Forsætisnefnd 14. júní 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgastjórnar, dags. 12. júní 2024, varðandi breytingar á samþykkt öldungaráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins mótmælti fækkun fulltrúa í ráðinu á sínum tíma og taldi að fækkun þeirra í öldungaráði úr níu fulltrúum í sjö væri ekki til góðs. Samtök aldraðra og Korpúlfar, samtök eldri borgara í Grafarvogi, áttu samkvæmt því ekki sérstaka fulltrúa í öldungaráði eftir þá breytingu. Öldungaráðið er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni borgarbúa sem eru 67 ára og eldri og þess vegna mikilvægt að sem flestir hagsmunaaðilar hafi aðkomu að þessu ráði. Telur fulltrúinn því það vera til bóta að vikið hafi verið frá því sem upphaflega hafði verið lagt til.

Langfjölmennasta félag, félag eldri borgara hefur haft 3 fulltrúa í Öldungaráði samkv. samþykktum. Flokkur fólksins hefur mótmælt harðlega að breyta eigi samþykktum þannig að fækka fulltrúum Félagi eldri borgara í Öldungarráðinu. Nú hefur forsætisnefnd samþykkt að þeir skuli vera aðeins einn sem er í hrópandi ósamræmi við það sem rætt var á síðasta fundi Öldungaráðs. Flokkur fólksins telur reyndar að ekki sé um neinn misskilning að ræða af hálfu meirihlutans. Rétt er að ekki eigi að fækka í ráðinu en markmið meirihlutans var klárlega að fækka fulltrúum úr Félagi eldri borgara. Vísað er í lög og reglugerðir um að  Öldungaráði er ætlað ákveðin verkefni á starfssvæði sínu samkvæmt lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999 og skal í störfum sínum hafa að leiðarljósi markmið laganna sbr. 1. gr. Þá er bent á að breyting þessi á samþykktunum er í hróplegu ósamræmi við bókun ráðsins þar sem vilji ráðsins stendur til að fjölga í ráðinu en ekki fækka fulltrúum FEB. Í bókun ráðsins segir eftirfarandi: „Öldungaráð vill að sætum fulltrúa verði fjölgað í takt við vaxandi hlutfall eldra fólks í sveitarfélaginu.“

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. júní 2024, varðandi nýja samþykkt fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins telur að ekki sé gott að fulltrúar velferðarráðs í minnihluta verði skikkaðir til að sitja í áfrýjunarnefnd án nokkurrar umbunar/launa. Hér er um töluverða viðbótar vinnu að ræða fyrir vikulega fundi sem krefjast góðs undirbúnings vegna þeirrar ábyrgðar og mikilvægi þeirra ákvarðana sem þar eru teknar – þrátt fyrir upplegg um hið gagnstæða. Á sama tíma og áfrýjunarnefnd fundar þarf fulltrúi Flokks fólksins einnig að vera tilbúinn sem varamaður í umhverfis- og skipulagsráði. Fulltrúi Flokks fólksins getur þess vegna ekki sótt alla fundi áfrýjunarnefndarinnar. Sú nefnd sem hér um ræðir ætti í raun að vera alfarið á ábyrgð meirihlutans sem stýrir henni og með heildarsýn á það hverjir fá jákvætt svar við sínum umsóknum og hverjir ekki.

 

Bókun Flokks fólksins undlir liðnum: Aðgerðaráætlun lýðræðisstefnu – skólaheimsóknir – til afgreiðslu

Lögð er fram tillaga um skipulagðar skólaheimsóknir í Ráðhús Reykjavíkur. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem einungis 9. bekk er boðið að koma í Ráðhúsið og þiggja þar fræðslu um borgarstjórn. Verið er að velta vöngum yfir tveimur mis kostnaðarsömum útfærslum.Flokkur fólksins vill í þessu sambandi minna á tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn 12. desember 2023 að marka árlegan heimsóknardag fyrir börn að heimsækja Ráðhúsið og hafa eins konar opið hús. Þessi tillaga er einföld í útfærslu og útilokar engan. Hugsunin er sú að borgarfulltrúar og starfsfólk muni taka á móti börnum, sýna þeim húsið og segja frá starfinu í Ráðhúsinu. Foreldrar og kennarar eru vissulega velkomnir líka. Þessi tillaga mun ekki leiða af sér háan kostnað. Markmiðið er að dýpka þekkingu barna á hlutverki borgarstjórnar og veita börnum innsýn í ólík störf hjá Reykjavíkurborg. Yngri börnin kæmu í fylgd foreldra og fá tækifæri til að ganga um húsið, skoða rýmin og máta sig í sæti í sal borgarstjórnar. Flokkur fólksins er þó ekki andvígur hugmyndum meirihlutans í þessu sambandi en bendir á að flækjustig tillögu meirihlutans er meira en í tillögu Flokks fólksins.