Borgarráð 12. ágúst 2021

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að borgarráð samþykki leigusamning vegna skrifstofuhúsnæðis að Guðrúnartúni 1 fyrir Innri endurskoðun:

Meirihlutinn óskar eftir að borgarráð samþykki að leigja Guðrúnartún 1 fyrir innri endurskoðun Reykjavíkurborgar m.a. til að skrifstofan geti verið öll á einni hæð. Skrifstofan er nú í Tjarnargötu þar sem leigan er 8.854.000 kr. á ári. Í nýju húsnæði í Guðrúnartúni er leigan 12 milljónir á ári. Vissulega er þægilegt að starfsemin færist á eitt gólf en spyrja má hvort þessi þægindi séu ekki dýru verði keypt. Um er að ræða fimm milljóna króna mismun á leigu sem greitt er aukalega fyrir þægindi.


Bókun Flokks fólksins við bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs á breytingu á gjaldskrá fyrir gjöld á bílastæðum í Reykjavíkurborg
:

Breyting á gjaldskrá, gjald fyrir bílastæðakort íbúa í Reykjavík. Meirihlutinn leggur til að gjald fyrir íbúakort fari úr 8.000 kr. á ári í 1.250 kr. á mánuði fyrir hreina rafmagns- og vetnisbíla og 2.500 kr. á mánuði fyrir aðra bíla. Þetta er um 200% hækkun. Ekki er verið að gera þeim sem aka vistvænum bílum hátt undir höfði nú þegar ríður á að fara hratt í orkuskiptin. Til dæmis fá þeir sem aka tvinnbílum, og aka innanbæjar á rafmagni, eða á bílum sem brenna metani engar ívilnanir. Þeir eru látnir greiða fullt gjald. Frekar skal metan brennt á báli en að meirihlutinn í borgarstjórn beiti sér af krafti til að nýta vistvænt eldsneyti sem fyrirtæki í langstærstum hluta í eigu borgarinnar (bs. fyrirtæki) eins og Sorpa framleiðir gnótt af og þarf að brenna vegna þessa að það er ekki nýtt. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að tvinnbílar eigi að vera í flokki vistvænna bíla enda almennt keyrðir á rafmagni innanbæjar. Betur má ef duga skal í þessum efnum.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hugsanleg kaup á metanstrætisvögnum, sbr. 52. lið fundargerð borgarráðs frá 12. mars 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á allt það metan sem brennt er á báli og þá firru að nýta það ekki á vagna borgarinnar og greiðabíla frekar en að brenna það á báli. Bæði Sorpa og Strætó eru að mestu í eigu borgarinnar og ættu því að geta unnið saman. Taka ætti Akureyringa til fyrirmyndar en hjá þeim er metanskortur því þar er metanið sem til fellur nýtt. Árum saman hefur metan sem er safnað í miklum mæli verið brennt. Áætlað er að stöðin GAJA muni framleiða árlega nægt metangas fyrir um 6 til 8 þúsund bifreiðar. Í dag framleiðir Sorpa metangas sem dugar fyrir um 5 þúsund bifreiðar. Alls eru 1.419 metangasbifreiðar skráðar, sem ganga fyrir metangasi og eldsneyti, hér á landi. Það sem liðið er af árinu 2021 hafa alls verið 7 metangasbifreiðar fluttar inn, samanborið við 1.891 hreina rafmagnsbíla. Þá eru ekki taldar með bifreiðar sem flokkast sem tvinnbifreiðar, sem ganga fyrir eldsneyti og rafmagni. Er því langt í land að framleiðsla Sorpu á metangasi verði fullnýtt. Fátt væri eðlilegra en að allir vagnar Strætó væru metanvagnar.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags. 8. júlí 2021, við fyrirspurn  um starfsmannamál hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og viðbrögð vegna COVID-19, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2021:

Fram kemur í svari við fyrirspurn um starfsmannamál Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu að alls voru greiddar 5.419.917 kr. vegna tveggja dómsátta á tímabilinu. Þessu til viðbótar hefur Slökkviliðið samið sérstaklega um starfslok við tvo starfsmenn frá árinu 2010. Greiðslur vegna þeirra samninga eru alls 7.355.305 kr., lögfræðikostnaður vegna þeirra er 918.361 kr. Þessar upplýsingar vekja upp margar aðrar spurningar sem tengjast ástandinu á vinnustaðnum. Minnt er á nýlega starfsmannakönnun sem kom afar illa út. Niðurstöður sýndu að hjá Slökkviliðinu er allt í ljósum logum í orðsins fyllstu merkingu og er þá vægt til orða tekið. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um hverju þetta sætir og hvernig yfirmenn koma að þessum málum en hefur ekki fengið svör. Ítrekun var send á síðasta borgarráðsfundi en engin svör hafa borist. Svo lítur út sem eigi að þagga málið eða kæla nema hvort tveggja sér. Lengi hefur gengið sá orðrómur að illa sé farið með starfsfólk af æðstu stjórnendum hjá Slökkviliðinu og hefur hugtakið „ógnarstjórn“ verið nefnt í því sambandi. Tortryggni vex þar sem engin koma svörin. Hvað er þarna eiginlega í gangi?

 

Bókun Flokks fólksins við svari  Strætó bs., dags. 23. júlí 2021, við fyrirspurn um kostnað Reykjavíkurborgar vegna rafræns greiðslukerfis Strætó bs., sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021:

Í svari frá Strætó við fyrirspurn um kostnað Reykjavíkurborgar vegna rafræns greiðslukerfis kemur fram að þetta komi ekki borgarbúum við heldur sé þetta fjármagnað af Strætó. Fulltrúi Flokks fólksins vill nú nefna í þessu sambandi að Strætó bs. er að mestu kostað af framlagi borgarinnar. Þess vegna er varla hægt að segja að ,,það kemur ekkert sérstakt framlag frá eigendum Strætó vegna rafræns greiðslukerfis heldur er fjárfestingin fjármögnuð af Strætó“. Allar ákvarðanir um stór útgjöld koma borgarbúum við, það er ekkert sem Strætó fjármagnar í sjálfu sér enda er Strætó gjaldþrota fyrirtæki, það lifir ekki af nema með miklum stuðningi.

 

Bókun Flokks fólksins við svari menningar- og ferðamálasviðs, dags. 22. júlí 2021, við fyrirspurn um kostnað vegna aðkeyptrar sérfræðivinnu vegna nýrrar ferðamálastefnu, sbr. 66. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí 2020:

Svar er lagt fram við fyrirspurn um kostnað vegna aðkeyptrar sérfræðivinnu vegna nýrrar ferðamálastefnu. Fram kemur í svari að Capacent taki 9,6 milljónir fyrir viðtöl og greiningaviðtöl. Sérstaklega er tekið fram að um sér að ræða „djúpviðtöl“. Þetta vekur athygli. Vissulega hlýtur það að vera gott að hægt sé að taka svona mörg djúpviðtöl við háttsett fólk. Það bendir til að viðtöl áður fyrr hafi þá verið verið grunn. Hér er kannski komin skýring á áður tilgangslitlum viðtölum um ýmis brýn mál. Og djúpviðtöl kosta meira en grunnviðtöl segir í svari og er hár kostnaður skýrður með því. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort „grunn“ viðtöl hefðu kannski geta dugað í einhverjum tilfellum og þar með hefði kannski mátt spara margar milljónir.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars 2020. Einnig lögð fram umsögn velferðarsviðs, dags. 4. ágúst 2021:

Tillaga Flokks fólksins um sértækan húsnæðisstuðning er felld. Umsögn velferðarsviðs gefur í skyn að það myndi fara á skjön við leiðbeiningar félagsmálaráðuneytisins ef reglum um sérstakan húsnæðisstuðning yrði breytt í samræmi við tillögu Flokks Fólksins. Ráðuneytið hafi lagt áherslu á það að ekki skuli einungis horft til hlutlægra tekju- og eignaviðmið. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á það að hér er lögð til útvíkkun á gildandi reglum sem kemur aðeins til með að auka réttindi en myndi ekki leiða til skertra réttinda hjá neinum. Þau sjónarmið sem búa að baki tilllögu fulltrúa Flokks Fólksins eru einmitt að tryggja það að allir sem hafi lágar tekjur hafa rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Ekki er verið að leggja til að aðeins þeir sem hafa rétt á húsnæðisbótum skuli eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Fulltrúi Flokks Fólksins telur að það séu eflaust mörg tilfelli þar sem einstaklingar þurfa á sérstökum húsnæðisstuðningi að halda, t.d. vegna félagslegra ástæðna. Það sést glöggt á bréfi ráðuneytisins að verið er að bregðast við því þegar sveitarfélög hafa sett þrengri reglur og að þær þrengri reglur hafi leitt til þess að fólk hafi ekki fengið greiddan sérstakan húsnæðisstuðning. Hins vegar er tillaga Flokks Fólksins sú að rýmka skilyrðin og kemur því ekki til með að skerða réttindi fólks.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Sérstakur húsnæðisstuðningur er veittur á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og byggist á meginreglum þeirra laga. Sveitarfélög skulu veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur á grundvelli leiðbeininga ráðherra um sérstakan húsnæðisstuðning. Í leiðbeinandi reglum félagsmálaráðuneytisins um sérstakan húsnæðisstuðning kemur skýrt fram að við ákvörðun um sérstakan húsnæðisstuðning skuli fara fram mat sem tekur tillit til tekna og eigna, framfærslubyrði og félagslegra aðstæðna. Því er ekki hægt að afnema félagslegt mat vegna umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning miðað við núgildandi lög þar að lútandi. Sé það vilji löggjafans að allir sem fái almennar húsnæðisbætur fái einnig sérstakar húsnæðisbætur er einfaldast að slíkt yrði framkvæmt með breytingum á lögum um húsnæðisbætur og þær hækkaðar.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 2. júlí 2021 er varðar sektir ef fólk svindlar sér í strætó:

Fram kemur í fundargerðinni að Strætó hyggist semja reglur varðandi fargjaldaálag eða réttara sagt hvernig á að bera sig að við að sekta þá sem svindla sér í strætó. Hugsunin er að framkvæmdin sé sambærileg því sem gerist í lestum erlendis, þ.e. að eftirlitsaðilar fari í strætisvagna af handahófi og biðji einstaklinga að sýna sér strætómiðann. Í lögunum er kveðið á um að sektin megi vera að hámarki 30.000 kr. en skuli þó vera í hlutfalli við miðaverð. Hér er um heimild að ræða sem Strætó er greinilega að hugsa um að nýta sér fyrir alvöru. Fulltrúi Flokks fólksins efast um að eltingaleikur sem þessi bæti reksturinn þar sem það kostar að senda eftirlitsaðila inn í vagna til að grípa þá sem hafa svindlað sér um borð. Er ekki verið að eyða orku í ranga hluti? Væri t.d. ekki nær að beina áherslum á að reyna að draga úr kvörtunum og ábendingum um hvað þarf að laga til að almenningssamgöngur falli betur að fólki og laði fleiri að? Kvartanir/ábendingar 2019 voru 2948 og eru þær fleiri en árið áður. Ekki er sjálfgefið að fólk sem fái sekt borgi hana.

 

Bókun Flokks fólksins við 1. lið yfirlits um embættisafgreiðslur um fjölda mála Flokks fólksins í yfirlitinu og undirtektir með Krabbameinsfélaginu þar sem skorað er á stjórnvöld að setja uppbyggingu dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala í forgang :

Fulltrúi Flokks fólksins á 13 mál á lista embættisafgreiðslna af 21 alls. Málunum er vísað á viðeigandi staði í borgarkerfinu, væntanlega til umsagnar. Fulltrúi Flokks fólksins væntir þess að svör berist sem fyrst en brögð hafa verið á því að svör berist ekki fyrr en eftir dúk og disk, oft ekki fyrr en mörgum mánuðum síðar, jafnvel ári.
Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka við lið 1 í embættisafgreiðslum, lið sem lýtur að áskorun Krabbameinsfélags Íslands um dagdeild blóð- og krabbameinslækninga. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með Krabbameinsfélaginu þar sem félagið skorar á stjórnvöld að setja uppbyggingu fyrsta flokks framtíðarstöðu dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga í forgang. Þeir sem fá lyfjameðferð vegna krabbameins fá hana flestir á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala. Krabbamein er sjúkdómur sem getur herjað á alla. Í baráttunni gegn krabbameini þarf samfélagið allt að standa sem einn maður.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að fulltrúi minnihlutans sitji í Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar:

Neyðarstjórn hefur fundað í sumar fimm sinnum vegna versnandi ástands í smitmálum. Borgarfulltrúar minnihlutans hafa ekki fengið neinar upplýsingar að heitið geti um hvað fram fer á þessum fundum og hvaða upplýsingar þar eru lagðar fram. Samt eru þeir kosnir til ábyrgðar þótt þeir sitji í minnihluta. Í neyðarstjórn sitja borgarstjóri og sviðsstjórar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta bagalegt og leggur þess vegna til að í neyðarstjórn sitji einnig fulltrúi minnihlutans í borgarstjórn. Almennt má snarbæta upplýsingaflæði frá neyðarstjórn til borgarfulltrúa sem frétta lítt af málum nema einna helst úr fjölmiðlum. R20030148

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillaga sama efnis var flutt og felld á fundi borgarstjórnar 17. nóvember sl. Neyðarstjórn Reykjavíkur hefur það hlutverk að samhæfa aðgerðir og grípa til neyðarráðstafana þegar neyðarástand skapast til að forgangsraða lögbundinni þjónustu, samfélagslega mikilvægri starfsemi, tryggja almannaheill og lágmarka hugsanlegan samfélagslegan skaða. Neyðarástand getur skapast þegar öryggi og innviðum samfélagsins er ógnað, svo sem vegna náttúruvár, þegar umhverfi og heilsu er ógnað og þegar tæknivá eða annars konar hættuástand skapast. Á neyðarstigi er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum og verja grunnstoðir í þjónustu borgarinnar til að halda uppi nauðsynlegustu starfsemi. Neyðarstjórn hefur heimild til að taka ákvarðanir og stofna til útgjalda umfram það sem segir í fjárhagsáætlun í neyðartilfellum enda sé um slík tilfelli að ræða, að afgreiðsla þeirra þolir enga bið. Borgarráð veitir aðrar nauðsynlegar heimildir vegna sérstakra fjárútláta og er á neyðarstigi í viðbragðsstöðu.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins hafnar frávísun tillögu um að einn fulltrúi minnihlutans sitji í neyðarstjórn. Rök meirihlutans eru að þetta hafi verið rætt áður og sé ekki í boði. Það eru engin rök. Hér er verið með grófum hætti að halda minnihlutanum fyrir utan mikilvæg málefni. Fulltrúi Flokks fólksins vill að minnihlutanum, einum fulltrúa hans, verði boðið að sitja fundi neyðarstjórnar.  Málið er ekki flóknara en það. Þessi tillaga er lögð fram af ástæðu sem er það ástand sem myndaðist í sumar þegar fjórða bylgja COVID reið yfir og er nú í algleymingi. Öll héldum við, að minnsta kosti í smá tíma, að þjóðin væri að sigla hratt út úr COVID. Það var náttúrulega ekki þannig og nú liggur fyrir að um langtímaástand er að ræða. Minnihlutinn er kjörinn til ábyrgðar er fær aldrei neina aðkomu að stórum og mikilvægum málum. Borgarstjóri situr í neyðarstjórn sem fulltrúi meirihlutans. Það er biturt að vera kjörinn fulltrúi í borgarstjórn og þurfa að frétta af stóralvarlegum málum úr fjölmiðlum. Fólkið í borginni leitar mikið til minnihluta fulltrúa eins og gengur og það er sárt að þurfa einfaldlega að segja að minnihlutinn eigi ekki sæti við borð neyðarstjórnar.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort allir foreldrar barna, sem eru að byrja í leikskóla, hafi fengið upplýsingar um dagsetningu, sem barn þeirra getur hafið aðlögun:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort allir foreldrar barna, sem eru að byrja í leikskóla, hafi fengið upplýsingar um dagsetningu, sem barn þeirra getur hafið aðlögun. Í reglum segir að foreldrar eigi að fá þessar upplýsingar eigi síðar en fjórum vikum áður en leikskóladvöl hefst, miðað við 1. eða 15. hvers mánaðar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið upplýsingar um að ekki allir foreldrar hafi fengið dagsetningu, t.d. foreldrar barna sem eiga að byrja í leikskólanum Dalskóla í Úlfarsársdal og Jörfa í Hæðargarði. Lengst af hefur hluta foreldra verið haldið í óvissu um hvenær upphafsdagur verður og þá sérstaklega þeim foreldrum sem eiga yngstu börnin. Það liggur auðvitað fyrir hvenær elstu börnin byrja í skóla og hvenær boltinn getur farið að rúlla hjá leikskólunum. Foreldrar hafa margir hverjir ekki nein ráð því það er ekki eins og pössun liggi á lausu. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins heyrði í sumar að þá höfðu borist afar loðin svör frá einstaka leikskólum, talað um að ekki sé neitt vitað og mönnunarvanda sé um að kenna o.s.frv. Það er mikið álag fyrir foreldra að vera að koma úr sumarfríi og þurfa að byrja að stappa í svona löguðu. R21060245

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort það sé fyrirhugað að veita kennurum og starfsfólki grunnskóla í Reykjavík sérstakan stuðning eða umbun í ljósi álags sem verið hefur á þessum stéttum vegna COVID:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita hvort það sé fyrirhugað að veita kennurum og starfsfólki grunnskóla í Reykjavík sérstakan stuðning eða umbun í ljósi álags sem verið hefur á þessum stéttum vegna COVID. Nú er fyrirséð að veturinn sem er handan við hornið verður ekki léttari enda COVID enn í algleymingi. Kennarar eru margir uggandi yfir upphafi skólastarfs í ljósi aðstæðna. Margir kennarar eru þreyttir og hafa jafnvel ekki náð að hvílast nægjanlega í sumar. Í þessu sambandi er fulltrúi Flokks fólksins að hugsa sem dæmi um aukinn sveigjanleika varðandi vinnutíma og/eða fjölgun í ráðningum t.d. tímabundið.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundarráðs.