Velferðarráð 25. maí 2022

Bókun Flokks fólksins við svohljóðandi tillögu sviðsstjóra, dags. 25. maí 2022, um breytingar á Forvarnasjóði Reykjavíkurborgar:

Meirihluti velferðarráðs leggur til að Forvarnarsjóður Reykjavíkurborgar verði hýstur undir formerkjum verkefnisins Betri borg fyrir börn. Þetta er lagt til í ljósi þess að margar rannsóknir sína tengsl erfiðleika í æsku og geðheilsubrests. Í tillögunni eru tekin dæmi um áhrifabreytu eins og Snemmtæka íhlutun og mikilvægi þess að tryggja gott aðgengi að faglegri greiningu og ráðgjöf við börn sem glíma við erfiðleika. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á að snemmtæk íhlutun (ráðgjöf, skimanir og greining sé það mat fagaðila og foreldra að sé nauðsynlegt) getur skipt sköpum í lífi barns um að valið sé fyrir það rétt úrræði og það fái aðstoð við hæfi. Og einmitt vegna þess er það með öllu óásættanlegt að biðlisti barna til fagaðila skóla er í sögulegu hámarki. Nú er tveggja ára bið í þroskamat hjá skólasálfræðingi hjá borginni sem dæmi, í það sem kallast frumgreining. Liggi ekki fyrir slík greining er oft rennt algerlega blint í sjóinn með réttu viðbrögðin og úrræðin fyrir barnið. Tugir barna sem sterkar vísbendingar eru um að glími við ADHD eru á þessum biðlista. Dæmi eru um að börn eru útskrifuð þegar röðin kemur að þeim. Ekki þarf að spyrja um afleiðingarnar.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 25. maí 2022, um viðbrögð við aukinni áskókn í neyðar,- og gistiskýli fyrir karlmenn:

Tillaga er lögð fram af meirihlutanum að samþykkt verði heimild til að ráða í 6,4 stöðugildi til að bæta þriðja starfsmanni á vaktir í neyðarskýlum borgarinnar að Grandagarði 1a og Lindargötu 48, vegna aukinnar ásóknar í skýlin. Þetta er góð tillaga. Flokkur fólksins hefði einnig viljað sjá gerðar breytingar á opnunartíma þessara skýla þannig að þau yrðu opin allan sólarhringinn en skýlin loka yfir daginn. Vonandi kemur fljótlega ákvörðun um það hjá þeim meirihluta sem tekur við. Sumt fólk hefur engan annan samastað, annan en kannski götuna.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að félagslegar aðstæður verði teknar úr matsviðmiði fyrir sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 8. lið fundargerðar velferðarráðs frá 4. maí 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs:

Flokki fólksins finnst þessi tillaga góð og þessleg að ná til þeirra sem eiga ekki rétt á neinum stuðningi en þurfa á honum að halda. Líta má til annarra sveitarfélaga og sjá hvernig þau bera sig að í þessum efnum.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að brugðist verði við breyttum lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2019, ásamt umsögn velferðarsviðs:

Tillaga Flokks fólksins um að brugðist verði við lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar er vísað frá. Tillagan var lögð fram árið 2019. Það er vissulega afar jákvætt að sjá að skerðingar séu á niðurleið, miðað við gögnin í umsögninni. Það er í takt við þá stefnu sem Flokkur fólksins hefur ávallt mælt fyrir, þ.e. að dregið verði úr skerðingum og komið í veg fyrir keðjuverkandi skerðingar. En í þessu máli sjáum við einnig gallana í kerfinu. Hér verður fjöldi fólks fyrir skerðingum, og þó að þær gangi til baka þegar skattframtal liggur fyrir þá lenda margir í erfiðum fjárhagslegum aðstæðum sökum þessa. Borgin verður ásamt ríkinu að finna lausn svo að tryggja megi að hægt sé að uppfæra réttindi fólks í rauntíma, í stað þess að skerða fólk, og greiða svo til baka eftir hálft ár. Þá er tillaga þessi lögð fram, til að bregðast við aðkallandi vanda margra, en tillagan er loks nú að fá umsögn, rúmum tveimur árum eftir að vandinn blasti við. Þessi tillaga var upphaflega lögð fram fyrir komu COVID-19 til landsins. Svo langur málsmeðferðartími er ekki til fyrirmyndar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja til að tillögunni verði vísað frá.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra, dags. 25. maí 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölgun þjónustuþátta í heimaþjónustu, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 4. maí 2022:

Fram kemur í svari að áður en þjónustan hefst er gert mat á stuðningsþörf. Flokkur fólksins bendir á það þörf á stuðningi getur breyst hratt. Sem dæmi getur eldri einstaklingur verið metinn á einhverjum tímapunkti að hann geti farið út með rusl og hengt upp þvott. En það getur breyst í einu vettvangi. Reynslan á mati er að oft líður langt á milli matsins. Helst þyrfti að vera árlegt mat og jafnvel oftar eftir atvikum. Bæði sjón, heyrn og hreyfing breytist árlega eins og gengur. Sumu fólki sem er í þessari aðstöðu er sagt að safna ruslinu fyrir utan hús en það gengur ekki upp þar sem í það safnast mýs, kettir og fuglar sem dreifa úr sorpinu. Það þarf að taka þessi mál og fleiri sambærileg af meiri alvöru. Hér er ekki um eitthvað léttvægt að ræða. Að öðrum kosti er hætta á að þetta virki ekki.