Borgarstjórn 24. maí 2022

Mál Flokks fólksins fyrir borgarstjórn 24. maí

Umræða um vanda næturlífsins í Reykjavík og mögulegar lausnir að beiðni Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að ræða um næturlífsvandann í Reykjavík og mögulegar lausnir í ljósi afgreiðslu tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 8. 11. 2018. Tillögunni var vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs en kom til afgreiðslu nú fjórum árum síðar eða 18. maí sl. og var henni vísað til umsagnar heilbrigðiseftirlitsins.

Tillagan frá 2018 var eftirfarandi:

Að borgarráð samþykki að tryggja að eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaðamengun í borginni verði fylgt til hins ítrasta og hafa þá í huga:
Leyfisveitingar þurfa að fylgja reglugerð um hljóðvist og hávaðamörk: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/724-2008.

Reglugerðin sem hér um ræðir er í sjálfu sér ágæt. Eina vandamálið er að henni hefur ekki verið framfylgt. Auk þess stangast leyfi fyrir opnunartíma skemmtistaða á við þau lög að íbúar eigi rétt á svefnfrið frá kl. 23 til 7 að morgni, óháð búsetu, samkvæmt 4. grein lögreglusamþykktar. Hávaðamörkum hefur ekki verið framfylgt með nokkrum viðunandi hætti árum saman ef þá nokkurn tímann en þau mega ekki fara yfir 50 desíbel úti á götum (Evrópusambandið miðar við 40 desíbel). Ítrekað hefur verið hringt í lögreglu í gegnum árin sem íbúar segja að hafi engu skilað.

Flokkur fólksins hefur rætt þessi mál eftir að sóttvarnaraðgerðum var að fullu aflétt. Covid veitti íbúum grið um tíma en nú er allt komið í sama farið á ný.

Í miðbænum er blönduð byggð og þar búa barnafjölskyldur eins og annars staðar Ástandið í miðbænum þegar líða tekur á nótt um helgar er alvarlegt og hefur hópur fólks mótmælt hávaða og skrílslátum sem heldur vöku fyrir fólki í nágrenni við næturklúbba. Eftir lokun kl. 4.30 halda oft áfram götupartý fram undir morgun. Eins og vitað er þá er fólk sem hefur drukkið ótæpilega víst með að haga sér með þeim hætti sem þeir myndu ekki gera væri þeir allsgáðir. Ofurölvun getur aukið líkur á ólöglegu atferli, áreitni og ofbeldi og berast fréttir gjarnan af ofbeldisverkum úr miðbænum eftir skemmtanalíf helgarinnar.  Ölvaðir gestir næturklúbba kasta stundum af sér vatni þar sem þeir standa og ganga örna sinna á hinum ólíklegustu stöðum t.d. á tröppum fólks, í görðum eða geymslum þeirra. Sprautunálum, bjórdósum, glösum, smokkum, sígrettustubbum og matarleifum er hent hvar sem er og endar það oftar en ekki á tröppum íbúanna eða í görðum þeirra.

Dauðir hlutir njóta heldur engra griða. Veggjakrot og eignarspjöll fær að þrífast án nokkurrar refsingar. Bílar íbúanna hafa sömuleiðis verið skemmdir, inn í þá brotist eða skorið á dekkin. Þeir sem hafa leitað til lögreglu eða tryggingafélaga með þessi mál hafa ekki haft erindi sem erfiði. Ef kostnaður af skemmdarverkum á eigum fólks í miðborginni sem tengist næturklúbbum væri tekinn saman myndi hann ábyggilega hlaupa á hundruð milljóna króna. Þá er ótalinn sá andlegi skaði sem íbúar hafa orðið fyrir.

Lausnir

Flokkur fólksins hefur skoðað þessi mál með fjölmörgum aðilum. Flestir eru sammála um að fyrsta skrefið sé að fylgja gildandi reglugerð, draga úr hávaða og bassanum sem berst langar leiðir frá næturklúbbum sem margir eru í húsum með litla hljóðeinangrun. Skoða mætti að setja upp hljóðmæla sem notaðir yrðu á sama hátt og eftirlitsmyndavélar.

Annað sem mætti skoða er að til þess að eigendur næturklúbba missi ekki of stóran spón úr aski sínum er að fá fólk til að mæta fyrr á skemmtistaðina. Ef staðið er saman að slíkum breytingum myndi markaðurinn án efa aðlaga sig að breyttum opnunartíma. Mottóið ætti að vera: Eftir eitt ei heyrist neitt! Nauðsynlegt er að setja næturstrætó í gang til að koma fólki aftur heim til sín og koma í veg fyrir hópamyndanir í miðbænum eftir lokun næturklúbba.

Flokkur fólksins hefur nefnt þann möguleika að ráða næturlífsstjóra sem héldi utan um þennan málaflokk, þ.m.t. kvartanir, og sá hefði auk þess eftirlit með að reglugerðum og lögum sé framfylgt. Skemmtanalífið í Reykjavík og „hagkerfi næturlífsins“ er það umfangsmikið að ekki veitir af. Það virðist vera lítið ef nokkuð samtal milli stofnana sem þessi mál heyra undir – borg, lögregla, heilbrigðiseftirlit, vinnueftirlit, byggingareftirlit og sýslumaður. Ef allt þetta væri komið á eitt borð væri mun auðveldara að hafa yfirsýn og sjá hvar grípa þyrfti inn í með aðgerðum og úrræðum eftir því sem þurfa þykir.

Næturlífsstjórinn gæti t.d. gert drög að skipulagsbreytingum sem miðar að því að hólfa skemmtanalífið niður. Það má hugsa sér mismunandi hljóðsvæði frá 1-5 en á „skemmtanasvæði“ mætti hávaðinn (innandyra) vera mikill og opið langt fram á nótt.

Samhliða þessum breytingum yrði unnið að uppbyggingu á svæði fyrir utan almenna íbúabyggð, t.d. utarlega á Grandanum eða í einhverju öðru iðnaðarhverfi, þar sem fólk getur skemmt sér eins og það vill án þess að ónáða aðra. Þá gæti lögreglan einnig haft betra eftirlit með því að allt fari vel fram.

Hægt væri að hugsa sér að hljóðsvæði 4-5, þar sem hávaði væri mestur, væri í fjarlægð frá íbúabyggðinni. Svæði 1-2 mættu vera í hjarta miðbæjarins en staðirnir dreifðari en nú er og yrði þeim sett ströng skilyrði um hljóðvist: engir útihátalarar, lítil sem engin hljóðmengun frá stöðunum út á götur og aðeins opið til kl. 1. Þetta eru allt hugmyndir sem Flokkur fólksins setur fram og mætti vel ræða.

Hljóðsvæði 3 gæti t.d. verið kyrrðarsvæði þar sem fólk getur verið eitt með sjálfum sér eða fjölskyldu og vinum. Hugað væri vandlega að hljóðvist á þessum stöðum og allt kapp lagt á að hafa þá sem vistvænasta.

Flokkur fólksins hefur ávallt lagt áherslu á samráð og að unnið sé með borgarbúum og öllum þeim sem hagsmuna eiga að gæta í því máli sem um ræðir hverju sinni. Nauðsynlegt verður að fá umsagnir frá íbúum og öðrum rekstraraðilum á svæðinu áður en stórar ákvarðanir eru teknar og taka á tillit til þeirra eins og kostur er. Hér er um hagsmunamál margra að ræða.

Þessi mál þurfa að komast í lag sem fyrst. Ýmsir hafa aðra hagsmuni og eru t.d. hátt í sjötta tug hótela og gistiheimila á svipuðu svæði og þessir næturskemmtistaðir eru. Það er skylda okkar og ábyrgð að hlusta á raddir þessa hóps. Ekki verður hjá því komist að skoða þann möguleika að færa þá staði sem eru opnir langt fram á nóttu með tilheyrandi hávaða út fyrir íbúasvæði eða stytta opnunartíma þeirra. Þetta mætti gerast í einhverjum áföngum til þess að gefa kost á aðlögun. Skoða þarf að dreifa næturskemmtistöðum um borgina á hentuga staði allt eftir eðli starfseminnar.

Diskóbar með tilheyrandi hávaða og látum sem dynur alla nóttina getur ekki starfað þar sem fólk er að reyna að sofa í næsta húsi. Skoða þarf samhliða samgöngumál s.s. næturstrætó ekki síst nú þegar leigubílar eru allt of fáir.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um vanda næturlífsins í Reykjavík:

Flokkur fólksins hefur ávarpað þetta mál allt frá 2018 þegar flokkurinn lagði fram tillögu um að reglugerð um hávaðamengun skyldi framfylgt. Vegna Covid fengu íbúar grið um stund en nú er vandamálið komið aftur af fullum þunga. Tillagan kom loks til afgreiðslu 18. maí, fjórum árum eftir að hún var lögð fram og var henni þá vísað til heilbrigðisnefndar. Óttast er að enn eigi að svæfa málið

Framundan eru meirihlutaviðræður um myndun nýs meirihluta. Hvaða flokkar sem koma til með að skipa hinn nýja meirihluta þurfa að ávarpa þetta vandamál sem hér hefur verið reifað. Finna þarf flöt á þessu máli þar sem ekki er hægt að bjóða íbúum miðbæjar upp á að búa við aðstæður sem þessar.

Hópurinn “Kjósum hávaðann burt” hafa komið með skýra kröfu um að gripið verði til viðeigandi aðgerða við þessum mikla hávaða sem spillir friðhelgi einkalíf  íbúanna, hótelgesta og annarra sem svefnstað eiga í miðbænum.

Að lifa við ærandi hávaða um hverja einustu helgi eyðileggur taugakerfi fólks. Flokkur fólksins bendir á að það er ekki einungis lífsspursmál að geta sofið heldur einnig að geta upplifað öryggi á heimili sínu. Þega hæst lætur einkennist skemmtanalífið af öskrum og gólum, gargi og jafnvel ofbeldi sem vekur upp ótta og kvíða hjá íbúum í nærliggjandi húsum.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokks um að borgarstjórn samþykkir að skipuleg könnun verði gerð á lóðum í borgarlandinu sem henta fyrir stofnanir og skóla og þær teknar frá fyrir þá starfsemi.

Flokkur fólksins styður tillögu um fjölgun lóða fyrir grunnþjónustu. Það er löngu tímabært að eyrnamerkja lóðir í borgarlandinu sem henta fyrir stofnanir og skóla og þær teknar frá fyrir þá starfsemi. Fjölgun er í öllum hverfum og eru innviðir gróinna hverfa víðast sprungnir. Ýmist þarf að stækka eldra húsnæði eða byggja nýtt. Lóðir fyrir skóla og frístund þarf að setja í forgang. Vinna við að styrkja og auka innviði hefur ekki fylgt áætlunum um þéttingu. Fjölgun fólks/nemenda hefur verið fyrirsjáanleg í mörg ár. Ástandið er slæmt í vesturhluta borgarinnar en einnig í Laugardal og nágrenni, Bústaða- og Háaleitishverfi og í Árbæ- og Norðlingaholti. Útbúa þarf áætlun um með hvaða hætti húsnæðismál vegna frístundastarfs í þessum hverfum verði leyst til framtíðar. Nú þegar er að staðan sums staðar með öllu óviðunandi og börn send úr hverfum sínum til að ýmist stunda nám eða tómstundir. Húsnæði nægir ekki lengur fyrir þörfina í dag né þá þörf sem er fyrirsjáanleg. Sums staðar er verið að grípa til bráðabirgða lausna en engu að síður verður að gera kröfu um að farið verði í eðlilega fjárfestingu innan hverfanna til að leysa málið til framtíðar. Hafa þarf íbúa og skólasamfélagið með í ráðum þegar framtíðarlausna er leitað.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins um að hefja undirbúning að því að tryggja fasta viðveru sálfræðinga í öllum grunnskólum borgarinnar í 100% starfi.

Flokkur fólksins hefur barist fyrir því allt kjörtímabilið að sálfræðingum verði fjölgað og að sálfræðingar hafi aðsetur út í skólum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Að sálfræðingar hafi aðsetur á þjónustumiðstöðvum frekar en úti í skólum er bæði óhagkvæmt og hvorki í þágu barnanna né kennara. Kostnaður vegna ferða sálfræðinga til og frá skólum þjónustumiðstöðvum eru um 3 milljónir á ári. Skólasálfræðingar eiga að starfa þar sem viðfang og verkefni þeirra eru, þar sem þeir geta verið til taks og sinnt ráðgjöf samhliða viðtölum og greiningum. Í raun mætti taka strax þá ákvörðun að sálfræðingar flytji aðstöðu sína út í þá skóla sem hafa rými, borð og stól fyrir skólasálfræðinginn. Enginn kostnaður hlýst þar af og gæti flutningurinn átt sér stað nú þegar. Dæmi eru um að sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur skipti með sér starfsaðstöðu enda hvorugir oftast nær í 100 % starfi þótt það sé vissulega markmiðið að verði. Ef horft er á þetta raunsætt vekur það kannski ekki svo mikla furðu hvað illa gengur að vinna niður biðlista barna til sálfræðinga og annarra fagaðila skóla s.s. talmeinafræðinga. Nú bíða milli 1800 börn eftir þjónustu. Biðlistinn var um 400 börn 2018. Hér er um brýnt forgangsmál að ræða.

Tillagan er eftirfarandi.

Að hefja undirbúning að því að tryggja fasta viðveru sálfræðinga í öllum grunnskólum borgarinnar í 100% starfi.
Samkvæmt kostnaðarmati sem var lagt fyrir fund velferðarráðs 2. mars 2022, þyrfti 44 stöðugildi til að sinna öllum grunnskólunum ef einn sálfræðingur væri í 100% starfi í hverjum grunnskóla borgarinnar. Ef einn sálfræðingur væri í hverjum grunnskóla alla daga vikunnar þá vantar 409 m.kr. uppá fjárheimildir. Nánar má lesa um kostnaðarmatið hér. Einnig er þörf á því að tryggja góða aðstöðu innan skólanna fyrir sálfræðingana. Velferðarsviði verði falið að hefja þann undirbúning svo að föst viðvera sálfræðinga geti hafist sem fyrst. Leitað verði til annarra sviða og aðila innan borgarinnar vegna undirbúnings og útfærslu ef þörf þykir. Í framhaldi verði málinu vísað til fjárhagsáætlunargerðar 2023.

Greinargerð

Víða hefur verið kallað eftir því að sálfræðiþjónusta færist nær börnum og ungmennum. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur, frá því í febrúar á þessu ári, kallaði eftir betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur. Þar kom fram að andleg líðan unglinga fari versnandi á milli ára og að aðgengi að sálfræðiþjónustu væri ekki nægilega gott. Erfitt geti verið að leita sér aðstoðar og langur biðlisti væri eftir þjónustu skólasálfræðinga borgarinnar. Fyrir hönd unglinga í Reykjavík var óskað eftir því að sálfræðingar yrðu starfandi í öllum grunnskólum borgarinnar.
Ljóst er að skapa þarf rými fyrir sálfræðinga innan grunnskólana. Um þetta er fjallað í svari við fyrirspurn Sósíalistaflokks Íslands varðandi það hvað þurfi að eiga sér stað til þess að tryggja góða aðstöðu innan skólanna. Skólar í Breiðholti hafa náð að skapa góða aðstöðu en í öðrum skólum þarf að líta til þátta líkt og rýmis og að rýmið henti vel fyrir þá þjónustu sem verið er að veita.

 

Lagðar fram fundargerðir:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 18. maí:

Það er ámælisvert að tillaga Flokks fólksins um að „borgarráð samþykki að tryggja að eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hljóðvist og hávaðamengun í borginni verði fylgt“ komi á dagskrá fjórum árum eftir að hún er lögð fram. Nú fjórum árum síðar er henni vísað til umsagnar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að ekki taki önnur fjögur ár að fá umsögn. Það er skylda okkar borgarfulltrúa, meirihluta og minnihluta að huga að velferð og líðan allra borgarbúa og umfram allt hlusta á þá. Á þessu eru lausnir sem bíða skoðunar sem vonandi mun leiða til þessa að allir haldi sínu, íbúar geti sofið og upplifað sig örugga í umhverfi sínu og hagsmuna aðilum næturklúbba missi ekki spón úr aski sínum. Sú staðreynd blasir þó við að diskóstaðir sem eru opnir langt fram eftir nóttu með tilheyrandi hávaða og látum sem dynur alla nóttina getur ekki starfað þar sem fólk er að reyna að sofa í næsta húsi. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur í því sambandi sem hægt er að leggjast yfir með aðilum sem málið varðar. Vonandi ber nýrri borgarstjórn gæfa til að taka á þessu máli í samráði við íbúa og hagaðila fljótt og vel.