Velferðarráð 31. janúar 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum stytting biðlista – kynning hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sérstaklega að fá þessa kynningu BUGL um styttingu biðlista. Starfsfólk BUGL fór í sérstakt átak við að stytta biðlista og tókst það farsællega t.d. með því að breyta vinnulagi og gera skipulagsbreytingar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lengi haft áhyggjur af löngum biðlistum barna í Reykjavík eftir þjónustu. Þess vegna vakti þessi árangur hjá BUGL athygli fulltrúa Flokks fólksins og í framhaldinu bað Flokkur fólksins um að fá kynningu á þeirri aðferðafræði sem BUGL beitti til að stytta biðlistana. Nú bíða 2086 börn eftir skólaþjónustu svo ekki veitir af að bretta upp ermar og aðstoða þessi börn. Sérstaklega var áhugavert að heyra um sýn BUGL um að biðtíminn skipti meginmáli. Markmiðið er að ná biðtíma barna undir 90 daga og passa upp á að allir fái meðferð.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum samþætting verkefna og verkferlar í tengslum við Betri borg fyrir börn (BBB) og innleiðingu laga um farsæld barna.

Fram fer kynning á samþættingu verkefna og verkferla í Betri borg fyrir börn (BBB) og innleiðingu laga um farsæld barna. Samstarf velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs hófst með samningi ráðanna 8. júní 2021. Markmiðið var að þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs með það að markmiði að samhæfa og bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Frá því að þessi samningur var undirritaður fyrir rúmum tveimur árum hafa ýmsir vinnu- og stýrihópar verið að störfum við að innleiða verkefnið. Flokkur fólksins styður megininntak farsældarlaganna en fulltrúa Flokks fólksins finnst miða alltof hægt og erfitt að sjá árangur. Farsæld barna er skipt í 3 þjónustustig. Á fyrsta stigi á að vera grunnþjónusta með snemmtækum stuðningi og á hún að vera aðgengileg öllum börnum og foreldrum. Á öðru stigi er einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur. Þriðja stigs þjónusta er einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur til barna. Ýmsir stjórnendur hafa verið tilnefndir og þar má nefna stuðningsteymi, málstjóra, teymisstjóra og nemendaverndarráð. Allir þessir aðilar eiga að sjá til þess að stuðningur til barna verði veittur. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það þurfi að kynna og skilgreina miklu betur hlutverk þessara stjóra og teyma fyrir þeim sem kalla eftir þjónustu þessara aðila.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum aðgangur starfsfólks að upplýsingakerfum sviðanna varðandi þjónustu við einstaklinga og stjórnsýslu.

Hlaðan og Málaskrá eru megin upplýsingakerfi velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs. Viðauki fjögur fjallar um aðgang og aðgangsstýringu starfsfólks að þessum tveimur upplýsingakerfum sviðanna varðandi þjónustu við einstaklinga og stjórnsýslu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að gengið hafi alltof hægt að koma þessum upplýsingakerfum sviðanna í fulla notkun. Sem dæmi þá er Hlaðan ekki komin í fulla virkni á velferðarsviði þar sem ekki er búið að innleiða hana á öllum starfsstöðum eins og stendur til. Það eru aðeins starfsfólk á skrifstofu velferðarsviðs og stjórnendur á miðstöðvum sem eru með aðgang. Hlaðan er gríðarlega mikilvægt tæki til að flýta innleiðingu á verkefninu BBB og farsæld barna. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur því til þess að ferlinu við að innleiða Hlöðuna verði flýtt.