Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram stöðuskýrsla stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, dags. 1. febrúar 2022, ásamt uppfærðu erindisbréfi, dags. 1. febrúar 2023:
Gott að sjá að margt hefur verið gert í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jákvætt að allar 34 aðgerðirnar séu komnar í ferli og 14 aðgerðum lokið. Í stöðumati kemur fram að stefnt sé að því að heimilislaus einstaklingur dvelji ekki lengur í neyðarskýlum en í 3 mánuði að meðaltali. Það vekur athygli fulltrúa Flokks fólksins að fjöldi þeirra sem nýta skýlin lengur en þrjá mánuði hefur aukist milli áranna 2020 og 2021.Fjöldinn var 34 einstaklingar árið 2020 en fjölgaði 48 einstaklinga árið 2021. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um hvort enn sé fjölgun í þessum hópi og hvernig hægt sé að sporna gegn þessari þróun. Stefnt er að því að börnum sem búa við ótryggar húsnæðisaðstæður, og foreldrar sem eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, hafi fækkað um 50% árið 2025. Samkvæmt stöðumati þá hefur staðan versnað til muna því árið 2020 var fjöldi barna 201 og fjöldi barnafjölskyldna 110. Árið 2022 var fjöldinn kominn í 411 börn og fjöldi barnafjölskyldna 206. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af þessari þróun og vill að þessi þróun verði skoðuð sérstaklega.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram svohljóðandi tillögur stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, dags. 1. febrúar 2023:
Flokki fólksins líst vel á tillögur stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Mikilvægt er að eiga viðræður við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um samstarf í málefnum heimilislausra. Flokkur fólksins fagnar sérstaklega fimmtu tillögu hópsins þar sem lagt er til að velferðarsviði verði falið að leita liðsinnis Eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar með að finna húsnæði sem mögulega gæti hentað sem hjúkrunarrými fyrir einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Flokkur fólksins hvetur velferðarsvið að koma þessum tillögum fljótt og vel í framkvæmd því við megum ekki vanrækja þarfir þessara viðkvæmu einstaklinga.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 1 febrúar 2023, um fjármögnun neyðarhúsnæðis fyrir heimilislausa karlmenn:
Lagt er til að breyting verði gerð á fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2023 vegna reksturs neyðarhúsnæðis fyrir heimilislausa karla sem dvalið hafa í langan tíma í neyðarskýlum borgarinnar. Tilfærsla fjárheimilda verður á milli þjónustuþátta. Áætlunin gerir ráð fyrir 155 m.kr. á ári og mun fjárheimildin taka mið af fjölda mánaða í rekstri. Flokkur fólksins fagnar því að loks hafi fundist fjármunir í þetta mikilvæga verkefni með því að forgangsraða í þágu þessa viðkvæma hóps. Tillagan er búin að vera á bið alltof lengi en tillagan var upphaflega lögð fram 14. september 2022.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram endurskoðuð viðbragðsáætlun neyðarstjórnar velferðarsviðs vegna veðurs í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar:
Hér er verið að endurskoða viðbragðsáætlun neyðarskýla vegna veðurs. Það er gott og gilt að slík viðbragðsáætlun þurfi endurskoðunar við en best væri að til þess þyrfti ekki að koma. Það þyrfti ekki viðbragðsáætlun ef borgin hefði opið skjól fyrir heimilislausa allan sólarhringinn yfir vetrartímann þegar mestu vetrarhörkurnar eru hvað líklegastar. Það er algjörlega ólíðandi að okkar minnstu bræður og systur þurfi að hírast úti í vetrarhörkum. Flokkur fólksins hefur lagt til að opnað verði nýtt skjól sem opið er allan sólarhringinn ef ekki er hægt að hafa neyðarskýlin opin. Fordæmi eru fyrir slíku athvarfi víða erlendis. Rými þar sem heimilislausir geta komið inn þegar þeim hentar til að hvílast og borða. Flokkur fólksins getur aldrei samþykkt að fólk sé rekið út yfir vetrartímann þegar ekkert annað skjól bíður þeirra.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 1. febrúar 2023, um niðurfellingu reglna um styrki til áfangaheimila, ásamt minnisblaði um styrki til áfangaheimila, dags. 11. janúar 2023:
Lagt er til að reglur Reykjavíkurborgar um styrki til áfangaheimila verði lagðar niður. Flokkur fólksins minnir á skeyti sem allir borgarfulltrúar fengu nýlega frá Draumasetrinu. Þar er óskað enn og aftur eftir svörum við spurningum Draumasetursins um hvort stuðningurinn verði tekinn af Draumasetrinu og hvernig fyrirkomulagið verður í kringum þann gjörning. Í skeyti þessu er lýst mikilli óvissu um framhaldið og er það án efa hjá fleiri áfangaheimilum sem þessi breyting snertir. Óvissan er ekki aðeins fyrir rekstraraðila heldur einnig íbúa. Vel kann að vera að þessar reglur séu komnar til ára sinna en það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að vita ekki hvað tekur við eða bíður þeirra sem treysta á úrræði af þessu tagi.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fulltrúa Flokks fólksins um að notkun leigubíla fyrir starfsfólk velferðarsviðs verði eingöngu í undantekningartilfellum, sbr. 6. lið fundargerðar velferðarráðs 21. desember 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 1. febrúar 2023.
Það er ekki framhjá því litið að leigubílakostnaður velferðarsviðs er óþarflega hár. Í umsögn kemur fram að starfsmönnum velferðarsviðs hafi nýlega boðist að nýta aðra ferðamáta . Í því felst að nýta strætó eða leigja rafmagnshlaupahjól frá Hopp í stað þess að nota leigubíla. Flokkur fólksins fagnar þessari viðhorfsbreytingu. Samkvæmt umsögn þá er helsta ástæða fyrir því að starfsmenn taki leigubíla sú að starfsmenn þurfa að sækja vaktir áður en strætó hefur göngu. Jafnframt er tekið fram að það sé réttur starfsfólks samkvæmt kjarasamningi að taka leigubíl í útköllum. Flokkur fólksins hefur skilning á því að í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að taka leigubíl og ávallt verður að viðurkenna kjarasamninga. Flokki fólksins finnst hins vegar mjög sérkennilegt að sérfræðingar sem veita skólaþjónustu og eða starfsmenn sem þurfa að sækja fundi milli staða á vinnutíma þurfi að nota leigubíla. Þarna væri hægt að spara með því notast við vistvæna deilibíla. Nú er hart í ári og er þetta eitt af því sem má klárlega draga úr þótt þetta teljist kannski ekki háar upphæðir í stóra samhenginu. Tillagan felld.
Tillagan í heild:
Leigubílanotkun er afar misjöfn eftir sviðum. Ef tekið er árið 2020 (fyrir COVID) er velferðarsvið hástökkvari í leigubílanotkun með 35.171.154 kr. Af þessu má draga þá ályktun að velferðarsvið hlýtur að verða að fara að skoða hvort ekki sé hægt að taka færri leigubíla. Finna þarf aðrar leiðir til að koma starfsfólki milli staða í þeim tilfellum sem þess þarf, öðruvísi en að notast við rándýran ferðamáta eins og leigubíla. Meirihlutinn í borgarstjórnar hefur linnulaust hvatt borgarbúa til að hjóla eða taka strætó og slíkt ætti allt eins að eiga við borgarstarfsmenn.
Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um skipun starfshóps um úttekt á búsetuhögum öryrkja og búsetuúrræðum í Reykjavík, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs frá 11. janúar 2023.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar þá er staða öryrkja á leigumarkaði mjög erfið. Öryrkjar eiga almennt erfitt með að fá leigt húsnæði á almennum markaði og þeir greiða allt of stóran hluta tekna sinna í leigukostnað. Eingöngu 58% öryrkja búa í eigin húsnæði samanborið við 74% allra fullorðinna á Íslandi. 29 prósent öryrkja eru á leigumarkaði en 13 prósent allra fullorðinna hér á landi. Öryrkjar eru tvöfalt líklegri en aðrir til að hafa miklar áhyggjur af húsnæðiskostnaði. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum telur Flokkur fólksins brýnt að láta gera úttekt á búsetuhögum öryrkja og búsetuúrræðum sem þeim standa til boða í Reykjavík. Tillagan er felld sem er miður því það þarf svo sannarlega að bæta stöðu öryrkja á húsnæðismarkaði.
Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Tillagan með greinagerð:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðarráð/svið beiti sér fyrir að skipaður verði starfshópur til að gera úttekt á búsetuhögum öryrkja og búsetuúrræðum í Reykjavík. Óskað er eftir því að lögð verði áhersla á þá aðila sem eru á leigumarkaði með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir ÖBÍ.
Greinargerð
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði rannsókn á húsnæðismálum fatlaðs fólks fyrir ÖBÍ réttindasamtök og var skýrsla með niðurstöðum hennar kynnt 17. nóvember 2022. Þær leiddu í ljós að 58% öryrkja búa í eigin húsnæði samanborið við 74% allra fullorðinna. 29 prósent öryrkja eru á leigumarkaði en 13 prósent allra fullorðinna hér á landi. Öryrkjar á leigumarkaði sögðu almennt erfitt að fá leigt húsnæði á almennum markaði og sögðust greiða stóran hluta tekna sinna í í rekstur húsnæðisins. Alls sögðust 12% greiða meira en 75% útborgaðra launa en 25% greiða á milli 51% og 75%. Þá reyndust öryrkjar tvöfalt líklegri en aðrir til að hafa miklar áhyggjur af húsnæðiskostnaði, eða 38% samanborið við 19%. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum er brýnt að láta gera úttekt á búsetuhögum öryrkja og búsetuúrræðum sem þeim standa til boða í Reykjavík og leggja þá úttekt til grundvallar við stefnumótun og ákvarðanatöku í húsnæðismálum borgarbúa.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs frá 11. janúar 2023.
Flokks fólksins lagði til að stofnað verði sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga út notkun geðlyfja. Tillögunni vísað frá Flokki fólksins finnst að það þurfi að gera betur í að huga að andlegri vellíðan eldra fólks. Það er ekki nóg að auka eingöngu velferðartækni. Reykjavík sem sveitarfélaga á langt í land með að veita eldra fólki viðunandi þjónustu Þessi málaflokkur hefur ekki verið í forgangi. Það gerist sennilega oftar en margur vill vita að eldri fólk gefst upp á að vera heima og þá ekki vegna þess að það getur það ekki eða vill heldur vegna þess að það er einmana og einangrað. Eldri borgarar eiga ekki allir fjölskyldu. Þessi hópur er einnig sá sem minnst er tæknivæddur og nýta því ekki velferðartækni. Auk þess kemur ekkert í staðinn fyrir samtalið og nærveruna. Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna mun betur saman í að sinna þessum málaflokki í stað þess að benda stöðugt hver á annan. Reykjavíkurborg þarf að ganga fram með góðu fordæmi og þrýsta á að gert verði betur. Eldra fólk hefur ekki endalausan biðtíma og þetta er ekki hópurinn sem hrópar hæst nema síður sé.
Tillagan ásamt greinargerð
Flokkur fólksins leggur til að sérstaklega sé gert könnun á hvar skóinn kreppir í heimaþjónustu og aðstoð við eldra fólk sem býr heima. Margir af þeim hópi búa einir. Hvað varðar viðbótarþjónustuþætti þá á eldra fólk oft erfitt með ákveðnar hreyfingar þegar árin færast yfir. Það eru hreyfingar sem verk sem kallar á að bogra eða teygja sig upp. Verkefni eins og að setja í þvottavél, taka úr þvottavél og setja í þurrkara eða hengja upp geta reynst sumu eldra fólki erfið. Einnig að skipta á rúmi eða sjá um flokkun sorps og koma sorpi út úr húsi t.d. um hávetur. Lagt er til að eftirfarandi þætti verð skoðaðir sérstaklega. Flokka sorp og koma sorpi út úr húsi, taka úr þvottavél og hengja upp þvott, skipta á rúmi
Greinargerð
Allt kallar þetta á ákveðna hreyfigetu sem aldrað fólk sem vill búa eins lengi heima getur kannski ekki. Þessari þjónustu verður velferðarsvið að koma á laggirnar án vandkvæða. Aðstæður eldri borgara sem búa heima eru mismunandi. Sumir eldri borgarar sem búa einir eiga ekki ættingja eða vini sem þeir geta leitað til eftir aðstoð með þætti sem þjónusta velferðarsviðs býður ekki upp á.
Hvað varðar sálfélagslegt úrræði þá hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins áhyggjur af einmannaleika hjá þessum hópi. Þessi hópur er einnig sennilega sá sem minnst er tæknivæddur og ekki allir nota þá velferðartækni sem er þó í boði. Kanna þarf með þennan hóp núna en ekki bíða eftir að aðgerðarplan Lýðræðisstefnu komi í virkni. Einnig er bent á að fólkið sjálft er kannski ekki að leita eftir meiri stuðning. Það eru margir á þessum aldri sem vilja ekki láta hafa mikið fyrir sér, vilja ekki gera neinar kröfur og láta sig frekar hafa einmanaleika. Finna þarf þá sem þarfnast félagsskapar og sálfélagslegs stuðnings og koma til þeirra með tilboð um hvoru tveggja eftir atvikum.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands og sitja hjá við
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 1. febrúar 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð velferðarsviðs við tillögum sem lagðar voru fram í borgarráði um endurskoðun ákvarðana um lokun Vinjar, Traðar og Stígs, sbr. 4. lið fundargerðar velferðarráðs frá 21. desember 2022. VEL22120100.
Flokkur fólksins fagnar því að meirihlutinn hafi séð að sér og hætt við að loka Vin en þykir á sama tíma leiðinlegt hvað málið hefur valdið gestum Vinjar miklum kvíða og að ekki hafi tekist að eyða allri óvissu um framhaldið. Flokkur fólksins leggur áherslu á að engar breytingar verði gerðar á starfsemi Vinjar nema með fullri aðkomu notenda þjónustunnar. Skipaður hefur verið starfshópur vegna starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar. Skoða á hvort betra sé að þjónusta þennan markhóp í samstarfi við fagfólk félagsmiðstöðva. Flokkur fólksins telur að með því að leggja niður þessar unglingasmiðjur sé verið að höggva gróflega í viðkvæma þjónustu. Á þessum stöðum er starfrækt mikilvæg þjónusta við okkar allra viðkvæmustu unglinga. Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð hafa tekið á móti unglingum sem hafa orðið fyrir einelti, sýna einkenni kvíða og þunglyndis og eru með slaka sjálfsmynd. Starfsemi smiðjanna hefur verið ómetanleg fyrir þennan hóp unglinga. Flokkur fólksins hvetur meirihlutann til að sjá að sér varðandi breytingar á starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar eins og hann gerði varðandi Vin. Flokkur fólksins telur að hér sé verið að taka mikla áhættu þar sem það er ekki öruggt að félagsmiðstöðvarnar nái að anna þessu ásamt öllum öðrum verkefnum.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að koma upp deilibílakerfi til að spara í leigubílakostnaði:
Flokkur fólksins leggur til að skoðað verði að koma upp deilibílakerfi með vistvænum bifreiðum á miðstöðvum Reykjavíkurborgar. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af háum leigubílakostnaði á velferðarsviði og vill leita lausna svo það sé hægt að forgangsraða fjármálum sviðsins betur. Í umsögn frá velferðarsviði kemur fram að kostnaður vegna leigubílaferða starfsmanna er meðal annars vegna ráðgjafa sem fara í vitjanir, auk sálfræðinga og annarra sérfræðinga sem veita skólaþjónustu. Einnig vegna starfsmanna sem sækja þurfa fundi eða þurfa að ferðast á milli staða á vinnutíma.Hægt væri að hafa til umráða litla vistvæna rafmagnsbíla á hverri miðstöð sem starfsfólk miðstöðvanna gæti deilt. Flokkur fólksins telur að þarna sé sóknarfæri í að gera betur bæði hvað varðar að nýta vistvænan ferðamáta og jafnframt að spara kostnað vegna leigubíla.
Frestað.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort enn sé fjölgun í hópi heimilislausra sem nýta gistiskýlin lengur en þrjá mánuði og hvað sé nákvæmlega verið að gera til að sporna við henni?:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvort enn sé fjölgun í hópi heimilislausra sem nýta gistiskýlin lengur en þrjá mánuði og hvað sé nákvæmlega verið að gera til að sporna við henni? Í stöðumati stýrihóps um stöðu heimilislausra kemur fram að stefnt sé að því að heimilislaus einstaklingur með miklar og flóknar þjónustuþarfir dvelji ekki lengur í neyðarskýlum en í 3 mánuði að meðaltali. Það vekur athygli fulltrúa Flokks fólksins að fjöldi þeirra sem nýta skýlin lengur en þrjá mánuði hefur aukist milli áranna 2020 og 2021. Fjöldinn var 34 einstaklingar árið 2020 en fjölgaði í 48 einstaklinga árið 2021. Hefur þessi þróun haldið áfram 2022 eða hefur þróunin færst til betri vega?
Frestað