Bókun vegna þriggja mánaða rekstraruppgjörs:
Frávik eru gríðarleg á skóla- og frístundarsviði og velferðarsviði. Á skóla- og frístundarsviði eru 1200 milljónir í framúrkeyrslu og á velferðarsvið tæplega 700 milljónir
Talað er um að sníða eigi sér stakk eftir vexti. Er verið að gera það á þjónustu- og nýsköpunarsviði? Þar eru 10 milljarðar sem yfirstjórn getur leikið sér með í alls konar tilraunaverkefni og minnst lítið er að sjá af afurðum og hvergi er að sjá að metinn sé ávinningur af þeim „verkefnum“ sem þar er verið að gera tilraunir með.
Rætt er um að skoða þarf hvort ofmönnun á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði kunni að vera meinið. Fulltrúi Flokks fólksins trúir því ekki, þvert á móti er fólk undir miklu álagi og klárlega engin sem situr á rassinum á starfsstöðvum skóla- og frístundar og velferðarsviðs. Ekki er verið að sinna lögbundinni þjónustu en háar fjárhæðir eru settar í alls konar verkefni sem hefur ekkert að gera með beina þjónustu við börn, öryrkja og eldri borgara. Í öllu þessu fer fátækt vaxandi og þúsundir leita náðar hjá hjálparsamtökum í hverjum mánuði.
Bókun Flokks fólksins við liðnum USK – Laugavegur 168 – 176 – deiliskipulag – til afgreiðslu:
Um er að ræða nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar við Laugaveg 168-176, þar sem gert er ráð fyrir að lóðin Laugavegur 176 verði nýtt undir gististarfsemi og verslun en aðrar lóðir á skipulagssvæðinu eru skilgreindar sem lóðir án heimilda. Íbúaráð og fleiri eru á móti 8-hæða byggingu og var fallið frá því og fara á niður í 7. Hvað sem því líður verður útsýnisskerðing og mjög skiljanlegt að íbúar séu svekktir yfir því. Það skiptir vissulega máli hvernig húsin ,,mjókka upp” þegar hugað er að skuggamyndum og áhrifum á vind. Inndregnar efri hæðir minnka t.d. slík áhrif. Útsýni er takmörkuð auðlind og afstöðu þarf að taka til hverjir eiga að njóta þess. Kvartanir vegna útsýnisskerðingar eru margar, en eflaust fá einhverjir aðrir betra útsýni. Nokkur vandræðagangur virðist vera í samgöngumálunum, og örðugt að búa til stæði fyrir rútur. Fram kemur í niðurstöðum samgöngumats að 63 bílastæði ættu að vera á lóðinni, þar af 4 fyrir hreyfihamlaða. Hjólastæði skulu vera á bilinu 62-93. Fleiri hjólastæði eru en bílastæði sem er athyglisvert.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs – Suðurlandsbraut 34-Ármúli 31 – Orkureitur – deiliskipulag – til afgreiðslu:
Fulltrúi Flokks fólksins óttast að mikil þrengsli verði á þessum reit. Þar sem fjöldi verslana og fyrirtækja hefur flutt í Ármúlann undanfarin ár er umferð nú orðin töluvert mikil um svæðið. Umferð hefur aukist vegna t.d. lokana í miðbænum og þrenginga á Grensásveg. Þarna kemur mikið byggingarmagn, byggja á allt að 450 íbúðir og atvinnuhúsnæði rísi t.d. á lóðinni Suðurlandsbraut 34/Ármúli 31. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að þarna verði mikil þrengsli svo mikil að allt eins lítur út að útiloka eigi akandi umferð um svæðið. Ekki liggur nógu skýrt fyrir hvaða áhrif breytingar á lóðinni Suðurlandsbraut 34/Ármúli 31 muni hafa á umferð og rými vegfarenda? Fulltrúa Flokks fólksins hafa einnig borist upplýsingar um að Reykjavíkurborg áformi breytingar á Ármúlanum ofar í götunni, á milli Vegmúla og Selmúla. Ekki fékkst svar að þessu sinni hvaða breytingar séu fyrirhugaðar á þeim hluta Ármúla af hálfu skipulagsyfirvalda?
Bókun Flokks fólksins við liðnum: Lagfæringar á aðgengi strætóbiðstöðva 2021 – til afgreiðslu
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að laga á nú aðgengi að strætóbiðstöðvum. Um er að ræða endurbætur og lagfæringar á 12 strætóbiðstöðvum. Framkvæmdir taka mið af ástandsúttekt á aðgengi strætóbiðstöðva sem gerð var sumarið 2020. Hálfnað er verk þá hafið er. Um 500 stöðvar þarfnast endurbóta og viðgerða bæði hvað varðar aðgengi og yfirborð. Samkvæmt kynningu sem flutt var í skipulags- og samgönguráði er aðgengi viðundandi á 11 stöðum af 556 stöðum. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað. Aðgengi og yfirborðsvandi stétta við strætóbiðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma sem það tekur að gera ástandið viðunandi, hvað þá fullnægjandi.
Bókun Flokks fólksins við liðnum: Kleppsvegur 150-152 – Brúum bilið – til afgreiðslu:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að nýr leikskóli skuli koma í Laugardal og Vogum enda mikil þörf á. Vanda þarf til verka og vissa þarf að ríkja um að þetta húsnæði sé gott og heilt, laust við myglu og raka. Halda á innra skipulagi á efri hæð að Kleppsvegi 152 að mestu óbreyttu, en erfitt er að halda í innveggi sökum nauðsynlegra lagfæringa á gólfum eins og segir í gögnum. Skýrsla frá Eflu 2017 staðfestir eldri rakaskemmdir í húsnæði sem ekki er búið að bregðast við að fullu. Einnig eru viðvarandi lekar frá óþéttu gluggakerfi og saga um leka frá þaki niður í gifsloft og veggi. Sýni staðfesta myglu- og örveruvöxt í húsnæði. Kostnaðarmat hefur hækkað og einnig sá hluti sem snýr að óvissu, auka- og viðbótarverkum sem áætlað er nú 129.000.000. Heildarkostnaður er 989.000.000 en var 600 m.kr. samkvæmt fyrra mati frá Umhverfis- og skipulagssviði sem hafði unnið greiningu og frumathuganir varðandi breytingar. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að tryggt verði að leikskólinn verði algerlega laus við myglu og raka en spyr jafnframt hvort ekki sé hægt að áætla óvissuþætti vegna auka og viðbótarverka nákvæmara?
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Rétt er að árétta að ekki er um framúrkeyrslu að ræða, heldur er verið að samþykkja verkefnið byggt á ítarlegu kostnaðarmati sem nú liggur fyrir, en fyrri áætlun var frumkostnaðaráætlun og ekki óeðlilegt að einhver hækkun verði. Það ruglar opinbera umræðu um umframkeyrslu að blanda því saman að samþykkt kostnaðaráætlun sé hærri en upphaflega hefði mátt vona, og því þegar verkefni fara framúr samþykktri kostnaðaráætlun.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að nýr leikskóli skuli vera í bígerð. Tvennt er þó áhyggjuefni og það er að verið er mögulega að byggja að hluta til úr myglu- og rakamenguðu húsnæði. Kostnaður er engu að síður mun meiri en frumáætlun sagði til um eða um 75% hærri sem segir nákvæmlega það að jafn góður kostur hefði verið að rífa það sem fyrir var og byggja allt frá grunni.
Sundabraut
Það hefur lengi legið fyrir að Sundabraut verður fjármögnuð með veggjöldum. Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir alfarið veggjöldum. Einnig hefur það legið fyrir að ekki er gert ráð fyrir fjármögnun framkvæmdarinnar úr ríkissjóði. Þetta getur varla talist raunhæft að mati fulltrúa Flokks fólksins. Álagning veggjalda er röng og þess utan kallar slíkt á yfirbyggingu og er því kostnaðarsamt. Óttast er að meirihlutinn nýti sér veggjöld til að hamla notkun fjölskyldubílsins og refsa þeim sem kjósa bíl sem aðalferðamáta. Aðrar leiðir eru til en að setja á veggjöld. Félag íslenskra bifreiðareigenda hefur rökstutt vel að lestur á kílómetrastöðu bíls við árlega skoðun sé ódýr kostur ef leggja þarf gjald á akstur. Það kerfið er svipað og við rafmagnssölu, áætluð er notkun sem er staðfest við árlega skoðun.
Bókun Flokks fólksins við liðnum: Nýr leikskóli Safamýri 5 – Brúum bilið – til afgreiðslu:
Nýr leikskóli í Safamýri 5, kostnaðaráætlun. Eins og kemur fram í gögnum var verkefnið á frumstigum innréttingarverkefni þar sem koma átti fyrir leikskóla í eldra húsnæði með lágmarks breytingum. Markmið verkefnisins var umfram allt að tryggja heilsusamlegt og gott húsnæði fyrir nýjan leikskóla. Nú er ljóst að ef húsnæði á að þjóna nýju hlutverki sínu á fullnægjandi máta þarf að nálgast verkefnið með öðrum og kostnaðarsamari hætti, en umfang og kostnaður verksins svipar til nýframkvæmdar. Í framhaldi af þessu veltir fulltrúi Flokks fólksins fyrir sér hvort ekki hefði átt að ákveða strax að byggja nýtt hús frá grunni?
Bókun Flokks fólksins við Rammaúthlutun Reykjavíkurborgar 2022 – til afgreiðslu:
Nú er gert ráð fyrir hagræðingu sem nemur 1% af launakostnaði og á að vera jafnt yfir öll fag- og kjarnasvið borgarinnar ásamt miðlægri starfsemi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að halda eigi áfram að hafa 0.5% hagræðingu á svið eins og skóla- og frístundasvið og velferðarsvið. Þessi svið berjast í bökkum enda þau svið sem eru í beinustu tengslum og þjónustu við borgarbúa. Þess í stað mætti hækka hagræðingarkröfu á þjónustu- og nýsköpunarsvið um meira en helming sem ekki er betur séð að hafi bruðla og nánast sóað fjármagni borgarbúa í alls kona tilraunaverkefni sem engin þörf er á í þessum mæli.
Bókun Flokks fólksins við liðnum: Stuðningur Bloomberg Philantropies við stafræna umbreytingu Reykjavíkurborgar – framlagning:
Hvað sem allri stafrænni umbreytingu líður í rafrænu kerfi borgarinnar og mikilvægi hennar þá einkennist þetta bréf borgarstjóra af nokkur oflæti. Gengist er upp í stafrænum viðurkenningum sem skýtur skökku við þegar ekki allir borgarbúar hafa fæði, klæði og húsnæði. Hér er það stafræna vegferðin sem virðist skipta öllu máli hjá meirihlutanum. Áður hefur fulltrúi Flokks fólksins bókað í þá veru að borgarstjóri og meirihlutinn er ekki að fá góða ráðgjöf í þessum málum. Markmiðin í stafrænni umbyltingu borgarinnar eru óljós og ávinningur ekki skilgreindur. Fulltrúi flokks fólksins vonar að borgarstjóri nái áttum þegar hann horfir á 10 milljarða innspýtingu í stafræn verkefni hverfa í mörg afar óljós tilraunaverkefni. Á meðan getur borgin varla sinnt lögbundinni þjónustu við börn. Kostnaður við rekstur skóla- og frístundasvið og velferðarsviðs er vanáætlaður og berjast þessi svið í bökkum. Tæplega 1100 börn bíða eftir fagþjónustu skóla. Sjónir hafa tapast á hvað skiptir mestu máli í borginni sem ætti að vera fólkið og þarfir þess fyrst og síðast. Hvað varðar þennan samning um stuðning Bloomberg er eftir því tekið að aðeins tvær borgir í norður Evrópu eru þátttakendur. Meðal þátttakenda er hins vegar að finna Kólumbíu og Mexíkó
Bókun Flokks fólksins við tillögu um reglur um verklag við uppljóstrun. Lagt fram bréf mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 28. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að nýjum reglum um verklag vegna uppljóstrunar starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Reykjavíkurborgar:
Meirihlutinn leggur til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að nýjum reglum um verklag vegna uppljóstrunar starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Reykjavíkurborgar. Þetta eru mikilvægar reglur að mati fulltrúa Flokks fólksins. Því er fagnað jafnframt að þær ná til allra þeirra sem eru í þeirri aðstöðu að geta orðið vitni að meintu lögbroti eða ámælisverðri háttsemi í starfsemi borgarinnar. Þetta þýðir að ef kjörinn fulltrúi verður vitni að eða hefur grunsemdir um mögulega sviksemi í borgarkerfinu eða meint lögbrot/ámælisverða hegðun og upplýsir um það, þá nýtur hann jafnframt verndar samkvæmt ákvæðum laga um vernd uppljóstrara og reglna þessara.
Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 21. júní 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um tímabundna fjölgun sérfræðinga til að vinna úr áhrifum COVID-19 á börn og unglinga:
Nú á að gyrða sig í brók og hefjast handa við að ráðast til atlögu gegn löngum biðlistum barna eftir fagþjónustu. Sálfræðingar eiga þó ekki að hafa aðsetur innan skólanna eins og fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá og hefur ítrekað lagt til. Það er auk þess vilji margra skólastjórnenda enda þjónar slíkt fyrirkomulag best börnum og starfsfólki. Hér talar fulltrúi Flokks fólksins af 10 ára reynslu sinni sem skólasálfræðingur. Nú bíða 1068 börn eftir þjónustu fagfólks skóla. Biðlistinn hefur verið að lengjast jafnt og þétt síðustu árin og enn meira í COVID. Börn sem bíða eftir þjónustu talmeinafræðings eru 434. Fulltrúi Flokks fólksins hefur frá upphafi kjörtímabils barist fyrir því að fagfólki verði fjölgað og að farið verði markvisst í að stytta biðlista barnanna en talað hefur verið fyrir daufum eyrum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega að stíga eigi þetta skref. Hins vegar hefur dýrmætur tími glatast. Fyrir tugi barna sem hafa verið á biðlistum er ansi seint í rassinn gripið. Þau hafa beðið mánuðum, jafnvel árum með vandamál sín óleyst í þeirri von að brátt komi nú röðin að þeim og þau fái fullnægjandi þjónustu. Þessi fjárveiting er sögð duga fyrir 650 börn, sem er um helmingur af börnum á biðlistanum
Nánar:
Tillagan um tímabundna fjölgun sérfræðinga til að vinna úr áhrifum Covid-19 á börn og unglinga, gerir ráð fyrir 140 m.kr. fjárheimild. Áætlað er að fjárveitingin dugi til að veita allt að 650 börnum þjónustu á 12 mánaða tímabili. Sérfræðingar sem starfa nú á þjónustumiðstöðvum munu jafnframt vinna við að þjónusta börn á biðlistunum til að hægt sé að vinna á honum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að 140 m.kr. dugi ekki.
Bókun Flokks fólksins við liðnum um tilraunaverkefni um ný íbúaráð – beiðni um framlengingu – til afgreiðslu:
Það er sjálfsagt að framlengja verkefnið um ný íbúaráð vegna COVID. Hitt er að það er nauðsynlegt að gera breytingar á þeim þannig að þau séu meira fyrir fólkið í borginni. Íbúaráðin eru alltof pólitísk og á minnihlutinn í þeim ekki nógu sterka rödd. Hugsa þarf íbúaráðin sem rödd borgarbúa og þurfa ráðin að hlusta á íbúana og taka mál inn á fundina sem óskað er eftir. Opna á fundina fyrir íbúa sem óska eftir að koma á fund og ræða ákveðin mál. Íbúar hafa margir sagt að þeir hafi átt erfitt með að ná til íbúaráðanna og að ekki hafi verið á þá hlustað. Nærtækast er að taka dæmi um íbúaráð Breiðholts. Þar var ítrekað reynt að koma máli til umfjöllunar ráðsins; fyrirhugaður 3. áfangi Arnarnesvegar. Vinir Vatnsendahvarfs reyndu að fá sett á dagskrá íbúaráðs Breiðholts umræðu um nauðsyn þess að fá nýtt umhverfismat í stað þess að byggja eigi á 18 ára gömlu mati en það gekk erfiðlega. Meirihlutinn í ráðunum er valinn af meirihlutanum í borginni og það má ekki vera þannig að erfitt eða ómögulegt verði að koma málum á dagskrá ef meirihlutanum í borginni hugnast þau ekki
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðkomu Reykjavíkurborgar að nýyrðasamkeppnum – framlagning:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um aðkomu borgarinnar að nýyrðasamkeppnum s.s. kostnað við þessa ákveðnu samkeppni (staycation) og af hverju mismunandi háar greiðslur voru til fjölmiðla og loks hvað hefur borgin greitt mikið til samkeppni af þessu tagi sl. 5 ár. Segir í svari að umrædd markaðsherferð sé mun umfangsmeiri en orðaleikurinn sjálfur og að „með herferðinni er verið að styðja við fyrirtæki, menningarstarfsemi og ferðaþjónustu í borginni í kjölfar heimsfaraldursins í samræmi við ákvörðun borgarráðs frá mars 2020.“ Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta vera loðið svar. Segir einnig að fyrir þessu sé ekki fordæmi. Heildarkostnaður er 2.332.942. Fulltrúa Flokks fólksins finnst margt í þessu ekki ganga upp. Þetta er kannski skemmtilegt verkefni en þegar hugsað er til erfiðrar stöðu hjá mörgum í borginni er erfitt að skilja hvernig hægt er réttlæta að verja á þriðju milljón í verkefni af þessu tagi sem er á engan hátt nauðsynlegt að sé á forræði sveitarfélags.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um áhrif vaxtahækkunar Seðlabanka Íslands á skuldastöðu og afborganir lána hjá Reykjavíkurborg – framlagning:
Fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um áhrif vaxtahækkunar Seðlabankans á skuldastöðu og afborganir lána hjá Reykjavíkurborg er lagt fram. Fulltrúa Flokks fólksins sýnist sýnist samkvæmt þessu skjali að borgin hafi að miklu leyti varið sig gegn breytingum á almennum útlánsvöxtum með því að taka lán með föstum vöxtum. Það er í sjálfu sér skynsamlegt þegar vextir eru lágir. Tekið er undir það sem fram kemur í meðfylgjandi skjali, að vaxtahækkanir Seðlabankans á stýrivöxtum hafi ekki mikil áhrif á vaxtagreiðslur borgarinnar eins og staðan er núna. Breytingar á stýrivöxtum hafa mest áhrif á óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum þar sem þá kemur þungi vaxtabreytinganna fram af fullum þunga strax en minni áhrif á verðtryggð lán með breytilegum vöxtum þar sem hluti afborgana og vaxta leggst við höfuðstólinn.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um yfirlit yfir öll framlögð mál Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá framlögð mál sín, fyrirspurnir og tillögur á kjörtímabilinu sett inn á heimasvæði Flokks fólksins á vef Reykjavíkurborgar með það að markmiði að auka gegnsæi og aðgengi borgarbúa að málum kjörinna fulltrúa. Síðan þá hefur það gerst að á fundi borgarráðs 24. júní sl. var lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar yfir fyrirspurnir og tillögur lagðar fram í borgarráði á yfirstandandi kjörtímabili. Fyrir það er þakkað og vill fulltrúi Flokks fólksins óska eftir því í framhaldinu að málalistinn verði settur inn á heimasvæði Flokksins á vef borgarinnar en það heimasvæði er nú þegar til staðar. Ekki er verið að biðja um að einhver einstök mál verði sett þar inn heldur öll framlögð mál, fyrirspurnir og tillögur og upplýsingar um hvaða málum er lokið og hvaða er ólokið í borgarkerfinu. Fulltrúi Flokks fólksins sér ekki fyrir sér að Gagnsjá og/eða Hlaðan verði að veruleika á þessu kjörtímabili eða því næsta ef því er að skipta og telur því ekki raunsætt af svaranda að vísa málinu þangað.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 21. júní 2021, liður 6
Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að fræða börn um ofbeldi af öllu tagi, hvernig það birtist og viðbrögð við því. Spurningin er ekki hvort eigi að fræða börn um þessi mál heldur hvernig. Fræðsla þarf að beinast bæði að því hvernig börn og ungmenni verja sig fyrir ofbeldi en einnig hvar mörkin liggja í hegðun gagnvart öðrum. Í þessu sambandi er mikilvægt að fræða börn um stríðni og einelti. Ungmennin sjálf hafa kallað eftir aukinni fræðslu um þessi mál. Börn og ungmenni þurfa að þekkja mannréttindi barna og rétt þeirra til verndar gegn ofbeldi. Fyrsta skrefið í forvörnum gegn ofbeldi er að ræða um það með opinskáum og hreinskilnum hætti. Umfram allt þarf fræðslan að beinast að því að styrkja sjálfsmynd barna, að kenna þeim að treysta sinni eigin dómgreind en grunninn að því þurfa foreldrar og fagfólk að leggja með þeim. Fátt í lífi barna gerist án aðkomu og þátttöku foreldra þeirra/forsjáraðila.
Bókun Flokks fólksins við lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 30. júní 2021, liður 3.
Arnarnesvegur skipulagslýsing. Skýrsla frá Eflu er gagn með þessum lið. Þar blasir við að skýrslan er ekki hlutlaus heldur réttlæting á gerðum Vegagerðarinnar. Sagt er að gengið verður frá fláum og fyllingum með staðargróðri til þess að lágmarka ásýndaráhrif rasks. En málið er að gróðurfar í Vatnsendahvarfi er í miklu breytingarskeiði og ekki er hægt að tala um staðargróður. Þarna er aðeins verið að réttlæta slæman gjörning. Einnig er sagt að: „verður markvisst reynt að lágmarka áhrif og inngrip sem hlýst af framkvæmdinni. Sérstaklega á ásýnd svæðanna frá á gróinni íbúðarbyggð og vegna skerðingu á útivistarmöguleika á nærsvæðum. Mótvægisaðgerðum verður markvisst beint að hljóðvist og ásýnd.“ Hér er sagt frá því hvernig þessi vegur mun mjög takmarka útivistargildi svæðisins, svo ekki sé talað um áhrif á Vetrargarðinn. Ekki er séð hvernig bjarga eigi því með því að takmarka hljóðvist og ásýnd. Það má minna á að Skipulagsstofnun getur ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdaraðila ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, alþjóðlegum skuldbindingum eða tækniþróunar. Á tæpum 20 árum sem liðin er frá umhverfismatinu hefur mest allt ofangreint gerst.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 22. júlí.:
Það hefur komið skýrt fram hjá foreldrum og börnum að færa beri skólastarf sem allra fyrst í Fossvoginn en alger einhugur er um að stíga ekki fæti inn í núverandi skólabyggingar fyrr en framkvæmdum er að fullu lokið. Málefni Fossvogsskóla er dæmi um samráðsleysi meirihlutans að mati fulltrúa Flokks fólksins. Ergelsi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hefur einkennt svör við fyrirspurnum fulltrúa Flokks fólksins um málið. Foreldrar hafa þurft að berjast við borgaryfirvöld með kjafti og klóm til að fá áheyrn og úrbætur. Nú hefur skýrsla Eflu um úttekt á húsnæðinu litið dagsins ljós. Fram kemur í skýrslunni að ráðast þarf í umfangsmiklar endurbætur á húsnæðinu til að greiða úr þrálátum raka- og mygluvanda sem ítrekað hefur komið upp í skólanum og haft neikvæð áhrif á heilsu nemenda. Raki greindist í enn húsnæði skólans en að mati Eflu eru eldri viðgerðir ekki fullnægjandi í öllum tilfellum og enn að finna raka á viðgerðum svæðum. Mygla greinist í húsnæðinu og í gluggakistum skólans er að finna asbest. Í úttektinni er farið yfir möguleikann á því að rífa hreinlega skólann, en sú leið er þó talin kostnaðarsamari heldur en að ráðast í umfangsmiklar endurbætur en þörf er á fjölmörgum úrbætur.
Embættisafgreiðslur
Bókun Flokks fólksins við 5 lið í yfirliti um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði:
Nokkrum tillögum sem fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram í borgarstjórn, borgarráði eða skóla- og frístundaráði var vísað til stýrihóps um málaflokkinn. Ekkert af þessum tillögum náðu fram að ganga en þær eru eftirfarandi:
Tillaga 1: Flokkur fólksins vill enn og aftur leggja það til að borgarmeirihlutinn setji málaflokk sérskóla í forgang og veiti í hann meira fé.
Tillaga 2: Flokkur fólksins vill leggja til að inntökureglur í svokallaðan þátttökubekk verði rýmkaðar til muna. Til stóð að bekkirnir yrðu 4 í borginni. Fjölgi umsóknum í „þátttökubekk“ er lagt til að þeim verði fjölgað eftir þörfum
Tillaga 3: Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg
Tillaga 4: Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn fari þess á leit við innri endurskoðun að hún geri úttekt á sérkennslu leik- og grunnskóla í Reykjavík
Tillaga 5: Flokkur fólksins leggur til að sálfræðingar skólaþjónustu hafi aðsetur í þeim skólum sem þeir sinna. Einnig er lagt til að skólasálfræðingar heyri undir skólastjórnendur sem ákvarði í samráði við nemendaverndarráð verkefnalista sálfræðings án miðlægra afskipta.
Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 28. júní 2021, þar sem yfirlit yfir starfs- og stýrihópa borgarstjóra og borgarritara 2018-2021 er sent borgarráði til kynningar:
Starfs- og stýrihópar – Yfirlit 2018-2021 er lagt fram. Frá því að kjörtímabilið 2018-2022 hófst í Reykjavík hefur 71 starfs- og stýrihópur verið skipaður af borgarstjóra og borgarritara, sbr. hjálagt yfirlit. Af þeim hópum sem skipaðir hafa verið á yfirstandandi kjörtímabili hafa 33 lokið störfum og 38 eru enn starfandi. Til viðbótar eru 11 hópar enn starfandi frá síðasta kjörtímabili. Alls eru þetta 82 starfs- og stýrihópar. Þetta eru áhugaverðar upplýsingar að mati fulltrúa Flokks fólksins. Athygli vekur að það eru 11 hópar starfandi frá síðasta kjörtímabili. Af 71 hópi hafa aðeins 33 lokið störfum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að setja þurfi eitthvað þak á hversu lengi hópar geta verið að störfum. Ef starfs- og stýrihópar eiga að virka sem skyldi þurfa þeir að vinna með markvissum og skilvirkum hætti og skila af sér fljótt og vel. Ef afurð hópanna lítur ekki dagsins ljós fyrr en mánuðum eða árum eftir að þeir hófu störf er lítið gagn af þeim og niðurstöður þeirra jafnvel orðnar úreltar þegar þær loksins verða gerðar opinberar.