Bókun Flokks fólksins við kynningu á samningi við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks:
Flokkur fólksins fagnar því að loks hafi náðst samningur milli ríkis og sveitarfélaga um samræmda móttöku flóttamanna. Markmið samningsins er að samræma móttöku flóttafólks þannig að ríki og sveitarfélög tryggi flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur. Með samræmdu móttökukerfi flóttafólks er stefnt að því markmiði að tryggja flóttafólki nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að það fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem það er á vinnumarkaði, vegna menntunar eða á öðrum sviðum. Það er ljóst að mikið hefur mætt á þjónustufulltrúum og ráðgjöfum í miðstöðvum borgarinnar og það hefur verið sérstakt áhyggjuefni vegna erfiðs ástand á leigumarkaði. Það er því sérlega ánægjulegt að sjá að ráðuneytið ætli að axla ábyrgð með sveitarfélögunum á því að útvega húsnæði og annast leigu á hentugu húsnæði sem ríkið framleigir til sveitarfélaga. Fulltrúi Flokks fólksins tók eftir tveimur breytingum frá fyrri samningi sem eru jákvæðar. Í fyrsta lagi að nú á að að greiða sérstaklega fyrir hvert barn í samræmdri móttöku en ekki eingöngu eitt gjald fyrir barnafjölskyldur óháð fjölda barna. Í öðru lagi að sérstakur samningur sé gerður vegna skólagöngu barna. Flokkur fólksins fagnar þessum breytingum því ekki veitir af að hlúa vel að skólagöngu barna.
Bókun Flokks fólksins við kynningu á Virknihúsi velferðarsviðs:
Árið 2020 var skipaður stýrihópur um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk. Fulltrúi Flokks fólksins átti sæti í þeim hópi sem var um það bil að skila af sér þegar einn fulltrúi meirihlutans stöðvaði ferlið. Nú er stofnaður nýr hópur. Fulltrúa Flokks fólksins þótti þetta miður og var aldrei upplýstur um ástæðu þess að hópurinn fékk ekki að kynna niðurstöður sínar. Hópurinn 2020 var byggður á tillögu Flokks fólksins frá 2019, sennilega þeirri einu sem fékk hlustun að heitið geti á síðasta kjörtímabili. Tillagan hljóðaði svo: Lagt er til að Reykjavíkurborg skoði nýjar leiðir með því að beita nýsköpun við uppsetningu og þróun félagsmiðstöðva í þjónustu við aldraða. Flestar þær félagsmiðstöðvar sem nú eru starfræktar í borginni eru með svipuðu sniði og þjóna sínum tilgangi. Því hefur þó verið fleygt fram að karlmenn sæki þær síður en konur. Hafa ber í huga að þeir sem nú eru aldraðir eru með annars konar reynslu en eldri borgarar fyrir 20-30 árum. Flokkur fólksins leggur til að settur verði á laggirnar stýrihópur sem skoði að beita aðferðum nýsköpunar við þróun nýrra þjónustuleiða og afþreyingar fyrir eldri borgara Reykjavíkur og leiti leiða til að veita notendum meiri lífsfyllingu og ánægju á efri árum.
Bókun Flokks fólksins við kynningu á rekstri velferðarsviðs:
Sviðið er langt yfir áætlunum. Flokkur fólksins hefur komið rekstri sviðsins til varnar þegar fjármálasvið borgarinnar er að höggva í það. Vissulega fær sviðið stóran bita af kökunni og það er eðlilegt. Reykjavík er sveitarfélag og velferðarsvið hefur lögbundna þjónustu og aðra þjónustu sem er fólki nauðsynleg. Óvænt stór verkefni hafa komið inn á borð velferðarsviðs og þarf að sýna því skilning. Sviðinu er gert að hagræða eins og önnur svið. Sviðið þarf að fara vel með fjármagn. Áður hefur Flokkur fólksins nefnt óheyrilegan kostnað sem fer í leigubíla. Hér þarf að staldra við. Í einhverjum tilfellum er nauðsynlegt að taka leigubíl, um það er ekki deilt. Leigubílanotkun er afar misjöfn eftir sviðum. Ef tekið er árið 2020 (fyrir COVID) er velferðarsvið hástökkvari í leigubílanotkun með 35.171.154 kr. Af þessu má draga þá ályktun að velferðarsvið hlýtur að verða að fara að skoða hvort ekki sé hægt að taka færri leigubíla. Leigubíl á einfaldlega aðeins að nota í undantekningartilvikum. 2048 börn bíða nú eftir þjónustu, mest sálfræðiþjónustu. Í þetta þarf fjármagn og þarf reksturinn að taka mið af þessu. Sálfræðingar eru enn staðsettir á þjónustumiðstöðvum og nokkrar milljónir árlega fara í að flytja þá milli skóla og þjónustumiðstöðvar.
Bókun Flokks fólksins við svari og afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um aukningu á framboði á foreldranámskeiðum og góðum ráðum til foreldra, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs frá 5. október 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 16. nóvember 2022.:
Málinu var frestað
Flokkur fólksins vill bregðast við auknum tilfinningalegum vanda barna og ungmenna sem m.a. hefur komið fram í ársskýrslu velferðarsviðs. Flokkur fólksins lagði því til að velferðarsvið styddi foreldra í uppeldishlutverkinu. Lagt var til að auka framboð af foreldranámskeiðum og jafnframt lagður til sá möguleiki gefa út bækling með góðum ráðum til foreldra um fjölgun samverustunda með börnum sínum og takmörkun á notkun snjalltækja. Í umsögn er tekið undir með fulltrúa Flokks fólksins að ástæða sé til að bregðast við þeim vanda sem nú virðist blasa við íslenskum ungmennum. Í umsögn kemur jafnframt fram að skipaður hafi verið starfshópur um mótun forvarnaráætlunar á grundvelli lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar en í hópnum eru, auk fulltrúa velferðarsviðs sem leiðir hópinn, fulltrúar frá skóla- og frístundasviði, Vinnuskólanum og mannauðs- og starfsumhverfissviði. Samkvæmt upplýsingum frá hópnum þá mun hópurinn fjalla um með hvaða hætti og hvernig miðla þurfi hinum ýmsu upplýsingum til barna og foreldra þeirra. Bæklingar þurfa t.d. ekki endilega að reynast besta leiðin til að koma upplýsingum á framfæri. Fulltrúi Flokks fólksins er sammála að það geta verið margar leiðir til að koma uppbyggilegum upplýsingum á framfæri. Aðalatriðið er að það verði brugðist við og komið með góðar tillögur sem fyrst.
Bókun Flokks fólksins við svari og afgreiðslu fyrirspurnar um þróun stöðugilda hjá sálfræðingum og öðrum fagaðilum sem veita þjónustu í grunnskólum Reykjavíkur, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 21. september 2022:
Það er ótrúlegt að stöðugildum sálfræðinga hefur nánast ekkert fjölgað. Það var sú tíð að hægt var með auðveldum hætti að ráða sálfræðinga. Hugsanlega var ekki nóg af þeim en allavega voru þeir fleiri. Núna er sannarlega skortur og þarf að skoða launamál sálfræðinga til að laða þá til starfa til borgarinnar. Umfram allt að koma sálfræðingum á vettvang þannig að vinnustaður þeirra séu skólarnir. Í umsögn kemur fram að árið 2008 voru stöðugildi sálfræðinga, kennsluráðgjafa og sérkennsluráðgjafa alls 38,35 en eru 40,9 í dag og hefur því fjölgað um 2,55 (sálfræðingar). Nú bíða 2048 börn eftir þjónustu og langflest þeirra eftir sálfræðingum.
Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar Flokks fólksins um sundurliðun tilvísana til skólaþjónustu, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs frá 14. september 2022:
Ljóst er að það hefur orðið mikil aukning í beiðnum til fagfólks skólaþjónustu og er það í samræmi við skýrslur frá landlækni og fleirum um vaxandi vanlíðan barna. Sú aukning var hafin áður en Covid skall á en jókst með tilkomu pestarinnar. Í svari sést að mesta aukningin er á þeim erindum sem flokkast í forgangsflokk 2 (ung börn og grunnskólabörn með alvarleg þroskafrávik í kjölfar forathugana). Fulltrúi Flokks fólksins veltir upp skýringum við þessu t.d. hefur forathugunum fjölgað? Fækkun er á talningum mála í flokki 3 (hegðunar- og tilfinningavandi) sem líklega má rekja til skertrar skólagöngu 2020 og 2021 vegna Covid. Í svarinu er birt ákveðin túlkun á aukningu beiðna sem er sögð “jákvæð þróun þar sem aðgengi hefur aukist”. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það geti varla verið því lítil sem engin fjölgun stöðugilda fagfólks hefur t.d. orðið s.l. 15 ár þrátt fyrir gríðarlega fjölgun nemenda og barna af erlendu bergi brotin. Biðtími hefur skv. svari lengst gríðarlega. Nú bíða samkvæmt tölfræðiupplýsingum 2048 börn eftir faglegri aðstoð skólaþjónustu. Flokkur fólksins ásamt fulltrúa frá Framsókn og Pírötum hafa óskað eftir að fá að leggja lið, koma með hugmyndir til lausna því betur sjá augu en auga.