Velferðarráð 21. nóvember 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á skýrslu um skóla- og fjölskyldumiðstöð fyrir fólk frá Gaza. 

Fulltrúar Flokks fólksins í borgarstjórn eru afar ánægðir með hvernig þetta verkefni hefur gengið. Hér er um óvenjulegar aðstæður að ræða og sérlega viðkvæmar. Fyrir Reykjavíkurborg er þetta mikil reynsla og margt á eftir að þróast frekar. Verkefnið er flókið ekki síst vegna þess að væntanlega og vonandi munu einhverjar fjölskyldur geta snúið heim að stríðinu loknu og þess vegna ber að standa vörð um og hlúa að menningu þessa hóps. Samhliða þarf að kynna gildi og menningu íslensks samfélags. Það skiptir miklu máli að bæði foreldrar og börn hafa lýst yfir mikilli ánægju með utanumhald verkefnisins. Tekið er undir að úrræði eins og þetta er brýnt til þess að stuðla að farsælli byrjun í íslensku samfélagi.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 18. nóvember 2024, um félagslegt mat í reglum um sérstakan húsnæðisstuðning og leiguverð Félagsbústaða

Fulltrúa Flokks fólksins finnst athyglisvert svar það sem velferðarráði barst um hvaða afleiðingar það hefði ef félagslegt mat væri tekið út og að sérstakur  húsnæðisstuðningur byggi eingöngu á hlutlægum tekju- og eignaviðmiðum. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þá myndi verða nokkur fjölgun í hópi þeirra sem þiggja sérstakan húsnæðisstuðning ef ekki er byggt á  félagslegu mati heldur eingöngu miðað við tekju- og eignaviðmið. Farið var í slíkar aðgerðir í Kópavogi og Skagafirði til að einfalda kerfið og þar varð nokkur fjölgun á umsóknum. Einnig bárust velferðarráði upplýsingar um samanburð á leigufjárhæð Félagsbústaða, annarra sveitarfélaga og óhagnaðardrifinna félaga. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstaklega athyglisvert að sjá að óhagnaðardrifin leigufélög í Reykjavík og Mosfellsbæ eru með lægra leiguverð en Félagsbústaðir. Það væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar eða samanburð á milli Félagsbústaða og óhagnaðardrifinna leigufélaga. Hvað í rekstrinum gerir þeim kleift að hafa lægri leigu en Félagsbústaðir? Það kemur hins vegar ekki á óvart að alls staðar er gríðarlegur munur á leigu á almennum markaði borið saman við óhagnaðardrifin leigufélög.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram drög að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025-2027. 

Fyrir liggja ný drög að aðgerðaráætlun gegn ofbeldi og eru þau lögð fram til kynningar. Það virðist ekki vera búið að kostnaðarmeta aðgerðaráætlunina. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að greint verði hvaða aðgerðir í áætluninni séu að skila góðum árangri ef forgangsraða þarf fjármunum. Einnig er  mikilvægt á þessu stigi að vita hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir eru nú í gangi gegn frekari ofbeldisþróun og hverjar af þeim er talið að hafi skilað árangri og hverjar ekki? Brýnast nú er að greiða aðgang foreldra að fagfólki borgarinnar/skólanna. Fjölga þarf fræðslunámskeiðum og sérstaklega þeim sem styðja foreldra í foreldrahlutverkinu. Fræða þarf foreldra um mikilvægi tengslamyndunar og samtala við börn sín. Þetta er sérstaklega mikilvægt nú á dögum aukinnar notkunar síma og samfélagsmiðla. Í framlagðri  aðgerðaráætlun er mikil áhersla á heimilisofbeldi sem er af hinu góða. Hafa þarf þó í huga að þótt heimilisofbeldi sé vissulega áhættuþáttur í að barn þrói með sér djúpstæða vanlíðan eru engin línuleg tengsl milli þess að alast upp við ofbeldi og beita ofbeldi. Þetta eru sannarlega drög og viðbrögð frá sviðunum eiga eftir að berast og má þá vænta að aukin ofbeldismenning meðal ungmenna og vaxandi vanlíðan ungs fólks verði ávarpað.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagður fram að nýju 5. liður fundargerðar velferðarráðs frá 18. september 2024, kynning á stöðu biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, sem bókað var um í trúnaðarbók velferðarráðs.

Fram fer kynning á stöðu biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk. Á biðlistanum í júlí 2024 eru 226 einstaklingar. Einnig kemur fram að nú í september 2024 verður send út persónuleg áætlun til allra sem eru á bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk. Þar verða einstaklingar upplýstir um að sú áætlun sem þeir fengu árið 2023 muni ekki standast og eru allir að fá tilkynningu um 2 til 4 ára seinkun á því hvenær gera megi ráð fyrir að einstaklingar fái úthlutað húsnæði. Þetta finnst fulltrúa Flokks fólksins slæmar fréttir. Nú hefur Flokkur fólksins verið í borgarstjórn í eitt og hálft kjörtímabil og ekki sér högg á vatni á biðlistatölum fatlaðra einstaklinga eftir húsnæði. Þessi hópur er sífellt látinn mæta afgangi. Það er ekki byggt nóg, ekki gert ráð fyrir fjölgun í þessum hópi, aðeins horft á toppinn á ísjakanum. Á meðan er fjármagni streymt í alls konar aðra hluti, milljarðar í framkvæmdir sem engin brýn nauðsyn er á.

Nýtt mál

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig túlkaþjónustu og ráðningum túlka er háttað á velferðarsviði? Tala allir túlkar íslensku sem velferðarsvið ræður til að túlka? Hvaða aðrar kröfur eru gerðar til menntunar, færni og þjálfunar túlka sem ráðnir eru til að túlka fyrir velferðarsvið og undirskrifstofur hennar? Eru allir túlkar með löggildingu sem túlkar? Eru einhverjir túlkar ómenntaðir?

Greinagerð

Borið hefur á því að túlkar  valdi starfi sínu misvel. Sumir tala enga íslensku og tala jafnvel málið sem þeir eru að túlka ekki vel. Dæmi eru um að ekki sé verið að túlka nákvæmlega það sem á að túlka og hafa skapast ýmis vandamál vegna þess. Það ætti að vera algjört skilyrði að aðeins menntaðir túlkar séu ráðnir til starfa. Sé ekki völ á menntuðum túlkum verður að koma á einhvers konar mats- og viðurkenningakerfi túlka, til að meta hæfi þeirra og getu til túlkunar á t.d. tilteknum sviðum á líkan hátt og gert er í Danmörku. Þannig væri betur hægt að tryggja hæfa túlka á hverju sviði, ef ekki er völ á menntuðum túlkum, og haga túlka pöntunum eftir eðli máls hverju sinni. Vísað er í  Skýrslu um túlkaþjónustu til innflytjenda, frá Velferðarráðuneytinu 2011