You are currently viewing Vatns­enda­hvarf klofið með Arnar­nes­vegi – stór­felld land­níðsla

Vatns­enda­hvarf klofið með Arnar­nes­vegi – stór­felld land­níðsla

Á­formað er að leggja Arnar­nes­veg vestan í Vatns­enda­hvarfi, sem yrði 1,3 km langur þjóð­vegur í þétt­býli. Hann var sam­þykktur á sam­göngu­á­ætlun fyrir 2021 og á­ætlaður kostnaður sam­kvæmt sam­göngu­á­ætlun er 1.500 milljónir. Á­ætlanir fyrir veginn byggja á um­hverfis­mati frá 2003, en síðan þá hafa for­sendur breyst veru­lega. Meðal annars er byggð í kringum veginn mun meiri, um­ferð hefur aukist og á­herslur í um­hverfis­málum hafa breyst. Þessi hluti Arnar­nes­vegar, sem upp­haf­lega var hugsaður sem ofan­byggðar­vegur þegar hann var settur á skipu­lag fyrir 40 árum, mun koma til með að skera í tvennt náttúru­legt úti­vistar- og út­sýnis­svæði, sem mikið er nýtt af í­búum borgar og ná­grennis. Allt fyrir­hugað vegar­stæði er þakið fjöl­breyttum gróðri og er ár­legt varp­lendi fugla­tegunda eins og lóu, hrossa­gauka og spóa. Vegurinn mun koma til með að breyta á­sýnd og nota­gildi þessa dýr­mæta græna svæðis til fram­búðar.

Nýjustu á­ætlanir vegna vegarins sýna að kostnaður við veginn hefur þegar nær tvö­faldast, það er í tæpa þrjá milljarða, og mun hann skerða fyrir­hugaðan Vetrar­garð sem er á nýju hverfis­skipu­lagi fyrir Breið­holt. Ekki er komin endan­leg sátt um legu vegarins og gatna­mót. Það er þó ljóst að for­sendur fyrir upp­runa­legu um­hverfis­mati eru brostnar og nauð­syn­legt, og lögum sam­kvæmt, að fram fari nýtt um­hverfis­mat þar sem fyrra mat er nær 18 ára gamalt.

Á­ætluð um­ferð um Arnar­nes­veg var endur­metin allt að 20.000 bif­reiðar á dag árið 2013, sem er langt um­fram upp­haf lega á­ætlun frá um­hverfis­mati 2003 sem var 9.000 –15.000 bif­reiðar. Rútur og þunga­bif­reiðar munu stytta sér leið í gegnum Arnar­nes­veginn til og frá Reykja­nesi sem þýðir stór­aukna um­ferð í mikilli ná­lægð við einn fjöl­mennasta skóla höfuð­borgar­svæðisins. Þó svo að mót­mæli gegn veginum hafi einna helst komið frá í­búum Breið­holts síðustu ára­tugi, þá eru án efa fjöl­margir for­eldrar barna í Sala­skóla sem eru á móti þessari stór­auknu um­ferð í gegnum hverfið.

Talað hefur verið um mikil­vægi vegarins til að bæta við­bragðs­tíma lög­reglu og slökkvi­liðs í efri byggðum Kópa­vogs. Í nýju hverfis­skipu­lagi Breið­holts koma fram á­ætlanir um að opna um­ferð inn í Kópa­vog úr Jaðar­seli fyrir strætis­vagna. Er þá ekki sá mögu­leiki fyrir hendi að leyfa um­ferð slökkvi-, sjúkra­flutninga- og lög­reglu­bif­reiða þar í gegn? Sem myndi þá leysa þetta vanda­mál án þessa gríðar­lega kostnaðar fyrir skatt­greið­endur og náttúru.

Það sem einnig þarf að hafa í huga er að Breið­holts­brautin er þegar sprungin um­ferðar­æð. Nú á að bæta við, eða færa til, um­ferð allt að 20.000 bif­reiða inn á Breið­holts­brautina í gegnum þennan nýja kafla af Arnar­nes­vegi. Er hér ekki bara verið að reyna að leysa vanda­mál með því að færa þau annað? For­maður skipu­lags­ráðs sagði ný­lega „að það sé löngu kominn tími á það að meta kol­efnislosun af öllum fram­kvæmdum á sam­göngu­á­ætlun og for­gangs­raða þeim sem draga mest úr losun fyrst“. Arnar­nes­vegur er um­ferðar­aukandi stofn­braut sem mun koma til með að út­rýma stórum hluta af náttúru­legu grænu svæði, auka há­vaða, um­ferðar­hættu og mengun. Það er mjög ó­lík­legt að vegurinn verði til þess að draga úr kol­efnislosun og erfitt að sjá á­stæður þess að for­gangs­raða honum á undan öðrum sam­göngu­verk­efnum.

Það þarf al­gjöra endur­skoðun á lagningu Arnar­nes­vegar og skoða af al­vöru aðrar lausnir til að leysa um­ferðar­vanda Kópa­vogs. Lausnir sem eru í sam­ræmi við nú­verandi stefnu borgar og ríkis í um­hverfis­málum. Vatns­enda­hvarfið er dýr­mætt úti­vistar­svæði á við Elliða­ár­dalinn og Öskju­hlíðina og þarf að vera metið sem slíkt.

Greinin er unnin í sam­ráði við Vini Vatns­enda­hvarfs.