Bókun Flokks fólksins við liðnum niðurstöður könnunar um viðhorf til göngugatna:
Meirihlutinn leggur fram niðurstöður árlegrar skoðunarkönnunar um viðhorf til göngugatna, gerð af Maskínu. Þótt almennur stuðningur sé við göngugötur kemur fram að andstaðan er mest í úthverfum. Gera má því skóna að það tengist m.a. slökum almenningssamgöngum, að ekki sé auðvelt að komast á þessar göngugötur nema á bíl og erfitt sé að finna honum stæði. Meirihluti telur að áhrif á verslun séu neikvæð, en jákvæð á veitingarekstur. Er það ásættanlegt? Margar kannanir hafa verið gerðar í þessu máli og er ákveðinn rauður þráður í þeim að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þeir sem búa á miðbæjarsvæðinu eru ánægðir, vilja ekki sjá bílana. Þeir sem stunda skemmtanalífið og ferðamenn eru líka ánægðir. Aðrir eru neikvæðir og leita eftir þjónustu annars staðar en í miðborginni. Þeir sem eru neikvæðir kvarta yfir því augsýnilega, aðgengi er slæmt að svæðinu, þeir sem eru hreyfiskertir geta ekki gengið langt. Sumir nefna veður; göngugötur fyrir fáa sólardaga; að sjarmi miðbæjarins sé horfinn; að þetta hefði alls ekki átt að vera forgangsmál o.s.frv. Meirihlutinn leggur á sama tíma fram tillögu að bjóða þeim sem glíma við hreyfiskerðingu að leiga af borginni rafskutlur og telja að með því sé verið að koma á móts við þá sem finnst aðgengi slæmt og eiga erfitt um gang.
Bókun Flokks fólksins við liðnum Erindi íbúaráðs Grafarvogs, vegna gönguþverana á Hallsvegi og víðar:
Erindi íbúaráðs Grafarvogs, vegna gönguþverana er lagt fram á fundi skipulags- og samgönguráðs. Enn er kvartað yfir því að hægt gengur að klára einföld atriði svo sem að gera almennilegar aðstæður fyrir gangandi vegfrendur. Nú hafa skipulagsyfirvöld gefið út yfirlýsingar um að gangandi vegfarendur skuli alltaf hafa forgang en samt virðist ekki vera hægt að tryggja öryggi þeirra, ekki einu sinni á gangbrautum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að brýnt sé að ganga í málið án tafar.
Bókun Flokks fólksins við liðnum: Tillaga fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata, um tilraunaverkefni um útleigu á rafskutlum, umsögn:
Tillaga meirihlutans snýr að því að hefja undirbúning tilraunaverkefnis vegna leigu á rafskutlum sem sérstaklega verði ætlað að þjóna fólki sem á erfitt með að ganga lengri vegalengdir í miðbænum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvaða hóp meirihlutinn er að vísa hér til. Fatlaðs fólks, fólks með skerta hreyfigetu eða þeirra sem eru með léttvægari fótameiðsl? Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til aðra lausn sem mætti skoða samhliða rafskutluleigu þess vegna og hún er sú að skutluvagn æki um göngugötur. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að ekki megi fjölga bílum á göngugötum og að á Hverfisgötu séu frábærar strætótengingar. Víða erlendis, á sólarströndum sem dæmi má sjá fólk sem á erfitt um gang aka um á litlum rafskutlum, sennilega svipað því og meirihlutinn hefur í huga. Það fólk býr á hótelum á staðnum og rafskutlurnar til taks fyrir utan hótelin. Þegar reynt er að yfirfæra þetta yfir á miðbæ Reykjavíkur er fyrsta hugsunin að fólk sem ekki býr þar þarf að komast þangað sem rafskutlan er?
Bókun Flokks fólksins við liðnum Loftlagsbreytingar, kynning:
Fram fer kynning á helstu atriðum úr 6. skýrsla vinnuhóps sérfræðingahóps Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).
Ef horft er til Íslands og Reykjavíkur þá er rafvæðing bílaflotans sjálfsögð aðgerð svo og að nota vistvæna orku til skipa og framleiðsla á endurnýjanlegri orku og nýtingu hennar. Nýta þarf t.d. það metan sem safnað er í stað þess að brenna því á báli. Þetta eru allt mótvægisaðgerðir sem liggur beinast við að ráðast í og hefði mátt vera búið að virkja fyrir all löngu.
Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá að skógrækt verði stóraukin í upplandi Reykjavíkur. Ekkert virðist því til fyrirstöðu að rækta skóg allt frá Heiðmörk og upp að Bláfjöllum og Hengli. Slík skógrækt hefði mun meiri áhrif á loftlagsjöfnuna en endurheimt þess litla votlendis sem er í Reykjavík.
Bókun Flokks fólksins við liðnum Loftlagsbókhald Reykjavíkurborgar 2020, kynning:
Fram fer kynning á loftlagsbókhaldi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020. Stærstur hluti útblásturs í loftslagsbókhaldi Reykjavíkurborgar á sér stað vegna samgangna. Þess þá heldur er brýnt að flýta orkuskiptum. Rafbílar hafa lækkað í verði en þurfa að lækka enn meira til að fleiri hafa ráð á að kaupa þá. Því fleiri sem aka um á vistvænum ökutækjum því jákvæðari útkoma í loftslagsbókhaldi borgarinnar Aðgerðir svo sem að auka hlutdeild hjólreiða er jákvætt og ætti skipulag stíga að miðast við að hjólreiðar verði mikilvægur samgöngumáti fyrir þá sem geta og vilja notað þann samgöngumáta. Það þarf að búa til betri innviði fyrir hjól í borginni fyrir örflæði líkt og erlendis. Fram kemur að vegna landbúnaðar í borginni sé talsverð losun gróðurhúsalofttegunda (vísað er í svínabú innan Reykjavíkur). Varla getur það nú talist mikið í stóra samhenginu að mati fulltrúa Flokks fólksins og hvað mega þá mörg önnur sveitarfélög segja?
Bókun Flokks fólksins við liðnum: Tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, um leikvelli algildrar hönnunar:
Lögð er fram á fundi skipulags- og samgönguráðs tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs um leikvelli algildrar hönnunar sem er samþykkt umsvifalaust enda tillaga meirihlutans. Fulltrúi Flokks fólksins styður allt sem felst í því að svæði/tæki á leikvöllum, fjölskyldurými eða opin svæði í borgarlandinu verði hönnuð og tæki valin sem henti sem flestum hópum óháð aldri og fötlun. Segir í greinargerð með tillögunni að leiktæki eiga einnig að geta rúmað ömmur og afa, ungmenni sem og lítil börn. Hugmyndin er að öll fjölskyldan geti komið saman og leikið sér. Mitt í þessu öllu vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu fyrst og fremst á öryggisþáttinn. Minnt er á að það hafa orðið alvarleg slys á börnum í leiktækjum borgarinnar. Sem betur fer eru þau fátíð. Stöðug vitundarvakning þarf að vera í gangi að mati fulltrúa Flokks fólksins, sinna þarf viðhaldi og reglubundnu eftirliti á tækjum og svæðum þar sem börn eru á leik og skoða þarf hin minnstu frávik. Fulltrúi Flokks fólksins vil nota tækifærið hér að leggja áherslu á að myndavélar verði settar upp á öllum leikvöllum í ljósi nýlegs atviks þar sem maður reyndi að hrifsa barn á brott sem var við leik á leikvelli.
Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aðgengismál þriggja hjóla barnavagna
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 22. júlí 2021 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs, dags. 12. ágúst 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á slóðum þannig að hægt verði einnig að fara með þriggja hjóla barnakerrur um þær. Þessir slóðar (brautir) sem verið er að steypa í nýjum hverfum eru hefðbundnir með tveimur steyptum brautum og tröppum á milli og er því útilokað að fara um þær með þriggja hjóla kerru.
Tillögunni fylgja tvær myndir.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um lagfæringar á gangstéttabrúnum við gönguþveranir í Breiðholti
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvenær til standi að lagfæra gangstéttabrúnir sem og aflíðandi halla frá gangstétt út á gönguþveranir í Efra Breiðholti. Þetta er sérstaklega slæmt við gatnamót Breiðholtsbrautar og Jafnasels en einnig víða annars staðar í Breiðholti.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Steindórsreit
Fyrirspurn um aðstæður við Steindórsreitinn sem er vestast í vesturbænum. Um er að ræða frágang á athafnasvæði við Steindórsreit. Vakin hefur verið athygli fulltrúa Flokks fólksins á að þar sé slysahætta. Um er að ræða vestast á Sólvallagötunni og vestast á Hringbrautinni við hringtorgið við J.L. húsið. Kringum Steindórsreit er búið að setja krossviðarplötur yfir gangstéttar sem veldur því að ökumaður sem keyrir vestur eftir Hringbraut og beygir til hægri út á Granda, hægra megin á hringtorginu getur með engu móti séð, gangandi, hjólandi fólk hvorki á vespum né hlaupahjólum sem fara yfir gangstétt beint séð frá vestri inn á Sólvallagötuna. Þarna hefur orðið slys.
Hvað hyggjast skipulagsyfirvöld gera í þessu máli?
Þarna er búið að byggja stóran grjótgarð, taka gangstéttir í burtu og er aðgengi slæmt. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa haft eftirlit með að framkvæmdir séu í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi, þ.m.t. hvort að ásigkomulagi, frágangi, notkun eða umhverfi framkvæmdar sé ábótavant eða hvort að af henni stafi hætta.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirði, afnotaleyfadeildar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um hvort leitað var til sérfræðinga þegar viðmið um þéttleika og hæðir húsa voru ákvörðuð í Breiðholti
Breiðholtið er mörgum kært enda gott og barnvænt að búa í Breiðholti. Núverandi skipulag, sem er verðlaunaskipulag, þarf að skoða nánar með tillit til útsýnis, skuggavarps og umferðaröryggi.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi í ljósi þess að skipulagsyfirvöld leita mikið til utan að komandi sérfræðinga:
Var leitað til sérfræðinga í byggðu umhverfi og áhrif byggðs umhverfis á fólk þegar viðmið um þéttleika og hæðir húsa voru ákvörðuð?
Sérfræðingarnir gætu verið sálfræðingar, félagsfræðingar, veðurfræðingar, arkitektar, landslagsarkitektar og skipulagsfræðingar.
Ef svo er, hverjir voru sérfræðingarnir og var farið að ráðum þeirra þegar viðmið voru ákvörðuð?
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um þéttleika í nýju skipulagi í Breiðholti
Fulltrúi Flokks fólksins telur að nýbyggingar sem kynntar hafa verið í nýju skipulagi í Breiðholti verði að vera í takti og tilliti við núverandi byggð. Í tillögu að aðalskipulagsbreytingu virðist mikill þéttleiki og há hús á sumum stöðum svo sem í Mjódd og tengist áformum um Borgarlínu.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi:
Voru áhrif á nærliggjandi byggð m.t.t. skuggavarps, umfangs, útsýnis og veðurfars skoðuð með þar til bærum sérfræðingum?
Um þetta er spurt vegna þess að við eigum því miður vond dæmi um veðurfarsleg áhrif á nærliggjandi byggð og skuggavarp sem dæmi í nágrenni Höfðatorgs í Reykjavík. Er tryggt að ný viðmið um hæðir húsa og þéttleika rýri ekki gæði núverandi byggðar í nágrenni þéttingarreita t.d. í nýju skipulagi í Breiðholti?
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um innviði leikskóla til að taka við mikilil fjölgun
Leikskólar í Mjódd eru þétt setnir og sumir sprungnir.
Útreikningar sýna að 800 íbúða fjölgun í neðra Breiðholti er 53% fjölgun íbúða.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi:
Ráða innviðir við svona mikla fjölgun á stuttum tíma?
Er gert ráð fyrir nýjum grunn- og leikskólum í Mjódd?
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um kynningar á nýju skipulagi í Breiðholti
Fulltrúa Flokks fólksins finnst kynning á svo stórri fyrirhugaðri breytingu á hverfisskipulagi í Breiðholti ábótavant og má telja víst að ekki nema brot af þeim sem búa í Breiðholti hafa áttað sig á hvað til stendur.
Fulltrúi Flokks fólksins spyr eftirfarandi:
Hvernig stendur á að farið hafi svo lítið fyrir kynningu á svo stórri fyrirhugaðri skipulagsbreytingu í nærumhverfi fjölda fólks?
Í tilfelli Mjóddar, þar sem hægt er að lesa sér til í fleiri en einni rúmlega 200 bls. skýrslum að gert sé ráð fyrir að byggja 800 nýjar íbúðir og 60.000 fermetra atvinnuhúsnæðis á 5-8 hæðum, er ekki einu sinni minnst á þessa meiriháttar breytingu í 4 bls. kynningarbæklingi um helstu breytingar aðalskipulagstillögunnar?
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um innstig í strætó í tengslum við þéttingu byggðar í Mjódd
Fram kom í skýrslu um ferðavenjur sem unnin var fyrir SSH, sem liður í undirbúningi Borgarlínu, að flest innstig í strætó eru núna í Mjódd, 4000 talsins en á Hlemmi eru 3400 innstig á sólarhring.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi:
Hvers vegna þarf að þétta byggð svona mikið í Mjódd?
Við hvaða innstigsfjölda er miðað við þegar tekin er ákvörðun um þéttleikaviðmið?
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um fræðslu rafhlaupahjóla fyrir börn
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulags- og samgönguráð beitir sér fyrir því, t.d. í samstarfi við skóla- og frístundaráð að börn og unglingar fái sérstaka fræðslu um rafhlaupahjól og hvernig þeim beri að hjóla þeim þegar hjólað er nálægt gangandi vegfarendum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt frá fólki sem kvartar yfir tillitsleysi þegar ungt fólk, sumt hvert, hjólar á gangstéttum. Fræða þarf börn og ungt fólk um mikilvægi þess að nota bjölluna. Fjölmörg dæmi eru um að bjalla sé ekki notuð þegar komið er hjólandi aftan að vegfaranda sem er að ganga eða hlaupa. Sumir hjólendur hjóla á hraða allt að 25 km/klst hraða, jafnvel með aðeins aðra hendi á stýri og símann í hinni hendinni og eru þar að leiðandi ekki að horfa fram fyrir sig.
Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé aðeins tímaspursmál hvenær slys verður, að ekið verði á gangandi vegfaranda. Börn sem verða fyrir hjóli á þessum hraða geta stórslasast. Einnig eru komin rafhjól sem komast enn hraðar, upp í 45 kmh.
Velta má fyrir sér þeirri spurningu hvort setja ætti aldurstakmark á þau hjól sem komast svo hratt og hvort rafhlaupahjól eigi kannski heima á hjólastígum frekar en gangstéttum.
Frestað.