Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júní 2020 vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur vegna aðkomutengingar við fyrirhugaða Fossvogsbrú:
Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Nauthólsvík og Reykjavíkurflugvallar. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur minna hér á skemmdir á fjörum sem allt þetta hefur í för með sér. Til að geta lagt umferðartengingu milli Nauthóls og Fossvogsbrúar þarf landfyllingu. Veitur gera athugasemd og segja að fyrirhuguð landfylling sem kynnt er í breytingunni á deiliskipulagi raski útrásarenda fyrir regnvatn vestan við Nauthólsvík. Er ekki hægt að skipuleggja þetta öðruvísi? Breytingartillagan ber með sér óvissuna sem felst í því hvort flugvöllurinn verður eða fer. Uppbygging með flugvöllinn á staðnum er allt önnur en uppbygging sem yrði, fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni. Hér eru lagðar fram ábendingar frá Ísavia og íbúaráði Miðborgar og Hlíða, báðar afar mikilvægar. Sú síðari lýtur að aðgengismálum og að í öllu deiliskipulagi sé liður þar sem algild hönnun og aðgengi fyrir alla sé tekið fyrir eins og segir í athugasemdinni/ábendingunni. Það vantar alveg að gera grein fyrir aðgengismálum í tillögum að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur og Reykjavíkurflugvallar. Eftir því sem fulltrúa Flokks fólksins skilst á að bregðast við þessum athugasemdum, vonandi verður það gert með jákvæðum huga þannig að allir aðilar verði sáttir.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júní 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júní 2020 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar:
Fresta ætti öllum byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer úr Vatnsmýrinni, fari hann þ.e.a.s. enda verður þá allt annað umhverfi í boði. Fyrirspurn um þetta var lögð fram í skipulags- og samgönguráði en vísað frá með þeim rökum að verið sé að spyrja um pólitísku afstöðu kjörinna fulltrúa eins og segir í svari. Hér er ekki spurt um pólitíska afstöðu heldur um skipulagsmál enda er umhverfi flugvallarins skipulagsmál. Vissulega eru skipulagsmál oft pólitísk enda ákvörðuð á pólitískum vettvangi. Fimmtán ár í sögu Reykjavíkur eru brot af sögu borgarinnar og þessi 15 ár mega vel líða án framkvæmda. Fari flugvöllurinn opnast allt aðrir möguleikar á byggðaþróun. Þeim möguleika á ekki að spilla með því að byggja í sérhverjum útnára flugvallarins. Miklu máli skiptir hvort flugvöllur sé á svæðinu eða ekki þegar horft er til byggingaáforma. Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Nauthólsvík og Reykjavíkurflugvallar. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Tillagan ber með sér að rými við flugvöllinn er ekki mikið. Fyrirhugaðar eru landfyllingar. Veitur gera athugasemd og segja að fyrirhuguð landfylling raski útrásarenda fyrir regnvatn vestan við Nauthólsvík. Ábendingar frá Ísavia og íbúaráði Miðborgar og Hlíða benda til að ýmsa þætti sem tengjast boðuðum framkvæmdum þyrfti að skoða nánar.
Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð hjólastíga árið 2020:
Íþróttamannvirki ÍR í Mjódd. Íþróttahús (parkethús). Birtur er árangur af útboðum, en tilboð eru hærri en kostnaðaráætlun er. Í umsögn er sagt að skýring á að tilboð séu hærri en kostnaðaráætlun sé að krónan féll um 15% frá tíma kostnaðaráætlunar og tilboða. En nú hefur sú gengislækkun gengið að mestu til baka og ætti það þá ekki að hafa áhrif á tilboðin til lækkunar? Í þessari bókun má leggja til að þetta verði kannað með samatali við tilboðsgjafa.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs dags. 8. júní 2020, þar sem lagt er fram skilamat vegna framkvæmda við Klettaskóla:
Bókun við skilamat framkvæmda v. Klettaskóla. Flokkur fólksins fagnar að margt tókst vel í þessu verkefni sem var flókið og margslungið. Engu að síður má ætla að margt hafi verið fyrirsjáanlegt og hafi ekki þurft að koma á óvart. Allt of mikið var af töfum og aukaverkum. Ekki er hægt að líta fram hjá að einn milljarður var í framúrkeyrslu og er það óásættanlegt. Upplýst hefur verið að fimm viðaukar hafi verið lagðir fram á árunum 2015-2018 að upphæð 940 milljónir króna. Fyrir þá sem ekki þekkja málið er hér birt dæmi um nokkrar orsakir viðbótarkostnaðar. Grunnur reyndist heldur dýpri en gert var ráð fyrir, sökklar hærri og magnaukning verður í steypu og steypustyrktarjárni. Vegna hönnunar á tröppum við félagsmiðstöð varð að fleyga og fjarlægja töluvert meira af klöpp en áætlað hafði verið. Ásigkomulag gólfa í eldra húsnæði, tenging viðbyggingar við eldra hús olli töluverðum vandræðum við uppsetningu stálvirkis efri hæðar miðálmu. Nokkrar breytingar urðu á magntölum í stálvirki. Sumar til hækkunar en aðrar lækkunar og jarðvinna vegna lagna er almennt vanáætluð. Hér eru aðeins brot nefnd af framúrkeyrsluverkum sem tengist þessu verkefni.
Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út 1. áfanga framkvæmda við leikskólann Funaborg og Seljakot:
Flokkur fólksins fagnar að loksins sé hreyfing við byggingu nýrra leikskóladeilda. Sagt er loksins því tímaáætlanir hafa engan vegin staðist. Vandræði hafa skapast þar sem bilið hafði ekki verið brúað þegar hurðinni var skellt á dagforeldra. Minnt er á að enn eru vandræði með að fá dagforeldra á vissum tíma árs. Flokkur fólksins hefur lagt til að borgin styrki dagforeldra, t.d. með því að greiða þeim sem samsvarar gæslu 5. barnsins nái þeir ekki að fylla öll pláss. Enn er talsverður tími þangað til bilið verður að fullu brúað og þess vegna verður að finna leiðir í samvinnu við dagforeldra til að styrkja dagforeldrastéttina og sporna við frekari flótta úr stéttinni á meðan verið er að „brúa bilið”. Foreldrar verða að geta verið öruggir með að fá pláss fyrir barn sitt hjá dagforeldri óháð því hvenær á árinu barnið fæddist og dagforeldrum verður að vera boðið viðunandi starfsöryggi.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við samgöngubætur í Grafarvogi norður:
Bókun Flokks fólksins við Grafarvogur norður, samgöngubætur: Kynntar eru fyrirhugaðar samgöngubætur í norðurhluta Grafarvogshverfis. Þetta eru meðal atriða sem íbúum var lofað þegar ráðist var í að leggja af skólahald í einu húsi þverrt gegn vilja foreldra barna skólans. Þau óttuðust um öryggi barna sinna á leið í og úr skóla. Er hér búið að tryggja að fullu, eins og hægt er, trausta og örugga samgönguleið á milli Staðahverfis og Víkurhverfis? Fram kemur í kynningu að þetta hafi verið kynnt foreldrum en fulltrúi Flokks fólksins veit ekki hvort foreldrar séu sáttir upp til hópa og hvort þeir upplifi að börn þeirra séu örugg á leið úr og í skóla.
Bókun Flokks fólksins við bréfi innri endurskoðunar, dags. 8. júní 2020 þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki framlgða áætlun um útfærslu að skipulagi nýrrar:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að mörgu leyti tillögu um sameinaða starfsemi innri endurskoðunar, persónuverndarfulltrúa og embætti umboðsmanns borgarbúa. Sagt er að þetta leiði til sparnaðar og vonandi gerir það það en hvort það verði reyndin á eftir að koma í ljós. Svarti blettur þessara breytinga er að umboðsmaður borgarbúa hættir og fer þar með hans sérhæfða hlutverk. Það embætti var það eina sem borgarbúar gátu í raun treyst á að myndi ganga erindi þeirra. Þetta voru þeir sem töldu sig hafa orðið fyrir misbeitingu, órétti eða öðrum meintum brotum af hálfu borgarinnar gagnvart borgarbúum. Hverjir munu sinna þessum borgurum og málum þeirra núna með jafnhlutlausum hætti og embætti umboðsmanns borgarbúa gerði? Og hvernig mun í þessu nýja sameinaða kerfi ganga að svara erindum borgarfulltrúa en sú staða kemur stundum upp að borgarfulltrúar telja ástæðu til að láta skoða mál, svið eða deildir.
Bókun Flokks fólksins við við kynningu á drögum að gjaldskrárstefnu Strætó bs.:
Kynnt eru drög að gjaldskrárstefnu Strætó bs. Einhver einföldun hefur orðið en ganga hefði mátt lengra. Hér vill fulltrúi Flokks fólksins nefna tillögu um að lækka einstaklingsmiða í strætó sem er nú tæpar 500 krónur til að laða fleiri að almenningssamgöngum. Einnig var lagt til að hafa ótakmarkaðan gildistíma á strætókortum. Þessi tillaga fékk ekki að fara fyrir stjórn Strætó bs. til umræðu heldur var vísað strax frá í borgarráði sem er miður. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að það sé afar mikilvægt að auka sveigjanleika strætókorta, t.d. að hafa ótakmarkaðan gildistíma. Fyrir þann sem tekur vagninn sjaldan getur hann ekki keypt 10 miða kort því gildistíminn er stuttur. Einnig er of lítill munur á miðaverði sé keyptur einn miði eða sé miðin hluti af stærtókorti. Þótt keypt sé 20 miða kort er einstaka miði aðeins um 15 krónum ódýrari. Væri gjaldið að minnsta kosti 100 krónum lægra og 150 krónum lægra ef keypt er 20 miða kort með ótakmarkaðan gildistíma er það hvatning að nota meira strætó. Hér er verið að hugsa til hóps fólks sem öllu jafnan notar einkabílinn en þarf að stöku sinnum nýta sér aðrar ferðaleiðir. Þessi staða kemur stundum upp hjá fjölskyldum sem eiga einn heimilisbíl.
Bókun Flokks fólksins við við svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. júní 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um akstur handhafa P-korta á göngugötum og um heimild handhafa P-korta til að keyra á göngugötum:
Viðhorf skipulagsyfirvalda til 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga er alveg skýrt. Reyna á að fá löggjafann til að breyta þessu ákvæði, taka út ofangreinda heimild og tryggja þar með að akstursþjónusta fatlaðra og handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða geti ekki ekið göngugötur og lagt þar í merkt stæði eins og kveðið er á um í lagagreininni. Skipulagsyfirvöld óttast að stór hluti handhafa stæðiskorta muni fjölmenna á göngugötur en þeir eru um 8000 í borginni. Fulltrúi Flokks fólksins finnst sem hér sé ekki verið að setja fólk og þarfir þess í fyrsta sæti. Auðvitað munu ekki margir handhafar stæðiskorta vera á göngugötu á sama tíma. Hins vegar getur vel verið að þessi heimild hvetji einn og einn handhafa að koma inn á göngugötu.
Í borg þar sem borgarbúa hafa mismunandi þarfir er mikilvægt að sýna skilning og sveigjanleika. Borgin er fyrir fólkið en ekki öfugt. Ýmsar leiðir hafa verið fundnar í borgum erlendis en þar er víðast almenningssamgöngukerfi sem þjónustar fólkið vel. Að mörgu leyti eru aðrar borgir því ekki sambærilegar og Reykjavík. Þver- og hliðargötur í erlendum borgum eru auk þess með afar gott aðgengi og séð er til þess að þar geti fólk lagt bíl sínum stutt frá áfangastað. Þvergötur við Laugaveg bjóða ekki upp á þann möguleika.
Bókun Flokks fólksins við svari Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 29. maí 2020, um fyrirtækið Strategíu og kostnað vegna tillagna fyrirtækisins um stjórnskipulag byggðasamlaga:
Bókun Flokks fólksins við svari spurninga um hvernig var fyrirtækið Strategía fyrir valinu að koma með tillögur á stjórnskipulagi byggðarsamlaga? Fór þetta verkefni í útboð? Hver er kostnaðurinn við verkefnið og hver greiðir? Fram kemur að í starfs- og fjárhagsáætlun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2020 er áætlað að fyrsti hluti verkefnisins verði um 7. millj. kr. og að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu stendur straum af verkefninu kostnaðarlega og heldur utan um verkefnið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta há upphæð og er hér aðeins um fyrsta hluta. Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er haldið uppi að fólkinu í sveitarfélaginu. Nýlega var verið að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun, tillögu um að fjárheimildir borgarstjórnar verði hækkaðar um 4.609 þ.kr vegna hækkunar á félagsgjöldum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem hækkaði um 50% eða um ríflega 4,6 milljónir. Félagsgjöld eins og annað koma úr vasa borgarbúa.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu Flokks fólksins um viðveru starfsmanns tæknideildar á meðan á fundum ráðsins stendur:
Bókun Flokks fólksins við svari vegna tillögu Flokks fólksins um viðveru starfsmanns tæknideildar á meðan á fundum borgarstjórnar stendur. Tillögunni var vísað frá. Tillagan var um að tölvumaður verði ávallt til staðar í Ráðhúsinu þegar fundir eru í gangi. Sýnt hefur að það getur skapast ófremdarástand ef tæknivandamál koma upp á miðjum fundi og ekki er hægt að ná í tölvumann. Slíkt ástand getur leitt til þess að viðkomandi borgarfulltrúi getur ekki komið frá sér málum sínum og bókunum þar sem ekki er hægt að gera það eftir að fundi er slitið. Í svari segir að atvik eins og tillagan vísar til geta komið upp, en eru afar sjaldgæf. Skrifstofunni þykir miður að tæknimaður hafi verið fjarverandi á umræddum fundi. Óviðráðanlegar aðstæður gerðu það að verkum að ekki reyndist unnt að fylla í skarð hans þennan umrædda dag. Upplýsingatækniþjónstu Reykjavíkurborgar mun nú sem áður einblína á að veita borgarráði og borgarstjórn fyrirtaks tækniþjónustu á fundum ráðsins. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið sem er hreinskilið.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð Skipulags- og samgönguráðs frá 3ja júní er varðar vegatolla:
Umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir liður 13. Veggjöld í Reykjavík gætu falið í sér tugþúsunda kostnaðarauka á mánuði vegna ferða borgarbúa. Vegtollar eru aðför að borgurunum að mati fulltrúa Flokks fólksins. Nú vilja skipulagsyfirvöld leggja sérstaka áherslu á að rukka þá sem aka um á ákveðnum tímum, á álagstímum, á þeim tíma sem þeim er ætlað að mæta í vinnu. Það er vissulega fagnaðarefni að bæta eigi samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið brugðist við fólksfjölgun og auknum umferðarþunga. Gert er ráð fyrir að vegtollar á notendur fjölskyldubíla standi undir helmingi kostnaðar. Vegtollahugmyndirnar hafa verið gagnrýndar harkalega. Félag íslenskra bifreiðaeiganda hefur bent á að setja þyrfti upp myndavélar á 160 gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu til að innheimta vegtolla á helstu stofnbrautum. Vegtollar eru mjög dýr leið til að hafa tekjur af umferðinni. Kostnaður við vegtolla felst m.a. í dýrum tækjabúnaði, hugbúnaði, tengingum, innheimtukostnaði, viðhaldi, endurnýjun og almennum rekstri. Að auki greiða vegfarendum 11% virðisaukaskatt af veggjöldum. Veggjöld leggjast með mestum þunga á lágtekjufólk sem þarf að nota bíl til að sækja vinnu og koma börnum á leikskóla og í frístundastarfsemi. Láglaunafólk sem flytur í úthverfi til að komast í ódýrara húsnæði tapar þeim ávinningi komi til innheimtu veggjalda. Veggjöld eru flöt krónutala og mun hærra hlutfall launa láglaunafólks samanborið við laun hálaunafólks.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu fundargerða Orkuveitunnar:
Hér eru sex fundargerðir Orkuveitunnar lagðar fram á einu bretti, sú elsta frá því í febrúar. Þetta er frekar óþægilegt og óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fundargerðir komi jafnhraðan enda ærin vinna að fylgjast með málum þegar svo margar fundargerðir koma inn á einu bretti og sumar allt að fjögurra mánaða gamlar.
Bókun Flokks fólksins við 7. lið fundargerðarinnar Sorpu frá 18. maí:
Gas og jarðgerðarstöðin, verður vígð í næstu viku og er framtíðarlausn á meðhöndlun lífræns sorps. Minna verður urðað sem er gott en dýrmætar afurðir sem verða til við vinnsluna virðast ekki ætla að nýtast. Engir samningar eru í höfn um sölu á metani og moltuna á að gefa, þ.e.a.s. ef einhver vill hana. Ef enginn vill hana þarf að urða hana.
Bókun Flokks fólksins við 7. lið yfirlitsins um embættisfærslur:
Einn liður embættisafgreiðslna er afgreiðsla tillögu Flokks fólksins um íslenskunámskeið fyrir erlenda leikskólastarfsmenn sem vísað var frá á fundi skóla- og frístundaráðs þann 26. maí sl. Tillagan gengur út á að allir verðandi starfsmenn leikskóla sem ekki tala íslensku sæki eitt íslenskunámskeið áður eða um það leyti sem þeir hefja störf þar sem það er mjög erfitt að byrja á vinnustað ef erfiðleikar eru með að skilja það sem sagt er eða tjá sig. Í svari kemur fram „að í dag standi öllum erlendum starfsmönnum í leikskólum til boða íslenskukennsla og að það sé einstaklingsbundið hvenær hentar bæði fyrir starfsmanninn og vinnustaðinn“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að hér eigi ekki að vera um val að ræða enda vilja flestir erlendir starfsmenn læra málið sem fyrst til að geta tekið strax fullan þátt og liðið vel í vinnunni. Á leikskólum eru börn auk þess sjálf að læra sitt eigið tungumál svo hér er um allra hag að ræða. Eðlilegt væri að íslenskunámskeið væri hluti af ráðningarferli í þeim tilvikum sem það á við.
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að unnið verði markvisst að fækkun nemenda í bekkjum þar sem þess er þörf.
Tillaga Flokks fólksins að unnið verði markvisst að fækkun nemenda í bekkjum þar sem þess er þörf. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að unnið verði markvisst að fækkun nemenda í bekkjum þar sem þess er þörf. Það hefur sýnt sig í rannsóknum að bekkjastærð skiptir miklu máli fyrir flesta nemendur. Nemendur í of stórum bekkjum ná ekki sama námsárangri og aðrir nemendur. Þá hefur bekkjastærð einnig mikil áhrif á kennara. Álagið sem fylgir því að vera með 20-30 börn í „krefjandi“ bekk er slíkt að það stuðlar að kulnun og brottfalli úr starfi. Í tilfellum þar sem ekki er ráðið við að fækka nemendum í bekk þar sem þess er þörf skiptir sköpum að kennari hafi aðstoðarmann. Með slíku fyrirkomulagi er einnig spornað að einhverju leyti við vandamálinu sem fylgir því að börn með dulda námsörðugleika og vanlíðan fari í gegnum skólakerfið án eftirtektar. Þegar rekstur grunnskóla var færður yfir til sveitarfélaganna árið 1996 var ákveðið að veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm í að útfæra rekstur þeirra. Allt frá árinu 1996 hafa því ekki verið í gildi reglur um stærð bekkja á vegum menntamálaráðuneytisins. Það er því hlutverk Reykjavíkurborgar að tryggja að bekkjastærðir séu innan skynsamlegra marka og bitni ekki á velferð nemenda og kennara. R20060108
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um frekari námsstuðning við börn með einkenni ADHD og fyrirbyggjandi ráðgjöf fyrir foreldra þeirra á meðan biðtíma eftir greiningu og sálfræðiaðstoð stendur
Tillaga um frekari námsstuðning við börn með einkenni ADHD og fyrirbyggjandi ráðgjöf fyrir foreldra þeirra á meðan biðtíma eftir greiningu og sálfræðiaðstoð stendur. Í febrúar sl. voru 674 börn á biðlista eftir ADHD greiningu, þar af 429 að bíða eftir fyrstu þjónustu og 245 börn eftir frekari þjónustu. Þessi langi biðlisti er með öllu ólíðandi. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur sem lúta að styttingu biðlista, m.a. að sálfræðingum verði fjölgað og að samstarf við Þroska- og hegðunarstöð verði formgert. Til að koma til móts við þessi börn og foreldra þeirra leggur Flokkur fólksins til við skóla- og frístundaráð að börnin á biðlistanum fái frekari aðstoð en nú er veitt og sérstaklega við „heimanám“. Flokkur fólksins leggur jafnframt til að foreldrar barna á biðlistanum fái sérstaka fræðslu um ADHD ásamt ráðgjöf á meðan biðtímanum stendur. Í „snemmtækri íhlutun“ verður að felast fleiri og markvissari úrræði til að létta undir með foreldrum og börnum á meðan bið eftir aðstoð fagaðila stendur. Hvert barn skiptir máli og hvert ár á þessum mikilvægu mótunarárum getur haft áhrif á sálarlíf þess áratugum saman. Það hlýtur að vera vilji borgarstjórnar að tryggja börnum með ADHD betri farveg í grunnskólakerfinu og vonar Flokkur fólksins að nú verði vandinn viðurkenndur og lausnir settar í farveg. R20060106
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að í stærri bekkjum séu ávallt tveir, kennari og aðstoðarmaður. Styðja þarf kennara enn frekar en gert er nú
Flokkur fólksins leggur til að í stærri bekkjum séu ávallt tveir, kennari og aðstoðarmaður. Styðja þarf kennara enn frekar en gert er nú. Mikið álag er á marga kennara sem kenna stórum bekkjum þar sem margir nemendur þurfa e.t.v. sértæka aðstoð. Í slíkum bekk er auðvelt fyrir barn sem hefur sig ekki í frammi að týnast og erfiðara er að uppgötva mögulega námserfiðleika og kortleggja aðstoðina sem börnin kunna að þarfnast. Einkenni eru oft falin. Kennari sem er undir miklu álagi og hefur í mörg horn að líta getur ekki tekið eftir öllu í skólastofunni. Að hafa tvo inn í bekk, kennara og annan honum til aðstoðar er mikill kostur og léttir á álagi. Betur sjá augu en auga, auðveldara er að fylgjast með líðan og hegðun nemenda og þeir fá meiri athygli og aðstoð á einstaklingsgrunni. R20060103
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins afstöðu íbúðaráða til tillögu um að auka samvinnu við stofnanir í hverfum:
Í bréfi stýrihóps um innleiðingu íbúaráða, dags. 18. febrúar kemur fram að tillögu Flokks fólksins um að íbúaráðin finni leiðir til að auka samvinnu við stofnanir í hverfum þeirra hefur verið sent til allra íbúaráða. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því og óskar á sama tíma eftir að fá senda afstöðu íbúaráðanna til tillögunnar eftir að um hana hefur verið fjallað á fundum ráðanna. R20010381
Vísað til meðferðar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins hvað er átt við með hönnunarkerfi fyrir stafrænar vörur og hver er kostnaðurinn:
Fyrirspurnir í tengslum við liðinn um hönnunarkerfi fyrir stafrænar vörur. Kynnt er hönnunarkerfi fyrir stafrænar vörur. Talað er um formheim, teikningar, raddtónn. Fulltrúi Flokks fólksins skilur ekki alveg hvernig þetta kerfi virkar, notagildi, tilgangur, skemmtanagildi? Hér koma nokkrar spurningar sem vonandi varpa frekara ljósi á þetta. Talað er um samræmingu, að verið sé að samræma upplýsingar? Hvað er átt við og óskað er eftir dæmum í máli og myndum. Hvað fá borgarbúar út úr þessu? Myndi þetta teljast til forgangsverkefna og ef svo er, að hvaða leyti? Hver er kostnaður við þessa hönnun? R20060063. Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að fá upplýsingar um mál sem nefnd eru í fundargerð Strætó bs. 29. maí:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um mál sem nefnd eru í fundargerð Strætó bs. 29. maí. Á þessum fundi voru rædd mál og veittar upplýsingar m.a. um aðgerðarlista vegna starfsánægjukönnunar og almenn umræðu var einnig um eigendastefnu Strætó bs.. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá samantekt á þessari umræðu og helstu niðurstöður. R20010017
Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvernig hægt sé að gera marktæka kostnaðaráætlun áður en búið er að forhanna hjólastíga
Fyrirspurn um hjólastíga. Skipulagsyfirvöld óska eftir að borgarráð heimili að framkvæmd við jólastíga verði boðið út. Verkefnin eru samkvæmt hjólreiðaáætlun Reykjavíkur og vegna samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun 2 er 960 mkr og þar af hluti er kostnaðaráætlun vegna undirbúnings og forhönnunar. Er hægt að vinna kostnaðaráætlun áður en það er gert ? Eru þær kostnaðaráætlanir sem hér er birtar marktækar þar sem ekki er búið að forhanna? Það væri gott að fá nákvæmar upplýsingar um þetta í ljósi þess að allt of oft virðist sem áætlanir standist ekki. R20060065
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.