Holtsgata 10 og 12 og Brekkustígur 16 – nýtt deiliskipulagi – SN220212. Niðurrif eldri húsa.
Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að taka afstöðu til þessa skipulags
Gagnrýni kom um að langhliðar séu of einsleitar og það þarf að vera minna byggingarmagn. Bílastæði verða 11 á borgarlandi og 2 fyrir fatlaða innan lóða. 15 íbúðir verða með útsýni í 2 áttir. Þetta er rótgróið svæði og viðkvæmt svæði, kannski 2 hús eftir af gömlu byggðinni. Þessi hús eru að hverfa. Þau á að rífa. Þetta er erfitt mál. Þarna eru líka þriggja hæða hús en þau eru hálfrar aldar.
Þetta er pólitískt mjög óþægilegt fyrir þá sem vilja vernda gamla byggð en ekki sterk rök gegn þess. Hefði átt að vernda þessi hús, vinna með þau meira, byggja við að mati einhverra. Hér er verið að þétta í öfgafulla átt. Mörgum finnst þetta hund ljótt eins og myndir sýna og ekki hverfinu til prýði. Það er uppbrot og kantur, en þetta á að vera leiðbeinandi svo ekki gott að sjá hvernig þetta mun líta út. Nú er komin niðurrifs heimild á þessi hús sem er erfitt þeim sem vilja halda í eldri hús.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Fossvogsblettur 2-2A. Ævintýraborgir – Fossvogsblettur 2-2A – Fossvogur – skipulagslýsing
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hverju skrefi í átt að því að drífa upp leikskóla enda bíða yfir 900 börn eftir plássi. Mikil tímapressa er því á máli sem þessu. Hér eru lögð fram ítarlegt gögn um sögu svæðisins þar sem Ævintýraborgir eiga að rísa. Um er að ræða 10 deilda leikskóla fyrir 150 börn. Ekkert er hins vegar minnst á hvernig Ævintýraborgirnar mátast á þennan reit. Áformin liggja þó fyrir. Ævintýraborgir eru tímabundnar en þarna munu síðan rísa varanlegar leikskólabyggingar. Drífa þarf þetta verk áfram af fullum krafti, þótt fyrr hafi verið.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags Elliðaárvogs-Ártúnshöfða – svæðis 7 (Bíldshöfða/Breiðhöfða) á hluta miðsvæðis M4a og á opnu svæði OP30 skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040:
Lagt er fram að nýju að lokinni kynningu skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags Elliðaárvogs-Ártúnshöfða – svæðis 7 (Bíldshöfða/Breiðhöfða) á hluta miðsvæðis M4a og á opnu svæði OP30 skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Þeir sem senda inn athugasemdir eru stofnanir en ekki einstaklingar. Hér er um mikla uppbyggingu að ræða, og er markmiðið að það verði góð tenging við borgarlínu. Sérstaklega er gert ráð fyrir blandaðri byggð og atvinnuhúsnæði, (svæði 7) sérstaklega á götuhæðum við Bíldshöfða og Breiðhöfða. Horfa þarf til aðgengis fyrir bíla ef þjónusta á að þrífast þarna. Óljóst er hvað byggingarmagn verður mikið og það er óþægilegt.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 16. maí 2023, þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að þverun yfir Háaleitisbraut, móts við Álmgerði, verði breytt í samræmi við meðfylgjandi teikningu:
Skipulagsyfirvöld leggja til að sett verði þverun yfir Háaleitisbraut til móts við Álmgerði. Töluverð uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu í kringum útvarpshúsið. Þetta er mikilvæg aðgerð og hluti af nauðsynlegum umferðaröryggis aðgerðum. Segir í gögnum að ekki hafi komið athugasemdir við þessa útfærslu. Breyting verður þannig að við þverun yfir götuna verði einungis ein akrein í hvora átt og að þær framkvæmdir verði gerðar samhliða breytingum á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari framkvæmd enda stóreykur hún öryggi vegfarenda.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um kolefnisspor framkvæmdanna við Arnarnesveg og Suðurlandsveg, sbr. 36. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022:
Um er að ræða tillögu um að kolefnisspor framkvæmdanna við Arnarnesveg og Suðurlandsveg verði metið sem og áhrif þeirra á umferðaraukningu. Þetta mál allt með framkvæmd 3ja áfanga Arnarnesvegar er hið sorglegasta. Um er að ræða 1.3 km. langan veg sem liggur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Áætlað er að um 9 þúsund bílar fari um veginn. Arnarnesvegurinn mun koma inn á ljósastýrð gatnamót á einbreiða Breiðholtsbraut sem er nú þegar löngu sprunginn. Í um 4 ár hefur fulltrúi Flokks fólksins reynt að fá nýtt umhverfismat gert og að baki þeirri kröfu standa hagsmunasamtök, m.a. Vinir Vatnsendahvarfs. Sex mánuðir eru liðnir síðan hópur íbúa kærði lagningu Arnarnesvegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hefja á verkið þrátt fyrir hávær mótmæli fjölmenns hóps sem biður um það eitt að framkvæmdin verði ekki byggð á 20 ára gömlu umhverfismati. Of mikið er í húfi. Þetta svæði, sem er eitt fallegasta útsýnissvæði í Reykjavík hefur breyst mikið á 20 árum. Beðið er úrskurðar um kæruna. Í ljós hefur einnig komið að á teikningar vantar svokölluð vistlok, gróðurbrú yfir veginn en þau eru hvergi að sjá í útboðslýsingu.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að skoða aðra möguleika en stokk, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023:
Tillögu Flokks fólksins um að hætt verði með hugmyndina um Sæbraut í stokk og í staðin verði settar tvær góðar brýr yfir er vísað frá af meirihlutanum. Hugsunin var að önnur brúin yrði fyrir strætó og gangandi og hin norðar, fyrir gangandi og hjól. Spara mætti þannig 15 – 20 milljarða í stokka framkvæmdir sem komandi kynslóðir þurfa að borga. Margt í þessari stokkahugmynd skipulagsyfirvalda er ekki skynsamlegt hvorki sem lausn á umferðinni eða fjárhagslega. Stokkar eiga vel við þegar bæta á umhverfi í borgum, en þeir eru mjög dýrir og valda minnkun umhverfisgæða á framkvæmdatíma sem getur verið ansi langur. Hér er um risa framkvæmdir að ræða sem kallar á skynsemi og hagsýni. Í umsögn er í þessu máli vísað til Samgöngusáttmálans sem ríkið og sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins standa að. Látið er eins og skipulagsyfirvöld borgarinnar hafi ekkert um þessi mál að segja. Reykjavíkurborg hefur skipulagsvaldið og er því borgin ekki aðeins þolandi í þessum málum heldur einnig gerandi. Þessi mál eru svo sem í uppnámi vegna mikilla verðhækkana og verðbólgu sem hafa áhrif á kostnaðaráætlanir. Fara þarf ofan í saumana á þessu öllu og þess vegna er sú tillaga, sem hér er afgreidd út af borðinu, þess virði að skoða
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um inniaðstöðu farþega og vagnstjóra í Spönginni:
Víðar en í Spönginni er aðstaða fyrir strætófarþega ómöguleg. Ef inniaðstaða er í boði þá lokar hún snemma og kvartað hefur verið yfir hversu óaðlaðandi aðstaðan er og ófullnægjandi. Segja má að enginn metnaður ríki hjá Strætó bs. um að gera vel við farþega sem bíða eftir strætó. Aðstaðan í Mjóddinni hefur oft verið til umræðu. Þörf er á umbótum. Inniaðstaða á að vera opin eins lengi og vagnar ganga, þar á að vera hlýtt og hægt að setjast niður. Jákvætt væri ef hægt væri að kaupa sér kaffi eða annað léttmeti. Í biðaðstöðu þurfa að vera næg sæti og aðgengileg salernisaðstaða. Nefnt hefur verið að í aðstæðum sem þessum þyrfti einnig að vera læst hjólageymsla. Það myndi nýtast t.d. farþegum sem koma lengra að, þ.m.t. frá nágrannasveitarfélögum. Umbætur á biðaðstöðu strætó hvar sem þær eru eru liður í að gera almenningssamgöngur að fýsilegri kosti.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um áhrif og afleiðingar vegna framkvæmda við Sæbraut í stokk, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. febrúar 2023. USK23020015:
Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvert umferð verði beint þegar framkvæmdir við Sæbraut í stokk hefjast. Aðgerðin á að taka 3 ár og á meðan er aðeins ein akrein í hvora átt. Það mun þýða að álag mun aukast á aðrar brautir og mögulega á Skeiðarvog þegar bílar eru að reyna að komast fram hjá Sæbraut. Ef að umferðin beinist inn í hverfi, mun þá slysahætta aukast þar? Þarf að fara í aðgerðir til að minnka þá hættu? Í svari má glöggt sjá að þetta er snúið mál sem verið er að klóra sér í hausnum yfir. Gera má að því skóna að farið hafi verið af stað með stokkahugmyndina án þess að hugsa málið til enda. Útfærsla akstursleiða á framkvæmdatíma er óákveðin og ekki var gert ráð fyrir auknu álagi á götum í nágrenni og að fara þyrfti jafnvel í aðgerðir á öðrum götum til að draga úr líkum á að umferð leiti inn í þær. Það skapar vissulega nýjan vanda, vanda fyrir íbúa þeirra gatna.