Bókun Flokks fólksins við minnisblaði um stöðumat á stefnu aðgerða í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir:
Fram kemur undir þessum lið að reglulegir fundir hafi verið haldnir á milli Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, lögreglu, Landspítala, Heilsugæslu og Fangelsismálastofnunar og að samstarfið hafi ekki enn skilað þeim árangri að hægt hafi verið að búa til verkferil um þjónustu þegar heimilislausir einstaklingar eru að útskrifast af stofnun. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað þarf til, til að þessir aðilar geti náð að vinna saman þannig að samstarfið skili einhverjum árangri?
Samstarf þessara aðila er mikilvægt. Spurning hvort þessir aðilar geti komið sér saman um einhvern „stjóra“ sem tekur það að sér að stilla upp fundum og fá aðila að borðinu. En staðan hefur lagast sem er frábært. Alla vega þurfa engir að hverfa frá neyðarskýlum vegna plássleysis. Gera þarf svo miklu meira engu að síður. Athuga ber að þessi hópur er ekki einsleitur. Ekki er hægt að setja alla undir sama hatt. Úrræði þurfa þess vegna að vera fjölbreytt. Heildarfjöldinn er 301 einstaklingur. Karlar eru í miklum meirihluta og eru þeir allt niður í 21 árs. Áherslan hefur verið á konur sem er mikilvægt en ljóst er að áherslan þarf ekki síður að vera á karla.
Bókun Flokks fólksins við úttekt velferðarsviðs á stöðu heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir í október 2021:
Stutt kynning er á könnun: Skýrsla um fjölda og stöðu heimilislausra í Reykjavík í október 2021. Heildarfjöldi heimilislausra er 301 einstaklingur. Þar af eru 54% í húsnæði sem er rétt rúmlega helmingur, 3% á víðavangi og 31% í neyðargistingu. Skipting milli kynja er 214 karlar (71%) og 87 konur (29%). Um 71% hópsins er á aldrinum 21-49 ára. Karlar eru í meirihluta og eru með annars konar vanda en konurnar og eru þeir allt niður í 21 árs sem eru orðnir heimilislausir. Grípa þarf þessa einstaklinga fyrr. Oft um 15 ára aldur má sjá sterkar vísbendingar um hverjir stefna þessa leið og oftast liggja fyrir gögn, greiningargögn og fleira. Ná þarf til þessara einstaklinga áður en vandinn nær að stækka svo mikið að viðkomandi er orðinn fastur í fíkn, er í viðjum geðrænna sjúkdóma og kominn á götuna. Markmiðið ætti að vera að vinna enn meira fyrirbyggjandi fremur en að lenda í að vera bara að slökkva elda.
Bókun Flokks fólksins við skipun stýrihóps um endurskoðun stefnu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á sviði velferðartækni 2018-2022:
Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar allt það sem gert er til þess að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með eins markvissum hætti og hægt er. Það væru mikil vonbrigði ef fyrirhugaðar uppfærslur á þjónustu til þessa hóps, myndu daga uppi í enn einum tilraunafasanum án þess að raunhæfar lausnir komi fram sem fyrst. Fulltrúi Flokks fólksins hefur undanfarið ár, ítrekað bent á hversu ómarkviss og tilraunakennd stafræn umbreyting Reykjavíkurborgar hefur verið undir forystu þjónustu og nýsköpunarsviðs. Það er einlæg von fulltrúa Flokks fólksins að nú verði gengið rösklega til verka og leitað verði til fagaðila á einkamarkaði til þess að koma með tilbúnar lausnir í þau verkefni sem lýst er. Það getur bara ekki verið að þau verkefni sem talað er um séu það einstök eða sérstök í Reykjavík að finna þurfi upp alveg sér lausnir sem hvergi finnast annarsstaðar t.d. í öðrum sveitarfélögum.
Bókun Flokks fólksins við tillögu um úttekt á fátækt í kjölfar COVID-19, sem vísað var til Velferðarvaktarinnar, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. október 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að Reykjavíkurborg gerði sérstaka úttekt á fátækt í Reykjavík sambærilega þeirri sem gerð var 2008. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að margar slíkar úttektir hafi verið gerðar og að ekki væri þörf á annarri. Í framhaldi var sent erindi til Velferðarvaktarinnar um að kortleggja fjölda fólks sem lifir undir fátæktarmörkum og greina þarfir þessa hóps og hvar sé þörf á úrbótum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að Reykjavíkurborg geri úttekt sem þessa í Reykjavík. Langstærsti hluti þjóðarinnar býr í höfuðborginni. Velferðarvaktin stendur sannarlega sína vakt og hefur unnið margar góðar athuganir. En þeirra vinna á ekki að fría borgina frá því að halda uppi vöktun á því hver staðan er á borgarbúum, þeim sem standa höllum fæti á þessum fordæmalausu tímum sem við höfum verið að upplifa. Niðurstöður sem birtar eru í nýrri skýrslu Barnaheilla renna stoðum undir mikilvægi þess að velferðaryfirvöld séu með puttann á púlsinum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur talað ítrekað fyrir sértækum aðgerðum s.s. fríum skólamáltíðum til að létta undir með þeim sem lifa undir eða við fátæktarmörk. Þess vegna er mikilvægt að hafa ávallt nýjustu upplýsingar um fjölda þeirra sem fallið hafa í fátækt eða eru við það að falla í fátækt.