Borgarstjórn 1. desember 2020

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021 vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða í leik- og grunnskólum.

Tillaga nr. 1
Fríar skólamáltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum (SFS)

Flokkur fólksins leggur hér fram í annað sinn tillögu um að borgarstjórn samþykki að öll börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.870 m.kr. vegna tekjulækkunar. Lagt er til að tekjulækkun sviðsins sem áætlað er að nemi um 1.870 m.kr. á ári og þeim kostnaði sviðsins sem tillagan útheimtir verði fjármögnuð af handbæru fé þar sem ljóst þykir að liðurinn ófyrirséð ræður ekki við útgjaldaaukningu af þessari stærðargráðu þarf að leita að fjármagni á öðrum sviðum.

Greinargerð

Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir. Flokkur fólksins leggur jafnframt til að leitað verði leiða til að spara í rekstri til að koma á móts við útgjöld sem fríar skólamáltíðir kalla á. Sem dæmi verði leitað leiða til að minnka matarsóun og þar með lækka kostnað mötuneyta. Í ljós hefur komið í rannsóknum að  mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Með átaki gegn matarsóun er hægt að draga kostnað við máltíðir skóla niður á sama tíma og hugað er að umhverfismálum. Einn liður í að draga úr matarsóun er að leyfa börnum, um leið  og þau hafa aldur og þroska til, að skammta sér sjálf á diskinn og einnig að börnin skrá niður hvað og hversu mikið þau leifa.

Mikilvægt er að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir fríum skólamáltíðum eða lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, frestun gjaldskrárhækkana um eitt ár.

Tillaga um að fresta gjaldskrárhækkunum um eitt ár

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fresta skuli gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár vegna aðstæðna sem nú ríkja vegna COVID-19.

Flokkur fólksins leggur til að fjárheimildir skóla og frístundasviðs verði hækkaðar um 75.244 þ.kr. og fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar  um 18.113 þ.kr. Samanlagt lækki tekjur um 93.357 þ.kr. vegna þessa, sem verði fjármagnað af liðnum Ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Greinargerð:

Tillagan felur í sér að fresta gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár eða til 1.1. 2021 vegna ástands sem ríkir núna í samfélaginu í kjölfar kórónuveirunnar. Tillagan bætir hag barnafjölskyldna, aldraðra og fatlaðra sem njóta þjónustu borgarinnar.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum.

Tillaga um að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjalds af hundaeigendum. Tillagan felur í sér að fjárheimildir umhverfis- og skipulagssviðs verði hækkaðar um 33.300 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum Ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Samkvæmt stýrihópi sem nýlega lagði fram tillögur að breytingu á þjónustu borgarinnar við gæludýraeigendur er gert ráð fyrir að hundar verði áfram skráningarskyldir og að áfram verði innheimt eftirlitsgjald af hundaeigendum. Það er engin sanngirni í því að hundaeigendur haldi einir uppi allri þjónustu við gæludýraeigendur í borginni.  Í sameiginlegri umsögn Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands um skýrslu stýrihóps um þjónustu við dýraeigendur kemur fram að um 9000 heimili halda hunda í borginni en um 2000 hundar eru skráðir sem þýðir að um 20% af hundaeigendum borga 100% af eftirlitinu. Í skýrslu stýrihópsins er líka tekið fram að gjöldin „…séu hugsuð til þess að þjónusta samfélagið í heild og þá ekki síður til þess að gæta hagsmuna þeirra sem ekki eru dýraeigendur.“ Þarna er viðurkennt að innheimta gjaldsins er ekki þjónustugjald. Hlýtur gjaldtakan því að vera skattheimta sem verður að byggja á lögum. Samkvæmt því er gjaldið ólögmætt.

Greinargerð

Í lögum er það alveg skýrt að þjónustugjald má ekki innheimta umfram kostnað við þjónustuna en sá áskilnaður krefst ákveðins gegnsæis. Því miður hefur borgin ekki sinnt þeirri skyldu að veita upplýsingar um kostnað á bak við gjaldið þegar eftir því hefur verið leitað.

Skráning á gæludýrum er mikilvæg sem og örmerkjaskráning sem er lögbundin skylda.   Ef skráningargjald verður afnumið  mun skráðum dýrum fjölga. Ef innheimta á skráningargjöld mun einfaldlega færri hundaeigendur skrá hunda sín. Gjaldtakan hefur fælingarmátt. Það ætti að vera markmiðið að sem flestir hundaeigendur skrái hunda sína. Hundaeftirlitsgjaldið er barn síns tíma og hefur aðeins verið innheimt af hundaeigendum. Sum önnur sveitarfélög hafa engin gjöld af þessu tagi. Gjaldið hefur ekki lækkað þrátt fyrir að verkefnum hundaeftirlitsmanna hafi snarfækkað.

Í sameiginlegri skýrslu Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands gagnrýna félögin tillögur stýrihóps borgarinnar. Innheimta árlegra eftirlitsgjalda, án virks eftirlits er mögulega ólögmætt. Eftirlitsgjald er þjónustugjald sem óheimilt er að innheimta án þess að sinna þjónustunni. Fram kemur í skýrslu stýrihópsins að meginverkefni  hundaeftirlitsins síðustu ár hefur verið að að taka við ábendingum um óskráða hunda sem og að fá óskráða hunda á skrá og sinna afskráningum á móti.“  Nú á að leggja hundaeftirlitið niður en halda áfram með sama fyrirkomulagi á nýjum vettvangi dýraþjónustu. Þessu er mótmælt enda eiga skráningar sem þessar ekkert  skylt við eftirlit. Ekki er eðlilegt að þeir sem borga skráningargjöld af hundum sínum standi undir kostnaði við eftirlit á því hvort aðrir skrái hunda sína? Eigendur skráðra hunda greiða skráningargjald og árlegt eftirlitsgjald og þegar hundurinn deyr er ekki hægt að afskrá hann nema framvísa vottorði hjá dýralækni sem fólk þarf að greiða fyrir.

Tillögurnar voru felldar

Hér er bókun Flokks fólksins við afgreiðslu þeirra:

Bókun Flokks fólksins vegna atkvæðagreiðslu tillagna Flokks fólksins og annarra flokka.
Flokkur fólksins lagði fram breytingartillögur sem voru felldar.

Þær voru:

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir í leik- og grunnskólum

Frestun gjaldskrárhækkana á sviði skóla- og velferðarsviði um eitt ár

Að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum

Allar þessar tillögur eru réttlætistillögur. Fríar skólamáltíðir er eina leiðin til að tryggja að ekkert barn verði svangt í skólanum.
Engin sanngirni felst í því að innheimta skráningar og eftirlitsgjald aðeins af hundaeigendum (þ.e. þeim sem skrá hunda sína) og nota það til að halda uppi allri dýraþjónustu borgarinnar. Þetta er skattur en ekki gjald, mál sem þyrfti nauðsynlega að útkljá fyrir dómstólum.
Frestun gjaldskrárhækkana á svið sem eru nú þegar að sligast er sjálfsagt mál í ljósi ástandsins enda aðeins verið að tala um í eitt ár.
Fulltrúinn sat hjá í atkvæðagreiðslu tillögu meirihlutans um gjaldskrárhækkanir þar sem undir þeim lið var einnig hækkun launagjaldskrár til stuðningsforeldra. Einnig sat fulltrúinn hjá við afgreiðslu samstarfs- og styrktarsamnings við RÚV vegna þess að rétt hefði verið að líta einnig til  annarra útvarps- og sjónvarpsstöðva eins og Hringbrautar eða SÝN. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega því að heyra raddir barna sem oftast.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu frumvarps að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021, ásamt greinargerð og starfsáætlunum, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020.

Borgarstjórn sameinaðist um fyrstu viðbrögð við efnahagslegu áfalli eftir kórónuveiruna 26. mars sl. Samstaða náðist um þrettán aðgerðir, m.a. að létta undir með fólki almennt, þeim sem missa lífsviðurværi sitt og þeim sem voru illa staddir fyrir faraldurinn. Þeir eru því miður allt of margir. Fátækt hefur ríkt lengi í Reykjavík hjá dágóðum hópi. Of mikið púður hefur farið í prjál, skreyta götur og torg í stað þess að sinna grunnþjónustu vel og huga að þeim verst settu. Biðtími eftir alls kyns þjónustu er í hæstu hæðum. Skuldir borgarinnar fyrir COVID voru miklar. Enda þótt hægt sé að fá hagstæð lán verður að vera einhver skynsemi í fjármálastjórninni. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur til aðgerða sem eru sértækar og beinast að þeim verst settu. Um leið og lækkanir bjóðast öllum, ríkum jafnt sem fátækum, viðhelst ójöfnuður. Meirihlutinn lofaði að mæta ekki tekjufalli með niðurskurði en gerir það samt. Allar gjaldskrár á grunnþjónustu verða nú hækkaðar og krafist er hagræðingar hjá sviðum sem mæðir mest á. Það hlýtur að þurfa að forgangsraða meira í þágu fólksins. Enn bíða 1000 manns eftir félagslegu húsnæði og enn er talsvert af íbúðum Félagsbústaða og skólar sem eru að grotna niður vegna myglu og raka.

 

Bókun Flokks fólksins við frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025, ásamt greinargerð, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember sl.

Ekkert í fimm ára áætlun sýnir að taka eigi á biðlistavanda barna í þjónustu á vegum borgarinnar. Biðlistatölur eru að hækka í kjölfar COVID og von er á enn fleiri tilvísunum þar sem foreldrar margra barna hafa nú misst atvinnu sína og geta ekki leitað eftir sálfræðiþjónustu eða annarri þjónustu hjá sjálfstætt starfandi fagfólki. Nú reynir enn meira á þjónustukerfi borgarinnar í skóla- og velferðarmálum. Eins er gengið allt of skammt næstu árin í byggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk. Nú bíða um 137 manns með fötlun eftir sértæku húsnæði. Minnt er á nýlegan úrskurð í úrskurðarnefnd velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista. Í úrskurðinum segir að borgin skuli hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er. Enn er mikill húsnæðisvandi í Reykjavík. Þúsund manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Vitað er að margar fjölskyldur búa í óleyfishúsnæði vegna þess að þær hafa ekki efni á að koma yfir sig betra og öruggara skjóli. Því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku og efnalitlu fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði þar sem brunavörnum er oft ábótavant.

 

Bókun Flokks fólksins við  tillögu um Græna planið:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem meirihlutinn hafi gengisfellt hugtakið „grænn eða grænt“. Hamrað er á græna planinu en allt þar er ekki grænt í almennum skilningi þess orðs. Er almennt það að byggja hús grænt? Betra væri að vísa til þessa plans sem röndótts frekar en græns. Grænt vísar til sjálfbærni og þess sem er kolefnislaust og sem er umhverfisvænt. Komið er inn á velferðarmálin í græna planinu. Hvernig getur mörg hundruð barna biðlisti í skólaþjónustu flokkast undir grænt plan meirihlutans í borginni? Eða á annað hundrað manna biðlisti eftir sértæku húsnæði? Eða lagning 3. áfanga Arnarnesvegar sem veldur óafturkræfu tjóni á náttúru og dýralífi? Eða fjörufyllingar sem eyðileggja náttúrulegar fjörur sem ekki eru of margar í Reykjavík? Hversu grænn er vandi 34% drengja og 19% stúlkna sem ekki geta lesið sér til gagns eftir grunnskóla? Eða grunnskólabörnin af erlendum uppruna sem eru illa stödd í íslensku þótt þau hafi fæðst hér á landi? Fjölmargt er gott í græna planinu en stór hluti af þeim raunveruleika sem nú ríkir og borgarbúar búa við nú og næstu árin á ekkert skylt við „grænt“. Þetta eru falleg orð á blaði en fallegar hugmyndir ná skammt ef framkvæmdin fylgir ekki með.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að fjármála- og fjárfestingarstefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020.

Flokkur fólksins lagði fram breytingartillögur sem voru felldar. Þær voru: gjaldfrjálsar skólamáltíðir í leik- og grunnskólum, frestun gjaldskrárhækkana á skóla- og velferðarsviði um eitt ár, og að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjalds af hundaeigendum. Allar þessar tillögur eru réttlætistillögur. Fríar skólamáltíðir er eina leiðin til að tryggja að ekkert barn verði svangt í skólanum. Afnám hagræðingarkröfu á fagsviðum sem nú þegar eru að sligast er skynsamlegt í ljósi óvenjulegs ástands. Engin sanngirni felst í því að innheimta skráningar og eftirlitsgjald aðeins af hundaeigendum (þ.e. þeim sem skrá hunda sína) og nota það til að halda uppi allri dýraþjónustu borgarinnar. Þetta er skattur en ekki gjald, mál sem þyrfti nauðsynlega að útkljá fyrir dómstólum. Hvað varðar gjaldskrárhækkanir er fulltrúi Flokks fólksins á móti hækkunum sem snerta beina þjónustu við fólk. Fulltrúinn sat hjá í atkvæðagreiðslu þar sem undir þeim lið var einnig hækkun launagjaldskrár til stuðningsforeldra. Einnig sat fulltrúinn hjá við afgreiðslu samstarfs- og styrktarsamnings við RÚV vegna þess að rétt hefði verið að líta einnig til annarra útvarps- og sjónvarpsstöðva eins og Hringbrautar eða SÝN. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega því að heyra raddir barna sem oftast.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu fundargerða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar nýjum bæklingi ÍBR sem ber heitið Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg áreitni í íþróttum. Fyrir var til bæklingur um sama efni sem ber heitið „Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum“, gefinn út af ÍSÍ fyrir nokkrum árum. Sá bæklingur hefur staðist vel tímans tönn. Fræðsla er alltaf besta forvörnin. Það er afar mikilvægt að íþróttafélag eigi góðar siðareglur og verklagsreglur ef upp koma mál/kvörtun um kynferðislegt ofbeldi. Flokkur fólksins myndi vilja leggja til að útgáfu leiðbeiningarritsins verði fylgt eftir með námskeiði um þessi mál. Mikilvægt er að auka meðvitund íþróttaþjálfara um hvaða samskipti teljast viðeigandi og hvað telst óviðeigandi. Hvar mörkin liggja þegar kemur að íþróttum sem kallar á nálægð og snertingu. Börn upplifa samskipti með ólíkum hætti. Sú umræða er einkum mikilvæg sökum þess að börn og unglingar hafa ekki alltaf náð þeim tilfinninga- og félagsþroska sem þarf til að leggja raunhæft mat á atferli og aðstæður. Þeim er þar af leiðandi hættara við að misskilja tjáningu í samanburði við fullþroska einstaklinga. Íþróttaþjálfarar sem sótt hafa fræðslunámskeið í samskiptum á vettvangi íþróttanna eru betur í stakk búnir að stunda sjálfsskoðun og greina aðstæður. Vegna þess hversu starf íþróttaþjálfarans er krefjandi skipta skýrar og raunhæfar reglur höfuðmáli.