Umhverfis- og skipulagsráð 7. júní 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Kynning á göngugötum Reykjavíkur 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp undir þessum lið hvernig samráði hafi verið háttað. Allir muna án efa hversu erfitt sambærilegt mál var mörgum t.d. fjölda hagaðila við ákvörðun um að gera göngugötur á Laugavegi og Skólavörðustíg. Einnig er nú spurning um kostnað í ljósi slæmrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Hvað kostar svona aðgerð? Á mynd er þetta sannarlega glæsilegt en auðvitað ekki brýnt einmitt núna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Viljayfirlýsing að nýsköpunar- og frumkvöðlasetur rísi á lóðum B og E á svæði Vísindagarða Háskóla Íslandsbyggt á fyrirmynd og hugmyndafræði Grósku hugmyndahúss.

Flokkur fólksins fagnar þessari viljayfirlýsingu sem er um að greiða götu fólks til að þróa hugmyndir sínar. Skoða þarf að hafa leigu þannig að þeir sem hafa minna milli handanna fái einnig tækifæri til að fá vinnuaðstöðu, hvor sem það eru einyrkjar eða hópar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga Arkþing/Nordic f.h. umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. júní 2022, er varðar breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis á Kjalarnesi.

Vinna við hverfisskipulag Kjalarness er ekki hafin sem er slæmt. Í þeim tillögum sem hér koma fram er verið að auka fjölbreytileika lóða og sagt er að verið sé að koma á auknu jafnvægi á íbúðabyggð á svæðinu. Í stað þess að á svæðinu verði í framtíðinni einsleit byggð er mikilvægt að brjóta hana upp með skipulagi heildstæðs hverfis með fjölbreyttri og blandaðri byggð. En það sem vantar hér að mati fulltrúa Flokks fólksins er að reyna að koma á jafnvægi milli íbúafjölda og atvinnutækifæra. Engin ástæða er til að gera þetta hverfi að ,,svefnbæ” með tilheyrandi akstri til borgarinnar að morgni og til Kjalarnes síðdegis. Flokkur fólksins telur að það sé mikilvægt að við uppbyggingu hverfa þá sé lögð áhersla á hverfisskipulag, þar sem allir mannlegir þættir séu teknir með.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Góða hirðinn, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 31. maí 2023.

Vísað til umsagnar Sorpu bs. USK23050326

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stiga í Breiðholti, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 31. maí 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23050327

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um mjólkurfernur sem fara í brennslu:

Í ljósi umræðu um endurvinnslu mjólkurferna sem sögð er vera endurunnin sem er ekki rétt, heldur fer hún í brennslu. Í ljósi þessara upplýsinga óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir svörum við eftirfarandi spurningum: Hver er hlutdeild Sorpu í útflutningi á mjólkurfernum til brennslu? Fram hefur komið að ef fernur fara með pappírsbagga til endurvinnslu þá fæst mun minna verð fyrir pappírsbaggann. Hvert er áætlað tap Sorpu í þessum tilfellum? Neytendur stóðu í þeirri trú að fernur færu í endurvinnslu og hafa neytendur upp til hópa skilað þeim hreinum til Sorpu. Eftir að komið er í ljós að þær eru ekki endurunnar, spyr Flokkur fólksins hvort og þá hvernig Sorpa geti endurunnið traust almennings? USK23060072

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um rauða dregilinn:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um kostnað við dregilinn og fleira það sem til stendur að gera til skrauts á göngugötum í sumar.