Borgarráð 15. október 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu sóttvarnarlæknis á stöðu COVID-19:

Fulltrúi Flokks fólksins vill þakka embættum sóttvarnalæknis, ríkislögreglustjóra og landlæknis, þríeykinu, fyrir yfirgripsmikla umfjöllun um COVID-19 faraldurinn. Góð upplýsingagjöf skiptir sköpum þegar kemur að trausti almennings á viðbrögðum stjórnvalda. Embættin hafa öll staðið í ströngu á árinu og útlit er fyrir að svo verði áfram.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu á drögum að tillögum að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð:

Eitt stærsta málið er að leggja á hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarf sem eyðileggja mun eitt helsta náttúrulífs- og útsýnissvæði Reykjavíkur. Þetta stríðir gegn einu af leiðarljósum sem kynnt eru í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 en þar segir „að ekki verði gengið á svæði sem hafa hátt náttúru- og/eða útivistargildi“. Búið er að kynna fyrir skipulagsyfirvöldum að önnur leið er mun betri og það er sú leið að tengja Arnarnesveginn inn á Tónahvarf og gera hringtorg við Breiðholtsbrautina/ Vatnsendahvarf-götuna. Þar með yrði Vatnsendahvarfinu og hæðinni þyrmt. Í þessa útfærslu treysta skipulagsyfirvöld sér ekki því Vegagerðin og bæjarstjórn Kópavogs segja „nei“. Að öðru, áhyggjur eru af fækkun bílastæða í miðborginni. Borgarlína er enn talsvert inni í framtíðinni og óvíst með almenna notkun hennar jafnvel þótt byggt verði þétt í kringum hana. Með því að fækka bílastæðum svo mikið er sýnilega verið að þrýsta fólki í borgarlínu. Bílastæðin verða farin löngu áður en borgarlína kemur og ekki er séð annað en það muni valda vandræðum. Skipulagsyfirvöld virðast ekki hafa mikinn áhuga á að flýta orkuskiptum. Ekki er minnst á vistvænan, innlendan orkugjafa, metan, sem gnótt er af, svo mikið að honum þarf að brenna. Síðast en ekki síst þarf að fjölga atvinnutækifærum til muna í öllum hverfum.

 

Bókun Flokks fólksins við  tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46:

Málefni Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga hafa verið til umræðu lengi ekki síst vegna athugasemda og gagnrýni íbúa svæðisins. Kvartað hefur verið undan málsmeðferð en skipulagsyfirvöld taka ekki undir það. Andmælendur hafa tvívegis unnið mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eigendur fengu aukafrest til að skila athugasemdum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort skipulagsyfirvöld telji að vel hafi verið tekið í ábendingar og athugasemdir íbúa hverfisins og hvort þeim hafi verið mætt eins og framast er unnt. En vonandi hefur náðst aðeins meiri sátt í málinu með þeim breytingum sem gerðar verða frá upphaflegu skipulagi/tillögum.

 

Bókun Flokks fólksins við nýrri gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík er send borgarráði til staðfestingar:

Lögð er fram tillaga meirihlutans að nýrri gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík. Sumt í henni er nokkuð undarlegt. Sem dæmi, hvaða máli skiptir hvernig bíll snýr þegar honum hefur verið lagt og er því kyrrstæður? Og einnig, af hverju að sekta fyrir að leggja eigin bíl fyrir framan eigin innkeyrslu? Ekki ætti að sekta fyrir slíkt enda hvorki um óhagræði eða tjón að ræða. Ef þetta er bannað verður bíleigandinn að leggja í almennt götustæði (á lóð borgarinnar). Skiljanlegt er að tryggja aðkeyrslu að sérafnotastæðum. En það er samt sem engin ástæða til að vera með of stífar reglur í svona málum, heilbrigð skynsemi dugar. Fulltrúi Flokks fólksins telur jafnframt að vel mætti skoða að gefa ríflegri afslætti ef sektin er greidd t.d. innan sólarhrings. Með því er verið að hvetja þá sem fá sekt til að ganga strax í málið og greiða hana. Sjálfsagt er að gefa þeim sem brjóta umferðarlög kost á að lækka upphæð sektarinnar með þessum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins við framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum það sem af er ársins 2020 vegna COVID-19:

Lagt er til af meirihlutanum að borgarráð samþykki framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum út árið, vegna COVID-19, að uppfylltum skilyrðum ef leigutakar sýni fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019. Fulltrúi Flokks fólksins telur að ef horft er til þess fjölda sem nýtti sér sér tímabundna breytingu á innheimtureglum borgarinnar vegna COVID-19 til að fresta leigugreiðslum kemur fram að aðeins „12 aðilar hafa nýtt sér frest vegna leigu í mars til júní“. Í ljósi þess væri sanngjarnt að endurskoða skilyrðin fyrir frestinum til að koma til móts við fleiri. Oft fylgja tillögum borgarstjóra til hjálpar ýmis íþyngjandi skilyrði sem valda því að úrræðið hentar fáum. Hjálparúrræði ná skammt ef aðeins örfáir geta nýtt sér þau. Í því tilfelli sem hér um ræðir nær tillaga borgarstjóra of skammt enda þótt allt sé betra en ekkert. Til að nýta þessa heimild þurfa leigutakar að sýna fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019 og skila inn viðeigandi gögnum skv. nánari leiðbeiningum. Þetta eru of harðar kröfur.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 12. október 2020, um erindi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins varðandi nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug, ásamt fylgiskjölum:

Erindi borgarstjóra til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug hefur verið svarað af ráðuneytinu. Ekkert er nýtt. Í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að það sé skýr sameiginlegur vilji aðila að stefna að því að flytja núverandi flugstarfsemi af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan völl í Hvassahrauni, reynist það vænlegur kostur, þ.m.t. það æfinga-, kennslu- og einkaflug sem þar fer fram í dag. Því er ljóst að ráðuneytið stefnir að flutningi æfinga-, kennslu- og einkaflugs af Reykjavíkurflugvelli í Hvassahraun, sbr. framan skráð. Þetta er alltaf sama spurningin, reynist Hvassahraun vænlegur kostur? Eða ekki? Ef Hvassahraun reynist ekki vænlegur kostur segist ráðuneytið munu kanna aðra möguleika. Þurfti einhver bréfaskipti til að fá þessa niðurstöðu? Málið er að það er ekki vitað hvort Hvassahraun reynist vænlegur kostur og það verður ekki vitað í bráð. Komi til að það verði að leita að öðrum stað bætast við önnur 20 ár sem flugvöllurinn verður í Vatnsmýrinni. Margir munu fagna því en aðrir ekki. Þetta er staðan og hún verður svona um langan tíma.

 

Bókun Flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tímabundin stuðning félagsmálaráðuneytisins vegna COVID-19:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Fyrirspurnin laut að heimilislausu fólki almennt séð, barnafjölskyldum, öryrkjum og eldri borgurum sem ekki hefur verið hægt að útskrifa af sjúkrastofnunum vegna húsnæðisleysis. Lengi vel var þessu fólki ekki vel sinnt og öll þekkjum við dæmi þess að fólk var nánast á götunni og sérstaklega þeir sem glíma við veikindi af ýmsum toga, karlar jafnt sem konur. Það sem er leitt í öllu þessu er hvað margir hafa þurft að búa við óvissu um eina af helstu grunnþörfum sínum, það að eiga heimili, og allt er þetta á vakt þessa meirihluta sem nú ríkir. Margt stendur vissulega til bóta og það ekki síst vegna aukinnar aðkomu ríkisins að þessum málum. Það sem er kannski mest sláandi er að ef kórónuveiran hafi ekki bankað upp á þá væru þessi mál sennilega enn í miklum ólestri hjá þessum meirihluta. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi málaflokkur og fólk yfir höfuð ekki hafa verið í miklum forgangi hjá Samfylkingu og VG í borgarstjórn sem þó gefa sig út fyrir að vera flokkar sem leggja áherslu á jöfnuð. En fortíðinni verður ekki breytt, en vonandi bætir meirihlutinn sig í þjónustu við fólkið það sem af er þessu kjörtímabili.

Bókun Flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um ráðgjafafyrirtækið Strategíu:

Ráðgjafafyrirtækið Strategía hefur fengið rúmar 28 milljónir fyrir vinnu við endurskoðun og innleiðingu á skipuriti Reykjavíkurborgar og til að skoða mögulegar breytingar á almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar m.a. í ljósi þess að eigendur hafa litla sem enga aðkomu að ákvörðunum og virkni eigenda því engin. Byggðasamlög eru ólýðræðisleg. Haldnir voru þrír fundir og tók fulltrúi Flokks fólksins þátt í þeim öllum. Meðal hugmynda sem fulltrúi Flokks fólksins lagði til var að fjölga fulltrúum í stjórn í hlutfalli við kjósendur og veita fulltrúa frá minnihlutum í sveitarstjórnum aðkomu að stjórn sem hefðu atkvæðarétt. Í lok ferilsins voru lagðar á borðið sviðsmyndir sem Reykjavíkurborg hefur ekki tekið afstöðu til. Sameining sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins virðist ekki á döfinni í náinni framtíð og því er brýnt að skoða aðrar leiðir til að draga úr lýðræðishalla byggðasamlaga. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig Reykjavíkurborg gagnaðist því þessi vinna. Hún er alla vega ekki að skila sér í neinar alvöru breytingar. Til hvers að kaupa dýra sérfræðivinnu ef ekki á síðan að nýta hana til alvöru breytinga?

 

Bókun Flokks fólksins við 5. lið fundargerðar fjölmenningarráðs:

Tillaga Flokks fólksins um átak gegn hættulegu húsnæði í borginni er lögð fram í fjölmenningarráði. Það sem snýr ekki síst að borginni er sá veruleiki, vitneskja og meðvitund að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er í Reykjavík og illa aðgengilegur þeim sem eru fátækir því frekar aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu og þá oft hættulegu húsnæði. Fram kemur í fundargerð fjölmenningarráðs að umsögn hafi verið lögð fram en hún fylgir ekki með og hefur fulltrúi Flokks fólksins ekki getað fundið hana. Ætla má að um sé að ræða svipaða umsögn og lögð var fram í mannréttindaráði. Í niðurlagi þeirrar umsagnar segir: „Í frumvarpi að breytingu á húsaleigulögum sem lagt hefur verið fram á Alþingi er lagt til að komið verði á skráningarskyldu um leigusamninga og leiguverð til að hafa eftirlit með markaðinum og í ljósi þess er ekki fyrirséð að átak á vettvangi Reykjavíkurborgar myndi duga til að bæta aðstæður þar sem vandinn er að miklu leyti vöntun á lagalegum heimildum.“ Fulltrúa Flokks fólksins finnst leitt að sjá að eftirlitsheimildir eru ekki nægar, en jákvætt að sjá að vinna er í gangi sem m.a. felur í sér endurskoðun á núverandi verkferlum og regluverki.

Bókun Flokks fólksins við 6. lið fundargerðar íbúaráðs Breiðholts:

Undir lið 6 í fundargerð íbúaráðs Breiðholts fer fram umræða um málefni hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á mál Arnarnesvegar. Vinir Vatnsendahvarfs hafa reynt að vekja athygli á því í íbúaráði Breiðholts en ekki tekist. Fulltrúi Flokks fólksins vill gera alvarlega athugasemd við ummæli formanns íbúaráðs Breiðholts á samfélagsmiðlum þar sem hún tjáir sig, sem formaður ráðsins, og segir að komin sé „lending í Arnarnesveginn“. Það er miður að formaður álykti með þessum hætti um háalvarlegt og viðkvæmt mál án þess að það hafi verið rætt í íbúaráðinu. Sú leið sem skipulagsyfirvöld kynntu á fundi 14. október er fyrir fjölda manns með öllu óásættanlegt, enda framkvæmd sem mun skemma afar dýrmætt grænt svæði. Hraðbraut sem koma skal verður þétt við fyrirhugaðan Vetrargarð og mun gjörbreyta umhverfinu. Umferð 15.000-20.000 bifreiða, sem að mestu verða frá austurhluta Kópavogs mun bætast inn á Breiðholtsbrautina um þessa leið. Það er miður ef íbúaráð undir forystu formannsins sem er kosinn af meirihlutanum sé fátt annað en framlenging yfirvalda og álykti án umræðu og samtals við aðra í ráðinu. Óskað hefur verið eftir að ráðið ræði þetta mál, alla fleti þess, af fagmennsku enda hér um að ræða ásýnd og notagildi eins besta útsýnisstaðar borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við 8. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 7. október og 1. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 14. október:

  1. okt.
    Viðhorfið sem birtist í könnun Maskínu endurspeglar greinilega ekki viðhorf fólks sem er miður. Kynningin gefur þá mynd að allir séu í raun glaðir yfir ástandinu í bænum. Það vita það allir sem vilja hvernig komið er fyrir Laugavegi. Nú nýlega steig rekstraraðili Máls og menningar fram og sagði reksturinn erfiðan áður en COVID skall á. Sölutölurnar fylgdu lokunum gatna. Fulltrúi Flokks fólksins verður að vera hreinskilin í þessu sambandi og segja að í ljósi alls þessa eru niðurstöður ekki trúverðugar eða í það minnsta gefur kynningin ranga mynd.
  2. okt.
    Skipulagsyfirvöld hafa setið á kynningarglærum um lagningu Arnarnesvegar gegnum Vatnsendahvarfið eins og ormur á gulli. Teikningar sýna takmarkað hvernig þetta mun líta út.  Ljóst er samt að vegurinn mun gjörbreyta umhverfinu og verða ofan í skíðabrekkunni. Umferð 15.000 – 20.000 bifreiða, að mestu frá austurhluta Kópavogs mun bætast inn á Breiðholtsbrautina um þessa leið. Ekki eru upplýsingar um hinar tvær leiðirnar sem kynntar voru í fyrstu. Vinir Vatnsendahvarfs hafa reynt að vekja athygli Íbúaráðs Breiðholts á málinu en ekki tekist. Engu að síður hefur formaður Íbúaráðsins fullyrt á samfélagsmiðlum að komin sé “lending  í  Arnarnesveginn”. Það er bagalegt þegar ráðið hefur ekki enn rætt málið.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 25. september 2020:

Fram kemur í fundargerð að málum Flokks fólksins sem vísað hefur verið til stjórnar Strætó bs voru sett undir önnur mál. Um er að ræða fyrirspurn varðandi gæðaeftirlit. Segir í fundargerð að stjórn hafi falið framkvæmdastjóra að svara fyrirspurninni. Nokkrum málum Flokks fólksins hefur verið vísað til stjórnar Strætó bs. í gegnum tíðina og sum hafa hreinlega dagað þar uppi. Þetta er afar hvimleitt, ekki síst þegar ekki hefur frést af málinu t.d. í meira en ár. Einnig er þetta slæmt því það er fólk sem bíður eftir viðbrögðum og auðvitað afgreiðslu þessara mála. Sem dæmi, árið 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að biðsalur Strætó bs. í Mjódd verði opinn eins lengi og vagnar ganga og að betur verði búið að biðsalnum þar sem margir nota hann daglega. Hvað varðar tillöguna um biðsalinn hafa allmargir haft samband og beðið um að reynt verði að ná þessum breytingum fram og hefur þetta fólk nú beðið eftir svörum í eitt ár því ekkert heyrist frá stjórn Strætó bs. Fulltrúi Flokks fólksins kallar hér með eftir hraðari vinnslu. Að leyfa málum að stranda á borði stjórnar mánuðum saman er ákveðin vanvirðing við þjónustuþega Strætó bs.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð öldungaráðs frá 5. október 2020:

Hin ágætasta tillaga var lögð fram í öldungaráði fyrir skemmstu af eldri borgara um að „öldungaráð Reykjavíkurborgar feli velferðarsviði að láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila, á máltíðum sem velferðarsviðið býður eldri borgurum upp á úr eldhúsi borgarinnar“. Sjá má nú í fundargerð öldungaráðsins að ráðið hefur gert á þessari tillögu breytingu og felst breytingin í því að búið er að taka út úr tillögunni „láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila“. Þetta vekur athygli enda fylgja þessu engar skýringar. Fulltrúi Flokks fólksins telur það mjög mikilvægt að þegar meirihlutinn í ráði eða nefnd samþykkir breytingartillögu þarf að fylgja með hver séu rökin fyrir breytingunni.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að gerð verði úttekt á starfi aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar, hvernig hún er raunverulega tengd í stjórnkerfinu, hvaða mál berast henni til afgreiðslu og hvaðan.

 

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að gerð verði úttekt á starfi aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar, hvernig hún er raunverulega tengd í stjórnkerfinu, hvaða mál berast henni til afgreiðslu og hvaðan. Einnig hvernig mál eru afgreidd í nefndinni, hvert og hvaða áhrif þau hafi á áætlanir í borgarkerfinu. R20100130

Vísað til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar fatlaðs fólks.