Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. febrúar 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. febrúar 2022 á auglýsingu á nýju deiliskipulagi fyrir KR-svæðið:
Tillögurnar segja að framundan séu viðamiklar breytingar á deiliskipulagi. Fyrirhugað er að nýta hluta af íþróttasvæði félagsins við Frostaskjól fyrir uppbyggingu og er til skoðunar að opna á heimildir fyrir verslun og þjónustu, íbúðir eða atvinnuhúsnæði á svæðinu. Hugmyndir ganga út á að bæta um leið við núverandi íþróttaaðstöðu og að auki byggja allt að 20 þúsund fermetra af öðru húsnæði, meðfram Kaplaskjólsvegi og Meistaravöllum í 3-4 hæða háum byggingum sem yrðu áfastar fyrirhugaðri áhorfendastúku. Völlurinn verður rammaður inn með húsum. Hvernig verður með aðgengi/bílastæði þegar eru fjölmennir leikir? Vanda þarf hér til verka, en líta ber á þetta sem fyrstu tillögur og ræða þurfi betur við íbúa í kringum svæðið. Markmið er að bæta félagsaðstöðu sem hlýtur að vera aðalatriðið. í ljósi áætlunar um mikla þéttingu allt um kring má ætla að mikil umræða verði um þessar tillögur og nú reynir á hæfileika meirihlutans til að „hlusta“. Hér hefði kannski verið betra að byrja með auðara blað. Sennilega eru flestir hlynntir einhverri þéttingu en gengið hefur verið víða of langt í borginni í ákafanum að þétta þannig að borgarbúum, mörgum, þykir nóg um.
Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra um að borgarráð samþykki að aflétta þeim fyrirvara sem gerður var á samþykkt borgarráðs frá 9. desember 2021 varðandi stofnun verkefnafélags um Coda Terminal verkefni Carbfix ohf.:
Meirihlutinn leggur til að samþykkt verði tillaga stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um að stofnað verði verkefnafélag um Coda Terminal, verkefni Carbfix ohf. að því gefnu að lagaheimild fyrir rekstri þess fáist. Út af fyrir sig er ágætt að þessi starfsemi geti fallið undir verkefni Orkuveitunnar. En er ekki rétt að vera varkár þegar svona verkefni eru sett af stað? Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort borgarbúar þurfi ekki að greiða háar upphæðir til félagsins því þetta er dýrt verkefni.
Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 7. febrúar 2022, þar sem lagt er fram til kynningar yfirlit yfir innleiðingu húsnæðisáætlunar græna plansins á fjórða ársfjórðungi ársins 2021 og ársins í heild:
Samkvæmt yfirlitinu eru rúmlega 9.000 íbúðir í deiliskipulagsferli og verulegur hluti þeirra á lokametrunum. En samt sem áður er mikill lóða- og húsnæðisskortur. Í fjölmörgum skýrslum hefur það verið staðfest að mikill skortur er á húsnæði í borginni, húsnæði af öllu tagi, hagkvæmu húsnæði sem og dýrari fasteignum. Það vantar almennt meira af nýjum íbúðum og þess vegna hefur verðbólgan rokið upp. Verðhækkanir eru m.a. tilkomnar vegna lóðaskorts. Húsnæðisvandinn er heimagerður vandi.
Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 7. febrúar 2022, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 2. febrúar 2022 á breytingum á fjárhæðum sérstaks húsnæðisstuðnings:
Hér er um almenna breytingu að ræða sem er uppfærð árlega í tengslum við reglugerð. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessi hækkun haldi ekki við nýjustu verðbólgutölur. Verði þetta breytingin þá rýrnar húsnæðisstuðningur milli ára miðað við verðbólgu. Þess utan er óásættanlegt að fólk skuli þurfa að greiða jafnvel meira en þriðjung af ráðstöfunartekjum sínum í leigu.
Bókun Flokks fólksins við bréfi mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 25. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tillögur stýrihóps um innleiðingu íbúaráða, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. febrúar 2022:
Stýrihópur hefur gert tillögur um breytingar á íbúaráðum. Lagt er fram heildstætt fyrirkomulag íbúaráðanna með ákveðnum breytingum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvað íbúum sjálfum finnst um þessar tillögur. Umsagnir bárust frá öllum sviðum en ekki er eins ljóst með viðhorf íbúanna þ.e. borgarbúanna. Íbúaráðin eru fyrir fólkið og til að opna aðgengi fólks að stjórnkerfi borgarinnar. Hvernig finnst þeim að til hafi tekist og hvort þær breytingatillögur sem lagðar eru fram nú slípi af agnúa? Jákvætt er að bætt hafi verið við nýjum fulltrúa íbúasamtaka og foreldrafélaga inn í íbúaráð Miðborgar og Hlíða. Hefði ekki þurft að gera sambærilegar breytingar á fleiri hverfum þar sem tveir hlutar hverfa sameinast?
Bókun Flokks fólksins við skýrslu stýrihóps um forverkefni til undirbúnings að innleiðingu framtíðarlausnar til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi, dags. 15. desember 2021:
Nokkuð ítarleg skýrsla er lögð fram um það sem þarf að gera til að brenna úrgang sem ekki er hægt að farga með öðru móti. Ljóst er að slíka stöð þarf að byggja á SV-horninu. Jafnframt er ljóst að hitann sem myndast má nýta. Þess vegna er best að slík stöð rísi í Álfsnesi þar sem nýtingarmöguleikar orkunnar eru góðir. Benda má á að slíkar stöðvar í nágrannalöndum eru oft hluti af hitaveitum þeirra landa. Brennsla er síðasta úrræðið þegar aðrir farvegir eru ekki tækir. Sumar fullyrðingar í skýrslunni eru hæpnar svo sem að aska verði „að stórum hluta nýtanleg í vegagerð eða sem byggingarefni“. Slík aska verður ólíklega söluvara.
Bókun Flokks fólksins við liðnum Forverkefni til undirbúnings að innleiðingu framtíðarlausnar til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi:
Markmiðið er sannarlega að fækka bensínstöðvum. Enginn lóðarleigjandi bensínstöðvar vill halda áfram að reyna að selja bensín ef ekki er lengur gróði af því. Vegna þessa er samningsstaða borgarinnar sterk ef breyta á lóðum sem eru nú undir bensínstöðvum í lóðir fyrir íbúðarhús. Það sem þegar hefur komið fram bendir til þess að borgin nýti þessa stöðu illa. Of mikil áhersla er lögð á kostnað borgarinnar svo sem fullyrðingar um himinháan kostnað til að gera lóðirnar byggingarhæfar. Slíkar fullyrðingar bæta ekki samningsstöðu. Hvergi kemur skýrt fram hver á að hreinsa lóðina þegar henni er skilað. Á t.d. að skila henni án eiturefna? Hvergi hefur heldur verið reiknað út hver er kostnaður af hreinsun. Hann þarf að áætla með rökum. Einhverjir samningar hafa nýlega runnið út eða eru að renna út. Í þeim tilfellum er samningsstaðan góð og þá ætti að bíða nema eitthvað annað réttlæti að ganga þurfi strax til samninga. Út frá þeim upplýsingum sem hafa fengist má draga þá ályktun að borgin sé að semja af sér. Sjálfsagt hefði verið að lóðarhafar greiddu til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar. Samkvæmt því sem þegar hefur komið fram um þessa samninga má ætla að núverandi lóðarhöfum séu færðar verulegar fjárupphæðir.
Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 1. febrúar 2022:
Enginn lóðarleigjandi bensínstöðvar vill halda áfram að selja bensín ef ekki er lengur gróði af því. Vegna þessa er samningsstaða borgarinnar sterk ef breyta á bensínstöðvalóðum í lóðir fyrir íbúðarhús. Allir þessir rammasamningar eru eins og skiptir engu hvenær eða hvort þeir hafi runnið út. Vel kann að vera að rétt sé að gera samkomulag sem þetta í þeim tilfellum þar sem samningar eru í gildi til margra ára í viðbót Of mikil áhersla er lögð á kostnað borgarinnar svo sem fullyrðingar um himin háan kostnað að gera lóðirnar byggingarhæfar. Slíkar fullyrðingar bæta ekki samningsstöðuna. Fram kemur að olíufélögin hefðu sagt að það kostaði 100 milljónir að hreinsa t.d. Fellsmúlann. Það eru einu upplýsingarnar um hvað hreinsun mögulega kostar. Út frá þeim upplýsingum sem hafa fengist má draga þá ályktun að borgin sé að semja af sér. Lóðarhafar greiða t.d, ekki sérstaklega til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar. Ætla má að núverandi lóðarhöfum séu færðar verulegar fjárupphæðir frá þeim sem koma til með að kaupa fasteignir á þessum lóðum. Þessi líklegi hagnaður á að falla borginni í skaut. Fulltrúi Flokks fólksins er á því að fá þurfi úr því skorið hvort borgin hafi samið af sér.
Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 1. febrúar 2022 að drögum að samkomulagi Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og hins vegar Atlantsolíu ehf. vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Háaleitisbraut 12 í Reykjavík:
Samkomulag við Atlantsolíu vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Háaleitisbraut 12 í Reykjavík. Þetta samkomulaga er af sama meiði og hin. Nýtingu lóðarinnar verði breytt, núverandi mannvirki rifin og á henni verði reistar íbúðir í bland við atvinnuhúsnæði. Lagt er upp með að í nýju deiliskipulagi verði valkvætt af hálfu lóðarhafa hvort að á efri hæðum verði íbúðar- og/eða atvinnuhúsnæði. Fram kemur að vegna breyttrar hagnýtingar og aukins byggingarmagns á lóðinni muni lóðarhafi ekki greiða sérstaklega til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um fækkun bensínstöðva. Hér er verið að færa Atlantsolíu háar upphæðir. Af hverju er félaginu ekki gert að greiða innviðagjöld?
Bókun Flokks fólksins við við tillögu að rammasamkomulagi Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og hins vegar Orkunnar IS ehf. fyrir hönd Dælunnar ehf. og Löður ehf. vegna fyrirhugaðrar breytingar á aðstöðu eldsneytisstöðva Orkunnar f.h. Dælunnar ehf:
Enginn lóðarleigjandi bensínstöðvar vill halda áfram að selja bensín ef ekki er lengur gróði af því. Vegna þessa er samningsstaða borgarinnar sterk ef breyta á lóðum sem eru nú undir bensínstöðvum í lóðir fyrir íbúðarhús. Það sem þegar hefur komið fram bendir til þess að borgin nýti þessa stöðu illa. Allir þessir rammasamningar eru eins og engu skipti hvenær eða hvort þeir hafi runnið út. Vel kann að vera að rétt sé að gera samkomulag sem þetta í þeim tilfellum þar sem samningar eru í gildi til margra ára í viðbót. Einhverjir hafa nýlega runnið út og það eru mistök að endurnýja þá. Of mikil áhersla er lögð á kostnað borgarinnar svo sem fullyrðingar um himinháan kostnað að gera lóðirnar byggingarhæfar. Slíkar fullyrðingar bæta ekki samningsstöðu. Út frá fengnum upplýsingum má álykta sem svo að borgin sé að semja af sér. Lóðarhafar greiða t.d. ekki sérstaklega til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar. Samkvæmt þessu eru núverandi lóðarhöfum færðar verulegar fjárupphæðir sem koma frá þeim sem húsin kaupa. Þessi líklegi hagnaður ætti að falla borginni í skaut. Fulltrúi Flokks fólksins er á því að fá þarf úr því skorið hvort borgin hafi samið af sér.
Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að borgarráð samþykki hjálögð drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar fyrir hönd eignasjóðs annars vegar og hins vegar Löðurs ehf. vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Lambhagavegi 12 í Reykjavík:
Í þessu samkomulagi mun lóðarhafi láta vinna nýja deiliskipulagstillögu fyrir lóðina Lambhagvegur 12. Byggja á upp á lóðinni bílaþvottastöð og eldsneytisdælur en ekki íbúðarhús. Þetta samkomulag er því ekki af sama meiði og hin þar sem olíufélögin fá að byggja hús á lóðunum ýmist með því skilyrði að fækka dælum eða hætta með þær alfarið án tillits til hvort samningar hafi runnið út, séu um það bil að renna út eða séu í gildi til næstu ára.
Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um leigueignir fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. febrúar 2022:
Þakkað er fyrir skjót svör. Fram kemur í svari að meginreglan er sú að leigusali annast á sinn kostnað meiriháttar viðhald og leigutaki minniháttar viðhald. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvort skilin milli minni- og meiriháttar viðhalds séu skýr og skilgreind og hvort það hafi komið upp deilumál aðila um hvers ábyrgð viðgerð/viðhald sé. Það er efni í frekari fyrirspurnir um málið.
Bókun Flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um fundargerðir samninganefndar Reykjavíkur við olíufélögin, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. febrúar 2022.
Þessi leynd sem hvílir yfir samningum virðist skaða samningsstöðu borgarinnar og væri mun betra ef fleiri hefðu haft aðkomu að samningsferlinu. Málið er stórt hagsmunamál borgarinnar og borgarbúa. Áhöld eru um hvort borgarstjóri hafi mögulega samið af sér að ósekju og með sumum þessara samninga gefið frá sér verðmæti, eftirsóknarverðar lóðir sem gætu fært borgarsjóði háar upphæðir. Innviðagjöld eru heldur ekki innheimt. Borgarfulltrúum gafst kostur á að skoða samningana í tölvu í gagnaherbergi Ráðhússins en bannað að afrita eða svo mikið sem punkta nokkuð niður. Slík er leyndin.
Bókun Flokks fólksins við undir liðum 3., 4. og 5. lið í fundargerð skipulags- og samgönguráðs 9. febrúar 2022:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því hvernig samráðsferli hverfisskipulags Laugardals er kynnt. Sagt er að byrja eigi með autt blað. Einnig er tekið fram að forsendurnar fyrir aðalskipulaginu séu komnar á blað og með því er gefið í skyn að þeim verði ekki breytt. Sú staða gæti komið upp að íbúum líki ekki við forsendurnar og hvað þá? Ætla skipulagsyfirvöld að vera tilbúin að hlusta á það og breyta þeim ef margir telja það nauðsynlegt og mikilvægt? Ekki er munað eftir því að lögð hafi verið svona mikil áhersla á samráð, a.m.k. það ekki kynnt með þessum hætti. Fulltrúi Flokks fólksins vill trúa að dropinn hafi hér holað steinninn en Flokkur fólksins hefur oft talað um að bæta þurfi samráð þannig að borgarbúinn og íbúinn finni að taka á mark á honum en ekki aðeins að tilkynna honum. Samráðsferlið sem snýr að krökkunum í hverfinu lítur vel út. Hafa á skapandi samráð og fræðslu um skipulagsmál. Fulltrúi Flokks fólksins vill hafa varann á hér að ekki eigi að innræta börnunum einhverja hugmyndafræði heldur veita þeim hlutlausa fræðslu. Ef margir standa að baki ákveðnum mótmælum á að hlusta á það og reyna að mæta fólki á miðri leið eða hætta við framkvæmd og endurskoða hana.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að kannað verði hvort ekki sé hagkvæmara að bjóða sorpsöfnunina út:
Flokkur fólksins vill að farið sé vel með fjármuni borgarbúa. Fyrirhugaðar eru breytingar á meðhöndlun sorps. Nú á að að leggja áherslu á að flokka á myndunarstað í stað þess að flokka í endastöð eins og átti að gera í GAJU. Söfnun sorps mun því breytast. Hægt er að notast við mismunandi söfnunarkerfi, svo sem djúpgáma, þriggja eða fjögurra tunnu kerfi. Í því samhengi óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir því að kannað verði hvort ekki sé hagkvæmt að bjóða sorpsöfnunina út og kanna hagkvæmni mismunandi söfnunarleiða?
Þetta yrði því eins konar alútboð þar sem verktakinn skipulegði starfið frá upphafi til enda. Byrja mætti á einum til tveimur hverfum innan borgarinnar og sjá hvernig slík útboð tækjust. MSS22020133
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skilin milli smá- og meiriháttar viðhalds í leiguíbúð sem eru fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd:
Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um leigueignir fyrir fólk með alþjóðlega vernd og viðhald eignanna var lagt fram á fundi borgarráðs 10. febrúar sl. Fram kemur í svari að meginreglan sé sú að leigusali annast á sinn kostnað meiriháttar viðhald og leigutaki minniháttar viðhald. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skilin milli minni- og meiriháttar viðhalds séu skýr og skilgreind og óskar eftir að fá að sjá þá skilgreiningu. Einnig hvort upp hafi komið deilumál aðila um hvers ábyrgð viðgerð/viðhald sé. Ef svo er óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um fjölda og hvernig málum hefur lyktað. MSS22020062
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins hvað er verið að uppgötva og þróa varðandi innleiðingu á lausn sem er að finna alls staðar í fyrirtækjum og hefur verið lengi í notkun:
Á fundi borgarráðs 3. febrúar var óskað eftir að borgarráð myndi staðfesta að landslög gildi hjá Reykjavíkurborg. Óskað var eftir samþykki að þegar gögn frá Reykjavíkurborg séu undirrituð, geti fullgild rafræn undirskrift komið í stað eiginhandarundirskriftar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar nánari upplýsinga um af hverju sérstaklega þarf að staðfesta þetta.
Rafrænar undirskriftir geta verið af ýmsum toga en samkvæmt lögum 55/2019 annast Neytendastofa framkvæmd eftirlits hér á landi með lögfestri tilskipun ESB 910/2014 en í henni stendur „fullgild rafræn undirskrift skal hafa sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift“. Í fyrirsögninni er einungis rafræn en ekki fullgild rafræn og í minnisblaðinu er hoppað milli rafrænna og fullgildra rafrænna eftir hentugleika –hver er skýringin á þessu?
Þegar þetta verkefni var fyrst kynnt fyrir borgarráði á síðasta ári, þá kom fram að þjónustu- og nýsköpunarsvið hefði verið með verkefnið í „uppgötvunarfasa“ og svo í tilraunafasa og loks þróunarfasa. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað er verið að uppgötva og þróa varðandi innleiðingu á lausn sem er að finna alls staðar í fyrirtækjum og hefur verið lengi í notkun. Hvers vegna hefur Reykjavíkurborg líkt og önnur sveitarfélög og stofnanir ekki nýtt sér gæði og hagkvæmni rammasamnings Ríkiskaupa um rafrænar undirskriftir í stað þess að gera kostnaðarsama sérsamninga við Dokobit? MSS22020135
Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins hversu mikið er framleitt, selt og brennt af metani og hvenær fáist nothæf molta:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram árið 2019 í borgarráði að Reykjavíkurborg setti á laggirnar þriggja tunnu flokkunarkerfi og lagði einnig fram fyrirspurn um hvort nágrannasveitarfélög ættu ekki að standa saman að sorphirðu. Ekki var áhugi á að skoða neitt slíkt þá. Nú loks á að hefja metnaðarfulla flokkun á söfnunarstað og þá er engu til sparað. Dýrmætur tími hefur tapast.
Óskað er eftir að fá sundurliðaðan kostnað um verkefnið „Eitt flokkunarkerfi og sérsöfnun á lífrænum eldshúsúrgangi“. Bjóða á upp á að safna í fjóra úrgangsflokka, lífrænt, blandað, pappír og plast?
Einnig er óskað eftir nýjum tölum um metan, hversu mikið er framleitt af metani í dag, hversu mikið er selt og hversu mikið er brennt á báli?
Jafnframt er óskað eftir að fá upplýsingar um það hvenær SORPA telur að það fáist nothæf molta úr GAJU?
Hefur SORPA kannað hvort ávinningur sé af því að bjóða út sorphirðu í þriggja tunnu kerfi? Í því sambandi má benda á að aðrir aðilar í sorphirðu hafa boðið það að plast og pappír geti verið í sömu tunnunni og þar með fækkað tunnum við heimili sem er aukin þjónusta við borgarbúa?
MSS22020136