Borgarstjórn 1. mars 2022

Bókun Flokks fólksins við umræðu um málefni Úkraínu:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst ömurlegt til þess að hugsa að það skuli vera hafið stríð í Evrópu. Innrás Rússa í Úkraínu er brot á alþjóðalögum. Vesturlönd eru sem betur fer að beita refsiaðgerðum og sýna Úkraínu stuðning. Þar hefur Ísland ekki verið eftirbátur annarra. Öryggi fólks verður að tryggja eins og nokkur kostur er. Þeir sem líða og fara verst út úr þessu er fólkið – eldra fólk, minnihlutahópar og börnin sem mörg hver bíða þess aldrei bætur að hafa upplifað reynslu af þessu tagi og öll munu þau ekki lifa þetta af. Samúð mín og samkennd er hjá almenningi sem átti sér einskis ills von. Stjórnvöld á Íslandi ætla að standa sína plikt og taka á mót fólki frá Úkraínu. Við verðum að senda skýr skilaboð til Rússlands. Við fordæmum þessa innrás með afdráttarlausum hætti og vonum að refsiaðgerðir bíti. Við eigum að taka þátt í aðgerðum með Evrópusambandinu, með vestrænum lýðræðisríkjum af fullum þunga. Það verður að vera hægt að leysa þetta mál með öðrum hætti en stríðsrekstri, annað er óhugsandi.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að fela skóla- og frístundasviði og velferðarsviði að framkvæma úttekt á hvort samræmdar viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst grunnskólum í Reykjavík til að fylgjast með fjölda þeirra tilvika þar sem nemendur forðast skóla og til að bæta skólasókn:

 

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði og velferðarsviði að framkvæma úttekt á hvort samræmdar viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst grunnskólum í Reykjavík til að fylgjast með fjölda þeirra tilvika þar sem nemendur forðast skóla og til að bæta skólasókn. Vísbendingar eru um að hópur þeirra nemenda sem glíma við þennan vanda fari stækkandi. Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Í kjölfarið var teymi um skólaforðun sett á laggirnar sem lagði m.a. til að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem sýndi „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista. Fulltrúi Flokks fólksins telur að tímabært sé að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur/viðmiðunarkerfið um skólasókn hafi nýst til að fylgjast með fjölda mála er lúta að skólaforðun og til að bæta skólasókn. MSS22030023

Greinargerð fylgir tillögunni.

Frestað eins og öllum öðrum málum

 

Bókun Flokks fólksins undir 8. lið fundargerðar borgarráðs 25. janúar:

Meirihlutinn samþykkir hér hækkun á árgjaldi hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Aðalfundur SSH var haldinn 12. nóvember 2021. Þar var samþykkt að árgjaldið yrði hækkað í 139 kr. á hvern íbúa úr 116 kr. Þetta er nærri 20% hækkun, langt umfram verðbólgu. Hvaða hag hafa borgarbúar af þessu? spyr fulltrúi Flokks fólksins. Hún er einn aðili af sex en borgar langmest. Kemur ekki til greina að taka tillit til stærðarhagkvæmni eins og er gert þegar framlög til borgarinnar eru ákvörðuð? Vegna stærðarhagkvæmni myndi þá hver borgarbúi greiða minna en aðrir. Eiga hin sveitarfélögin að ákveða að borgarbúar greiði háar fjárhæðir í enn ein ólýðræðisleg samtök, að þessu sinni SSH? Þetta er að vísu ekki formlegt byggðasamlag en hefur einkenni þess. Nágrannasveitarfélögin geta tekið ákvörðun eins og þeim sýnist um að borgarbúar borgi brúsann. En að sama skapi hefur Reykjavík hlutfallslega lítið vægi þegar stórar ákvarðanir eru teknar og minnihlutafulltrúar sveitarfélaganna hafa ekkert vægi í þessum samtökum. Þeim er aldrei boðið að borðinu þar sem gerðir eru samningar og teknar ákvarðanir sem snerta borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Öryrkjabandalag Íslands og lögmaður fjögurra fatlaðra barna stigu fram 2021 með þá kröfu að einstaklingsmiða þurfi þjónustuna að börnunum. Fyrirspurn Flokks fólksins var um hvernig skóla- og frístundasvið hygðist bregðast við ásökunum sem fram voru bornar um að börnin fái ekki þörfum sínum mætt í skólanum. Í svari segir að fyrirspurninni sé ekki svarað þar sem erindið sem vitnað er í liggi ekki fyrir. Svarið er að öðru leyti vísanir í ákvæði grunnskólalaga, s.s. „að allir nemendur grunnskóla eigi rétt á kennslu við hæfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan“. En þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Það fá nefnilega ekki allir nemendur í grunnskólum borgarinnar kennslu við hæfi eins og þau eiga rétt á samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. „Skóli án aðgreiningar“ er ekki skóli án aðgreiningar nema að nafni til því talsvert þarf upp á til að hann sé í stakk búinn að mæta þörfum allra barna. Í grunnskólum borgarinnar er börnum mismunað m.a. vegna fötlunar sinnar. Nú bíða 1804 börn eftir þjónustu skólaþjónustu grunnskólanna og má ætla að í þeim hópi séu fjölmörg börn með sérþarfir. Rúmlega 1000 börn bíða eftir sálfræðiþjónustu.