Bókun Flokks fólksins við liðnum Mýrargata 21 og 23, breyting á deiliskipulagi:
Um er að ræða Mýrargata 21 og 23, breyting á deiliskipulagi sem m.a. felst í því að minnka umfang og hæð kirkjunnar ásamt því að kirkjuturnar eru lækkaðir. Fulltrúi Flokks fólksins þykir sem málið sé einfaldlega kannski ekki fullunnið. Turnunum kirkjunnar fækkar úr 5 í 2, hámarkshæð hærri turns minnkar úr 22 í 18 metra. Kirkjan er ekki sátt við skipulagið eftir að lagt er til að kirkjan verði minnkuð verulega og margir aðrir eru einnig ósáttir, sbr. innsendar athugasemdir. Málið hefur verið í vinnslu frá 2008 og enn virðist ekki lending í sjónmáli þótt takist hafi vissulega að sætta einhver sjónarmið.
Bókun Flokks fólksins við Urðarbrunnur:
Borgarfulltrúar þar með talið fulltrúi Flokks fólksins hafa verið að fá skeyti frá íbúum við Urðarbrunn vegna mála sem tengjast Urðarbrunni sem segjast hafa verið í tölvupóstsamskiptum við Skrifstofu byggingafulltrúa í Reykjavík. Gerðar eru athugasemdir af ýmsu tagi við Urðarbrunn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það sé skylda yfirvalds að setjast niður með fólki sem sendir inn yfirgripsmiklar athugasemdir og ábendingar og skoða þau atriði sem íbúar svæðisins eru ósáttir við. Skoða þarf gaumgæfilega hvort ekki er hægt að freista þess að ná í þessum málum lendingu áður en málið hlýtur samþykki ráðsins.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig það mál standi?
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig það mál standi? Íbúar hafa verið að reyna að ná til skipulagsyfirvalda/sviðs til að fá þessar upplýsingar en ekki haft erindi sem erfiði. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur þá er talsverður hávaði í hverfinu vegna umferðar á Reykjanesbraut og Stekkjarbakka. Eftir því sem næst er komist átti þetta verkefni að vera í forgangi.
Spurt er um stöðu verkefnisins og samhliða hvetur fulltrúi Flokks fólksins skrifstofu umhverfis- og skipulagsmála, skipulags- og samgöngustjóra að fara yfir póstinn sinn og svara fyrirspurnum og erindum frá borgarbúum sem kunna að hafa gleymst.
Því betri viðbrögð og svör sem borgarbúar fá við fyrirspurnum því sjaldnar er þörf á að leita til borgarfulltrúa eftir hjálp við að fá svör. Það eru jú embættismennirnir og starfsfólkið sem hafa svörin en ekki borgarfulltrúar minnihlutans. Minnt er einnig í þessu sambandi á tillögu Flokks fólksins um að bæta vinnubrögð almennt séð við svörun erinda frá borgarbúum
Frestað
Tillaga Flokks fólksins að skipulagssvið borgarinnar útfæri leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu.
Flokkur fólksins leggur til að skipulagssvið borgarinnar útfæri leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu. Hjólunum er stundum illa lagt, t. d. á miðja gangstétt þannig að fatlaður einstaklingur í hjólastól eða sjónskertur vegfarandi ýmist kemst ekki fram hjá eða gengur á hjólið. Fólk með barnakerrur lendir einnig í vandræðum með að komast ferðar sinnar.
Um 1.100 rafskutlur standa borgarbúum til leigu frá fjórum fyrirtækjum. Fjölga á skutlunum enn meir. Sá ferðamáti sem hér um ræðir hefur rutt sér til rúms í borginni á stuttum tíma. Þetta er góður ferðamáti en enn vantar augljóslega reglur um umgengni. Fylgja þarf lögum í þessu sambandi. Í lögum er skýrt tekið fram að ekki má skilja við hjól þar sem það getur valdið hættu eða óþarfa óþægindum fyrir aðra í umferðinni.
Skýrir rammar þurfa að liggja að baki þessum samgöngutækjum sem öðrum. Hætta er á slysum ef ekkert er að gert og fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagssvið til að bíða ekki eftir þeim áður en tekið er til hendinni við að leysa þetta vandamál.
Frestað.