 

Bókun Flokks fólksins við Hringbraut – Hofsvallagata, framkvæmdaleyfi:

Beðið er um að athugasemdir verð teknar alvarlega til skoðunar og ekki verði haldið áfram með þessar framkvæmdir fyrr en íbúar og íbúðareigendur hafa fengið eitthvað um málið að segja. Flokkur fólksins tekur undir þetta enda ætti það að vera sjálfsagt. Ef litið er yfir athugasemdir lúta margar þeirra að bílastæðamálum í ljósi þess að umferð er að aukast. Vandinn er mikill fyrir. Fólki finnst þrengt verulega að sér, og sumir eiga erfitt með að komast inn í hverfið sitt. Komast heim og að heiman. Mjög sennilega mun umferð aukast um bílastæði meðfram Brávallargötu og Grund, með aukinni hættu á slysum vegna umferðar. Það að beina því að íbúum að leggja inn í hverfinu mun valda óþægindum fyrir aðra íbúa í Vesturbænum með tilheyrandi óánægju og nágrannaerjum eins og haft er eftir einum þeirra sem leggja fram athugasemdir. Nú þegar er bílum lagt víða og lítið framboð er af stæðum. Flokkur fólksins hefur áður talað um þá sem eiga erfitt með gang og geta ekki borið vistir heim. Það hljóta að teljast til mannréttinda að geta flutt vistir heim til sín.

 

Bókun Flokks fólksins við Seljavegur 1, breyting á deiliskipulagi:

Athugasemdir íbúa við Vesturgötu 54 eru settar fram í fimm liðum. Snúa þær að eftirfarandi atriðum: Útsýni, nálægð við lóðarmörk, mikið byggingarmagn / fjöldi íbúða, ósamræmi við götumynd og innviðir í hnút. Flokkur fólksins vill segja nokkur orð um útsýni. Í nánast flestum athugasemdum sem berast umhverfis- og skipulagssviði snúa að útsýni, birtu skerðingu og skuggavarpi. Þetta er bagalegt. Fólk hefur keypt sér fasteign í þeirri trú að það hafi ákveðið útsýni, ákveðna birtu. Þegar fram líða stundir og þétting byggðar er í algleymingi er þetta tekið frá fólki og það skilið eftir með útsýni jafnvel inn í næsta stofuglugga eða í skugga og dimmu. Flokkur fólksins hefur áður bókað um það. Of mikil og óhófleg þétting tekur birtu frá fólki sem hefur neikvæð áhrif á andlega líðan fólks eins og rannsóknir hafa ítrekað sýnt.

 

Bókun Flokks fólksins við Brekkustígur 9, Stækkun húss og breyting lóðar:

Fjölmargar athugasemdir hafa borist. Fram kemur að send hafi verið inn athugasemd árið 2020 varðandi Öldugötu 44 vegna útlits hússins en engar breytingar hafi verið gerðar. Aftur er komið inn á þrengsl og skort á bílastæðum í athugasemdum. Allir vita að Brekkustígurinn er frekar þröng gata og nú þegar er nánast aldrei að kvöldi til hægt að reikna með að bílastæði sé laust í götunni. Gatan er full af bílum síðdegis og svörin frá borginni eru á þann veg að hjólagrindur verði á lóðunum. Vandinn er ekki nýr, svona ástand hefur verið í mörg ár. Þeir sem þurfa að finna bílum sínum stað við hús sín lenda í stökustu vandræðum. Hvað sem þessu líður er mikilvægt að hlustað sé á sjónarmið íbúa í þessu sem öðru og að skilaboð séu skýr. Það virðist einnig gæta einhvers ósamræmis milli þess sem kynnt er í gögnum og þess sem íbúar eru að segja. Hvernig stendur á því? Flokkur fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að taka gott samtal við íbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við svari um sorpkostnað, svar:

Fyrirspurnin varðar kostnað við sorphirðu en svarið er í engu samræmi við spurninguna þar sem svarið tekur aðeins til þess sem sveitarfélagði rukkar íbúa sína beint með gjöldum. Sorphirðugjald sem sveitarfélög leggja á íbúa sína er alls ekki það sama og kostnaður við sorphirðu. Því er svarið alls ekki svar við spurningunni sem lögð er fram. Í svari kemur þó fram að gjöld sem lögð eru á sorphirðu og eyðingu beint frá heimilum er 1.559.680.000,- kr sem í raun stenst ekki sem kostnaður þegar opinberar tölur eru skoðaðar. Samkvæmt upplýsingum frá SORPU kom um 130 kg frá hverjum íbúa Reykjavíkur (húsasorpi), en íbúar Reykjavíkur eru 133.262 (árið 2021) og því er magn úrgangs frá þeim 17.324.060 kg en bara að eyða þessum kg kostar ríflega 952 milljónir samkvæmt gjaldskrá Sorpu. Því ætti kostnaður við að reka allar sorpbifreiðar Reykjavíkurborgar, starfmannahald og kaup á ílátum að vera 607 milljónir á ári, sem stenst enga skoðun þ.e.a.s að kostnaður við reksturinn sé um 11 þúsund krónur á hvert heimili. Fulltrúi Flokks fólksins mun óska sérstaklega eftir að fá sundurliðaðan kostnað við losun, leigu og förgun hjá heimilum í Reykjavík.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um vinnu stýrihóps um ljósvistarstefnu.

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengi að Hlemmi, sbr. 42. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. september 2022.

Tillaga um ljósvistarstefnu er lögð fram af meirihlutanum sem hefur þann tilgang „Að setja ramma eða umgjörð fyrir núverandi byggð til framtíðar, marka stefnu sem leggur fram áherslur og markmið fyrir lýsingu í Reykjavíkurborg sem miðar að því að styrkja tengsl borgarlýsingar við framtíðarsýn og markmið borgarinnar í aðgengismálum, umhverfimálum og lýðheilsu- og velferðarmálum“ eins og segir í kynningu skipulagsyfirvalda.
Flokkur fólksins vill gjarnan efla lýsingu á grænum svæðum, útivistarsvæðum og öðrum svæðum þar sem efling lýðheilsu borgarbúa fer fram ásamt göngu- og hjólastígakerfi borgarinnar. Og ekki er hægt að gagnrýna fylgigagnið fyrir margar hugmyndir sem þar eru tíundaðar. Almenn og hófleg lýsing er kostur í borgum, en það er ekki náttúrulegt, það er manngert. Svo er talað um hina norrænu birtu sem sérstaka og sé allt öðruvísi en í suður Evrópu en jafnframt sagt að fylgja eigi Evrópustöðlum að öllu leyti. Athyglisvert er að gera skal ráð fyrir andlitsgreiningu ef eftirlitsmyndavélar (CCTV) eru á svæðinu. Flokkur fólksins vill gjarnan vita meira um vinnu þessa hóps, hversu oft fundað og hvenær var síðasti fundur haldinn. Send verður inn formleg fyrirspurn þess efnis.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um framgang hreinsunar- og öryggismála í Úlfarsárdal

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengi að Hlemmi, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. október 2022.

Flokkur fólksins hefur verið að fá ýmsar ábendingar frá íbúum í Úlfarsárdal vegna drasls/úrgangs á óbyggðum lóðum, byggingarefni sem liggur eins og hráviði víða og fýkur um í vályndum veðrum og einnig vegna öryggismála.
Flokkur fólksins hefur áður verið með fyrirspurnir um þessi mál og tillögur sem lúta að hreinsun og/eða öryggismálum og einnig bókað um umferðaröryggi sem og verið með fjölda fyrirspurna um merkingar gangbrauta og lýsingu sem og umhirðu á byggingarlóðum. Flokkur fólksins óskar að spyrja núna um hver staða þessara umbóta er t.d. sem snúa að gangbrautum, merkingum og götulýsingu? Hafa verið málaðar sebrabrautir eins og óskað hefur verið eftir að verði gert? Hefur verið lokið við að gera gangstíga að leikskóla og Dalskóla manngenga? Hafa ruslagámar verið fjarlægðir af göngustígum? Hver er staða þessara mála almennt séð?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um bíla- og hjólreiðastefnu Reykjavíkurborgar:

Nú hefur Reykjavíkurborg sett fram bíla- og hjólastefnu Reykjavíkurborgar þar sem að miðað er við 1 bílastæði á hverja 75m2 af skrifstofuhúsnæði. Líklega komast um 4 – 5 starfsmenn fyrir í slíku skrifstofuhúsnæði. Þetta er að sjálfsögðu lofsvert umhverfislega séð.Flokkur fólksins hefur áhuga á að vita hvernig þessi stefna virkar þar sem að ljóst er að bílastæðum er fækkað og fáir geta mætt í vinnu á bílum. Því spyr Flokkur fólksins hvernig til hefur tekist, hversu margir lóðahafar hafa sett sér þessa reglu og hver er reynsla þeirra, sem tekið hafa upp þessa stefnu. Fullnægir þessi fjöldi bílastæða þörfum húsnæðisins?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um ruðning í húsagötum og nagladekk:

Flokkur fólksins óskar því eftir að spyrja hvort skipulagsyfirvöld hyggjast taka á þeim vanda sem leiðir einmitt til þess að stór hópur borgarbúa neyðist til að vera á nagladekkjum? Fulltrúa Flokks fólksins finnst fréttatilkynning frá borginni nokkuð brött, eiginlega bara áróðurskennd og er hér vísað í skeyti frá upplýsingastjóra um nagladekk. Farið er stórum orðum um skaðsemi þeirra á malbikið sem sennilega er rétt. Ennfremur að þau skapi hávaða og auki eldsneytiskostnað bifreiða. Sennilega allt rétt. Hér er verið að vísa í mokstur í húsagötum og ekki í þeirri merkingu að mokað sé illa heldur að breyta þarf verklagi og viðhorfi. Það er rangt að hugsa að það sé sjálfsagt að moka fyrir innkeyrslur og að sjálfsagt þyki að íbúar þurfi þurfi að ryðja frá innkeyrslunni eftir að snjóruðningstæki hefur farið framhjá. Ruðninginn er mun erfiðara að moka en lausamjöll. Þeir sem þurfa að moka hafa hvort eð er engan stað til að setja ruðninginn á en aftur á götuna. Að ryðja fyrir innkeyrslur kallar á að fólk verður sums staðar að vera á nagladekkjum. Sumir treysta sér ekki til að moka og lokast af og í raun væri betra jafnvel að ryðja ekki neitt.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, vegna svars við sorphirðukostnaði:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar því eftir að fá sundurliðaðan kostnað við losun, leigu og förgun á hvert heimili á Reykjavík. Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um sorpkostnað. Spurt var um hver sorpkostnaður Reykjavíkurborgar er við tæmingu tunna per íbúðareiningu og hver sambærilegur kostnaður er í nágrannasveitarfélögum. Eins og hvert heimili þarf Reykjavíkurborg að horfa vel í alla útgjaldaliði og leita allra ráða til að hagræða. Í fyrirspurninni var vísað í skýrslu sem gefin var út af samkeppniseftirlitinu árið 2016 (Competition in the waste managment sector). Helstu niðurstöður eru þær að sveitarfélög sem nota útboð við meðhöndlun úrgangs spara sér 10 – 47% frá kostnaði við eldri kerfi. Svarið sem barst var ekki í neinu samræmi við spurninguna þar sem svarið tekur aðeins til þess sem sveitarfélagði rukkar íbúa sína beint með gjöldum. Sorphirðugjald sem sveitarfélög leggja á íbúa sína er alls ekki það sama og kostnaður við sorphirðu. Fulltrúi Flokks fólksins óskar því eftir að fá sundurliðaðan kostnað við losun, leigu og förgun hjá heimilum í Reykjavík.