Velferðarráð 10. október 2018

Bókun Flokks fólksins vegna kynningar um málefni fatlaðs fólks

Ljóst er að verið er að vinna gott starf á skrifstofu málefna fatlaðs fólks en borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur verulegar áhyggjur af gríðarlega löngum biðlista eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk. Nú bíða 173 einstaklingar eftir búsetuúrræði. Þetta er sérstaklega áhyggjuefni í ljósi þess að ný stuðningsþjónusta er að fara af stað vegna nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Gera má ráð fyrir að það hafi áhrif á þennan biðlista, hvernig áhrif, er ekki ljóst. Vitað er um dæmi þess að einstaklingar með erfiða þroskahömlun sem komin er nær þrítugt eru enn heima hjá foreldrum sínum. Ekki þarf að fjölyrða um hversu erfitt þetta er fyrir alla fjölskylduna og einstaklinginn sjálfan. Uppbyggingaráætlun er í gangi, en er hún nægjanlega metnaðarfull? Einstaklingar hátt í þrítugt og rúmlega það hafa sumir beðið í nokkur ár. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að það sé mjög brýnt að flýta uppbyggingaráætluninni þannig að þessir 173 einstaklingar komist í sjálfstæða búsetu með þann stuðning sem þeir þurfa. Í þessum málflokki á enginn biðlisti að vera.

Svar Velferðarráðs

Bókun við svari fyrirspurnar um skólagöngu barna sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur upplýsingar um að það líði oft langur tími þar til að barn umsækjenda um alþjóðlega vernd komist í leik- og grunnskóla. Þessi mál eru kannski ekki mörg og eru á vegum Útlendingastofnunar. Enda þótt þetta sé kannski ekki á ábyrgð borgarinnar heldur ríkisins er það ábyrg okkar allra að grípa hér inn í. Í þessum dæmum eru foreldrar og börn kannski búin að vera lengi einangruð og einmana. Borgarfulltrúi vill að borgin/teymið hafa frumkvæði að fundi við Útlendingastofnun til að ræða þetta. Hér þarf að hafa hagsmuni barnanna í huga án tillits til hvort það er líklegt að þau fái dvalarleyfi eða ekki. Dæmi eru um hvorutveggja, þe. fjölskyldan sem er hjá borginni fái synjun þegar upp er staðið og fjölskylda hjá Útlendingastofnun fá samþykki.
Öll börn umsækjenda eiga að fá skólagöngu hér á Íslandi á meðan mál þeirra eru í vinnslu. Mikilvægt er að þau geti hafið skólagöngu sem fyrst. Annað stríðir gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Eins og við öll vitum eru flestir umsækjendur um alþjóðlega vernd að koma úr skelfilegum aðstæðum. Því fyrr sem börnin komast í rútinu þar sem þau geta dreift huga sínum, hitt önnur börn og byrjað að upplifa barnæsku, jafnvel í fyrsta sinn, því betra.

Bókun við svari við tillögu Flokks fólksins um aðgengi barna að sálfræðingum, sem vísað var til velferðarráðs á fundi borgarstjórnar 18. september 2018.

Eins og staðan er í dag er langur biðlisti eftir þjónustu skólasálfræðings bæði í forgang 2 og 3. Um er að ræða allt frá 3 mánuðum upp í 9 mánuði, misjafnt eftir hverfum. Borgarfulltrúi veit það fyrir víst vegna starfa hans sem sálfræðingur að fjölmargir foreldrar eru afar ósáttir með slakt aðgengi að skólasálfræðingi fyrir barn sitt. Börnin líða fyrir biðina. Jafnvel þegar búið er að ákveða að nánari greiningar er þörf þá þarf barn að bíða í allt að ár. Vissulega er einhver íhlutun í gangi en það dugar ekki til í öllum tilfellum þegar ekki er nákvæmlega vitað hverjar orsakir eru fyrir vanda og vanlíðan barns sem um ræðir.
Færst hefur í vöxt að foreldrar hafa orðið að leita á stofu út í bæ með barn sitt sem stundum er komið í 8. og 9. bekk. Þá fyrst hefur komið í ljós að barnið á í sumum tilfellum við vitsmunaþroskafrávik t.d. í vinnsluminni. Þegar hér er komið sögu er barnið oft búið að tapa sjálfstrausti og sjálfsöryggi sínu.
Það er skoðun borgarfulltrúans að þjónustumiðstöðvar séu óþarfa millistykki í þessu tilliti og hamli en frekar aðgengi barnanna að sálfræðingunum. Sálfræðingar með aðsetur í skólum að öllu leyti geta vel haldið áfram að vera í þverfaglegu starfi með þjónustumiðstöðvum að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Málinu frestað. Leita á upplýsinga hvað Skóla- og frístundarráð ætlar að gera í málinu.