Fram fer kynning á sviðsmyndagreiningu vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2020 og fimm ára áætlunar ásamt fjárhagslegri greiningu á áhrifum COVID-19. Einnig fer fram kynning á greiningu Kviku á viðbrögðum sveitarfélaga vegna COVID-19.
Nú er hart í ári vegna COVID. Mörg þúsund manns þarfnast aðstoðar og eykst þörfin með hverri viku. Staðan var slæm áður og má því segja að borgin var illa undirbúin fyrir COVID. Sumarið 2019 voru mörg þúsund manns matarlausir því hjálparsamtök þurftu að loka. Á góðæristíma voru um 500 börn sem bjuggu við sárafátækt. Staðan mun versna um ókominn tíma eða þar til bóluefni við veirunni finnst. Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð velferðarsviðs eru of ströng. Öll viðmið verður að endurskoða í ljósi nýs veruleika. Velferðaryfirvöld treysta of mikið á hjálparsamtök. Um fátækt fólk hefur lengi ríkt þögn og þöggun. Nú hefur hópurinn breyst, hann er breiðari en áður sem sækir aðstoð. Það eru þeir sem hafa misst vinnuna og útlendingar sem hafa verið búsettir hér og eru nú atvinnulausir. Margir eru að ljúka uppsagnarfresti og mun því atvinnuleysi aukast enn frekar. Í raun má segja að hjálparsamtök séu að bjarga lífi fólks en ekki velferðaryfirvöld borgarinnar nema að hluta til. Síðasta ár fengu 1700 umsækjendur efnislega aðstoð frá einum af hjálparsamtökunum í Reykjavík. Ætla borgarstjóri og velferðaryfirvöld að halda áfram að treysta á hjálparsamtök með að aðstoða fólk í neyð? Er ekki kominn tími til að setja fátækt fólk í forgang?