Velferðarráð 22. júní 2022

Bókun Flokks fólksins við kynningu á stefnu velferðarsviðs um velferðartækni 2022-2026:

Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar við velferðartækni til að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með markvissum og hagkvæmum hætti. Flestar þeirra lausna sem hér um ræðir eru án efa nú þegar til í einhverri mynd, t.d. hjá öðrum sveitarfélögum, ríki og erlendis og þarf því varla að eyða miklum tíma í uppgötvunarfasa og prófanir, umfram það sem þarf til aðlögunar tæknilausna og annarra nýjunga varðandi lagaumhverfi á Íslandi og annað.
Stefna velferðarsviðs um velferðartækni er metnaðarfull og mun án efa stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum ef allt gengur upp sem skyldi.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um flutning á aðsetri skólasálfræðinga út í skólanna nú þegar:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að nú þegar flytjist aðsetur skólasálfræðinga út í skóla sem geta tekið við þeim og hafa rými, borð og stól til reiðu. Flestir skólar hafa kallað eftir þessu lengi. Flokkur fólksins hefur barist fyrir því allt kjörtímabilið að sálfræðingum verði fjölgað og að sálfræðingar hafi aðsetur út í skólum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Að sálfræðingar hafi aðsetur á þjónustumiðstöðvum frekar en úti í skólum er bæði óhagkvæmt og hvorki í þágu barna né kennara. Kostnaður vegna ferða sálfræðinga er um þrjár milljónir á ári. Skólasálfræðingar eiga að starfa þar sem viðfang og verkefni þeirra eru, þar sem þeir geta verið til taks og sinnt ráðgjöf samhliða viðtölum og greiningum. Því er ekkert að vanbúnaði að taka strax ákvörðun um að sálfræðingar flytji aðstöðu sína út í þá skóla sem hafa rými, borð og stól fyrir skólasálfræðinginn. Enginn kostnaður hlýst þar af og gæti flutningurinn átt sér stað nú þegar. Ef horft er á þetta raunsætt vekur það kannski ekki svo mikla furðu hvað illa gengur að vinna niður biðlista barna til sálfræðinga. Nú bíða um 2.011 börn eftir þjónustu en biðlistinn var um 400 börn árið 2018. Hér er því um brýnt forgangsmál að ræða.

Greinargerð

Víða hefur verið kallað eftir því að sálfræðiþjónusta færist nær börnum og ungmennum. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur, frá því í febrúar á þessu ári, kallaði eftir betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í öllum grunnskólum Reykjavíkur. Þar kom fram að andleg líðan unglinga fari versnandi á milli ára og að aðgengi að sálfræðiþjónustu væri ekki nægilega gott. Erfitt geti verið að leita sér aðstoðar og langur biðlisti væri eftir þjónustu skólasálfræðinga borgarinnar. Fyrir hönd unglinga í Reykjavík var óskað eftir því að sálfræðingar yrðu með aðsetur í öllum grunnskólum borgarinnar til að auðvelda aðgengi að þeim

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um að fá á dagskrá öll óafgreidd mál Flokks fólksins framlögð í velferðarráði á síðasta kjörtímabili:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að öll óafgreidd mál Flokks fólksins frá síðasta kjörtímabili, tillögur sem og fyrirspurnir komi til afgreiðslu hið fyrsta, nú þegar nýtt kjörtímabil er hafið. Allt of oft hafa mál verið orðin eldgömul og jafnvel margra ára gömul, þegar þau loks eru afgreidd í ráðinu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um Rökkvatjörn 3, vegna skorts á almenningsrými í íbúðakjarnanum:

Nýlega flutti fatlað fólk inn í nýjan íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 en flestir íbúanna eru að fara að heiman í fyrsta sinn. Íbúarnir þurfa mikla aðstoð við flesta hluti og verkefnin sem hvíla á starfsfólki eru margvísleg.  Komið hefur í ljós að stór galli er á húsinu en þar er ekkert sameiginlegt rými þar sem íbúar geta komið saman, borðað saman og horft saman á viðburði í sjónvarpi. Foreldrar óttast að börn þeirra einangrist í íbúðum sínum, ekki síst ef þau hafa ekki færni til að kalla eftir aðstoð eða félagsskap. Mörg þeirra hafa kvartað yfir einmanaleika og öryggisleysi við að vera ein. Hvers vegna mátti ekki vera sameiginlegt rými í nýjum íbúðakjarna fyrir fatlaða? Var ekki haft samráð við foreldra við hönnun, skipulag og útfærslu íbúðakjarnans? Stendur til að finna á þessu lausn? Það hlýtur að vera hagur allra, bæði íbúa og starfsmanna að íbúarnir geti átt stundir saman í sameiginlegu rými. Ef horft er t.d. á íbúakjarna fyrir stúdenta, þá er gert ráð fyrir sameiginlegu rými og þar er um að ræða fólk sem hefur mun meiri möguleika á að vera í samskiptum við annað fólk en íbúarnir við Rökkvatjörn.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um ráðningar sálfræðinga:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr um ráðningar sálfræðinga til að vinna niður biðlista hjá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Skortur er á sálfræðingum í sálfræðistörf víða. Ástæða þess er án efa m.a. launamál. Því miður bar síðasta samninganefnd borgarinnar ekki gæfu til að meta störf sálfræðinga að verðleikum og lagði sig frekar fram um að klípa af þeim réttindi en að bæta laun þeirra og launaumhverfi. Árið 2021 fékk velferðarsvið 140 milljónir til að ráða skólasálfræðinga. Þessi upphæð dugar skammt ef gert er ráð fyrir að hver tími hjá sálfræðingi kosti að meðaltali 20 þúsund og hvert barn þurfi að meðaltali um fimm tíma. Það segir sig sjálft að með þetta fjármagn og 2.011 börn á biðlistanum, sem flest bíða eftir sálfræðiaðstoð, mun varla sjá högg á vatni. Hver er staða ráðningamála sálfræðinga núna hjá borginni?
Hve marga sálfræðingar á að ráða á árinu 2022 til viðbótar við þá sem fyrir eru?
Er verið að leita eftir að fastráða sálfræðinga? Er verið að leita eftir verktökum til að koma inn í skólana og taka ákveðinn málafjölda eða er verið að leita samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðistofur? Óskað er upplýsinga um þessi atriði, hvað hefur verið reynt, hve lengi og hvernig útlitið er framundan?

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort haft hafi verið samband við Sálfræðingafélag Íslands til að fá ráðgjöf og leiðbeiningar til að ráða sálfræðinga:

Óskað er upplýsinga um hvort velferðarsvið hefur sett sig í samband og haft samskipti við Sálfræðingafélag Íslands til að fá liðsinni þess og ráðgjöf, í tengslum við ráðningar á sálfræðingum hjá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Óskað er upplýsinga um hvort ekki hafi komið til greina að breyta grunnröðun launa sálfræðinga eða grípa til annarra úrræða til að laða sálfræðinga til að sækja um stöður skólasálfræðinga. Fordæmi um þetta má sjá hjá Reykjanesbæ. Óskað er upplýsinga um sjálfstætt starfandi sálfræðistofur sem Reykjavíkurborg hefur samið við, hvernig líta þeir samningar út og hver kostnaður er við þá?