Velferðarráð 18. september 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á stöðu í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Það er sláandi að sjá þann vanda sem birtist gagnvart notendum með langvarandi nýtingu í neyðarskýlum og með mjög miklar og flóknar þjónustuþarfir. 79 eru á biðlista eftir húsnæði, 55 karlar og 24 konur. Þrír eru á biðlista í málaflokki fatlaðs fólks. Hvar er þetta fólk niðurkomið núna og hvernig aðstoð er það að fá? Mönnunarvandi er rótgróinn vandi sem finna þarf lausnir á. Enn er kallað eftir auknu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu sem hefur verið kallað eftir lengi. Allt kostar þetta fjármagn. Hagræðingartillögur mega ekki koma niður á okkar viðkvæmasta hópi eða skerða þjónustu við börn og þá sem minnst mega sín. Hér er um hápólitískt málefni að ræða og vill Flokkur fólksins að fólk verði sett í meiri forgang en verið hefur fram til þessa. Nú styttist í kalda tíð og þarf vetraráætlun að liggja fyrir. Fagna ber lengri opnunartíma á Kaffistofu Samhjálpar en þarf ekki einnig að lengja opnunartíma neyðarskýla?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, dags. 29. ágúst 2024, um lok rannsóknar á alvarlegu óvæntu atviki í Pant akstursþjónustu.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta mjög undarleg niðurstaða. Öll ábyrgð er sett á bílstjórann, “mannleg mistök” en kerfið alveg fríað ábyrgð. Bera stjórnendur enga ábyrgð? Er það ekki á ábyrgð stjórnenda að hafa aðila í starfi sem er með öllu óhæfur, ók með barn á vitlaust heimilisfang og skildi það þar eftir grátandi. Stjórnendur bera auðvitað ábyrgð á sínu fólki, að ráða fólk með færni og getu til að sinna starfinu.

Ný mál

Fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um húsnæði fyrir áfangaheimilið Brú

Flokkur fólksins spyr hvort velferðarsvið geti ekki aðstoðað Samhjálp á einhvern hátt í leit að húsnæði fyrir áfangaheimilið Brú? Nýlega hefur Samhjálp sent ákall til Félagsbústaða til að minna á að enn vanti Samhjálp húsnæði fyrir áfangaheimilið Brú í stað húsnæðisins á Höfðabakka.

Greinargerð

Samhjálp rak áfangaheimilið Brú í fjölda ára. Brú var langtíma meðferðarúrræði sem skilaði gríðarlega góðum árangri fyrir alkóhólista og aðra vímuefnaneytendur en þar var batinn um 80%. Áfangaheimilið var til húsa á Höfðabakka og áttu Félagsbústaðir húsnæðið. Félagsbústaðir sögðu Samhjálp upp leigu á húsnæðinu og enn hefur Samhjálp ekki fundið nýtt húsnæði fyrir starfsemina. Samkvæmt upplýsingum frá Samhjálp var íbúum í úrræðinu fundin ný búseta á vegum Félagsbústaða þar sem því var komið við. Síðustu ár hefur Samhjálp séð um áfangaheimili á Miklubraut í Reykjavík og annað í Dalbrekku í Kópavogi, sem bæði eru rekin með þjónustusamningum við þessi sveitarfélög og ganga vel. Samhjálp hefur því mikla reynslu af slíkum rekstri. Það er skortur á úrræðum fyrir alkóhólista og aðra vímuefnaneytendur og áfangaheimilið Brú var að ganga vel. Flokkur fólksins væntir þess að hægt sé að endurvekja áfangaheimilið og Samhjálp fái aðstoð Reykjavíkurborgar við að finna nýtt húsnæði.

 

Fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um mönnun á sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fatlaða.

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvernig fylgst sé með mönnun á sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fatlaða í borginni? Eru til einhverjir verkferlar sem gripið er til ef undirmönnum skapast?

 Greinargerð

Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að fylgst sé betur með mönnun á sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fatlaða. Skelfilegar fréttir hafa birst í fjölmiðlum undanfarið þar sem greint er frá slæmri stöðu vegna undirmönnunar á sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fatlaða. Fjölfatlaður einstaklingur á sambýli hefur í tvígang slasast í umsjá starfsmanna. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar býður þó betrumbætur í mönnun á sambýlinu og nokkurra vikna séraðstoð við einstaklinginn á meðan hann jafnar sig. Á íbúðakjarna við Skólavörðustíg var mikil undirmönnun í sumar og segja aðstandendur að þeir hafi aldrei upplifað slíkt áður og að mönnunin hafi verið undir öryggismörkum. Neyðarástand skapaðist og var ekki tryggt að íbúar fengju mat eða þrif. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að fylgst sé betur með mönnun á sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fatlaða til að koma í veg fyrir svona tilvik.