Velferðarráð 21. júní 2023

 Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs. Ekki er gert ráð fyrir að tillagan leiði til aukins kostnaðar.

Hér eru lagðar til breytingar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks sem lúta að því að skýra meðferð og afgreiðslu umsókna ásamt því að hraða afgreiðslu umsóknanna. Fulltrúar Flokks fólksins og sósíalista telja jákvætt að verið sé að flýta umsóknarferlinu. Gott er að tekið hafi verið tillit til umsagnar ÖBÍ og aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks. Fulltrúarnir hafa áhyggjur af því að komið geti til lækkunar styrkja ef margar umsóknar berast, nægar skerðingar er um að ræða hjá þessum hópi. Fylgjast þarf með fjölda umsókna og tryggja að fjárhæðir sem eru veittar í styrkjapottinn séu nægar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á árangursmælingum velferðarsviðs:

Gaman er að sjá hér fyrstu árangursmælingar. Jákvætt hvað verið er fá skoðanir frá breiðum hópi starfsmanna og þjónustuþega og gott að heyra að eldri borgarar eru viljugir að taka þátt í netkönnunum. Flokkur fólksins fagnar því sérstaklega að nú eigi að tala við foreldra barna á biðlistum eftir skólaþjónustu. Heyra á í foreldrum hvernig staða barnanna er og hvort þau fái aðra þjónustu og/eða stuðning á biðtíma. Gott er að það var talað við Börnin í Klettabæ. Fulltrúi Flokks fólksins lýsir ánægju með að tala eigi við í foreldra sem hafa nýtt sér uppeldisnámskeið en Flokkur fólksins hefur einmitt kallað eftir þessum árangursmælingum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um könnun meðal foreldra barna á biðlista eftir sérfræðiaðstoð grunnskóla, sbr. 9. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. febrúar 2023:

Vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Flokkur fólksins lagði til að gerð yrði könnun meðal foreldra barna sem eru á biðlista eftir sérfræðiþjónustu grunnskóla. Tillögunni er vísað frá á grundvelli þess að samkvæmt áætlun um árangursmælingar á velferðarsviði er áætlað að heyra í foreldrum barna á biðlistum eftir skólaþjónustu í haust. Heyra á í foreldrum hvernig staða barnanna er og hvort þau fái aðra þjónustu og/eða stuðning á biðtíma. Flokkur fólksins fagnar því að loksins eigi að hafa samband við foreldra og vonandi verður engin bið á því. Það er verið að leika sér að eldi með því að láta börn bíða eftir nauðsynlegri þjónustu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks vegna breytinga á fyrirkomulagi varðandi akstursþjónustu fatlaðs fólks, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs:

Flokkur fólksins styður breytingartillögu ráðsins um að velferðarsvið kanni hve margir notendur akstursþjónustunnar eiga börn á aldri sem ætla megi að noti enn barnabílstóla. Sviðið kanni auk þess hvernig þessum málum sé hagað hjá nágrannaþjóðum og löndum sem við berum okkur saman við. Einnig er lagt til að velferðarsvið gangi til samtals við Pant og önnur sveitarfélög sem eru aðilar að akstursþjónustusamningi við Pant til að kanna hvort hægt sé að bjóða fólki upp á aðgengi að barnabílstólum í ferðum fyrirtækisins þannig að notendur geti með fyrirvara óskað eftir barnabílstól fyrir hverja ferð sem pöntuð er og hver kostnaðurinn við það er. Þá er lagt til að krafa um aðgengi að bílstólum verði með í næsta útboði um akstursþjónustu. Óskað er eftir því að velferðarráð sé upplýst um þróun mála.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga Sósíalistaflokks Íslands um kynningu á skýrslu samtaka leigjenda, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 26. apríl 2023. Felld með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

Flokkur fólksins styður tillögu sósíalista um að velferðarráð fái kynningu á skýrslu samtaka leigjenda. Skýrslan ber heitið Staðreyndir um íslenskan leigumarkað. Það er mjög mikilvægt að einmitt velferðarráð kynni sér stöðuna á leigumarkaðnum. Það er öllum ljóst að leigumarkaðurinn á Íslandi er snargalinn. Á leigumarkaði eru 45 þúsund heimili. Húsaleiga hækkaði meira en allt annað á síðasta ári.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 21. júní 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölda mála þar sem foreldrar tilkynna sig sjálfa til Barnaverndar Reykjavíkur, sbr. 23. lið fundargerðar velferðarráðs frá 24. maí 2023:

Flokkur fólksins óskaði eftir upplýsingum um fjölgun þeirra mála sem eru tilkynnt til Barnaverndar af foreldrum sjálfum þar sem þeir tilkynna sig og barn sitt. Óskað er eftir upplýsingum um fjölda þessara mála sl. 6 ár. Einnig er óskað upplýsinga hvað mörg þessara mála voru metin að þyrfti að fara í könnun og hvað mörg af þeim urðu barnaverndarmál í kjölfarið. Ef horft er til þess þáttar sem fulltrúi Flokks fólksins átti von á fjölgun í, þ.e. að forsjárforeldri tilkynni sjálft sig og barn vegna ráðaleysis og vöntunar á þjónustu þá hefur sannarlega orðið þar heilmikil fjölgun. Tilfelli voru árið 2017, 279 en eru árið 2022, 337 tilkynningar. Í ljósi þess að um 2500 börn bíða eftir faglegri aðstoð hjá skólaþjónustu þá kemur þessi fjölgun ekki á óvart. Tilkynningum forsjárlausra foreldra hefur hins vegar fækkað frá 2017. Forsjárforeldrar eru í auknum mæli að leita til barnaverndarkerfisins eftir aðstoð þar sem hún fæst seint annars staðar. Ef ekki verður tekið á löngum biðlista í skólaþjónustunni munu æ fleiri foreldrar barnanna á biðlistanum einfaldlega leita beint til barnaverndar. Ef sú þróun verður mun barnaverndarkerfið fljótt gefa undan. Nú þegar er verið að kalla eftir auknu fjármagni og fleiri stöðugildum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 21. júní 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um skilgreiningar í drögum að reglum um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs frá 7. júní 2023:

Flokkur fólksins hefur þær upplýsingar að hagsmunasamtök eru ekki sátt við skilgreiningar í drögum að reglum um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks. Hvernig er tekið á þeirri staðreynd að fatlað fólk er ekki allt með örorkumat? Í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi þjónustuþarfir er þess hvergi getið að fólk sem falli undir lögin sé með örorkumat og þ.a.l. hafi til þess bært örorkuskírteini. Eins og fram kemur í svari þá veita lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður hverju sinni, hvers konar þjónustu þau veita fötluðu fólki í samræmi við markmið laganna sem koma fram í 1. gr. þeirra og hvernig aðgengi fatlaðs fólks að þeirri þjónustu skuli tryggt. Reykjavík hefur svigrúm sem hægt er að nýta mun betur en gert er. Túlkunin er fötluðu fólki í óhag. Komi upp tilvik þar sem einstaklingur er ekki með örorkumat en telst fatlaður í skilningi laganna og fær synjun á umsókn sinni þá er ávallt hægt að leita með slík mál til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hefur heimildir til að veita undanþágu frá reglunum. Er afgreiðsla ekki oftast umsækjendum í óhag. 

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 21. júní 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um fátækt barna, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs 19. janúar 2023.

Hér er verið að spyrja um fjölda barna sem búa við fátækt í Reykjavík og fjölda barna sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum. Flokkur fólksins telur afar mikilvægt að fá þessar upplýsingar sem skýrast fram eins og kostur er. Samkvæmt nýlegri könnun Gallup kom fram að það er erfiðara nú en áður að ná endum saman í Reykjavík. Hlutfall þeirra sem ekki ná endum saman fjárhagslega hefur ekki verið jafn hátt hérlendis og síðan fyrir sjö árum. Af þessu má álykta að fleiri börn búi nú við fátækt en áður. Flokkur fólksins leggur því til að borgin móti stefnu með aðgerðaráætlun um hvernig hægt sé að útrýma fátækt en engin slík stefna er til.