Velferðarráð 8. júní 2021

Bókun flokks fólksins við tillögum stýrihóps um mótun velferðarstefnu, dags. 8. júní 2021, um drög að velferðarstefnu Reykjavíkurborgar:

Lögð eru fram drög að tillögum stýrihóps um mótun velferðarstefnu. Hefðu þessi mál verið í forgangi hjá þessum og síðasta meirihluta væri stefna að þessu tagi komin í innleiðingu. Dýrmætur tími hefur tapast sem bitnar á þjónustuþegum. Áætlaður kostnaður við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar er um 350 m.kr. en endanlegt kostnaðarmat er ekki tilbúið fyrr en í október.  Þetta er ekki há upphæð ef samanborið við 10 milljarða sem ráðstafað er í stafræna umbreytingu, fjármagn sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sýslað með af „léttúð“.  Þessar upphæðir segja allt um hver forgangsröðunin er hjá þessum meirihluta. Ósennilegt er hvort eitthvað af þessum annars mörgu ágætu tillögum verða komnar í virkni fyrr en á næsta kjörtímabili. Innleiðingar hafa ekki verið útfærðar. Meðal markmiða eru sjálfsagðir hlutir eins og að allir lifi með reisn. Stór hópur fólks er í aðstæðum þar sem erfitt er að lifa með nokkurri reisn. Nú bíða 1068 börn eftir fagþjónustu skólanna. Eftir stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra bíða 342 og 804 eftir húsnæði. Fólki og ekki síst börnum er mismunað eftir því í hvaða hverfi það býr. Ekki stendur til að færa sálfræðingana inn í skólana sem er miður. Of mikil áhersla er á frumvarp, „Farsældarfrumvarp“ sem ekki er orðið að veruleika.

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra um stjórnkerfis- og skipulagsbreytingar:

Fulltrúi Flokks fólksins styður við að kerfið verði einfaldað enda mikið völundarhús í þeirri mynd sem það er. Notendur hafa kvartað yfir að ná ekki sambandi og fá ekki þjónustu oft fyrr en illa og seint. Þjónustumiðstöðvar hafa virkað sem hindrun t.d. milli grunnskólabarna og sálfræðinga skólaþjónustu. Þjónustan þarf að vera aðgengilegri fyrir börnin og foreldra þeirra og starfsfólk skóla á einnig að hafa greiðan aðgang að fagfólki skólans. „Borgarbúinn“ hefur ekki verið í fyrsta sæti eins og sjá má af biðlistum en á þeim fjölgar með hverjum degi. Íslensk ungmenni sýna meiri aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri í kórónuveirufaraldrinum en áður.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar. Kannski er ekkert af þessu skrýtið ef horft er til þess að „fólk“ hefur ekki verið sett í fyrsta sæti. Skaðinn er skeður hjá mörgum, því miður því ástandið hefur varað allt of lengi. Bernskan verður ekki tafin frekar en nokkuð annað tímaskeið og fyrir sum börn verður skaðinn aldrei bættur. Það þarf að gera grundvallarbreytingar á skipulagi velferðarsviðs. En það kostar meira fjármagn,  samþættingu þjónustu, samhæfingar, samstarfs við aðrar stofnanir, einföldun ferla, minni yfirbyggingu, skýr markmið og árangursmælingar.