Umhverfis- og skipulagsráð 3. maí 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram erindi skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 21. desember 2022, um nýtt deiliskipulag fyrir Norðurströnd, strandsvæði milli Faxagötu og Laugarness:

Skipulagssvæðið er á landfyllingu sem er leitt. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað að það er óásættanlegt að enn sé verið að ganga á fjörur og hér að litlu tilefni sbr þetta; Þá er gert ráð fyrir að lagfæringar fari fram á sjóvarnargarðinum, en í stað þess að garðurinn verði hækkaður, er stefnt á að hann verði breikkaður út í sjó. Þetta er ekki lagfæring heldur misþyrming á strandlengju. Þarna er eins og segir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt fram erindi á íbúaráðs Laugardals, dags. 25. apríl 2023 um umferðaröryggi við göngustíg milli World Class í Laugum og Laugardalsvallar, dags. 25. apríl 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að taka erindi íbúaráðsins alvarlega. Íbúar óttast um öryggi barna og annarra vegna fjölmargra tilfella þar sem gestir World Class hafa ekið gáleysislega t.d. yfir göngustíginn, þrátt fyrir merkingar um að slíkt sé óheimilt. Ekki allir bílstjórar virða merkingar. Keyrt hefur verið utan í fólk og árið 2018 var keyrt á barn á þessum stíg. Fara þarf í frekari aðgerðir. Erindi íbúaráðs Laugardals er ákall um aðgerðir strax. Öryggismál eiga að hafa forgang og taka ber athugasemdir íbúa alvarlega. Að ekið sé á gangandi fólk á göngustíg er ekki boðlegt. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Það þarf að aðgangsstýra þessari leið. Ein hugmynd að setja niðurgrafna staura sem hægt er að stýra upp/niður með fjarstýringu. Það þarf einhverja slíka lausn því að óbreyttu verður þarna alvarlegt slys.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrbætur á hjólreiðabraut á Hverfisgötu, sbr. 41. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. september 2022:

Fram kemur í svörum við lið 6 og 7 að hjólreiðarbrautir munu fá meira vægi í framtíðinni en nú er. Vonandi verður því framfylgt að skynsemi og með eins hagkvæmni og unnt er. En benda má á að enda þótt að hjóla megi á gangstéttum, eins og bent er á í svörum, er betra að vera með sérstakar hjólabrautir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um snjallgangbrautir við grunnskóla, sbr. 12. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022:

Flokki fólksins líst vel á að farið verði í átak við að setja upp snjallgangbrautir við alla grunnskóla í borginni til að auka umferðaröryggi skólabarna. Um er að ræða nýjar tæknilausnir sem skynja þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikja þá LED-götulýsingu, sem sett er upp þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Þá kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð. Flokkur fólksins setur ávallt öryggi borgarbúa í forgang.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umferðaröryggi í Laugardal og Vogabyggð, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 16. nóvember 2022. Einnig lagt fram svar samgöngustjóra dagsett 21. apríl

Fulltrúi Flokks fólksins finnst ekki ásættanlegt hvað svör berast seint við fyrirspurnum hjá skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, stundum svo seint að fyrirspurnin er orðin úrelt. Bæta þarf úr þessu hjá sviðunum enda ekki boðleg stjórnsýsla. Fyrirspurnin laut að umferðaröryggi í Laugardal. Í svari um Reykjaveg segir að samkvæmt leiðbeiningum í handbók um gönguþveranir sem gefin var út í desember 2014 ætti, miðað við talda umferð á Reykjavegi, að vera gangbraut á mikilvægustu gönguleiðum. Þarna er mikil umferð skólabarna á svæðinu þar sem grunnskóli er staðsettur við götuna og svo eru mörg börn á ferð í tengslum við tómstundastarf. Á meðan ástandið er svona þá verður að skoða að ráða gangbrautarvörð. Í máli eins og þessu þar sem allt íbúa- og foreldrasamfélagið hrópar á viðbrögð verða skipulagsyfirvöld að hlusta. Þetta mál þarf að vinnast með fólkinu í hverfinu. Talað er um að skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar geti ekki sagt til um hvort ráða eigi gangbrautarverði því það sé í höndum skólanna. En hvað með að skrifstofan hafi samráð og samvinnu við skóla- og foreldrasamfélagið til að finna leiðir sem tryggja öryggi meðan fundnar eru varanlegar lausnir. Íbúaráðið hefur nú þegar tjáð sig um þetta mál og komið með tillögur til lausna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengi að Hlemmi, sbr. 61. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022 ásamt umsögn samgöngustjóra dagsett 21. apríl 2023:

Spurt var um hvort haft hafi verið samráð við íbúa áður en ákveðið var lokun Rauðarárstígs milli Laugavegar og Bríetartúns. Aðgengi verður stórlega skert. Íbúar sem búa í grennd við Hlemmtorg hafa áhyggjur af því að geta ekki lagt bíl við hús sín til að afferma. Fram kemur í svari að íbúar og eða rekstraraðilar við göngugötu og nærliggjandi götur geta fengið leyfi til tilfallandi aksturs á göngugötu utan vörulosunartíma við sérstakar aðstæður t.a.m. við flutninga eða stærri framkvæmdir. Það er því heimild fyrir íbúa á þessum svæðum að aka um og leggja bílum við sérstakar aðstæður. Þetta er gott svo langt sem það nær. En hvað með hluti eins og að bera inn vistir, fólk með börn sem dæmi, hvernig á fólk að geta gengið langar leiðir með matarpoka og börn eða fólk sem notast við hjálpartæki? Það er kannski svoleiðis hlutir, þessir almennu praktísku hlutir sem Flokki fólksins finnst skipulagsyfirvöld ekki skilja.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreinsun á tjörninni í Reykjavík, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23030291

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um það hver beri ábyrgð á seinkun stafrænnar umbreytingar á umhverfis- og skipulagssviði, sbr. 27. liður fundargerðar, dags. 22. mars 2023.

 

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK23030290

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um niðurrif á Íslandsbankahúsinu, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 12. apríl 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa. USK23040074