Umhverfis- og skipulagsráð 30. október 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á starfsemi Strætó, nýjungum framundan og áskorunum.

Strætó stendur frammi fyrir fjölda áskorana. Starfsemi hefur gengið brösuglega. Um er að ræða byggðasamlag 5 sveitarfélaga. Þetta fyrirkomulag hentar illa fyrir starfsemi eins og Strætó. Reykjavík sem lang stærsti eigandi hefur ekki ákvörðunarvald í samræmi við stærð. Strætó hefur lengi riðið á barmi gjaldþrots og þarf sífellt að suða um meira fjármagn hjá eigendum sínum. Ástæður eru fjölmargar og má t.d. nefna dýr mistök vegna útboðs aðkeypts akstur og fleiri dómsmála. Mikil umræða og gagnrýni var á Klapp og gekk það kerfi verulega illa. Nú býður Klapp upp á snertilaus greiðslukort í gegnum síma eftir mikla fyrirhöfn og kostnað. Ennþá berast fréttir af vandamálum með kerfið. Fara hefði mátt mun einfaldari leiðir og það mikið fyrr sbr. sambærileg kerfi í mörgum öðrum borgum. Flokkur fólksins óskaði á sínum tíma eftir að gerð verði óháð úttekt á rekstri og þjónustu strætó. Tillagan var felld. Kvartanir yfir þjónustu Strætó telja mörg hundruð, sumar alvarlegar. Ekki er tekið nægilega vel á kvörtunum. Strætó hefur þjónustustefnu sem kannski er bara orð á blaði? Þegar svo mikið hefur gengið á hjá einu fyrirtæki eru sterkar líkur á að vandinn liggi hjá stjórnendum fyrirtækisins. Einhvers staðar er pottur brotinn og því mikilvægt að fá óháða úttekt á fyrirtækinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á tillögu umhverfis- og skipulagsviðs um lífsgæðakjarna.

Flokkur fólksins lagði til árið 2021 að skipuleggja byggð fyrir eldra fólk víðs vegar í Reykjavík einskonar lífsgæðakjarna. Fjölmargir vilja einmitt að íbúðasvæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þjónustu við eldra fólk og þeirra þarfir. Hugmyndin um lífsgæðakjarna er að byggja upp svæði fyrir eldra fólk þar sem þarfir þeirra og áhugamál eru í forgangi og allt um liggjandi. Á slíku svæði er ekki þörf á skólum og leikskólum. Fyrir liggja samningar um uppbyggingu lífsgæðakjarna, húsnæðisuppbyggingar fyrir eldri borgara með fjölbreyttu framboði af þjónustu í nærumhverfinu, meðal annars á Leirtjörn Vestur. Á Borgarspítalareit vill fulltrúi Flokks fólksins sjá fyrst og fremst kjarna fyrir eldri borgara enda nú þegar komin þar slík byggð sem reynst hefur vel. Þessi staðsetning hentar mjög vel fyrir íbúðabyggð fyrir eldra fólk sbr. það sem fyrir er á Sléttuvegi og nágrenni. Ef framkvæma á hugmynd sem þessa þarf að upplýsa og tala sem fyrst við við þá sem búa á svæðinu. Hönnuðir þurfa að aðlaga sig að þörfum og óskum borgarbúa, þeirra sem þarna er ætlað að búa og hafa notendavæna hönnun að leiðarljósi. Mest um vert er að það sé stutt í alla nærþjónustu og afþreyingarmöguleika.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Umsögn um drög að frumvarpi til laga um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja (gjaldtaka ökutækja, eldsneytis, kolefnisgjald o.fl.) USK24100190

Mikil umræða hefur verið um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja. Flestir borgarbúar aka um á venjulegum léttum fjölskyldubílum sem vega um 1,5 til 2 tonn. Jeppar eru ekki algengir, en þeir vega oft yfir þrjú tonn. Svo má benda á að hvetja ætti til notkunar á léttum farartækjum með því að skattleggja þau minna en þungu bílana. Þetta frumvarp um að sami skattur sé á öllum farartækjum allt að 3,5 tonnum er er ekki gott. Eflaust mætti flokka meira. Sjálfsagt er að taka mark á tillögum frá FÍB. Í umsögn Samgöngustjóra hefðu átt að vera tillögur um undirflokkun. Fyrst að engin tillaga fylgir umsögn, mætti kannski benda á að hægt væri að hafa 2 undirflokka yfir lýstu hámarki eins og bílar undir 2000 kg og svo bílar frá 2000-3500 kg. Stór ökutæki ætti að sjálfsögðu að takmarka á þéttustu svæðum borgarinnar. Einnig má benda á það að bílar eru ekki eini svifryksvaldurinn. Til fleiri þátta þarf að horfa eins og þess umferðaröngþveitis sem hefur verið í veldisvexti undanfarin ár. Einnig hafa verið gerð mistök hvað varðar það að malbikið sé haft of þunnt. Þegar bæði undirlag og malbik eru of þunnt skríður malbikið hreinlega undan þunga bíla með ýmsum afleiðingum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram erindisbréf um stýrihóp um gerð stefnu og áætlunar um gönguvæna borg:

Stýrihópur var myndaður 2024 til að móta sýn um þróun Reykjavíkur fyrir gangandi vegfarendur. Óljóst er hvenær hópurinn á að skila af sér. Mikill skaði er nú þegar orðinn vegna sofandaháttar núverandi meirihluta varðandi öryggismál gangandi og hjólandi farþega í borginni. Í borginni er skortur á viðunandi aðstöðu eins og tilvist göngu- og hjólabrúa eða jafnvel göng undir fjölfarnar umferðaræðar, sem ógna beinlínis öryggi og velferð gangandi vegfarenda. Nýlega varð banaslys við Sæbraut þegar ekið var á gangandi vegfarenda. þrátt fyrir að lengi hafi verið ákall bæði frá íbúum og minnihlutans í borgarstjórn um að bæta öryggi á þessum stað. Bílum fjölgar mánaðarlega um tugi. Mjög mikilvægt er að auka aðgengi og öryggi fólks um borgina og ekki hvað síst fyrir fatlað fólk. Flokkur fólksins hefur lagt til að lýsing við skóla verði bætt en víða er lýsingu ábótavant. Gangstéttir eru víða hættulegar og heppni að ekki hafi orðið fleiri slys á gangandi og hjólandi vegfarendum sem fara um þær. Endurbætur eru allt of oft látnar reka á reiðanum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins um fækkun áramótabrenna 2024.

Flokkur fólksins fagnar því að fækka eigi áramótabrennum. Söfnun í brennur hefur oft gengið brösuglega. Hér er um að ræða stórt umhverfismál og mikill kostnaður er í kringum hverja brennu fyrir sig svo ekki sé minnst á þann sóðaskap og rask sem þessum brennum óhjákvæmilega fylgir. Það hefur borið við ef hvassviðri er á gamlárskvöld að allskonar rusl úr brennu haugum borgarinnar hefur fokið út um víðan völl og hverfin í kring.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. apríl 2024 ásamt kæru nr. 42/2024, dags. 5. apríl 2024, þar sem kærð er ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 15. febrúar sl. og varðar umsókn kæranda þar sem sótt var um leyfi til að gera úrbætur á húsinu Eiríksgötu 19.

Fulltrúi Flokks fólksins lýsir furðu sinni á þeim óvenju mikla fjölda kæra sem hér koma fram en þær eru nú 11 og hafa sjaldan verið svo margar.. Ítrekað hafa komið upp mál þar sem skipulagsyfirvöld eru sökuð um að segja ekki satt – jafnvel “falsa gögn” eða breyta þeim eftir því sem skjólstæðingar umhverfis- og skipulagssviðs hafa sagt á opinberum vettvangi. Allt of oft fást ekki svör, gögnum og upplýsingum er haldið leyndum og hefur verið fullyrt að ekki sé alltaf unnið af heiðarleika og gagnsæi. Þetta er miður og telur Flokkur fólksins að endurreisa þurfi embætti umboðsmanns borgarbúa eins og það var á árunum 2013-2020. Það voru mistök að leggja af embættið. Verkefni umboðsmannsins voru flutt yfir til innri endurskoðunar og búinn til eins konar „ráðgjafi íbúa“ hjá því embætti. Þetta fyrirkomulag hefur virkað illa og nú hefur fólk sem telur á sér brotið af skipulagsyfirvöldum ekki annað fært en að fara með málið fyrir dómstóla sem er bæði dýrt og tímafrekt. Nefna má mál Loftkastalan en eigendur hans telja borgina hafa brotið illilega á sér og hefur málið velkst um í borgarkerfinu í mörg ár. Það er áhyggjuefni að sjá svo mikið af kærum berast og skoða þarf ástæður þess að þeim hafi mögulega fjölgað.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um afgreiðslu byggingarleyfis á Jöfursbás 1 sbr. 25. liður borgarráðs dags. 5. september 2024. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa, dags. 19. september 2024.

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um ástæður þess að búið er að samþykkja uppbyggingu á Jöfursbás 1 án þess að leiðrétting hafi farið fram á gatnagerð þar sem landslagsbreytingar sem gerðar voru uppfylla ekki skilyrði samkvæmt skipulagslögum og reglugerðum. Fátt er um svör annað en sagt að gjörningurinn samræmist lögum… “Umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingarleyfisskyld mannvirki á lóðinni Jöfursbás 1 var samþykkt 27. ágúst sl. (USK24040310) þar sem umsókn samræmist ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010 og er í samræmi við gildandi deiliskipulag.” Þetta samræmist ekki lögum. Í deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir landslagsbreytingu. Brotið hefur verið á eignarrétti sem er friðhelgur og hefur Reykjavíkurborg ekki heimild til að skerða eignir annarra og breyta hæð á lóðarmörkum nema með samþykki lóðarhafa. Reykjavíkurborg ber að afturkalla þessa samþykkt þar til búið er að afmá landslagsbreytingar og hönnun gatna verði í samræmi við deiliskipulag. Það er ekki búið að leiðrétta gatnagerð því landslagsbreytingar sem gerðar voru uppfylla ekki skilyrði samkvæmt skipulagslögum og reglugerðum. Hvað sem þessu líður ætla skipulagsyfirvöld að stækka vandann enn meira. Byggja á fjögur 4-6 hæða fjölbýlishús á bílakjallara með 35 stæðum sem tengist aðliggjandi bílakjallara (Jöfursbás 3). Málið er allt hið vandræðalegasta og er hvergi nærri lokið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: 27. Tillaga íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals um lóða og framkvæmdaskilmála og umgengni á byggingarlóðum sem vísað var til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir tillögu íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals að grípa þurfi til viðeigandi ráðstafana svo að almennir lóða- og framkvæmdaskilmálar vegna uppbyggingar í borgarhlutanum verði virtir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margoft bókað um sóðaskap á og í kringum lóðir sem hefur verið fyrir löngu úthlutað en ekki enn byggt á og er aðeins notað sem geymslustaður fyrir sorp með tilheyrandi sóðaskap og slysahættu. Árið 2023 lagði fulltrúi Flokks fólksins til að gerð verði úttekt á þróun Úlfarsárdals. Þetta var lagt til vegna fjölmargra kvartana sem borist hafa og ná yfir breytt svið m.a. um hversu illa gengur að ljúka uppbyggingu hverfisins. Upplýsingar hafa borist um að lóðarhafar láti lóðir standa auðar árum saman og eru þær fullar af t.d. byggingarúrgangi. Talað hefur verið um að lóðir hafa farið á ,,vergang í bönkum” eins og það er orðað frá einum íbúa. Hverfið telst varla nýtt lengur og talið er að yfir 30 lóðir séu óbyggðar eða ólokið. Gert var ráð fyrir 15.000 íbúum í hverfinu og fullri sjálfbærni. Langt er í land að svo megi verða. Enn er ekki komin matvöruverslun í hverfið og til stóð að hverfið ætti að vera blanda af íbúðar- og atvinnuhúsnæði sem heldur ekki bólar á.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga borgarstjórnar um gönguvæna borg –

Stýrihópur var myndaður 2024  til að móta sýn um þróun Reykjavíkur fyrir gangandi vegfarendur. Óljóst er hvenær hópurinn á að skila af sér.. Mikill skaði er nú þegar orðinn vegna sofandaháttar núverandi meirihluta varðandi öryggismál gangandi og hjólandi farþega í borginni.  Í borginni er skortur á viðundandi aðstöðu eins og tilvist göngu- og hjólabrúa eða jafnvel  göng undir fjölfarnar umferðaræðar, sem ógna beinlínis öryggi og velferð gangandi vegfarenda. Nýlega varð banaslys við Sæbraut þegar ekið var á gangandi vegfarenda. þrátt fyrir að lengi hafi verið ákall bæði frá íbúum og minnihlutans í borgarstjórn um að bæta öryggi á þessum stað. Bílum fjölgar mánaðarlega  um tugi.  Mjög mikilvægt er að auka aðgengi og öryggi fólks um borgina og ekki hvað síst fyrir fatlað fólk. Flokkur fólksins hefur lagt til að lýsing við skóla verði bætt en víða er lýsingu ábótavant. Gangstéttir eru víða hættulegar og heppni að ekki hafi orðið fleiri slys á gangandi og hjólandi vegfarendum sem fara um þær. Endurbætur eru allt of oft látnar reka á reiðanum.

 

Sundin – Breyting á deiliskipulagi – Dyngjuvegur 18, Leikskólinn Sunnuborg – USK24060431
FRESTAÐ

Bókun Flokks fólksins sem fór ekki í fundargerð

Eitt og annað í þessu máli Sunnuborgar fer fyrir brjóstið á fólki og má nefna hvort ekki hefði átt að leggja fyrst fram frumdrög að teikningum svo nágrannar geti betur tekið afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar? Eins og staðan er í dag, þá er inngangurinn að leikskólanum við Laugarásveg en engin stæði, ekki einu sinni sleppistæði. Þess vegna myndast alltaf umferðarteppur þegar foreldrar reyna að leggja annað hvort á Laugarásvegi sjálfum eða hálf uppi á gangstéttinni við Laugarásveg. Mörgum spurningum er ósvarað. Er t.d. áætlað að rífa aðeins Laugarásveg 77 eða einnig að rífa Dyngjuveg 18 áður en uppbygging hefst? Mun uppbyggingin ekki auka bílastæðaþörf á svæðinu enn frekar? Þetta ætti að kanna nánar áður en endanlegt fyrirkomulag bílastæða er ákveðið. Eða stendur til að breyta Sunnutorgi í bílastæði fyrir leikskólann ef fyrirætlanir um endurbyggingu Sunnutorgs renna út í sandinn? Áhyggjur eru af því að leikskólinn verði „sprunginn“ um leið og endurbótum lýkur? Það virðist ekki vera nein leið til að uppfylla bílastæðaþörfina (31 stæði) án þess að fjarlægja tímabundnu færanlegu einingarnar þegar framkvæmdum líkur. Ekki gengur að bílastæðaþörfin sé uppfyllt með því að nota bílastæði íbúa í götunum til frambúðar, þótt það sé þolanlegt á meðan endurbótum stendur.  

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um húsnæði leikskólans Laugasól, sbr. 33 liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 16. október 2024. Greinargerð fylgdi fyrirspurn.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24100167

 

Ný mál:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um eignina Bjarnaborg, Hverfisgötu 83 og hver sé staðan á henni í ljósi þess að eignin virðist  liggja undir skemmdum. Hefur eignin fengið nýja eigendur?

Hver er áætlun um eignina til skemmri og lengri tíma? Hér er um merka byggingu sögulega séð að ræða og það kemur borgarbúum við hvernig höndlað er með slíka byggingu.

Greinargerð

Húsið hefur verið í góðu ástandi hjá síðasta eiganda sem endurbyggði húsið á árunum 1987-1990 í  að því Flokkur fólksins skilst í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg og eftir endurhönnun Guðrúnar Jónsdóttir og Knúts Jeppesen arkitekta. Húsið hefur verið í sölu núna í langan tíma. Sárast er að sjá ástand þessa húss og hvernig það er að grotna niður. Óskað er upplýsinga um stöðu mála.