Borgaráð 20. febrúar 2020

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að gerð verði faglegri úttekt á loftgæðum Fossvogsskóla

Lagt er til að gerð verði faglegri úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla. Foreldrar hafa ítrekað reynt að komast í samband við embættismenn borgarinnar en það gengur illa. Það hefur aldrei verið gerð alvöru úttekt eftir að sagt var að „verki“ væri lokið. Heilbrigðiseftirlitið hefur komið þarna gengið í gegn en slík heimsókn hefur aldrei skilað sér segja foreldrar barna í Fossvogsskóla. Flokkur fólksins vill að skóla- og frístundarráð taki málið alvarlega og bregðist við með öðru en þögn. Eftir að hafa rætt við foreldra er það upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins að margir treysti heilbrigðiseftirlitinu ekki lengur og ekki heldur mælitækjum þeirra. Ef ekki er eitthvað sýnilegt er hreinlega metið að ekkert sé að. Slík vinnubrögð eru með eindæmum ófagleg ef rétt reynast. Nú eru börn að veikjast aftur. Málið þolir því enga bið. R20020201. Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksinsað borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál koma upp í skólum:

Flokkur fólksins leggur til að borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál koma upp í skólum. Fram til þessa er aðeins verið að sjá toppinn á ísjakanum. Eftir að meirihlutinn í borginni hefur vanrækt að halda við skólahúsnæði árum saman er komið að skuldadögum. Fleiri myglumál eiga örugglega eftir að koma fram í dagsljósið næstu árin og þá þarf að vera til faglega samþykkt verklag. Í þessum málum ríkir óreiða. Í húsnæði eins og Fossvogsskóla þar sem áratuga vanræksla verður til þess að húsið nánast eyðileggst er enn vandi þótt farið hafi verið í endurbætur. Nú eru börn aftur farin að veikjast. Hefjast verður handa að nýju með því að gera almennilegar mælingar og í framhaldi fara í þær framkvæmdir sem mælingar sýna að þurfi að gera. En þar sem enginn verkferill er til þegar mál af þessu tagi koma upp gerist ekki mikið og mörgum finnst að sópa eigi vandanum undir teppi. Borgarfulltrúi skynjar að lítið er eftir af trausti í garð meirihlutans í borgarstjórn, skóla- og frístundaráðs og heilbrigðiseftirlitsins. Allir eru orðnir þreyttir á ástandinu og ekki síst hvað kerfið er seint að taka við sér og hvað langan tíma það tekur að bregðast við. R20020203. Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla:

Flokkur fólksins óskar eftir að spyrja um stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla. Þar kom aftur upp leki í nóvember þar sem yngstu börnin eru og aftur eru komin upp alvarleg veikindi. Börn eru ítrekað að veikjast og ekki næst samband við heilbrigðiseftirlitið til að gera alvöru mælingar. Er þetta komið út í það að borgin axli ekki lengur ábyrgð og að foreldrar og foreldrafélag verði að taka málið í eigin hendur og kaupa mælingar sjálft. Foreldrar eru ekki tilbúnir að fórna heilsu barna sinna degi lengur á meðan borgarmeirihlutinn stingur hausnum í sandinn og lætur sem ekkert sé. Að minnsta kosti 7 börn sýna einkenni nú og einhverjir foreldrar og kennarar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af ástandinu þarna og hvað skóla- og frístundaráð og Heilbrigðiseftirlitið er lengi að taka við sér og lætur eins og vandinn sé jafnvel bara léttvægur. Þetta er í það minnsta upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins. R20020201

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 6. febrúar 2020:

Í fundargerð segir að fyrirspurn Flokks fólksins um óhindrað aðgengi fatlaðs fólks um göngugötur í miðborginni sem vísað var til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar sé afturkallað. Hvað þýðir að vera afturkallað? Þessi fyrirspurn sem hér um ræðir var lögð fram 9. janúar 2020 og var á þá leið hvort borgin sé ekki örugglega að öllu leyti að virða þessi lög nú þegar þau hafa tekið gildi. Spurt er hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa heimildarákvæði samkvæmt nýjum umferðarlögum? Flokkur fólksins vill minna aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks á þessi nýmæli sem er undantekning frá akstursbanni um göngugötur. Allir bílar sem eru merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Í raun eiga þeir sem aka P merktum bílum að hafa heimild til að aka og leggja í allar göngugötur borgarinnar núna.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð öldungaráðs frá 10. febrúar 2020:

Afstaða öldungaráðs er að ekki eigi að styðja tillögu Flokks fólksins um að rýna í regluverk borgarinnar með gagnrýnisgleraugum til að skoða hvort textinn sé gildishlaðinn. Engu að síður vill öldungaráðið hafa tillöguna að leiðarljósi. Flokkur fólksins spyr af hverju má þá ekki bara samþykkja hana? Hér er verið að leggja til að skoða hvort borgin sjálf sé með gildishlaðinn texta í sínu regluverki og samþykktum sem fjalla um eldri borgara og þjónustu við þá. Borgin er fyrirmynd og þarf að hafa hlutina á hreinu sín megin. Flokkur fólksins hefur séð gildishlaðinn bækling sem borgin lætur liggja frammi í félagsmiðstöð aldraðra. Hann ætti að fjarlægja hið fyrsta að mati borgarfulltrúa en sagt er að hann verði ekki endurútgefinn. Athuga ber að eldri borgarar hafa ekki beina aðkomu að samningu texta í reglum og samþykktum sem þeim ætti að vera boðið að gera. Tillögu um að gerð yrði könnun meðal eldri borgara um afstöðu þeirra til þessara hluta var líka hafnað. Af hverju má ekki spyrja eldri borgara sjálfa um hvað þeim finnst um þessa hluti? Það hlýtur að vera metnaður hjá öldungaráðinu og mannréttindaskrifstofu að hvergi sé að finna gildishlaðinn texta neins staðar í regluverki borgarinnar eða upplýsingabæklingum.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 12. febrúar 2020:

Flokkur fólksins leggur áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu. Minnt er á gagnrýni Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar sem skipulagsyfirvöld verða að taka til greina. Fleiri félög eru uggandi. Landvernd, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og Stangaveiðifélag Reykjavíkur hafa öll gert athugasemdir við skipulagið. Óttast er að hér sé upphafið að fleiri byggingum sem verða ef til vill ekki síður í óþökk borgarbúa. Sú bygging sem ákveðið er að rísi þarna er engin smásmíði. Hún er 9 metra há og 4.500 fm. að flatarmáli. Ekki er komin endanleg lausn á mögulegri ljósmengun sem varað hefur verið við að stafi af mannvirki sem þessu. Fyrirsjáanlegt er að umferðarþungi aukist verulega og er það ekki á bætandi þar sem umferðartafir á þessum stað eru miklar nú þegar. Nú er verið að safna undirskriftum til að fá íbúakosningu. Það er erfitt þar sem safna þarf 18 þúsund undirskriftum kosningabærra Reykvíkinga til að íbúakosning geti farið fram og þessu þarf að safna á afar stuttum tíma.

Bókun Flokks fólksins við framlagðar fundargerðir Sorpu frá janúar og febrúar 2020:

Flokkur fólksins hefur áður kvartað yfir fundargerðum SORPU og hversu rýrar þær eru og segja lítið. Fyrir eigendur SORPU, borgarbúa, er erfitt að sjá hvað er í gangi á þessum fundum SORPU. Kjörnir fulltrúar ættu að eiga rétt á meiri aðkomu að þessu félagi. Ljóst er að hefði félagið ekki verið svo aflokað og einangrað hefði mátt forða því frá miklu tjóni. Þessu þarf að breyta og það er gert með því að breyta fyrirkomulagi byggðarsamlaga. Málefni SORPU er ekki einkamál fárra útvaldra.

Bókun Flokks fólksins við embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði:

Tillaga Flokks fólksins um að kallað verði eftir upplýsingum frá foreldrum í tengslum við skóla án aðgreiningar hefur verið felld. Flokki fólksins finnst sem raddir foreldra heyrist ekki nægjanlega vel enda þótt sagt sé í svari að sífellt sé verið að spyrja foreldra um eitt og annað er varða börn sín og skólastarf. Það sést hins vegar hvergi samantekið hver séu viðhorf foreldra til skóla án aðgreininga og hvernig þeim finnst það fyrirkomulag sem er í gangi vera að mæta þörfum barna sinna. Það skiptir líka máli hvernig er spurt. Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi minna á aðra tillögu sem einnig var felld en hún laut að því sama, að kalla fram skoðanir og viðhorf foreldra. Það var tillaga um skilaboða- og ábendingakassa í öllum skólum. Einhverjir skólar eru e.t.v. með slíkt fyrirkomulag. Þetta er ein leið til að auðvelda foreldrum að koma skoðunum sínum og ábendingum er varðar skólann og skólastarfið til skólayfirvalda á auðveldan og fljótlegan máta. Hugsun borgarfulltrúa er að leita allra leiða til að fá að heyra í foreldrum og í raun eiga engar stórar ákvarðanir að vera teknar án aðkomu foreldra. Spurning er t.d. hversu mikið foreldrar komu að tiltölulegri nýrri menntastefnu borgarinnar?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs formanns borgarráðs um fyrirkomulag funda borgrráð:

Formaður borgarráðs hefur ákveðið að taka ekki lengur tillögur og fyrirspurnir borgarráðsmanna inn í fundargerð borgarráðs sem varða málaflokka sem heyra til annarra fastanefnda að undanskildum málum þeirra flokka sem ekki eiga fulltrúa í viðkomandi fagráði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við þetta og finnst rökin, að þessi breyting leiði til minni álags á borgarráð, ekki trúverðug. Með þessari ákvörðun er dregið úr gagnsæi. Ef einhver skyldi vera að fylgjast með hvaða mál eru framlögð í borgarráð þá er ekki hægt að sjá þessi mál fari þau ekki í fundargerðina. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst sem sífellt sé verið að reyna að klípa af og þrengja réttindi minnihlutafulltrúa til að tjá sig og í þessu tilfelli er verið að reyna að fela tillögur og fyrirspurnir þeirra sem lagðar eru fram skriflega. Er þetta liður í að reyna að fela mál minnihlutans fyrir almenningi? Fyrir fulltrúa flokks sem situr einn á fundi skiptir máli að öll framlögð mál á fundinum komi inn í fundargerð. Borgarfulltrúa finnst sérkennilegt að ekki sé hægt að setja framlögð mál í fundargerð án þess að það þurfi að þýða mikið auka álag fyrir skrifstofu borgarstjórnar. Vissulega kallar það á að fundargerðin verði einni blaðsíðu lengri.

 

Bókun Flokks fólksins við samþykkt skipulags- og samgönguráðs á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal:

Elliðaárdalurinn er einstakt svæði. Stekkjarbakki er þar ekki undanskilinn. Verndun svæðisins alls hefði verið besta ákvörðunin og að í framhaldinu hefði verið unnið með Reykvíkingum að mögulegu framtíðarskipulagi á svæðinu. Nú er nýtt hverfi, Vogabyggð, að byggjast upp með 3200 íbúðum. Einnig er fyrirséð að Ártúnshöfðinn muni byggjast upp sem íbúðabyggð með 3-4000 nýjum íbúðum. Gera má ráð fyrir að íbúar þessara nýju hverfa og annarra hverfa í Reykjavík njóti þess að stunda útivist í dalnum. Þeir sem láta sér annt um þetta svæði eru uggandi um að bygging þessa Aldin Biodome sé aðeins upphafið að fleiru sem á eftir að gera þetta svæði að allt öðru en það er. Samkvæmt aðalskipulagi eru nokkrir aðrir þróunarreitir í dalnum sem til stendur að byggja á. Hvað fleira er í bígerð hjá skipulagsyfirvöldum á þessu svæði er ómögulegt að segja til um. Það er erfitt fyrir fólkið að hafa áhrif á þetta þar sem um 18 þúsund undirskriftir þarf til að fá íbúakosningu. Nú er í gangi undirskriftasöfnun sem kannski aðeins brot af Reykvíkingum vita af. Enn er dágóður hópur í Reykjavík sem ekki notar tölvur til að greiða atkvæði og getur vel verið að hluti þessa hóps sé ekki kunnugt um þessa undirskriftasöfnun.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurbætur á 7 leikskólum vegna nýrra ungbarnadeilda:

Flokkur fólksins fagnar að loksins eigi að fara í að byggja nýjar leikskóladeildir. Það er vissulega ekki við umhverfis- og skipulagssvið að sakast hversu illa hefur verið komið fram við dagforeldra á meðan verið er að „brúa bilið“. Verkefnið er ekki á áætlun. Farið var of geist í að skella hurðinni á dagforeldra. Á meðan bilið er ekki brúað þurfa önnur úrræði að vera áfram í fullri virkni. Síðastliðið haust gátu dagforeldrar ekki fyllt pláss sín fyrr en nær dró jólum. Frá júní og fram að jólum taka þeir því á sig heilmikla tekjuskerðingu. Flokkur fólksins hefur lagt til að borgin styrki dagforeldra t.d. með því að greiða þeim sem samsvarar gæslu 5. barnsins nái þeir ekki að fylla öll pláss. Enn er talsverður tími þangað til ungbarnaleikskólar verði nógu margir til að geta annað eftirspurn. Skynsamlegt hefði því verið ef borgarmeirihlutinn hefði reynt að finna leiðir í samvinnu við dagforeldra til að styrkja dagforeldrastéttina og sporna við flótta úr stéttinni á meðan verið er að „brúa bilið”. Foreldrar verða að geta verið öruggir með að fá pláss fyrir barn sitt hjá dagforeldri óháð því hvenær á árinu barnið fæddist og dagforeldrum verður að vera boðið viðunandi starfsöryggi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs velferðarsviðs á tillögu að samþykkt sameiginlegra reglna um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuborgarsvæðinu: 

Flokkur fólksins styður tillöguna og fagnar öllum góðum breytingum. Eftirfarandi atriði þyrftu þó að vera lagfærð: Þjónustutíminn verði ekki styttur frá kl. 01:00 til 24:00 á virkum dögum eins og áætlað er. Sú breyting mun þýða að fólk þarf að hugsa sig tvisvar um áður en það fer í bíó, leikhús eða annað út á kvöldin á virkum dögum. Það þyrfti helst að vera einhver varnagli til, því leigubílastöðvarnar tryggja ekki að lyftubílar séu í akstri eftir miðnætti. Hafa mætti t.d. útkallsmöguleika. Akstursþjónustan býðst ekki utan við mörk sveitarfélaganna sem reka hana. Það er bagalegt því landsbyggðarstrætó er alveg óaðgengilegur hreyfihömluðu fólki, sem og flugrútan. Það væri æskilegt að akstursþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu bjóði upp á akstur til og frá flugstöðinni í Keflavík sem fyrsta skref. Akstursþjónustan er enn of ósveigjanleg í nýjum reglum. Miðað er við að pantað sé með a.m.k. tveggja klukkustunda fyrirvara. Hægt ætti að vera að óska eftir bíl með styttri fyrirvara. Ef bíll er laus þá getur þjónustan boðist fljótt. Lipurð og sveigjanleiki skiptir öllum máli án tillits hvað reglur segja. Reyna skal ávallt að koma til móts við notendur. Koma mætti fram í skilmálum að ekki sé hægt að tryggja lausan bíl fyrr en eftir ákveðinn tíma frá pöntun.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Flokks fólksins við fyrirspurn um fyrirhugaðar framkvæmdir í samgöngum:

Hér var m.a. spurt um þrengingar vegna framkvæmda. Það er erfitt fyrir fólk að búa við þetta ástand víðs vegar um borgina og ekki síst vegna þess að engar áætlanir standast tímaáætlun. Reynslan sýnir að tímaáætlanir standast ekki, verktími fer sífellt langt fram úr áætlun. Tillaga Flokks fólksins um snjallstýringu ljósa var vísað frá. Það mál þarf kannski að taka aftur upp og fá skýran rökstuðning frá skipulagsyfirvöldum af hverju snjallstýring ljósa er ekki komið á.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Flokks fólksins við fyrirspurn um áæltanir um að setja Miklubraut í stokk:

Vitað er að með því að setja umferðaræð í stokk má minnka helgunarsvæði vega og þar með að auka möguleika á byggingum og svæðum til ýmissa nota. Þar liggja jákvæðir möguleikar. En það kostar mikið í þessu tilfelli, eða um 22 milljarða. Vandséð er að með því að leggja veg í stokk muni umferðarhraði aukast. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir við báða enda stokksins mun umferðarflæði ekki aukast heldur munu biðraðir aðeins færast til. Inni í stokknum munu hundruð bíla bíða, annað hvort við austur- eða vesturenda. Bílvélar í hægagangi mynda mengað loft sem einhvers staðar mun þurfa að vera, en bílarnir komast á sama tíma ekkert áfram. Biðraðir bíla eru stór mengunarþáttur sem ekki er hægt að líta fram hjá. Í svarinu frá umhverfis- og skipulagssviði er hugmynd sett fram; að hreinsunarbúnaður verði við útflæðisstrompa. Þetta hefur ekki heyrst áður. Er ætlunin að setja upp síur til að sía útstreymisloftið? Ef síur virka stíflast þær. Þá þarf að skipta þeim út, eða hreinsa. Einnig er mögulegt að koma menguðum lofttegundum í vatn og leiða brott. Hefur kostnaður við þetta verið kannaður? Er ekki líklegast að mengaða loftið verði látið flæða um einhver svæði og vonað að vindar munu dreifa því?

 

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagsráðs við fyrirspurn Flokks fólksins um orkuskipti og fjöldatakmarkanir leigubíla:

Í svari við fyrirspurn um orkuskipti og fjöldatakmörkun leigubíla segir að fjöldatakmarkanir eru ekki á forræði sveitarfélagsins. Borgin getur gert kröfu að leigubílar verði búnir hreinum orkugjöfum. Flokkur fólksins telur að borgin geti í öllum útboðum tekið fram að bílar aki ekki á jarðefnaeldsneyti heldur bara rafmagni eða metan. Þetta er allt í höndum borgarinnar, þ.e. í útboði ákveður borgin sín skilyrði um t.d. að einungis verði rafmagns eða metanbílar notaðir.

 

Bókun Flokks fólksins við svari er varðar LED auglýsingaskilti (fyrirspurn Sjálfstæðisflokks):

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér til að ræða almenna lýsingu í borginni þótt svarið sé um LED auglýsingaskilti sem verið er að setja upp í borginni. Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að LED lýsing er stórmál og sennilega mjög kostnaðarsöm breyting. En þetta er framtíðin, og óhjákvæmilegt að komi. Reykjavík er eftir á með alla svona hluti, er orðin gamaldags hvað varðar lýsingu í borginni. Skipulagsyfirvöld hafa verið lengi að taka við sér. Af hverju er ekki LED lýsing t.d. komin í Mjódd eða á Hlemmi?

 

Bókun Flokks fólksins við svari um skilgreiningu á hringtorgi (fyrirspurn Miðflokks): 

Fram kemur í svari að borgin telur sig þurfa að fara að lögum þegar kemur að hringtorgum. Svo virðist sem borgin vilji virða sum lög en ekki önnur. Gott að heyra það, en þarf ekki líka að fylgja nýjum umferðarlögum sem kveða á um að P merktir bílar hafi heimild til að aka og leggja í göngugötu? Þau lög tóku gildi 1. janúar 2020 og ekki er séð að farið sé að virða þetta ákvæði. Varðandi hringtorg þá hafa skipulagsyfirvöld sett strætóstoppistöð í mitt hringtorgið á Hagamel. Samræmist það lögum? Um daginn þegar veður var válynt þurfti að færa biðstöðina af torginu og inn á Birkimel og er það ekki í fyrsta sinn. Í nóvember þurfti Reykjavíkurborg að færa strætóbiðstöðvar bæði við Hagatorg og Hádegismóa út fyrir hringtorgin sem biðstöðvarnar voru við. Biðstöðvunum tveimur var lokað vegna óvissu um lögmæti þeirra, en samkvæmt umferðarlögum er óheimilt að stöðva ökutæki í hringtorgum.