Forsætisnefnd 1. september 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs dags. 28. júní 2023, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs frá 26. júní 2023, á tillögu fulltrúa í ungmennaráði Grafarvogs um kennslu í fjármálalæsi í grunnskólum Reykjavíkur, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 14. febrúar 2023:

Ungmennaráð Grafarvogs lagði fram tillögu um kennslu í fjármálalæsi sem hljóðaði á þá leið að skóla- og frístundaráð hefji vinnu við innleiðingu skyldunáms í fjármálalæsi í samstarfi við grunnskóla Reykjavíkurborgar. Þetta er fín tillaga og mjög nauðsynleg að mati fulltrúa Flokks fólksins. Tillögunni hefur verið breytt af meirihlutanum í þá átt að hún hefur verið gerð minna afgerandi og beinskeyttari. Talað er um í breytingatillögunni „að efla kennslu og nýta öll tækifæri til að sinna þessum þætti“ o.s.frv. Hugtakið „skyldunám“ í fjármálalæsi hefur verið fjarlægt úr breytingatillögunni. Fulltrúi Flokks fólksins telur tillögu ungmennarás Grafarvogs afar góða, skýra og afgerandi eins og hún var lögð fram og hefði hún e.t.v. mátt halda kjarnamerkingu sinni meira þótt talið hafi verið nauðsynlegt að breyta henni eitthvað.

 

Mál Flokks fólksins fyrir fund borgarstjórnar 5. september:

Mál 1
Skaðabætur til þeirra sem veikst hafa af myglu í skólabyggingum

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að þeim sem veikst hafa vegna myglu og raka í skólabyggingum Reykjavíkurborgar verði veittar skaðabætur (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)

Nú er það staðfest að fjölmargir hafa orðið illa úti vegna myglu og raka í skólabyggingum borgarinnar. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu og dæmi eru um að börn séu orðin langveik. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur af þeim sökum til að þeim sem veikst hafa vegna myglu og raka í skólabyggingum Reykjavíkurborgar verði veittar skaðabætur t.d. í formi greiðsla á lækniskostnaði og vinnutapi.

Nefna má í þessu sambandi þrautagöngu Laugarnesskóla. Í mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Nemendur og starfsfólks hafa veikst, sum alvarlega.

Hér er ekki um einsdæmi að ræða. Hávær hróp hafa borist lengi frá skólasamfélaginu vegna myglu og rakavanda í fjölmörgum skólum borgarinnar. Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í fyrra haust. Þá voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar heimaskóla vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í hundrað börn. Mörg þúsund börn verða fyrir raski á skólastarfi vegna myglu og raka. Skaðsemi og önnur áhrif af þessum vágesti sem mygla er hefur ekki verið rannsakað af borginni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskaði nýlega eftir upplýsingum um skilvirkni og viðbrögð við tilkynningum um myglu í skólabyggingum. Í svari er rakið ferlið sem fer af stað þegar grunur er um léleg loftgæði og slæma innivist. Það kerfi sýnist ágætt. Margir koma að og þá er vissulega alltaf spurning um skilvirkni. Talað er um teymi með ýmsum aðilum, mannauðsráðgjafa og Heilbrigðiseftirliti. Í svo alvarlegum  málum hlýtur að þurfa að hafa yfirsýn og heildarmynd og að einhver einn haldi utan um verkið ef ekki á að enda í endalausum fundum sem jafnvel fátt kemur  út úr.

Spurt var um hvort sérstaklega væri hlúð að börnum og starfsfólki vegna heilsufars og mats á heilsu vegna myglunnar. Því er svarað til að öllum starfsmönnum Reykjavíkurborgar í húsnæðinu stendur til boða að leita til trúnaðarlæknis. Flokkur fólksins vill sjá hér að hugað sé að þolendum þessara aðstæðna. Skólar eru fjölmennir vinnustaðir og börnin eru skólaskyld. Lækniskostnaður og kostnaður vegna vinnutaps og annarra afleiðinga þarf að meta og bæta upp með einhverjum hætti.

Mál 2
Símalausri skólar

Umræða um snjallsímanotkun í grunnskólum og hvort eigi að banna þá í skólanum/skólastofunni (að beiðni borgarfulltrúa  Flokks fólksins). 

Umræðan um snjallsímanotkun í grunnskólum og hvort eigi að banna þá í skólunum hefur verið í gangi af fullum þunga í sumar og átti skóla- og frístundasvið m.a. fund með skólastjórum borgarinnar þar sem rætt var um möguleikann á símalausum skólum. Engin niðurstaða fékkst í málið og er það miður. Meðan fullorðna fólkið ræðir þessi mál fram og til baka er skólaganga  hafin og fjöldi barna fara í skólann með síma sína í handraðanum. Staðfest hefur verið með fjölda rannsókna og kannanna að síminn truflar einbeitingu þeirra í náminu. Hér þarf að taka skýra afstöðu og fá niðurstöðu.

Einhverjir skólar hafa lagt blátt bann við snjallsímum jafnvel á skólalóðinni en aðrir skólar eru með mildari útfærslu. Enn aðrir skólar skipta sér lítið af því hvort nemendur eru með símana við hönd sem þeir vakta í kennslustundum.  Mikilvægt er að samtal verði haft við alla hlutaðeigendur ekki síst foreldra. Fræðsla er lykilatriði og ræða þarf við foreldra um síma- og samfélagsmiðlanotkun barna þeirra. Ákvörðun um hvort þeir skuli bannaðir í skólastofunni hlýtur engu að síður að þurfa að koma frá yfirvöldum. Flokkur fólksins vill fá markvissa umræðu um þetta mál í borgarstjórn og að sú umræða leiði til samhljóms og  einhverrar niðurstöðu sem þjónar hagsmunum nemenda.

Margir eru uggandi yfir hversu háðir krakkarnir eru símanum. Krakkar geta ekki verið með óskerta athygli á námi og samskiptum í skólastofunni séu þau með símann í augsýn. Með símann í vasanum, í kjöltunni eða jafnvel undir stílabókinni á borðinu getur verið erfitt að einbeita sér að samfélagsfræði, íslensku eða stærðfræði. Þegar síminn lýsist upp eða gefur frá sér veikt píp þá verður maður að athuga hvaða skilaboð eru komin á skjáinn. Við þekkjum þetta allflest. Sími ofan í tösku sem slökkt er á truflar vissulega minna. Við þetta má bæta að

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna UNESCO hefur kallað eftir því að blátt bann verði lagt við notkun snjallsíma í skólum. Eitt af hverjum fjórum ríkjum heims hefur nú þegar orðið við þessu en stofnunin segir að símanotkun barna í skólum auki á lærdómserfiðleika, einelti og almenna vanlíðan.

 

Mál 3

Umræða um umfang og háan kostnað ráðgjafakaupa Reykjavíkurborgar  frá innlendum og erlendum fyrirtækjum (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)

Tugir milljóna fara ár hvert í verk- og ráðgjafakaup frá innlendum og erlendum ráðgjafafyrirtækjum. Þetta er alvarlegt í ljósi bágrar efnahagsstöðu borgarinnar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að dregið verði af afli úr aðkeyptri verkefnavinnu og ráðgjöf til borgarinnar og sé einungis farið á leið liggi fyrir skýr og handbær rök. Skoða má að nýta þess í stað mannauð borgarinnar betur. Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins og hefur á að skipa fjölda sérfræðinga sem ráðnir eru einmitt vegna sinnar sérfræðimenntunar og sérþekkingar og reynslu.

Í gegnum árin hefur fulltrúi Flokks fólksins vakið á þessu máls með ýmsum hætti, bókunum og tillögum. Bent hefur verið á þá gríðarlegu fjármuni sem fara ekki einvörðungu í ráðgjöf heldur einnig alls kyns verkefni. Nýlegar bárust fréttir um að Reykjavíkurborg hafi greitt 34 milljónir króna til félags í eigu fyrrverandi fjármálastjóra borgarinnar fyrir sérfræðiþjónustu frá árinu 2021 en viðkomandi fjármálastjóri lét af störfum sem fjármálastjóri borgarinnar fyrir aldurs sakir árið 2019. Félag hans fékk greiddar tæplega 11,5 milljónir króna árið 2021 og tæplega 5,1 milljón á fyrsta fjórðungi þessa árs, að því er fram kemur á upplýsingavef um fjármál borgarinnar. Þetta er aðeins eitt af mörgum dæmum um háar fjárhæðar sem streyma til einkaaðila og fyrirtækja vegna verk- og ráðgjafakaupa einna helst  af verkfræði- og arkitekta stofum en einnig fjölmörgum öðrum fyrirtækjum. Önnur dæmi má nefna um aðkeypt verk sem kallar ef til ekki á sértæka þekkingu og reynslu endilega s.s. eins og að telja nagladekk á götum borgarinnar eða skrifa fundargerðir. Ráðnir hafa verið hámenntaði verkfræðingar- verktakar,  til þess að annast verkefni af þessu tagi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins væntir þess að um þetta verði skynsamleg umræða í borgarstjórn. Minnt er fjárhagsstöðu borgarinnar og allir hljóta að sjá að velta þarf við hverri krónur ef borgin á að geta siglt út úr þeim ógöngum sem hún er nú í.