Bókun Flokks fólksins við liðnum Rauðhólar, lýsing:
Í tengslum við skipulagningu Rauðhólasvæðisins tekur Flokkur fólksins undir það mat og álit skipulagsfulltrúa að Rauðhólar eigi að tilheyra Reykjavíkurborg en ekki Orkuveitunni. Þar sem borgin er nú að skipuleggja svæðið um Rauðhóla þá ætti svæðið að heyra undir borgina en ekki Orkuveituna. Þegar Hólarnir voru friðaðir sem fólkvangur árið 1974 átti Reykjavíkurborg jörðina Elliðavatn og þar með Rauðhóla, en þegar Orkuveitan var stofnuð þá rann jörðin Elliðavatn inn í eignasamsteypu þess og sá hluti Heiðmerkur sem tilheyrði Elliðavatni ásamt Rauðhólum var því ekki lengur eign borgarinnar. Auðvitað eiga Rauðhólar frekar að vera eign borgarinnar en Orkuveitunnar. Borgin ber allan kostnað af rekstri og umsjón og því ekki eðlilegt að svæðið sé eign Orkuveitunnar.
Fyrirspurn Flokks fólksins vegna Sundabrautar Mál nr. US200088
Fyrirspurn Flokks fólksins um hvenær verði lokið við að skipuleggja legu Sundabrautar með þeirri nákvæmni að unnt verði að styðjast við það skipulag þegar fjallað er um næstu verklegar framkvæmdir með fram Sundum. Hér er um samvinnuverkefni borgar og ríkis að ræða. Í tengslum við skipulagsmál við Sundin hefur verið erfiðleikum bundið að sjá hvernig svæðið muni þróast. Þetta á t.d. við þegar flutningur Björgunar á strönd Þerneyjarsunds var ákveðinn. Strandsvæðið við innanverð sund er framtíðarauðlind. Til að geta lagt mat á galla og kosti einstakra skipulagshugmynda þarf nákvæm lega Sundabrautar að liggja fyrir allt frá Sundahöfn að Kjalarnesi þannig að verklegar framkvæmdir á svæðinu taki mið af því. Álfsnesi er álitlegt svæði fyrir íbúabyggð. Þarna má einnig gera byggingarsögunni hátt undir höfði með því að varðveita fornar minjar um verslunarstað og einnig er svæðið gott fyrir hafnsækna starfsemi. Lega brautarinnar og áhrif hennar á svæðið er enn ekki nægilega skýr. Mörg álitamál er enn til staðar sem verður að greiða úr. Það kostar lítið að skipuleggja miðað við það sem á eftir kemur. Þess vegna er nú spurt um hversu langt sé í að útlit og lega Sundabrautar liggi fyrir áður en frekari framkvæmdir t.d. á Álfsnesi verði að veruleika.