Forsætisnefnd 15. maí 2020

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins frá 3. 9. 2019 um táknmálstúlkun á fundum borgarstjórnar
Lögð fram að nýju

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að borgarstjórnarfundir
verði túlkaðir á táknmáli. Borgarstjórnarfundir eru tvisvar í mánuði að meðaltali 6-7
klukkustundir hver. Hér er um mannréttindamál að ræða og með því að táknmálstúlka fundi
borgarstjórnar er borgarstjórn að framfylgja lögum. Tillagan er liður í að rjúfa enn frekar
einangrun heyrnarskertra og heyrnarlausra einstaklinga. Þessi hópur á rétt á því að fá
upplýsingar úr samfélaginu og þ.m.t. að geta fylgst með umræðu á sviði stjórnmálanna.
Íslenska og táknmál heyrnarlausra eru jafn rétthá. Talið er að um 350-400 einstaklingar reiða
sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta. Að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er vel
gerlegt. Hægt er að sjá fyrir sér að túlkunin yrði í útsendingunni frá fundinum, þ.e. sér
myndavél væri á túlkinum og túlkunin í glugga á skjánum. Þá getur fólk farið inn á
útsendinguna hvar sem það er statt í borginni. Kostnað við að táknmálstúlka
borgarstjórnarfundi er lagt til að verði tekið af liðnum „ófyrirséð“. Verkið yrði boðið út
samkvæmt útboðsreglum borgarinnar. Í útboði þarf að tryggja að þeir sem gera tilboð í verkið
séu með menntun á sviði táknmálstúlkunar. Þær tæknilegu breytingar sem þyrftu að koma til
færu einnig í útboð.

Tillögunni er frestað þar til fengist hefur kostnaðarmat.