Bókanir Flokks fólksins framlagðar við Fyrri umræðu
Undir liðnum Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ásamt greinargerð fjármála- og áhættustýringarsvið, fyrri umræða:
Fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkurborgar lýsir áhyggjum yfir rekstri og fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Hann er ekki einn um slíkar áhyggjur því þær hafa verið staðfestar með erindi Eftirlitsnefndar sveitarfélaga þar sem fram kemur að Reykjavíkurborg uppfyllir ekki öll viðmið ráðuneytis sveitarstjórnarmála um fjárhagslega sjálfbærni. Þessar áhyggjur hafa einnig verið staðfestar í blaðaviðtali með lýsingu borgarstjóra á upplifun hans af fjárhagsstöðu borgarinnar þegar hann tók við starfi borgarstjóra. Í þriðja lagi má minna á að Reykjavíkurborg hefur ítrekað á undanförnum misserum neyðst til að draga til baka skuldafjárútboð vegna áhugaleysis markaðarins á að eiga viðskipti við Reykjavíkurborg á því sviði.
Bættur hagur borgarsjóðs frá fyrra ári byggist fyrst og fremst á hækkun fasteignaskatts á íbúa borgarinnar vegna hærra fasteignamats og meiri útsvarstekna en ekki vegna betri rekstrar. Á yfirstandandi ári lítur út fyrir að veltufé frá rekstri verði 10,6 milljarðar eða 5,5% af heildartekjum. Af þessum 10,6 milljörðum koma 6,0 milljarðar frá Orkuveitu Reykjavíkur sem greiddur arður. Því er raunverulegt veltufé frá rekstri hjá A-hluta borgarsjóðs samkvæmt útkomuspá 2,3% sem er langt fyrir neðan allar viðmiðanir. Skammtímaskuldir eru hærri en lausafjármagn sem þýðir að veltufjárhlutfall er óhæfilega lágt.
Undir liðnum Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2025-2029, fyrri umræða:
Eftir viðvarandi mjög erfiðan rekstur Reykjavíkurborgar á undanförnum árum er áhugavert að sjá hvað björt framtíð er framundan að mati meirihlutans. Gengið er sennilega of langt í að halda að brátt muni smjör drjúpa af hverju strái í rekstri borgarinnar. Framundan bíða áframhaldandi erfiðleikar þátt ákveðinn viðsnúningur hafi orðið. Á sama tíma munu afborganir langtímalána hækka um allt að 100% og veltufjárhlutfall er stöðugt undir viðmiðunarmörkum, sem þýðir að meiri líkur eru á að dráttarvextir fari hækkandi. Fram kemur í skýringum að enn sé nokkuð í land að málefni fatlaðra sé fjármagnað að fullu. Reykjavíkurborg verður auðvitað að finna leiðir til þess að tafir á greiðslu frá ríkinu komi ekki niður á þeim sem eiga samþykkta NPA samninga né heldur frekari uppbyggingu húsnæðisúrræða.
Ekki er heldur fengin niðurstaða í samningaviðræðum við ríkisvaldið vegna annarra samninga.
Fyrir liggur að uppsöfnuð viðhaldsþörf á húsnæði í eigu borgarinnar er gríðarleg og mun taka mörg ár og mikla fjármuni að vinna hana niður. Fjárhagsáætlun til fimm ára er mikilvægt stjórntæki því þar kemur fram framtíðarsýn kjörinna fulltrúa um hvert skuli stefna í fjármálum borgarinnar. Því er grundvallaratriði að hún sé unnin af raunsæi og tekið mið af varfærnisreglunni frekar en að byggja upp óraunhæfar væntingar.
Undir liðnum: Tillögur meirihlutans, liður 7 í dagskrá borgarstjórnar samkv. fundargerð borgarráðs 31. okt. og 1. nóv:
Liður 5 Tillaga um álagningahlutfall útsvars 2025
Flokkur fólksins vill frekar sjá að fasteignaskattsálagningar verði 1,65% í stað 1,8% og að álagningarhlutfall í C-hluta verði 1,42% í stað 1,6%. Á meðan sum önnur sveitarfélög lækkuðu álagningarhlutfall fasteignaskatts þá hélt meirihluti borgarstjórnar álagningarhlutfalli fasteignaskatts óbreyttu. Það þýddi beina skattahækkun á íbúa Reykjavíkurborgar. Fyrirtæki eru farin að taka mið af hærri fasteignaskatti í Reykjavíkurborg en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi aðferð meirihlutans að hækka stöðugt skattaálögur á íbúa getur haft þær afleiðingar að skattstofn borgarinnar dragist saman og geri þannig stöðuna enn verri.
Liður 10 Tillaga um niðurfellingu á yfirfærlsu fjárheimilda ársins 2023-2024
Flokkur fólksins lýsir sig andvígan niðurfellingu á möguleikum til að flytja fjárheimildir milli ára og vill að heimilt verði að flytja 50% af ónýttri fjárheimild milli ára. Það er hvati fyrir forstöðumenn að geta nýtt ávinning af hagræðingu í rekstri og útsjónarsemi við að reka viðkomandi stofnun, til að bæta aðstæður eða styrkja starfsemi hennar. Sjálfsagt er að stofnun og starfsmenn njót þess ef góður árangur næst. Sé enginn hvati til slíkra hluta þá verður stofnunin rekin með það eitt markmið í huga að fullnýta fjárheimildir, sama hvaða aðferðum er beitt í því sambandi, því litið verður á fjárheimild, sem ekki er fullnýtt, sem tapað fé.
Fundargerð borgarráðs frá 1. nóvember
Fundargerð borgarráðs frá 17. október
Liður 1 Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu varðandi kynningu á þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2024.
Grunnástæða fyrir því að húsnæði er dýrt er að það vantar húsnæði. Flokki fólksins finnst það ekki sannfærandi að segja að það sé vegna þess að verktakar þurfi að greið of háa vexti. Þeir munu við núverandi aðstæður geta sett slíkan kostnað inn í söluverð húsnæðis. Eitthvað annað er hér á ferðinni. Og þar er líkleg skýring að borgarskipulagið sé ekki með nægjanlega mikið framboð á lóðum og eða að sama skipulag leyfi að verktakar geti beðið með að byggja þar til söluverð húsnæði hækki enn meira. Það sem styður þessa skoðun er að byggingarheimildir ganga kaupum og sölum og við hverja hreyfingu hækkar verðið. Flokkur fólksins mælir með því að hætt verði að karpa um hversu mikið sé til. Málið er einfaldlega það að ekki er nægilegt framboð. Það skapar umframeftirspurn og þar með hátt verð. Hins vegar mun umframframboð leiða til verðlækkunar. Svona virkar hið kapítalíska kerfi.
Liður 5 tillaga um um álagningarhlutfall útsvars 2025
Flokkur fólksins vill frekar sjá að fasteignaskattsálagningar verði 1,65% í stað 1,8% og að álagningarhlutfall í C-hluta verði 1,42% í stað 1,6%. Á meðan sum önnur sveitarfélög lækkuðu álagningarhlutfall fasteignaskatts þá hélt meirihluti borgarstjórnar álagningarhlutfalli fasteignaskatts óbreyttu. Það þýddi beina skattahækkun á íbúa Reykjavíkurborgar. Fyrirtæki eru farin að taka mið af hærri fasteignaskatti í Reykjavíkurborg en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi aðferð meirihlutans að hækka stöðugt skattaálögur á íbúa getur haft þær afleiðingar að skattstofn borgarinnar dragist saman og geri þannig stöðuna enn verri
Liður 9 tillaga að gjaldskrám 2025
Flokkur fólksins lýsir sig andvígan niðurfellingu á möguleikum til að flytja fjárheimildir milli ára og vill að heimilt verði að flytja 50% af ónýttri fjárheimild milli ára. Það er hvati fyrir forstöðumenn að geta nýtt ávinning af hagræðingu í rekstri og útsjónarsemi við að reka viðkomandi stofnun, til að bæta aðstæður eða styrkja starfsemi hennar. Sjálfsagt er að stofnun og starfsmenn njót þess ef góður árangur næst. Sé enginn hvati til slíkra hluta þá verður stofnunin rekin með það eitt markmið í huga að fullnýta fjárheimildir, sama hvaða aðferðum er beitt í því sambandi, því litið verður á fjárheimild, sem ekki er fullnýtt, sem tapað fé.
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 14. október
Liður 1 Staða innleiðingar á Barnasáttmálanum
Staðfestur er vilji skóla- og frístundaráðs að taka mið af þeim skuldbindingum sem leiða af lögfestingu Barnasáttmálans. í byrjun árs 2022 lagði Flokkur fólksins til að skipa stýrihóp sem greinir og leggur mat á hvað vanti upp á til að hægt verði að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík. Það sætir undrun að stærsta sveitarfélagið sé ekki komið lengra í að innleiða Barnasáttmálann sem lögfestur var á Alþingi 2013.
Liður 10 Matarsóun í grunnskólum þegar skólamáltíðir verða orðnar gjaldfrjálsar
Spurt var hvernig bregðast eigi við ef það verður aukin matarsóun í grunnskólum Reykjavíkur, þegar skólamáltíðir verða orðnar gjaldfrjálsar. Matarsóun er ekki mæld formlega og til þess að allir skólar geti mælt matarsóun þyrfti að kaupa þar til gerða vog fyrir þá alla. Kaup á slíkri vigt er án ef fjárfesting sem getur margborgað sig.
Velferðarráð 30. okt. liður 3 Gjaldskrár akstursþjónustu fyrir fötluð börn.
Loks á að breyta gjaldskrám fyrir sameiginlega akstursþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu sbr. álit Umboðsmanns Alþingi. Fulltrúi Flokks fólksins mótmælti þessu því þessi börn hefðu fengið fría akstursþjónustu áður. Um er að ræða fáa einstaklinga að ræða. Minnt er á loforð meirihlutans „ókeypis í í Strætó fyrir börn á grunnskólaaldri.
Tillögur Flokks fólksins 5. nóvember 2024 framlagðar við Fyrri umræðu Fjárhagsáætlunar og Fimm ára áætlunar:
F – 1 Frysting á gjöldum ákveðinna minnihlutahópa.
Flokks fólksins leggur til að frysta allar gjaldskrárhækkanir er varða vetrarstarf frístundaheimila og sértækrar félagsmiðstöðvar barna og eldri borgara sem og annarra minnihlutahópa um eitt ár. Einnig er lagt til að frysta allar gjaldskrárhækkanir fyrir sumarstarf frístundaheimila og sumarstarf sértækra félagsmiðstöðva í alla vega eitt ár.
Áður hefur verið minnst á Frístundakortið sem ekki er hægt að nota til að greiða sumarnámskeið eða styttri námskeið.
Tekjulækkun vegna tillögunnar nema 38,1 m.kr. Tekjulækkunin verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir skóla- og frístundasviðs hækkaðar á móti.
F-2 Breytingar á gjöldum í Árbæjarsafn.
Tillaga um að gjaldskrá Árbæjarsafns verði breytt, að gjald fyrir aðgang verði lækkað.
Lagt er til að unglingar milli 17 og 18 ára fái frían aðgang að Árbæjarsafni eins og börn frá 0 til 17 ára. Lagt er til að nemendur með gilt skólaskírteini fái ókeypis aðgang en nú greiða þeir 1.200 kr. Lagt er til að hjón/pör sem heimsækja safnið með barn/börn greiði aðeins gjald fyrir annað foreldrið. Ef foreldrar koma með barn/börn er kostnaður 3.900 krónur og sé með þeim barn sem orðið er 18 ára greiðir fjölskyldan kr. 5.850. Þetta er há upphæð fyrir margar fjölskyldur sem geta þar af leiðandi ekki heimsótt safnið. Þess utan eru allar veitingar seldar á uppsprengdu verði.
Tekjulækkun vegna tillögunnar nemur 5 m.kr. Tekjulækkunin verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir menningar- og íþróttasviðs hækkaðar á móti.
Greinargerð:
Reykjavíkurborg skilgreinir sig sem menningarborg. Í raun má segja að Árbæjarsafn sé aðeins fyrir efnamikið fólk. Þessu þarf að breyta og leggur Flokkur fólksins því til að foreldrar sem koma með barn/börn sín greiði bara fyrir annað foreldrið og að frítt sé fyrir börn til 18 ára enda er einstaklingur skilgreindur sem barn til 18 ára. Það ætti að vera metnaður borgar meirihlutans og þeirra sem hafa umsjón með safninu að sem flestir komi þangað til að njóta húsakynna og umhverfis. Fegurð, saga staðarins og veitingar á viðráðanlegu verði, stuttir viðburðir og fleira í þeim dúr er eitthvað sem laðar að og gefur staðnum líf. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld að endurskoða gjaldskránna og samþykkja þessa tillögu sem kveður á um hóflegar breytingar, lækkun á aðgangskostnaði fyrir fjölskyldur sem heimsækja safnið.
F-3 Breytingar á hundagjöldum
Tillaga Flokks fólksins um að árlegt hundagjald lækki um 50% en það er nú 17.800 krónur og verði 8.900 krónur. Einnig er lagt til að handsömunargjald lækki um helming en það er nú 38.550 krónur og verði þess í stað 19.275 krónur. Athuga verður að það hafa ekki allir ráð á að greiða rúmar 30 þúsund krónur vegna þess að hundur þeirra hefur óvart sloppið og er handsamaður af Reykjavíkurborg.
Tekjulækkun vegna tillögunnar nemur 16,5 m.kr. Tekjulækkunin verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir menningar- og íþróttasviðs hækkaðar á móti.
F-4 Viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts
Breytingartillaga fulltrúa Flokks fólksins við tillögu um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2025.
Lagt er til að viðmiðunartekjur tillögunnar verði eftirfarandi:
- Réttur til 100% lækkunar
Einstaklingur með tekjur allt að 5.412.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 7.555.000 kr.
- Réttur til 80% lækkunar
Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.412.001 til 6.196.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.555.001 til 8.370.000 kr.
III. Réttur til 50% lækkunar
Einstaklingur með tekjur á bilinu 6.196.001 til 7.202.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 8.370.001 til 10.000.000 kr.
Kostnaðarauki vegna tillögunnar nemur 50 m.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir á sameiginlegum kostnaði (ÖNN) verði hækkaðar á móti.
Greinargerð:
Tillaga borgarstjóra vísar til hækkana á bótum almannatrygginga til samræmis við þróun réttinda almannatrygginga. Hins vegar er spurning hvort ekki sé tilefni til frekari hækkunar sérstaklega í ljósi þess að verðbólga yfirstandandi árs hefur ekki lækkað í samræmi við áætlanir þær sem lágu til grundvallar hækkun almannatrygginga síðustu áramót.
Bætur almannatrygginga hækkuðu síðustu áramót um 0,6% vegna vanmats á verðbólgu í fjárlögum ársins 2021, og 4,9% vegna áætlaðrar verðbólgu. Þá ákvað ríkisstjórnin að hækka bætur almannatrygginga vegna örorku sérstaklega um 0,5% til þess að tryggja kaupmáttaraukningu. Auk þess hækkuðu bæturnar heilt yfir um 2,5% um mitt árið.
Sé ekki litið til 0,6% hækkunarinnar hefur lífeyrir almannatrygginga aðeins hækkað um 8% vegna áætlana um þróun verðlags á yfirstandandi ári. Vísitala neysluverðs hefur þegar hækkað um 6% það sem af er ári og ekkert lát er á þeirri þróun. Að öllum líkindum verður vísitöluhækkun ársins nær 8,6%, sbr. nýjustu þjóðhagsspár Seðlabanka og Hagstofu.
Réttast væri að hækka viðmiðin um vanreiknaða verðbólgu síðasta árs. Því ætti fjárhagsaðstoð að hækka fyrst, um 0,6 vegna vanreiknaðrar verðbólgu árið 2022 og svo um 8,6% samkvæmt nýjustu þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands. Samanlagt er það hækkun um 9,25%.
F-5 Álagningarhlutfall A-hluta fasteignaskattsálagningar verði 0,165% í stað 0,18%. Jafnframt leggur Flokkur Fólksins til að álagningarhlutfall í C-hluta verði 1,42% í stað 1,6%.
Lagt er til að álagningarhlutfall A-hluta fasteignaskattsálagningar, þ.e. fasteignaskattur af íbúðahúsnæði, verði 0,165% í stað 0,18%. Jafnframt leggur Flokkur Fólksins til að álagningarhlutfall í C-hluta, þ.e. fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði, verði 1,42% í stað 1,6%. Tekjulækkun vegna tillögunnar nemur 2.784 m.kr. og er lagt til að hún færist til lækkunar á áætlað handbært fé.
Greinargerð:
Lagt er til að álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-hluta og C-hluta verði hið sama og í Kópavogi. Húsnæðisverð er hærra í Reykjavík er hærra en í Kópavogi. Á meðan Kópavogur (og fleiri sveitarfélög) lækkaði álagningarhlutfall fasteignaskatts þá hélt meirihluti borgarstjórnar álagningarhlutfalli fasteignaskatts óbreyttu. Það þýddi beina skattahækkun á íbúa Reykjavíkurborgar.
Fyrirtæki eru farin að taka mið af hærri fasteignaskatti í Reykjavíkurborg en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Til lengri tíma litið þá getur sú aðferð meirihlutans að hækka stöðugt skattaálögur á íbúa og fyrirtæki í Reykjavík, til að mæta slæmri fjárhagsstöðu og óstjórn í fjármálum borgarinnar um árabil, haft þær afleiðingar að skattstofn borgarinnar dragist saman og geri þannig stöðuna enn verri. Það er því nauðsynlegt að stöðva slíka þróun, miða skattaálögur við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og mæta slíkum aðgerðum með hagræðingu í rekstri.
F-6 Breytingartillaga Flokks fólksins við tillögur meirihlutans nr. 9 niðurfellingu á yfirfærslu fjárheimilda ársins 2023 til ársins 2024.
Flokkur fólksins lýsir sig andvígan niðurfellingu á möguleikum til að flytja fjárheimildir milli ára. Lagt er til að heimilt verði að flytja 50% af ónýttri fjárheimild milli ára. Ef miðað er við stöðu sviða þá er kostnaðarauki vegna tillögunnar 127,5 m.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir viðeigandi sviða hækkaðar á móti.
Greinargerð:
Það er hvati fyrir forstöðumenn stofnana að geta nýtt ávinning af hagræðingu í rekstri og útsjónarsemi við að reka viðkomandi stofnun, til að bæta aðstæður eða á annan hátt styrkja starfsemi hennar.
Það er hvati fyrir forstöðumenn og aðra starfsmenn að stofnunin og starfsmenn hennar njóti þess, ef góður árangur næst með því að við auka hagkvæmni, bæta skilvirkni eða á annan hátt bæta rekstur hennar, með því að hvetja starfsfólk stofnunarinnar til að nýta styrk sinn og þekkingu í þeim tilgangi að bæta reksturinn. Sé enginn hvati til slíkra hluta þá verður stofnunin rekin með það eitt markmið í huga að fullnýta fjárheimildir, sama hvaða aðferðum er beitt í því sambandi, því litið verður á fjárheimild, sem ekki er fullnýtt, sem tapað fé.