Borgarráð 10. september 2020

Bókun Flokks fólksins við tillögu að drögum að erindisbréfi stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum.

Drög að erindisbréfi stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum eru lögð fram til samþykktar af meirihlutanum. Óskað er eftir því að borgarráð skipi þrjá fulltrúa í stýrihópinn. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að marka heildstæða stefnu um aðgengismál í víðum skilningi í Reykjavík með algilda hönnun að leiðarljósi m.a. hvað varðar aðgengi að byggingum og borgarrýmum. Flokkur fólksins vill að tryggt sé að fulltrúi frá hagsmunafélagi fatlaðra sitji í hópnum þar sem marka á heildstæða stefnu um aðgengismál. Mikilvægt er að þessi hópur hafi ekki loðinn tilgang sem oft vill verða þegar sagt er að gera eigi eitthvað „almennt“.  Aðgengismál eru hagsmunamál margra og sérstaklega þeirra sem glíma við líkamlega fötlun af einhverju tagi. Ekki á að móta stefnu um hagsmunahópa nema hafa fulltrúa þeirra með frá upphafi vinnunnar. Minnt er á  samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skrifstofu umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2020:

 

Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafa verið lagðar fram um tillögu á breytingu á aðalskipulagi vegna nýja Skerjafjarðar. Fulltrúi Flokks fólksins vonast til að hlustað verði á athugasemdirnar, ekki síst þær sem snúa að landfyllingum. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Landfylling er óásættanleg og á aldrei að þurfa. Náttúrulegar fjörur eru fágætar í Reykjavík.  Málið allt er viðkvæmt og það er leiðinlegt að vinna þetta stóra verkefni í svo mikilli andstöðu. Skipulagsyfirvöld eru hvött til að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Þetta er ekki siðferðislega verjandi fyrir borg sem setur vernd náttúrulegra svæða í forgang og segist vilja standa vörð um náttúru í borgarlandinu.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu umsagnar Reykjavíkurborgar, dags. 9. september 2020 varðandi tillögu Minjastofnunar Íslands um friðlýsingu menningar- og búsetulandslags við Þerneyjarsund:

 

Þetta mál er afar viðkvæmt. Rök Minjastofnunar eru sterk. Minjastofnun vísar til almannahagsmuna sem hlýtur að hafa meira gildi en sérhagsmunir. Meðal raka meirihlutans fyrir að hafna tillögunni er að „vegstæði Sundabrautar sé undir“, hvað er átt við með því? Sundabraut er tenging yfir sundið og lega hennar hefur ekki verið ákveðin. Ekki er séð beint að þessi rök eigi hér við. Sérhagsmunir eiga aldrei að ganga framar almannahagsmunum. Það hlýtur að vera hægt að skoða aðrar leiðir, vissulega þarf Björgun stað. Stjórnvöld eiga að vera þakklát nákvæmri vinnu Minjastofnunar. Okkur ber öllum að huga að minjum landsins og vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu á að borgarmeirihlutinn eigi gott samstarf við Minjastofnun í þessu máli sem öðru.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu  á tillögum að útfærslu gatnamóta við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut:

Kynntar eru 3 lausnir en fulltrúar hafa ekki séð kynninguna og fá ekki að sjá. Lausnirnar kljúfa vesturhlíð Vatnsendahvarfs og eyðileggja þar með verðmætt útivistarsvæði sem og breyta algjörlega ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Fyrirhugaður Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem er á samgönguáætlun fyrir 2021 er óafturkræft skipulags- og umhverfisslys, verði lending í málinu með þeim hætti. Hvergi er minnst á veginn í nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt, en hann mun kom til með að þrengja verulega að fyrirhuguðum Vetrargarði og eyðileggja eitt dýrmætasta græna útivistar- og útsýnissvæði borgarinnar. Arnarnesvegur er úrelt kosningaloforð Sjálfstæðismanna í Kópavogi.

Það er auðveldlega hægt að finna betri lausnir fyrir umferð inn í Kópavog sem kosta ekki svona gríðarlegar fjárhæðir og valda ekki svona miklu umhverfislegu tjóni. Hvað varð um áherslurnar á að vernda grænu svæðin og minnka losun gróðurhúsalofttegunda? Fyrirhugaður Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem á að vera lagður árið 2021 mun skera þessa gróðumiklu hæð í tvennt. Vegaframkvæmdin byggir á nær 18 ára gömlu umhverfismati sem fjölmargir, þ.m.t. Vinir Vatnsendahvarfs, telja alvarleg skipulagsmistök. Á þessu svæði er eitt fallegasta útsýni yfir Reykjavík. Þarna ætti að vera útsýnispallur til að allir getið notið yfirsýnar yfir Reykjavík.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Græna planið:

 

Borgarstjóri og meirihlutanum hefur verið tíðrætt um Græna planið og margt í því hefur ekki verið útskýrt  nægjanlega s.s. jarðhitagarður og hvað sé átt við með aukið aðgengi að mat og hvort gera eigi átak í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps. Reynt er að svara þessum spurningum af starfshópi  um undirbúning Græna plansins. Enn er þessi jarðhitagarður þó ráðgáta.  Fjallað er um aðgengi að hollum mat í matarstefnu Reykjavíkurborgar 2018-2022. En er fjallað um aðgengi að hollum mat í Græna planinu? Sjálfsagt er að vinna að því að auka aðgengi að hollum mat en ekki síður þarf átak til að spyrna fótum  við matarsóun sem víða er á  stofnunum borgarinnar. Borgarmeirihlutinn er ekki beint að beita sér fyrir stórtækum aðgerðum þar. Einnig ber lítið á átaki  í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps. Ekki er nóg að setja á laggirnar stýrihópa. Hver mánuður skiptir máli þegar kemur t.d. að flokkunarmálum. Sorpið kemur mest frá fyrirtækjum. Hvað sem þessu líður sýnir svarið að spurningar Flokks fólksins áttu rétt á sér. Flækjustig virðist vera nokkuð og margt aðeins á umræðustigi.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Í ljósi fullyrðinga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í fyrirspurn sinni til borgarráðs um að talsmenn SORPU hafi sagt að hreinsun gas- og jarðgerðarstöðvarinnar, GAJU muni koma í stað flokkunar á upprunastað hefur borist athugasemd frá SORPU þess efnis að slíkar fullyrðingar hafi aldrei verið viðhafðar af talsmönnum fyrirtækisins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

 

Fulltrúi Flokks fólksins fór í heimsókn til GAJU og tók niður punkta. Þar kom fram að hreinsun í GAJU muni koma í stað flokkunar á upprunastað. Enn er spurt hvort gera eigi átak í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars menningar- og ferðamálasviðs, dags. 6. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um raunhæfismat vegna útilistaverks í Vogabyggð:

 

Flokkur fólksins spurði hvað væri að frétta af raunhæfismati á útilistaverki í Vogabyggð. Fram kemur að raunhæfismatið er ekki hafið en er á dagskrá. Matið verður unnið af óháðum ráðgjöfum ásamt sérfræðingum umhverfis- og skipulagssviðs. Áætlaður kostnaður við raunhæfismatið liggur ekki fyrir.  Í raunhæfismatsferlinu á að planta trjám á opnum svæðum og athuga hvort þau lifi. Þetta getur tekið mörg ár og orðið ansi fjárfrekt. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að nú þegar hafa sterkar vísbendingar komið fram um að þetta gangi ekki, sé ekki aðeins óraunhæft heldur hrein og klár vitleysa. Mörgum finnst það stórt álitamál og jafnvel ábyrgðarhluti að borgarmeirihlutinn ætli að verja bæði tíma og  fjármagni í eitthvað sem er ljóst  að muni ekki ganga. Hér er gott dæmi þess hvernig fé og tíma er eytt í gæluverkefni í stað þess að huga að þarfari hlutum eins og að styrkja grunnþjónustu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að verið sé að teygja málið því meirihlutinn á erfitt með að viðurkenna mistök. En gerði hann það, væri hann maður að meiri!

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

 

Ekki er verið að „teygja“ málið líkt og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins heldur fram heldur kemur beinlínis fram í svarinu eftirfarandi: „Ekki eru tafir á undirbúningsvinnu eða framkvæmdum í Vogabyggð vegna raunhæfismatsins“.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

 

Það geta öllum orðið á mistök og er tímabært að skipulagsyfirvöld viðurkenni klúður sitt varðandi þetta pálmadæmi í Vogahverfi og spari þar með  borgarbúum óþarfa útgjöld.

 

Bókun Flokks fólksins undir 5. lið fundargerðarinnar sem lýtur að samgöngubótum í norðanverðum Grafarvogi:

 

Fulltrúi Flokks fólksins er sammála því að mörgum spurningum er ósvarað sem lúta að samgöngubótum í norðanverðum Grafarvogi, t.d. gönguleiðir milli Korpusvæðisins og Hamrasvæðisins. Það er byrjað á framkvæmdunum en það er hvergi nærri gengið eins langt og var nefnt í sameiningarferlinu eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Þá var talað um undirgöng og umferðaljós, hafa þau loforð verið efnd? Staðsetning biðskýlis við Korpúlfsstaðaveg, Brúnastaði  er  alltof nálægt götunni. Börnin standa nánast út á götu þegar beðið er eftir skólarútunni. Hraðinn þarna er oft á tíðum mikill og því veruleg slysahætta á þessu svæði. Þar fyrir utan er það lýsing á göngustíg frá horni Garðsstaða og að einum undirgöngunum á svæðinu sem er ábótavant. Þetta eru atriði sem virðast hafa fallið utan þess sem er verið að gera og ljóst að þetta með staðsetningu skýlisins og hættunnar þar er gríðarlega mikið öryggismál og með því stærsta á svæðinu öllu. Auðvitað vonar fulltrúi Flokks fólksins að það sem verið er að gera leiði til breytinga og hjálpi til við að auka öryggi barnanna.

 

Bókun Flokks fólksins undir 9. lið fundargerðarinna skipulags- og samgönguráðs er varðar Arnarnesveginn:

 

Það verður að fara fram endurskoðun á þeim áformum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi sem er 1,3 km langur þjóðvegur í þéttbýli á milli Rjúpnavegar í Kópavogi og Breiðholtsbrautar í Reykjavík. Hann er á samgönguáætlun 2021 í samræmi við eldgamalt og úrelt umhverfismat frá 2003 og eru mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut á meðal forsendna. Síðan þá hafa flestar forsendur breyst mikið. Vegurinn kæmi til með að valda gríðarlegum landspjöllum á verðmætu útivistarsvæði og þrengja mjög að væntanlegum vetrargarði skv. nýju hverfisskipulagi Breiðholts. Þá liggur fyrirhugað vegarstæði hærra en aðrir þjóðvegir í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu og þar er mjög snjóþungt. Flestar forsendur vegalagningarinnar  hafa breyst.  Íbúar í ofanverðu  Breiðholti hafa gert alvarlegar athugasemdir við lagningu Arnarnesvegar í gegnum Vatnsendahvarf allt frá 1983, og svo við umhverfismatið frá 2003. Það verður að gera nýtt umhverfismat  fyrir vestanvert Vatnsendahvarf vegna breyttra forsendna, með hliðsjón af uppbyggingu Vetrargarðs, og þar með eflingu á grænu útivistarsvæði í Vatnsendahvarfi sem bæði gagnast Reykvíkingum og Kópavogsbúum. Kanna á aðra og  mun ódýrari kosti til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut, svo sem með einfaldari vegartengingu ofar í Vatnsendahvarfi á milli Rjúpnavegar, Tónahvarfs og Breiðholtsbrautar, án mislægra gatnamóta þar.

 

Bókun Flokks fólksins undir lið 6. í yfirliti um Embættisfræslur:

 

Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir orð umboðsmanns barna þar sem hún segir að ákvörðun sveitarfélags um að synja foreldrum í erfiðri stöðu um vistun fyrir barn í leikskóla sé eingöngu til þess fallin að auka á erfiðleika viðkomandi heimilis með því að gera foreldrum síður kleift að stunda vinnu utan heimilis og framfæra börn sín. Þannig minnka sömuleiðis líkurnar á því að skuldir foreldra við sveitarfélagið verði greiddar. Tilefni bréfsins er að fram hefur komið í fjölmiðlum að nokkur fjöldi barna sem búsett eru í Reykjavíkurborg eigi á hættu að fá ekki boðaða vist í leikskóla vegna vanskila foreldra við sveitarfélagið. Dæmi eru um að foreldrar hafi fengið tilkynningar um uppsögn á vistunarsamningi við leikskóla af sömu ástæðum. Í mannréttindastefnu og Barnasáttmálanum segir að börn skuli hafa jafnan rétt án tillits til m.a. efnahagsástands foreldra. Börn eiga aldrei að þurfa að líða fyrir fátækt. Huga þarf einmitt sérstaklega að börnum í aðstæðum þar sem fátækt ríkir en ekki útiloka þau með því að meina þeim vist í leikskóla af því að foreldrar þeira geti ekki borgað. Nú er aðstæður vegna COVID að koma skýrar í ljós. Róður er þungur hjá mörgum foreldrum og á eftir að þyngjast enn.