Borgarráð 10. nóvember

Bókun Flokks fólksins við framlagningu uppfærðrar húsnæðisáætlunar Reykjavíkur:

Það virðist vera ágætur kraftur í uppbyggingu þótt langt sé í land að framboð og eftirspurn dansi í takt. Auka á stuðning við leigjendur. Hámarksgreiðslur voru hækkaðar úr 82.000 krónum í 90.000 krónur á mánuði og stuðull útreikninga hækkaður úr 0,9 í 1,0. Hér finnst Flokki fólksins að hefði mátt gera betur þótt vissulega muni um hverja krónu. Staðan á biðlistum er 604 á biðlista eftir félagslegu húsnæði og er það aukning. Biðlisti eftir húsnæði fyrir fatlað fólk er einnig langur. Almennt eru biðlistar of langir í öllum húsnæðisflokkum. Einnig er hægt að nefna að meira mætti kannski byggja á Keldnalandinu. Byggja á 3.500 íbúðir samkvæmt núverandi áætlunum.

 

Bókun Flokks fólksins varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Barcelona:

Borgarstjóri vill fara til Barcelona. Nýlega voru kynntir reikningar borgarinnar og fjárhagsáætlun og aldrei hefur sést svo slæm útkoma. Fjármálastjóri hefur sagt að velta þurfi við hverri krónu. Er ekki sjálfsagt að borgarstjóri gæti hófs í ferðum erlendis og fari aðeins til útlanda fyrir skattfé borgarbúa í undantekningartilfellum? Eftir COVID eru flestir færir í notkun fjarfunda og svo má notast við streymi þar sem það býðst. Flokkur fólksins minnir á að margt smátt gerir eitt stórt og sárlega vantar að streyma meira fjármagni í beina þjónustu við börn sem dæmi.

 

Bókun Flokks fólksins varðandi tillögur starfshóps um mótun stefnu og tillagna um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum:

Flokkur fólksins styður tillögur starfshóps sem hefur mótað stefnu og tillögur um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum. Markmiðið er að auka fjölbreytni í skólastarfi í borginni og fjölga valkostum fyrir foreldra varðandi menntun barna. Skapa á aukið jafnræði fyrir foreldra og nemendur um val á skólum í borginni. Einnig að skapa möguleika fyrir einkaaðila að hafa rekstur leik- eða grunnskóla í húsnæði borgarinnar á sömu kjörum og borgarreknir skólar.  Tekið er undir mikilvægi þess að samræma gjaldskrár sjálfstætt starfandi leikskóla og borgarrekinna leikskóla til að skapa aukið jafnræði foreldra við val á leikskólum í borginni. Flokkur fólksins fagnar tillögunni um að setja eigi skorður við útgreiðslu arðs með ákvæðum um rekstrarafgang hjá sjálfstætt reknum leikskólum sem leiðir af opinberum framlögum. Flokkur fólksins telur mikilvægt að rekstrarafgangur verði nýttur til að efla skólastarf og tryggja að hann verði nýttur í þróun skóla um leið og skólagjöld verði lögð af.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Tillaga að samningi við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks:

Flokkur fólksins fagnar samningi við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks. Mikil vinna liggur honum að baki. Það liggur á að fá þennan samning svo það sé hægt að aðstoða flóttafólk og m.a. koma börnum í skóla. Helstu breytingar frá fyrri samningi eru að greitt verður sérstaklega fyrir hvert barn í samræmdri móttöku en ekki eingöngu eitt gjald fyrir barnafjölskyldur óháð fjölda barna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 7. nóvember 2022, varðandi nýtt erindisbréf fyrir fagsvið persónuverndar:

Verið er að skipta innri endurskoðun upp og sennilega þar með útvíkka hlutverk hennar. Starfa eiga þrjú fagsvið innan innri endurskoðunar í stað tveggja. Þau eru fagsvið innri endurskoðunar, fagsvið ráðgjafar og fagsvið persónuverndar. Hvað varðar fagsvið persónuverndar, þá er þetta án efa ágætis breyting enda er tilefni hennar rakið til frumkvæðisathugunar Persónuverndar um að tryggja þyrfti að persónuverndarfulltrúi nyti fullnægjandi sjálfstæðis í starfi og að önnur verkefni og skyldustörf leiddu ekki til hagsmunaárekstra. Flokkur fólksins veltir því þó upp hvort fagsvið persónuverndar eigi yfir höfuð að vera hlut af innri endurskoðun og ætti jafnvel að vera staðsett á öðrum stað en á skrifstofu innri endurskoðunar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 31. október 2022, varðandi nýtt erindisbréf fyrir fagsvið ráðgjafar:

Fagsviði ráðgjafar hefur verið skipt upp í fagsvið ráðgjafar og fagsvið persónuverndar. Undir þessum hatti er eins konar umboðsmaður sem þó má ekki kalla umboðsmann heldur „ráðgjafa íbúa“. Þetta er ný birtingarmynd af því sem var áður umboðsmaður borgarbúa. Flokki fólksins finnst miður að sjá að ráðgjafa borgarbúa er ekki gert að semja kærur fyrir borgarbúa þegar þeir eiga í samskiptum við Reykjavíkurborg. Þetta er galli, og þetta er kannski einmitt það sem fólk þarf aðstoð  við. Með því að taka þetta hlutverk frá ráðgjafanum lítur einnig út eins og hann sé í liði með Reykjavík en ekki með borgarbúum sem vilja kæra. Hver á að hjálpa borgarbúa sem ekki hefur ráð á lögfræðingi að semja kærur þegar hann telur borgina hafa brotið á sér? Ráðgjafinn á einna helst að gefa ráð. Samkvæmt lýsingu er ekki séð að hann beiti sér, hlutist til um mál af alvöru, geri það sem þarf að gera til að leysa mál. Þess utan er borgin ekki bundin af tilmælum ráðgjafar. Þetta virkar máttlaust, starf sem er í bómull og skilur mögulega borgarbúann eftir í sömu sporum. Það geta allir veitt góð ráð sem borgin þarf svo ekki einu sinni að hlusta á.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. október 2022, sbr. samþykkt forsætisnefndar frá 14. október 2022 á tillögu að styrk til nýsköpunarviku:

Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á nýsköpunarviku í Reykjavík. Nýsköpun er forsenda framfara, en nýsköpun fylgir einnig mikil fjárhagsleg áhætta. Það þekkja mörg sprotafyrirtæki á markaði. Oft er þunn lína á milli þess að ná tilsettum árangri í nýsköpun og þess að mistakast. Það hefur komið í ljós að stór hluti þeirra nýsköpunarverkefna sem opinberir aðilar hafa lagt upp með, hefur mistekist. Um þetta hafa verið gerðar kannanir erlendis. Bestum árangri í nýsköpun hafa einkafyrirtæki verið að ná, en ekki opinberir aðilar. Þess vegna gerir fulltrúi Flokks fólksins athugasemdir við þá ákvörðun að að gera Reykjavíkurborg einn af burðarstólpum hátíðarinnar. Það er sjálfsagt að Reykjavíkurborg leggi sitt af mörkum til hátíðarinnar eins og með að leggja til húsnæði og annað. Meirihlutinn í Reykjavík verður hins vegar að fara að gera sér grein fyrir því að borgin er ekki samkeppnisfyrirtæki á einkamarkaði og lýtur einfaldlega öðrum lögmálum en slík fyrirtæki.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu VG um takmörkun umferðar einkaþotna um Reykjavíkurflugvöll. Tillagan er felld:

Það er búið að vera á dagskrá borgarinnar í um 20 ár að færa óþarfa flug frá Reykjavíkurflugvelli. En hinn aðilinn, samgönguyfirvöld, eru greinilega á öðrum stað sbr. svarbréf  samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 16. september 2020. Þar er lýst þeirri afstöðu ráðuneytisins að það telji það ekki vera tímabært að fjárfesta í flutningi æfinga-, kennslu- og einkaflugs frá Reykjavíkurflugvelli yfir á annan flugvöll á meðan rannsóknir um nýjan flugvöll í Hvassahrauni eru enn í gangi. Svo mörg voru þau orð.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um biðlista eftir plássi á frístundaheimili, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. október 2022:

Er mannekla helsta ástæða þess að tæp 200 börn fá ekki pláss á frístundaheimili? Eða kemur fleira til? Borgin getur ekki veitt þjónustu víða vegna vöntunar á starfsfólki en virðist samt lítið vera að gera í málinu nema að slá því fram sem ástæðu fyrir að ekki er hægt að veita mannsæmandi þjónustu. Flokkur fólksins telur að hægt sé  að leysa þennan vanda sé vilji til að leysa hann. Flokkur fólksins fær daglega fréttir frá foreldrum sem ýmist geta ekki komið með barn sitt í leikskólann eða er beðið að sækja það stuttu eftir komu barnsins vegna þess að það vantar starfsfólk. Þessu er meirihluti borgarstjórnar, eins og sá síðasti, orðin samdauna. Fram kemur í svari að mánaðarlegur kostnaður borgarinnar við hvert barn á almennu frístundaheimili er 34.773 kr. vegna ársins 2021. Ekki er séð hvernig fólk sem hefur lítið milli handanna á að standa skil á þessu. Hér þurfa að koma til sértækar aðgerðir. Foreldrar sem eru verst settir ættu að fá þetta gjald niðurfellt.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um samninga borgarinnar við innheimtufyrirtæki, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júní 2022:

Það getur komið fyrir alla að geta ekki borgað og þykir Flokki fólksins það harkalegt að senda vangreidda leigu í innheimtu með tilheyrandi aukakostnaði fyrir leigjandann. Leigjendur Félagsbústaða eru viðkvæmur hópur og margir búa við fátækt. Talað er um betri árangur innheimtuaðgerða. Þegar fólk er komið með lögfræðing á bakið og kröfubréf með hótun um dráttarvexti segir það sig sjálft að fólk leitar allra leiða til að redda greiðslu. Hér er bókun Flokks fólksins frá mars 2019 við svari frá Félagsbústöðum við fyrirspurn um sundurliðun lögfræðikostnaðar: „Félagsbústaðir hafa eytt tæpum 112 milljónum í lögfræðikostnað undanfarin 6 ár. Stærstu póstarnir eru Málþing ehf., Lögheimtan og Motus eða um 100 milljónir. Lögfræðikostnaður vegna innheimtumála nam tæpum 65,8 milljónum eða um 12,3 m.kr. á ári.“ Borgarfulltrúa finnst miklu fé hafa verið varið í að innheimta af fólki sem margt hvert hefur e.t.v. enga möguleika á að greiða þessar skuldir. Er t.d. kannað hvað liggur að baki því að fólkið geti ekki greitt? Fólk skuldar varla að gamni sínu.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingu samningsmarkmiða Reykjavíkurborgar vegna alvarlegs húsnæðisástands, sbr. 61. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júní 2022:

Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um hvort ekki sé tímabært að breyta samningsmarkmiðum Reykjavíkur á þann hátt að hækka prósentu íbúða sem skilgreindar eru sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Um þetta er spurt vegna húsnæðisástandsins sem kemur hvað verst niður á leigjendum og efnaminna fólki. Í svari segir að samningsmarkmið hafi verið endurskoðuð þegar ástæða hefur þótt til frá því þau voru fyrst samþykkt árið 2014. Flokkur fólksins áttar sig ekki alveg á hvað það þýðir „þegar ástæða hefur þótt til“. Hverjar eru skilgreiningar á því og hver metur þörfina og á hverju er hún byggð? Flokkur fólksins mun leggja fram formlega fyrirspurn um þessi atriði enda er þetta forvitnilegt. Að öðru leyti er sjálfsagt að bíða með að endurskoða samningsmarkmið Reykjavíkurborgar þar til niðurstaða úr viðræðum borgar og ríkis um húsnæðissáttmálann liggur fyrir eins og lagt er til í svari.

 

Bókun Flokks fólksins við 1. lið fundargerðar fjölmenningarráðs frá 25. október 2022 um Jöfnunarsjóð og framlag sjóðsins til borgarinnar:

Flokkur fólksins tekur undir bókun meirihlutans um Jöfnunarsjóð. Eins og fram kemur í minnisblaði um fjölmenningarlegt skóla og frístundastarf í Reykjavík er horft fram á áframhaldandi fjölgun flóttabarna út næsta ár.  Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á landinu sem fær ekki úthlutað úr Jöfnunarsjóði vegna kennslu í íslensku 2 í grunnskólum. Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna er jafnvel notaður til að skerða framlög til Reykjavíkur sérstaklega. Flokkur fólksins lagði fram þingsályktunartillögu fyrr á árinu um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að endurskoða löggjöf og regluverk með það að markmiði að öll börn njóti réttlætis óháð búsetu. Það er ekki hægt að una við að eitt sveitarfélag sé fyrirfram útilokað frá úthlutunum jöfnunarframlaga vegna reksturs grunnskóla einungis vegna stærðar. Þetta er ekki síður óréttlátt þar sem langflestir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku búa í Reykjavík. Tryggja þarf hverju flóttabarni nægilegt fjármagn til að sveitarfélag geti veitt þeim nauðsynlega þjónustu.

 

Bókun Flokks fólksins undir 4. lið fundargerðar íbúaráðs Háaleitis og Bústaða frá 26. október 2022:

Fram fer umræða um breytingar á gatnamótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegar.  Komið er inn á samstarf við íbúa þegar unnið er að hugmyndum um öryggismál. Umræða hefur verið um fyrirætlanir Reykjavíkurborgar að þrengja Háaleitisbraut í eina akrein í hvora átt, við gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðavegar, og taka af hægri beygjur á þessum gatnamótum. Hér þarf að staldra við og ræða við íbúa enda þekkja þeir best hvar skóinn kreppir í umferðaröryggismálum. Flokkur fólksins minnir á loforð um samráð.

 

Bókun Flokks fólksins undir 12. lið fundargerðar íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 27. október 2022:

Flokkur fólksins tekur undir bókun íbúaráðsins um næturstrætó. Harmað er að rekstri næturstrætó hafi verið hætt eftir einungis tvo mánuði. „Tveir mánuðir er alltof stutt tímabil til að fá raunsanna mynd af eftirspurn eftir slíkri þjónustu.  Mannsöfnuður í miðbænum eftir lokun skemmtistaða skapar ýmis konar hættur og getur ógnað öryggi fólks. Jafnframt veldur fólk á gangi í miðbænum eftir lokun skemmtistaða verulegum hávaða.“ Flokkur fólksins tekur undir með íbúðaráðinu um að stjórn strætó og borgarstjórn leiti allra leiða til að halda úti þjónustu næturstrætó. Mikilvægt er að kanna hver raunverulegur kostnaður við þjónustuna er og þá fyrst er hægt að taka ígrundaða afstöðu til reksturs næturstrætó sem er eitt stefnumála meirihluta borgarstjórnar, eins og segir í bókun íbúaráðs Miðborgar og Hlíða. Heyr heyr!

 

Bókun Flokks fólksins undir 7. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. og 9. nóvember 2022:

Umræða var um nagladekk í ráðinu og bókuðu flestir flokkar um málið. Meirihlutinn bókar að svifryksmengun valdi um 80 árlega ótímabærum dauðsföllum á Íslandi og telur að nagladekk eiga verulegan þátt í því. Fulltrúi Flokks fólksins telur að hér sé verið að fullyrða út í loftið. Einnig er sagt að nagladekk skapi verulegan kostnað vegna slits á malbiki. En slíta harðkornadekk þá ekki malbiki neitt? Ekki skal gleyma hvar við búum. Ef veturinn er snjóþungur verða alltaf einhverjir að vera á nagladekkjum svo sem þeir sem komast ekki inn og út úr götunni sinni á verstu dögum vegna þess að ekki hefur tekist að ryðja braut út á stofnveg. Einnig þeir sem starfa utan höfuðborgarsvæðisins eða fara títt úr borginni yfir vetrartímann. Hver og einn verður að meta þetta og taka mið af aðstæðum. Flokkur fólksins fagnar því að lögreglan sekti ekki fyrir notkun nagladekkja áður en nagladekkjatímabilið hefst. Þegar upp er staðið og allt tekið til þá er aðeins eitt sem skiptir máli og það er öryggi. Ekki á að refsa fólki fyrir að vilja lifa við öryggi og fólk sem sér að það verður að vera á nagladekkjum á ekki að mæta fordómum samfélagsins og allra síst borgarkerfisins.

 

Bókun Flokks fólksins undir 12. lið yfirlits yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál:

Þann 2. september 2021 fékk borgarstjóri bréf frá UNICEF þar sem Reykjavík er boðið að taka þátt í verkefninu barnvæn sveitarfélög. Gerður hefur verið samningur milli UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytisins um samstarf við innleiðingu verkefnisins. Markmiðið er að öll sveitarfélög á Íslandi hafi á næsta áratug hafið innleiðingu Barnasáttmálans. Ef Reykjavík hyggst innleiða Barnasáttmálann er full ástæða til að nýta þann stuðning sem í boði er. Nú stendur yfir sameiginleg vinna mannréttindastjóra og sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við að greina næstu aðgerðir í framhaldi af umsögn skóla- og frístundasviðs sem liggur fyrir. Flokkur fólksins hefur einnig lagt til að umsögn verði fengin frá mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði. Reykjavík er eftirbátur annarra sveitarfélaga í þessum efnum og þarf hér að spýta í lófana.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka:

Ekki hefur farið fram hjá neinum umræða um hávaðamengun í miðbænum og að reglugerð um hávaðamengun hefur ekki verið fylgt. Íbúar hafa reynt að vekja athygli á málinu árum saman og nú eftir COVID er vandinn meiri en nokkru sinni. Þegar listinn um umsagnir um veitinga- og gististaði er birtur þá getur fulltrúi Flokks fólksins ekki annað en leitt hugann að þessum málum. Meðal umsagna í þetta sinn er sem dæmi umsögn um tímabundið áfengisleyfi – American Bar, Austurstræti 8-10, 4. nóvember 2022. Jákvæð umsögn send leyfadeild Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Því er velt upp hvort eigendur barsins hafi kynnt sér reglugerð um hávaðamengun. Í vikunni setti Heilbrigðiseftirlitið upp hljóðmæli á horni Bankastrætis og Laugavegar vegna fjölda hávaðakvartana sem hafa borist frá íbúum á svæðinu. Margar kvartanir hafa einnig borist frá Grjótaþorpinu. Skoða þarf að setja upp fleiri mæla til að fylgjast með því hvort það sé verið að fara eftir settum lögum og reglum. Samkvæmt reglugerð má hávaði ekki vera meiri en 95 desíbil. Sé reglum ekki fylgt getur Heilbrigðiseftirlitið gripið til fleiri ráða s.s. takmarkað starfsemina og jafnvel takmarkað opnunartíma skemmtistaðarins. Mikilvægt er að nýta allar heimildar ef reglur eru brotnar.

 

Ný mál Flokks fólksins

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um uppsagnir starfsfólks á leikskólum:

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um þá leikskólastarfsmenn sem meirihlutinn tilkynnti við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkur að yrði sagt upp störfum. Fram kom til skýringar að um væri að ræða starfsfólk sem ráðið hafi verið til starfa vegna COVID, t.d. til að annast hólfanir. Þessar upplýsingar komu eins og þruma úr heiðskíru lofti þar sem um nokkurt skeið hefur mikil ólga ríkt meðal foreldra í Reykjavík en mörg hundruð börn hafa ekki fengið leikskólapláss. Óskað er ítrekað eftir því að foreldrar sæki börn sín þegar þau eru rétt komin í leikskólann vegna fjarveru starfsfólks. Spurt er hvort einhver af þessum starfsmönnum sem segja á upp komi ekki til starfa áfram eða verði endurráðnir einmitt vegna manneklu í leikskólum. Var sá hópur sem til stendur að segja upp ráðinn aðeins vegna COVID t.d. til að annast hólfanir? Ef svo er, hvaða verkefnum hafa þeir sinnt síðan COVID lauk? MSS22110081

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um einkavæðingu á Strætó:

Hefur Reykjavík í hyggju að styðja einkavæðingu á Strætó? Flokkur fólksins hefur þungar áhyggjur ef áformað er að útvista leiðum Strætó bs. til einkaaðila með þeim afleiðingum að laun verði lækkuð og að einkaaðilar hirði þann launamun í sinn vasa. Óttast er að þjónustan verði dýrari og að starfsmönnum verði sagt upp. Einnig er fyrirséð að verði reksturinn boðinn út eru teknir frá borginni möguleikar á að hafa t.d. frítt í strætó. Vísað er til slæmrar reynslu af útvistun almenningssamgangna í Bretlandi og Svíþjóð. Flokkur fólksins varar við áformum af þessu tagi og hvetur sveitarfélögin sem eiga Strætó bs.; Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ að veita nægilegu fé til rekstursins  og standa í fæturna gagnvart ríkinu, sem ekki stóð við loforð um að veita fé til rekstrarins í COVID-19 faraldrinum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um verkefni persónuverndarráðgjafa:

Verið er að skipta innri endurskoðun upp og sennilega þar með útvíkka hlutverk hennar. Það eiga að starfa þrjú fagsvið innan innri endurskoðunar í stað tveggja. Þau eru fagsvið innri endurskoðunar, fagsvið ráðgjafar og fagsvið persónuverndar. Nokkuð er síðan ráðinn var persónuverndarfulltrúi. Flokkur fólksins óskar upplýsinga og yfirlits yfir þau verkefni sem hafa komið inn á hans borð og að þau séu grófflokkuð. Einnig er óskað eftir að vita hvernig þeim lyktaði og hvort aðilar voru sáttir með málalyktirnar.

Vísað til umsagnar innri endurskoðunar og ráðgjafar.