Bókun Flokks fólksins við liðnum:
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 16. febrúar 2022, með umsagnarbeiðni til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, um drög að endurskoðaðri þjónustustefnu Reykjavíkurborgar og drög að aðgerðaráætlun:
Fulltrúi Flokks fólksins er algjörlega sammála því að Reykjavíkurborg eigi að veita góða og notendamiðaða þjónustu, eins starfsfólk borgarinnar hefur ávallt verið að gera. Enn og aftur getur fulltrúi Flokks fólksins vart orða bundist yfir þeirri framsetningu Þjónustu og nýsköpunarsviðs á þjónustustefnu Reykjavíkurborgar. Í þessum drögum er ítrekað talað um þróun og innleiðingu á þjónustuskrefum, á þjónustuviðmiðum og svo námskeiðum fyrir starfsfólk í þjónustuveitingu sem og námskeiðum í notendamiðaðri hönnun.
Það er engu líkara en að Þjónustu og nýsköpunarsvið telji að starfsfólk Reykjavíkurborgar hafi enga hugmynd um það hvernig á að þjónusta notendur í Reykjavík og það þurfi á algjörri endurmenntun að halda. Einnig virðist þetta svið telja að þjónusta við íbúa Reykjavíkur sé svo frábrugðin allri annarri opinberri þjónustu að hér verði að finna upp og þróa allt frá grunni.
Það er í raun alveg með ólíkindum hversu lengi þessar endalausu notendarannsóknir og tilraunasmiðjur Þjónustu og nýsköpunarsviðs eiga að vera í gangi án þess að varla nokkuð hafi komið út úr þeim. Peningasóunin og eyðslan á tíma starfsfólks er orðin það mikil að það liggur við að það þurfi hreinlega að fara að grípa inn í alla þessa tilrauna vitleysu sviðsins sem virðist hvorki eiga sér upphaf né endi.
Þjónusta við íbúa í Reykjavík er á engan hátt öðruvísi en öll önnur opinber þjónusta. Allir þjónustuferlar eru nú þegar til og einnig liggja fyrir upplýsingar um notendarannsóknir víða eins og hjá einkafyrirtækjum sem hafa sérhæft sig í slíku.
Fulltrúi Flokks fólksins spyr sig hvenær Þjónustu og nýsköpunarsvið fari að átta sig á því að það er fyrir löngu búið að finna upp hjólið hvað varðar stafrænar lausnir og notendamiðaða þjónustu. Það þarf bara að innleiða þá þekkingu eins og flestir aðrir eru að gera með góðum árangri.