Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Bókanir við kynningu á niðurstöðum hugmyndaleitar fyrir Leirtjörn vestur færð úr trúnaðarbók umhverfis- og skipulagsráðs 14. febrúar 2024 þar sem aflétt hefur verið trúnaði um niðurstöðu hugmyndaleitar.
Byggja á kjarna þar sem sérstakt tillit er tekið til eldri borgara, nokkuð sem ekki mátti gera fyrir nokkrum misserum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessu og líst vel á vinningstillöguna. Kynslóð eftir kynslóð sem er í góðu samræmi við tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram árið 2021 um skipulagða byggð fyrir eldra fólk í Reykjavík. Tillagan fékk þá engan hljómgrunn hjá meirihlutanum. En samráð og samtal við fjölmarga eldri borgara og hagsmunasamtök hefur leitt í ljós að fjölmargir vilja einmitt að íbúðasvæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þjónustu við eldra fólk og þeirra þarfir. Gera þarf jafnframt ráð fyrir dagdvöl og þjónustuíbúðum. Horfa þarf til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu og fleira. Á svæði sem þessu er í raun ekki þörf fyrir uppbyggingu leik- og grunnskóla. Einblína ætti frekar á fjölbreytt úti- og innisvæði til afþreyingar og skemmtunar.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals um lýsingu við gangbrautir í Úlfarsárdal, sbr. 5. liður fundargerðar íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals, dags. 18. október 2023:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis lagt fram fyrirspurnir og tillögur er lúta að umferðaröryggi í Úlfarsárdal og tekur því undir þessa tillögu íbúaráðsins sem leggur til að gerðar verði úrbætur við gangbrautir í Úlfarsárdal þar sem lýsingu skortir. Nauðsynlegt er að ráðist verði í úrbætur sem allra fyrst enda um gönguleið barna og ungmenna til og frá skóla að ræða. Íbúar þessa hverfis hafa kallað lengi á úrbætur og lagfæringar og að lokið verði við uppbyggingu enda hverfið nú um 20 ára. Úlfarsárdalur sem er 15 ára hverfi er ekki enn sjálfbært.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Kjalarness, sbr. 2. liður fundargerðar íbúaráðs Kjalarness, dags. 8. febrúar 2024. Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til umsagnar Strætó bs. MSS24020042
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar fyrir þessa tillögu Ungmennaráðs Kjalnesinga. Lagt er til að tíðni strætóferða til og frá Kjalarnesi verði að minnsta kosti á klukkustundar fresti og telur fulltrúi Flokks fólksins það algjört lágmark til að það gagnist farþegum en í dag líða allt að fjórar stundir á milli ferða. Einnig er lagt til að gerðar verði endurbætur á strætóskýlum strætóstoppistöðvum á akstursleiðinni til og frá Kjalarnesi. Vandamál með strætóferðir á Kjalarnesi eru ekki ný af nálinni. Líta má aftur til ársins 2013 en þá voru stopular strætóferðir um Kjalarnes ræddar í Hverfisráði Kjalarness. Börn gátu þá ekki notað strætó til að komast í skóla eða til að fara í vettvangsferðir eða sækja tómstundastarf. Ljóst er að lítið hefur breyst til batnaðar. Strætó er byggðasamlag. Gallar eru við þetta fyrirkomulag sem felst í því að Reykjavík er stærsti eigandi Strætó en hefur ekki ákvarðanavald í samræmi við eigendaprósentu. Breyta þarf þessu fyrirkomulagi. Strætó hefur lengi róið lífróður. Vandinn liggur á öllum sviðum, nýtt greiðslukerfi hefur reynst illa og þjónustustefnu fyrirtækisins virðist illa fylgt. Fulltrúi Flokks fólksins er því miður ekkert of bjartsýnn á neinar breytingar til batnaðar. Það hefur reynslan sýnt.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um brú yfir Bústaðaveg/Kringlumýrarbraut, sbr. 18. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs 4. maí 2022. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 13. febrúar 2024:
Sú fyrirspurn sem hér um ræðir er bráðum árs gömul. Fyrirspurnin snéri að því að gerðar voru breytingar á aksturs-, hjóla- og gönguleiðum við Kringlumýrarbraut/ Bústaðaveg m.a. er verið að lengja rampa, gera göngustíga, hjólastíga við hlið akreinar. Verkinu átti að ljúka 1. október 2021. Áætlaður verktakakostnaður var 91.000.000. Vakin hafði verið athygli fulltrúa Flokks fólksins á þessum tíma að þarna stefndi í þrengsli, að jafnvel að óeðlilega þröngt verði milli bíla og hjóla og lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um málið í fyrra. Nú er svo komið að búið er að viðurkenna að þarna hafi verið gerð mistök. Spurt var að þessu sinni um hvað kostuðu þessi mistök og á hvers ábyrgð voru þau. Það svar sem nú er lagt fram næstum ári eftir að fyrirspurnin var lögð fram eru fáeinar línur og segir að “framkvæmdin sé á forræði Vegagerðarinnar og ábyrgðin þar með líka. Tilboð lægstbjóðanda var 85.516.000 kr.”
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Svar við fyrirspurn Flokks fólksins sbr. 14. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 31. janúar 2024 um útistandandi mál Flokks fólksins hjá umhverfis- og skipulagsráði. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða, dags. 13. febrúar 2024:
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn um óafgreidd mál Flokks fólksins hjá umhverfis- og skipulagsráði/sviði. Óskað var eftir yfirliti yfir fyrirspurnir og tillögur frá Flokki fólksins ásamt dagsetningu þeirra sem enn er ósvarað/óafgreitt hjá umhverfis- og skipulagssviði. Í svari segir að ósvöruðum erindum áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í umhverfis- og skipulagsráði, þegar þetta svar er skrifað, eru samtals 62; 16 tillögur og 46 fyrirspurnir. Ekki fylgja upplýsingar um dagsetningu þegar mál voru lögð fram. Minnt er á ákvæði í 2. gr. Verklagsreglur: Fyrirspurnir og tillögur í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar. Þar segir að svara skal fyrirspurn innan 30 virkra daga frá því að henni hefur verið vísað til umsagnar. Takist ekki að svara fyrirspurninni innan þess frests skal gera viðkomandi ráði skriflega grein fyrir ástæðunni.
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fatasöfnun, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 31. janúar 2024.
Vísað til umsagnar Sorpu bs. USK24010349
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Hlemm, sbr. 21. liður fundar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 14. febrúar 2024.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK24020139