Borgarráð 10. júní 2022, fyrsti fundur nýs kjörtímabils

Bókun Flokks fólksins við tillögu umhverfis- og skipulagssviði heimild til að efna til opinnar hönnunar- og framkvæmdasamkeppni um tíu deilda leikskóla auk miðstöðvar barna við Völvufell samkvæmt meðfylgjandi drögum að forsögn:

Flokkur fólksins telur að spýta þurfi verulega í lófana til að fjölga leikskólarýmum. Verkefnið hefur gengið of hægt. Í haust er óttast að verði sami vandi og áður, að börn fá ekki inni í leikskóla með tilheyrandi streitu og angist foreldra. Það er miður að ekki hafi tekist að standa við loforð í þessum efnum.

 

Bókun Flokks fólksins bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 7. júní 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Suðurlandsbraut 34/Ármúla 31:

Borgin ætlar að leggja allt að 20 milljónir í listskreytingar og aðrar 20 milljónir eiga að koma frá framkvæmdaaðilum. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort það sé rétt stefna að byggja hús sem þykja kannski ekki mjög falleg og bæta það upp með rándýrri listskreytingu. Ætti áherslan ekki að vera á að byggja falleg hús og hafa umhverfið aðlaðandi frekar en að eyða háum upphæðum í dýrar húsaskreytingar? Borgin á að gera kröfur um að verktakar byggi falleg hús sem þá þarf ekki að skreyta sérstaklega. Þetta er kannski gott dæmi um áherslu meirihlutans, að nota fjármagn í að skreyta hús frekar en að taka á biðlistum. Um þessa forgangsröðun hefur fulltrúi Flokks fólksins oft rætt enda er hún kolröng. Setja á fólkið sjálft og þjónustu við það ofar á forgangslista en skreytingu húsa eða torga ef því er að skipta.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  velferðarsviðs, dags. 7. júní 2022, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 25. maí 2022 á tillögu um viðbrögð við aukinni ásókn í neyðar- og gistiskýli fyrir karlmenn, ásamt fylgiskjölum:

Tillaga er lögð fram af meirihlutanum að samþykkt verði heimild til að ráða í 6,4 stöðugildi til að bæta þriðja starfsmanni á vaktir í neyðarskýlum borgarinnar að Grandagarði 1a og Lindargötu 48, vegna aukinnar aðsóknar í skýlin. Þetta er góð tillaga. Flokkur fólksins hefði einnig viljað sjá breytingar á opnunartíma þessara skýla þannig að þau yrðu opin allan sólarhringinn en skýlin loka yfir daginn. Vonandi kemur fljótlega ákvörðun um það hjá nýjum meirihluta sem nú hefur tekið við. Sumt fólk hefur engan annan samastað, annan en kannski götuna. Endurskoða þarf þessi mál í heild sinni.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 7. júní 2022, sbr. samþykkt velferðarráðs á tillögu um breytingu á forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar:

Meirihluti velferðarráðs leggur til að forvarnarsjóður Reykjavíkurborgar verði hýstur undir formerkjum verkefnisins betri borg fyrir börn. Þetta er lagt til í ljósi þess að margar rannsóknir sýna tengsl erfiðleika í æsku og geðheilsubrests. Í tillögunni eru tekin dæmi um áhrifabreytu eins og snemmtæka íhlutun og mikilvægi þess að tryggja gott aðgengi að faglegri greiningu og ráðgjöf við börn sem glíma við erfiðleika. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á að snemmtæk íhlutun (ráðgjöf, skimanir og greining sé það mat fagaðila og foreldra að sé nauðsynlegt) getur skipt sköpum í lífi barns um að valið sé fyrir það rétt úrræði og það fái aðstoð við hæfi. Og einmitt vegna þess er óásættanlegt að biðlisti barna til fagaðila skóla sé í sögulegu hámarki. Nú er tveggja ára bið í þroskamat hjá skólasálfræðingi hjá borginni sem dæmi, í það sem kallast frumgreining. Liggi ekki fyrir slík greining er oft rennt algjörlega blint í sjóinn með réttu viðbrögðin og úrræðin fyrir barnið. Tugir barna sem sterkar vísbendingar eru um að glími við ADHD eru á þessum biðlista. Dæmi eru um að börn séu útskrifuð þegar röðin kemur að þeim. Ekki þarf að spyrja um afleiðingarnar. Biðlisti barna eftir fagþjónustu skóla er nú 2011.

 

Bókun Flokks fólksins Fram fer kynning á ákvörðun Persónuverndar í máli  Seesaw:

Það getur sannarlega verið snúið að fóta sig í nýjum heimi upplýsinga. Seesaw nemendakerfið er kerfi sem ýmis persónuleg mál skólabarna eru skráð í, svo sem einkunnir. Þar sem kerfið er bandarískt eru upplýsingarnar sendar þangað ódulkóðaðar. Það býður hættunni heim og nú þarf borgin að greiða fimm milljónir í sekt fyrir að hafa notað kerfið af gáleysi. Þarna er búið að eyða miklum tíma og fjármunum í innleiðingu á kerfi sem ekki var notað í samræmi við fyrirliggjandi öryggiskröfur. Kerfið fékk falleinkunn. Þjónustu- og nýsköpunarsvið tók svo ákvörðun um að henda kerfinu út og ákvað að stofnað yrði sérstakt „lærdómsfélag“ um notkun kerfisins. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja fram formlega fyrirspurn um kostnað við þetta ferli allt.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um að Reykjavíkurborg hætti að innheimta skólagjöld, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. maí 2022.

Tillagan er felld með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

Þessi tillaga Vinstri grænna er popúlísk tillaga og var sett fram korter fyrir kosningar. Betra væri að styrkja þá sem eiga erfitt með að greiða. Það er auk þess sérstakt að svona tillaga skuli koma frá fulltrúa flokks sem setið hefur í meirihluta í fjögur ár. Flokkur fólksins vill horfa til sértækra aðgerða og mun leggja fram tillögu á næsta borgarstjórnarfundi þess efnis að borgarstjórn samþykki að veita foreldrum á lágtekjuheimilum í Reykjavík sértæka aðstoð til að standa straum af gjöldum í tengslum við börn sín, s.s. vegna daggæslu barns í heimahúsum, leikskólavistun og frístund. Einnig að aðstoða með gjöld vegna sumardvalar og þátttöku barns í þroskandi félags- og tómstundastarfi. Tryggt verði að foreldrar sem þiggi fjárhagsaðstoð fái ávallt styrk fyrir börn sín vegna ofangreindra atriða. Jafnframt skuli veittur slíkur styrkur til lágtekjuhópa sem ekki þiggja fjárhagsaðstoð.

 

Bókun Flokks fólksins undir 2. lið fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 12. og 19. maí:

Fram kemur að kaupa á sorphirðubifreiðar fyrir Reykjavíkurborg. Flokkur fólksins veltir því fyrir sér hvort ekki hafi verið skoðað að kaupa bifreiðar sem ganga fyrir metani sem er verðlaust á söfnunarstað hjá SORPU. Fullyrt hefur verið af fráfrandi stjórnarformanni SORPU að allt metan sem SORPA safnar sé selt. Ef það er rétt má e.t.v. skilja þessa ákvörðun.

 

Bókun Flokks fólksins undir 3. lið fundargerðar íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 19. maí 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi bókun íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts undir umræðu um færanlegar skólastofur við Árbæjarskóla:Íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts telur mikilvægt að útbúa áætlun um með hvaða hætti húsnæðismál frístundastarfs í Árbænum verði leyst til framtíðar. Íbúaráð sem og fyrirrennarar þess hafa oft bent á að aðstaða til frístundastarfs í Árbænum er ófullnægjandi, en hluti starfsins hefur verið á hrakhólum árum saman. Ljóst er að húsnæði Ársels nægir ekki fyrir þörfina í dag né þá þörf sem er fyrirsjáanleg. Nú er ætlunin að setja niður færanlegt húsnæði við Árbæjarskóla sem skerða mun Árbæjartorg og mögulega starfsemi þar. Íbúaráð hefur skilning á að slíkt sé gert til bráðabirgða en gerir engu að síður kröfu um að farið verði í eðlilega fjárfestingu innan hverfisins, t.d. með stækkun Ársels, til þess að leysa málið til framtíðar. Íbúaráð gerir ennfremur kröfu um að ráðið sem og skólasamfélagið verði upplýst og haft með í ráðum þegar framtíðarlausnar er leitað.

 

Bókun Flokks fólksins undir 2. og 3. lið fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 25. maí 2022:

Liður 2, Flokki fólksins er afar umhugað um öryggi í grennd við skóla og þar sem börn fara um. Ef horft er til lækkun hámarkshraða á Bústaðavegi niður í 40 km leiðir það til þess að mikil umferð er farin að leita inn í íbúðagötur þar sem 30 km hámarkshraði. Þetta mun ekki batna við að lækka hámarkshraða á Bústaðavegi. Vandamálið er annars vegar gegnumflæði og að umferð gangi greiðlega þar og hins vegar að öryggi gangandi vegfarenda er ábótavant. Það sem þarf að gera er að byggja undirgöng undir Bústaðaveginn eða göngubrú yfir hann, ekki síst á gatnamótunum þar sem börn fara um til að komast í skólann. Þetta ætti að vera borðleggjandi og hefur verið rætt en kemst hvorki lönd né strönd. Hætta er á að lækkun hámarkshraða muni bara valda því að umferð í íbúðargötum aukist enn frekar. Liður 3, málefni hverfisins: Ýmislegt hefur verið rætt í þessu sambandi, m.a. þétting byggðar, hæð húsa, skuggvarp og vindstrengir. En það er meira sem þarf að ræða og eru það framkvæmdirnar í Furugerði. Ótækt er að byggingaverktakar geti lagt undir sig svæði með þeim hætti að stoppistöð strætó sé tekin úr umferð í á annað ár.

 

Bókun Flokks fólksins undir 4. lið fundargerðar íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 25. maí 2022:

Flokkur fólksins vill leggja áherslu á og taka undir bókun um íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um ónæði frá skemmtistöðum í miðborginni: „Ráðið leggur ríka áherslu á að málefni íbúa miðborgarinnar og þess ónæðis sem þeir verði fyrir vegna skemmtistaða í miðborginni verði tekin upp hið fyrsta af borgaryfirvöldum og viðeigandi aðilum til að tryggja lágmarks grunnþarfir íbúa, s.s. svefn. Einnig með vísan til 26. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkurborgar er farið þess á leit við þá sem málið kann að varða, að það ónæði sem lausir hátalarar sem rekstraraðilar sumra skemmtistaða kjósa að nota utandyra verði fjarlægðir.“ Flokkur fólksins hefur talað um þetta mál allt frá 2018 þegar lögð var fram tillaga um að reglugerð um hávaðamengun skyldi framfylgt. Vegna COVID fengu íbúar stundargrið en nú er vandamálið komið aftur af fullum þunga. Tillagan kom loks til afgreiðslu 18. maí, fjórum árum eftir að hún var lögð fram og var henni þá vísað til heilbrigðisnefndar. Óttast er að enn eigi að svæfa málið. Þega hæst lætur einkennist skemmtanalífið af öskrum og gargi og jafnvel ofbeldi sem vekur upp ótta og kvíða hjá íbúum í nærliggjandi húsum.

 

Bókun Flokks fólksins undir fundargerð Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða 25. maí 2022:

Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða sem lögð er fram vegna ónæðis vegna veitinga- og skemmtistaða í miðborg Reykjavíkur. Ráðið leggur ríka áherslu á að málefni íbúa miðborgarinnar og þess ónæðis sem þeir verði fyrir vegna skemmtistaða í miðborginni verði tekið upp hið fyrsta af borgaryfirvöldum og viðeigandi aðilum til að tryggja lágmarks grunnþarfir íbúa, s.s. svefn. Einnig með vísan til 26. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkurborgar er farið þess á leit við þá sem málið kann að varða, að það ónæði sem lausir hátalarar sem rekstraraðilar sumra skemmtistaða kjósa að nota utandyra verði fjarlægðir““.
Flokkur fólksins hefur talað um þetta mál allt frá 2018 þegar Flokkurinn lagði fram tillögu um að reglugerð um hávaðamengun skyldi framfylgt. Vegna Covid fengu íbúar stundargrið en nú er vandamálið komið aftur af fullum þunga. Tillagan kom loks til afgreiðslu 18. maí, fjórum árum eftir að hún var lögð fram og var henni þá vísað til heilbrigðisnefndar. Óttast er að enn eigi að svæfa málið. Þegar hæst lætur einkennist skemmtanalífið af öskrum og gargi og jafnvel ofbeldi sem vekur upp ótta og kvíða hjá íbúum í nærliggjandi húsum

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð samstarfshóps miðborgarmála frá 17. maí 2022.

Af hverju er t.d. ekki talað um að finna lausnir á næturlífsvandanum í samstarfshópnum? Flokkur fólksins hefur skoðað þessi mál með mörgum. Hópurinn „Kjósum hávaðann burt“ hefur komið með skýra kröfu um að gripið verði til viðeigandi aðgerða við þessum mikla hávaða sem spillir friðhelgi einkalíf íbúanna, hótelgesta og annarra sem svefnstað eiga í miðbænum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram lausnir bæði í ræðu og riti sem mætti vel skoða. Fyrsta skrefið er að fylgja gildandi reglugerð, draga úr hávaða og bassanum frá klúbbum í húsum með litla hljóðeinangrun. Skoða mætti að setja upp hljóðmæla og nota þá eins og eftirlitsmyndavélar. Annað sem mætti skoða er að til þess að eigendur næturklúbba missi ekki of stóran spón úr aski sínum er að fá fólk til að mæta fyrr á skemmtistaðina. Ef staðið er saman að slíkum breytingum myndi markaðurinn án efa laga sig að breyttum opnunartíma. Mottóið ætti að vera: Eftir eitt ei heyrist neitt! Nú stendur til að koma á næturstrætó sem var einnig ein af tillögum Flokks fólksins. Diskóbar með tilheyrandi hávaða sem dynur alla nóttina getur ekki starfað þar sem fólk er að reyna að sofa.

 

Bókun Flokks fólksins undir lið 3 í fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 25. maí 2022:

Tillaga EFLU f.h. Reykjavíkurborgar og Kópavogs að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar 3. áfanga var frestað á fundi skipulags- og samgönguráðs að beiðni fulltrúa Flokks fólksins 25. maí þar til ný borgarstjórn hefur tekið við störfum. Nú hefur ný borgarstjórn tekið við og vonast Flokkur fólksins til að málefni Arnarnesvegar verði skoðuð að nýju með það að markmiði að gert verði nýtt umhverfismat. Það er mikilvægt að verðandi borgarstjóri Einar Þorsteinsson takist á hendur ferð um Vatnsendasvæðið og skoði með hvaða hætti það er fyrirhugað að sprengja fyrir hraðbraut á þessu dýrmæta svæði borgarinnar og það auk þess ofan í fyrirhugaðan Vetrargarð, leiksvæði barna. Tillaga síðasta meirihluta var að byggja þessa aðgerð á um 20 ára gömlu umhverfismati. Það er ekki réttlætanlegt og stríðir gegn öllu tali meirihlutans um græn plön. Einnig þarf að skoða af hverju ekki var athugað með að leggja veginn í stokk eða í göng þar sem hann liggur um dýrmætt grænt náttúru- og útivistarsvæði. Tillagan sem liggur fyrir, með ljósastýrðum gatnamótum við Breiðholtsbraut, mun þess utan valda verulegum töfum á umferð og skapa fleiri vandamál en vegurinn á að leysa. Endurskoða þarf þessa vegalagningu með umhverfið, heildarmyndina og Vetrargarðinn sem þarna á að rísa í huga

 

Bókun flokks fólksins undir 4. lið í fundargerð 22. apríl og 3. lið í fundargerð 27. maí:

Undir báðum þessum liðum er rætt um búsetu í atvinnuhúsnæði vegna skipan innviðaráðherra i tvo starfshópa. Hópurinn á að fjalla um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu til að fylgja eftir þeim tillögum að úrbótum skv. skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar sem ekki eru nú þegar í vinnslu eða komnar til framkvæmda. Flokkur fólksins vill nefna hér að í húsnæði sem hér er fjallað um er oft fólk sem hefur ekki efni á að leigja sér annað húsnæði. Leiguverð er núna í sögulegu hámarki og ekki fyrir þá efnaminnstu að ráða við. Með vaxandi fátækt í Reykjavík hefur það færst í vöxt hér á landi að fólk búi í húsnæði sem er ekki skráð sem íbúðarhúsnæði, t.d. húsnæði sem er skipulagt undir atvinnustarfsemi. Fólk hefur neyðst til að finna sér skjól í húsnæði sem þessu þar sem öryggi er oft ótryggt og ábótavant. Dæmi eru um að fólki sé vegna öryggissjónarmiða vísað út úr húsnæði sem þessu. Flokkur fólksins hefur ekki fengið upplýsingar um hvort þessu fólki er hjálpað við að fá annað húsnæði eða hvað verður um það yfir höfuð.

 

Bókun Flokks fólksins undir fundargerð Strætó bs. frá 20. maí 2022.

Rekstur byggðasamlagsins Strætó er ekki góður. Sagt er að miklar hækkanir á aðföngum skýri kostnaðarhækkanir. Helstu kostnaðarliðir sem hækka mikið eru t.d olía. Fram kemur að verið sé að kaupa vagna en ekki virðist hvarfla að stjórninni að kaupa vagna sem ganga fyrir metani. Metani er safnað í öðru byggðasamlagi, SORPU, sem brennir því á báli þar sem ekki hefur tekist að nýta það. Stefnir nú í rekstrartap ársins stefnir í að vera um 994 m.kr. þrátt fyrir umtalsverðar hagræðingaraðgerðir á kostnað þjónustu við íbúa, til dæmis má nefna fækkun stoppistöðva. Dregið hefur verið úr þjónustu, ferðum fækkað. Finna þarf leiðir til að fjármagna næturstrætó og gjaldfrjálsar ferðir fyrir börn auk þess sem bjóða ætti fólki eldra en 67 og öryrkjum frítt í strætó. Þetta fjármagn verður aðeins fundið með sparnaði á öðrum sviðum sem ekki eru í beinni, knýjandi þjónustu við börn, forgangsröðun verkefna eftir mikilvægi.

 

Bókun Flokks fólksins undir 12 lið yfirlits yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál:

Hjólhýsa- og húsbílabyggð í Laugardal hefur margsinnis verið til umræðu á síðasta kjörtímabili. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum hópi, t.d. hversu langur biðlisti er eftir langtímastæðum og hvernig gengur að finna nýtt úrræði fyrir íbúa í hjólhýsa- og húsbílabyggð Laugardalsins. Íbúar á svæðinu þurfa langtímalausn. Í fyrra sagði skipulagsfulltrúi í bréfi til íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur þar sem óskað var eftir viðræðum um mögulega staðsetningu á svæði fyrir langtímabílastæði fyrir húsbíla/hjólhýsi að „einkaaðilar á markaði gætu allt eins þjónustað þá gesti á sínu landi sem hafa nýtt sér Laugardalinn frekar en að borgin útvegi land og setji upp grunnþjónustu.“ Um málið var fjallað í fjölmiðlum. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að til standi að reka þennan hóp úr Laugardalnum án þess að finna varanlega staðsetningu fyrir hann með húsbíla/hjólhýsi sín í borgarlandinu. Ef á að reka þetta fólk úr Laugardal hvert á það þá að fara? Og hvar eiga einkaaðilar að finna lóðir?


Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu sem varðar aðgengis- og samráðsnefnd:

Ábendingar hafa borist um að aðgengis- og samráðsnefnd hafi ekki verið nægjanlega öflug og sterk í störfum sínum og ekki geta barist af nægum krafti fyrir sinn hagsmunahóp. Fulltrúar nefndarinnar þurfa vissulega að vera í mjög góðum tengslum við sitt bakland en umfram allt þurfa pólitískir fulltrúar minnihlutans að hafa næg áhrif og vald til að þeir geti unnið sína vinnu í þágu réttinda þeirra sem hún á að standa vörð um. Nefnd af þessu tagi má ekki virka eins og „mini borgarstjórn“. Lagt er til að gerðar verði breytingar á henni þannig að pólitískir fulltrúar minnihlutans og fulltrúar hagsmunaaðila fái aukin áhrif og vægi til að geta sinnt sínu starfi í nefndinni. Í nefndinni þurfa að vera jöfn hlutföll fulltrúa frá hagsmunasamtökum og pólitískum fulltrúum og jafnvel að fulltrúar hagsmunaaðila séu fleiri. Nefnd af þessu tagi þarf þess utan að vera í betri tengslum við borgarráð og borgarstjórn þannig að hægt sé að koma málum sem nefndin er sammála um að séu mikilvægi í framkvæmd fljótt og vel. MSS22060091

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um af hverju ofbeldisvarnaráð var lagt niður:

Flokkur fólksins hefur ekki séð rök fyrir því af hverju ákveðið var að leggja ofbeldisvarnaráð niður og setja málaflokkinn undir mannréttindaráð. Er ekki með þessari aðgerð verið að gengisfella málaflokkinn? Óskað er skýringa og hvaða rök liggja fyrir þessari ákvörðun. MSS22060090

Frestað

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um Seesaw kerfið og hvað það kostaði nú þegar því hefur verið hent út og kostað borgina 5 milljónir:

Seesaw upplýsingakerfið er kerfi sem ýmis persónuleg mál skólabarna eru skráð í, svo sem einkunnir. Kerfið er bandarískt og eru upplýsingarnar sendar þangað ódulkóðaðar. Nú þarf borgin að greiða fimm milljónir í sekt fyrir að hafa notað kerfið af gáleysi. Þarna er búið að eyða miklum tíma og fjármunum í innleiðingu á kerfi sem ekki var notað í samræmi við fyrirliggjandi öryggiskröfur. Þjónustu- og nýsköpunarsvið tók svo ákvörðun um að henda kerfinu út og ákvað að stofnað yrði sérstakt „lærdómsfélag“ um notkun kerfisins. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um hversu miklum fjármunum hafi verið eytt í verkefnið og allt í tengslum við það. MSS22060092

Frestað

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um kaup á sorphirðubifreiðum og hvort skoðað hafi verið að kaupa metanbifreiðir:

Fram kemur í fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 12. maí að kaupa á sorphirðubifreiðar fyrir Reykjavíkurborg. Flokkur fólksins spyr hvort skoðað hafi verið að kaupa bifreiðar sem ganga fyrir metani en eins og vitað er þá er metan verðlaust hjá SORPU. Ef það hefur ekki verið kannað er óskað skýringar á því. Fullyrt hefur verið af fráfarandi stjórnarformanni SORPU að allt metan sem SORPA framleiðir sé selt. Er það rétt? MSS22060094
Frestað

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort búið er að skoða úrbætur vegna næturhávaða í miðbænum og eiga samráð við íbúa í því sambandi.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað vakið máls á að árum saman hafa íbúar, fjölmargir i miðbæ Reykjavíkur átt um sárt að binda vegna hávaðans frá næturklúbbum. Lögð var fram tillaga 2018 um að fylgja skuli reglugerð um hávaðamengun. Tillagan er enn í borgarkerfinu. Óskað er eftir upplýsingum um hvað nýr meirihluta ætli nákvæmlega að gera til úrbóta, hvenær og með hvaða hætti. Ástandið sem hér er lýst er næstum allar helgar og alla helstu frídaga ársins og eru sumir skemmtistaðir eins og Kofinn með dúndrandi hávaða frá kl. 20-01 á fimmtudögum. Íbúarnir hafa orðið fyrir gríðarlegum svefntruflunum af þeim sökum. Sé aftur minnst á Kofann þá tekur hann um 20 manns í sæti og er vart nema 40 fermetrar á stærð. Á þessum litla stað eru hátalarar þannig að allt húsið og nágrennið nötrar og tónlistin berst langar leiðir um byggðina. Þetta eru engin húsakynni fyrir diskótek. Nýr meirihluti hefur lagt mikla áherslu á mikilvægi góðs svefns og vistvænt og heilsusamlegt umhverfi. Engu að síður fær þetta að viðgangast. Flokkur fólksins hefur lagt á borðið ákveðnar lausnir sem vert er að skoða. Það má ekki bíða lengur með að setja sig í samband við íbúa og hagaðila og finna viðunandi flöt í þessu erfiða máli. M