Umhverfis- og skipulagsráð 7. febrúar 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram til upplýsinga, verklagsreglur um fyrirspurnir og tillögur í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar. MSS23090170

Flokkur fólksins var með athugasemdir við tillöguna sem sneru að 3. gr. þar sem fram kom að ekki mætti hafa lengur formála að fyrirspurnum. Flokki fólksins finnst það ómögulegt enda er stundum nauðsynlegt að hafa nokkur orð um af hverju verið er að leggja fram ákveðna fyrirspurn. Mikilvægt er að hafa sveigjanleika en ekki njörva niður hvert einasta atriði. Með því að loka fyrir möguleika á stuttum útskýringum með fyrirspurnum eða tillögum er ekki verið að einfalda neitt. Rök meirihlutans eru veikburða og er vísað til skýrleika. Stuttur formáli er einmitt liður í að gera fyrirspurn skýra og kalla varla á miklar tafir á afgreiðslu málsins eins og meirihlutinn fullyrðir. Ef horft er sérstaklega til umhverfis- og skipulagsráð eru reglur um verklag mála ekki alltaf í samræmi við sambærilegar reglur í öðrum málum. Í umhverfis- og skipulagsráði er meiri ferköntun ef svo má að orði komast. Bókanir eru frekar ritskoðaðar og jafnvel er minnihlutafulltrúum meinað að bóka þar sem það er leyft í öðrum ráðum. Dæmi um þetta er að minnihlutafulltrúum er bannað að bóka við mál sem er framvísað en slíkt bann á ekki við í öðrum ráðum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á skýrslu um félagslegt landslag í Reykjavík:

Þessi skýrsla staðfestir að ójöfnuður og fátækt hefur aukist í Reykjavík. Um 100 manns eru heimilislausir. Þetta sýna einnig nýlegar niðurstöður Gallup. Um 14% landsmanna áttu að eigin sögn ekki fyrir jólahaldinu og eru það 5% fleiri en árið áður. Hér er um ungt fólks að ræða, barnafjölskyldur. Staðan er misjöfn eftir hverfum. Aðskilnaður í búsetu hátekjufólks og lágtekjufólks hefur þannig aukist innan Reykjavíkur. Í Efra Breiðholti, Fellahverfi sem dæmi, búa langflestir innflytjendur og fólk sem glímir við erfiðan fjárhag, fátækt fólk. Þessi þróun hófst fyrir mörgum árum. Félagsleg blöndun mistókst í þessum hverfum. Til stóð hjá síðasta meirihluta að blanda saman húsnæði og atvinnumöguleikum. Það hefur ekki tekist sem skyldi. Langt er á milli heimilis og atvinnu hjá flestum sem skapar mikla umferð í borginni. Ef borið er niður í skýrsluna þá eru fimm hverfi sem standa verr hvað varðar lágtekjuhlutföll eða vægi hópa sem búa við auknar líkur á fátækt. Lágtekjuhlutföllin eru hæst í skólahverfum Austur- og Vesturbæjarskóla en Fellaskólahverfi, Hólabrekkuskólahverfi, Breiðholts- skólahverfi eru með há hlutföll barna með lögheimili hjá einstæðum foreldrum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á ársskýrslu byggingarfulltrúa 2023:

Í ársskýrslunni er það staðfest að ekki nóg hafi verið byggt síðustu ár. Mest var byggt 2018 þegar bygging hófst á 1.417 nýjum íbúðum. Verulegur samdráttur er í útgáfu byggingarleyfa síðustu ár. Fæst voru byggingarleyfin árið 2023 og hafa þau ekki verið færri síðan 2013. Þetta staðfestir að ekki hefur verið nægjanlega vel haldið á spilunum þegar kemur að byggingu nýrra íbúða. Þetta staðfestir einnig að mikill íbúðaskortur er fyrirsjáanlegur á næstunni. Fjölbýlishús eru ríkjandi og sýnt er að aðferðin, að fólk geti byggi sjálft yfir sig er hverfandi. Þar með hverfur einn þáttur úr kerfinu sem gat haldið niðri fasteignaverði. Nú ráða verktakafyrirtæki verði á húsum. Mikilvægt er að lóðarhafar undirgangist skilyrði um að byggja á lóðum innan ákveðins tíma ella skili þeim. Því miður hafa einhverjir lóðareigendur litið á lóðirnar sem fjárfestingu og eina takmark þeirra er að bíða þar til þeir fá hærra verð fyrir lóðina. Slíkt atferli gengur ekki nú þegar svo erfitt árar á húsnæðismarkaði auk þess að ekki gengur að líta á lóðir sem einhvers konar fjárfestingarvöru því það fer beint út í verðlag íbúða og veldur miklum kostnaði í samfélaginu. Uppbyggingu húsnæðis verður að taka alvarlega í þessum mikla húsnæðisskorti sem nú ríkir í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á áætluðum framkvæmdum við Hlemm 2024:

Mikil vinna er eftir með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa við Hlemm. Bílar munu verða bannaðir á þessu svæði í óþökk margra. Íbúar við Hlemm hafa átt erfitt með að finna bílum sínum stað yfir nóttina. Flokkur fólksins lagði til fyrir skemmstu að íbúar geti fengið að nota bílastæði fyrir enda lögreglustöðvarinnar, Rauðarárstígmegin utan vinnutíma á meðan á framkvæmdum stendur enda standa þau stæði ella auð. Þetta var áður leyft. Hér gætu skipulagsyfirvöld beitt sér. Ef hægt er liðka fyrir íbúum ætti að sjálfsögðu að gera það. Öll hönnun miðar við borgarlínu sem nú liggur fyrir að mun tefjast um nokkur ár. Í kringum þetta svæði eru fáar stórar matvöruverslanir og hafa íbúar við Hlemm kvartað yfir að geta ekki ekið matvælum sínum og stærri vörum upp að híbýlum sínum. Flokki fólksins finnst of lítið tillit tekið til íbúa í nágrenninu og einnig er þeim sem óska eftir að koma akandi gert mjög erfitt fyrir. Óttast er að afar einsleitur hópur mun sækja þennan blett, kannski helst ferðamenn. Áhyggjur eru af kostnaði við þessa framkvæmd. Svolítið er eins og ekkert sé til sparað sem ekki er skynsamlegt ef horft er á fjárhagsstöðu borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar þar sem lagt er til að umhverfis- og samgönguráð samþykki eftirfarandi breytingar á strætóstöðvum í nágrenni Hlemms:

Skipulagsyfirvöld leggja til tímabundna endastöð Strætó við Skúlagötu vegna flutnings frá Hlemmi. Legið hefur fyrir að finna þurfi nýjan stað fyrir endastöð strætisvagna í staðinn fyrir núverandi endastöð og skiptistöð við Hlemm. Fyrirliggjandi staðsetning við Skúlagötu mun hafa ónæði í för með sér fyrir nærliggjandi íbúa. Óheppilegt er að mikil óvissa ríki um hversu lengi umrædd endastöð muni vera við Skúlagötu. Hér gætu verið um nokkur ár að ræða eða þar til fyrsti áfangi borgarlínu er kominn í gagnið. Fjöldi athugasemda hefur borist, einna helst er bent á óæskilega staðsetningu fyrir strætóstöð í íbúðahverfi og nálægð við svefnherbergi íbúa. Mikil umferð strætisvagna með hljóð og loftmengun hlýtur að teljast ógn við heilsu og friðhelgi íbúa. Bílastæðið sé einnig fullnýtt alla daga. Æskilegra væri að finna annan stað fjær íbúðabyggð, til dæmis vestasta hluta Miðbakkans. Flokkur fólksins tekur undir þetta. Mótvægisaðgerðir mega sín lítils því erfitt er t.d. að koma upp frekari hljóðvörnum umfram þær sem eru í dag án þess að ganga á útsýni íbúa til norðurs. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki duga að hafa samráð aðeins með því að auglýsa tillöguna heldur væri nær að hafa íbúafund og hlusta á það sem fólkið segir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram fundargerð frá fundi stjórnar Reykjanesfólkvangs, dags. 22. janúar 2024:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst vanta rökstuðning fyrir af hverju Reykjavík vill segja sig úr Reykjanesfólkvanginum. Það er svo sem kannski engin ástæða fyrir Reykjavík að taka þátt í þessu samstarfi þar sem fólkvangurinn er fjarri Reykjavík en Reykjanesfólkvangur er á sunnanverðum Reykjanesskaga, nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 7 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 12. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 31. janúar 2024 um ítrekun á umsögn um tillögu sem var vísað 13. desember 2023

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa. USK24010344

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 13. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 31. janúar 2024 um mál 2 í fundargerð skipulagsfulltrúa frá 11. janúar 2024.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa. USK24010345

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 14. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 31. janúar 2024 um útistandandi mál Flokks fólksins hjá umhverfis- og skipulagsráði.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK24010346

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um áhrif á fjárfesta nú þegar flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvaða áhrif það er líklegt til að hafa á fjárfesta sem hyggjast byggja Nýja Skerjafjörð nú þegar vitað er að flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni. Einnig er spurt um hvaða áhrif þetta hafi á kaupendur íbúða ef þeir vita að þeir þurfi að búa “ofan í flugvelli“ til framtíðar? Nú liggur fyrir að Reykjavíkurflugvöllur mun verða áfram á sínum stað næstu áratugi samkvæmt orðum samgönguráðherra, vegna óvissu um hvort Hvassahraun verði nokkurn tíma örugg staðsetning fyrir nýjan flugvöll vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga. USK24020056

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um málefni Gufuness:

Hvers vegna fór Reykjavíkurborg í landslagshækkun í Gufunesi? Lóðarhafi við Gufunesveg 34 telur að ekki sé búið að tryggja aðkomu að núverandi húsum við Gufunesveg 34, á sama tíma og tryggða hafi verið aðkoma að öðrum húsum á svæðinu. Er þetta rétt og ef svo er brýtur það ekki gegn eignarétti og jafnaðarreglu? Af hverju lagði lögfræðingur skipulagsins fram til úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála bréf þess efnis að búið væri að tryggja aðkomu? USK24020065

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Fulltrúa Flokks fólksins hafa borist ýmsar spurningar frá íbúum í Gufunes sem óskað er eftir að berist formleg svör við. Fulltrúi Flokks fólksins telur það vera skyldu sína sem borgarfulltrúa. Hvernig stendur á því að Reykjavíkurborg hefur ítrekað frestað kynningum á 2. áfanga Gufuness? Er það rétt að stækka eigi kvikmyndaþorp á kostnað 400 íbúða uppbyggingu? Hefur verið ákveðið að víkja frá verðlaunatillögu vegna Gufuness? Hvernig stendur á því að Reykjavíkurborg hefur ekki samband við aðila í Gufunesi áður en farið er í að grafa upp rafmagnsstrengi? Í mörgum málum er samráð ekki neitt að mati íbúa Gufuness og er því spurt af hverju samráð er ekki meira en raun ber vitni? Einnig er spurt hvernig stendur á því að tilkynningar barst aðeins þremur klukkutímum áður en hús er gert rafmagnslaus í Gufunesi. Eitt hús, Loftkastalinn, var skilinn eftir rafmagnslaus í 19 tíma, einmitt þegar 15 nemendur í meistaranámi í kvikmyndagerð í Listaháskóla íslands voru að taka upp í Loftkastalanum. Er rétt að gerður hafi verið bráðabirgðavegur fyrir einn aðila í Gufunesi og ef svo hver er skýringin á því? USK24020066