Borgarstjórn 21. apríl 2020

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að samstarf skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar verði formgert til að m.a. stytta biðlista

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Með samstarfinu er börnum hlíft við lengri bið á biðlista eftir sérfræðiþjónustu. Samstarfið myndi helst snúa að málum þar sem skimun hefur leitt í ljós sterkar vísbendingar um ADHD. Í samstarfinu fælist að sálfræðingur skóla og sérfræðingar ÞHS færu saman yfir málin og afgreiddu þau með viðeigandi hætti. Þessi hópur barna fengju þar með greiningu og viðeigandi meðferðarúrlausn fyrr. Með samstarfi þessara tveggja þjónustustofnana myndu biðlistar styttast og jafnframt stytta bið þeirra barna sem glíma við önnur þroska-, tilfinninga-, félags- og hegðunarfrávik, með eða án hamlandi einkenna ADHD.

Eitthvað verður að gera. Á biðlista eftir fyrstu og frekari þjónustu 1.2. 2020 voru 674 börn, 429 biðu eftir fyrstu þjónustu og 245 eftir frekari þjónustu. Mörg þessara barna hafa verið lengi á biðlista eftir fyrstu aðstoð. Þau börn sem þurfa frekari þjónustu fara aftur á biðlista. Eftir að hafa fengið aðstoð hjá skólaþjónustunni gæti niðurstaðan verið sú að vísa þarf máli þeirra til stofnanna á vegum ríkisins þ.m.t. ÞHS þar sem aðkoma barnalæknis er talin nauðsynleg að máli þeirra. Þá hefst enn á ný bið á biðlista.

Greinargerð með tillögunni má sjá hér

Samþykkt að vísa tillögunni til starfsfhóps með öllum greiddum atkvæðum

Bókanir í málinu:

Bókun Flokks fólksins við tillögu Flokks fólksins að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg.

 

Flokkur fólksins hefur lagt ýmislegt til sem borgarfulltrúi til að draga megi úr bið barna eftir sérfræðiþjónustu. Hér hefur verið lögð fram ein tillagan enn og hún er sú að skólaþjónustan komi á formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Með samstarfi sem þessu myndi létta mjög á biðlistum á öllum stigum þjónustunnar. Flokkur fólksins hefur lagt m.a. til fjölgun á stöðugildum sálfræðinga. Sú tillaga var felld. Til að uppræta biðlista eða stytta þá, þarf m.a. að fjölga stöðugildum sálfræðinga enda hefur málum einnig fjölgað. Í dag er hver sálfræðingur/stöðugildi að þjónusta 1000 börn. Flokkur fólksins fagnar því að tillögunni er ekki vísað frá eða hún felld heldur fari hún í stýrihóp. Borgarfulltrúi býður stýrihópnum það að leita ráða hjá borgarfulltrúa Flokks fólksins sem hefur 30 ára reynslu sem sálfræðingur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar þess mjög að sjá þessa hluti lagaða fyri börnin í borginni og það verður að gerast sem fyrst. Ein af ástæðum þess að borgarfulltrúi bauð sig fram í borginni var einmitt til að hlutast til um að koma málum af þessu tagi í betra horf.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Leiðarljós þjónustu við börn eru forvarnir og snemmtæk þjónusta á vettvangi barnanna og fjölskyldu þeirra. Í því felst að veita börnum og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning þar sem börnin eru á grundvelli þeirra þarfa og óska til að gera þeim kleift að nýta styrkleika sína og láta drauma sína rætast. Reykjavíkurborg býður nú þegar fjölbreytta þjónustu fyrir börn með sérþarfir og er í miklu þróunarstarfi með þá þjónustu meðal annars með framkvæmdaáætlun í barnavernd, Keðjunni og verkefninu Betri borg fyrir börn svo eitthvað sé nefnt. Að störfum er stýrihópur um heildstæða þjónustu við börn með sérþarfir, og er þessari tillögu vísað inn í þann stýrihóp þar sem hún mun fá meðferð en þar er einmitt verið að skoða samstarf við heilsugæslu og þroska- og hegðunarstöð.

 

Bókun Flokks fólksins bókar við tillögu um tímabundin frávik frá reglum um að heimilt sé að nota fjarfundabúnað á fundum borgarstjórnar, borgarráðs, fagráða:

Lagt er nú til á fundi borgarstjórnar að framlengja heimild til notkunar á fjarfundabúnaði og samþykkir Flokkur fólksins það. Fjarfundir og fjarfundabúnaður er fyrirkomulag sem er komið til að vera. Með möguleikum á að hafa fjarfundi skapast hagræðing og sparnaður. Hægt verður t.d. að draga að mestu leyti úr öllum utanlandsferðum á vegum borgarinnar og einnig mun með fjarfundafyrirkomulaginu vera hægt að draga úr útköllum vegna veikinda. Þetta býður upp á alveg ný tækifæri. Þær fréttir að fjarfundabúnaður sé mögulega ekki tryggur er bakslag. Upp hafa komið öryggisgallar í fjarfundabúnaði hjá einstaka fyrirtækjum. Óvelkomnir aðilar hafa ráðist inn í kerfið og komast inn á fundi. Flokkur fólksins vill nota þetta tækifæri og spyrja hversu vel borgin er búin að tryggja sig? Hversu vel eru fundarstjórar þjálfaðir nú þegar ljóst er að fjarfundabúnaður er kominn til að vera? Hvernig er öryggið í aðgangsstýringu? Hafa fundarstjórar fengið námskeið í lausnum? Er búið að greina þarfir borgarinnar í þessum efnum? Þessum spurningum er varpað fram hér í bókun en vænst er að þessi atriði verði öll könnuð til hins ýtrasta.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um neyðarstig almannavarna vegna COVID-19:

Borgarstjóri hefur farið yfir áhrifin af COVID-19. Það eru nokkrir hópar sem nauðsynlegt er að huga sérstaklega að í þessum aðstæðunum og sem segja má að hafi jafnvel orðið útundan. Þessir hópar þurfa svör m.a. til að eyða óvissu. Leigjendur Félagsbústaða hafa ekki fengið svör við hvort leiga verði felld niður í 2-3 mánuði eins og fordæmi er nú fyrir annars staðar. Boð um greiðsludreifingu er ekki nóg fyrir þennan hóp sem margir hafa átt um sárt að binda lengi. Eins er ekki vitað hvort dagforeldrar haldi óskertum tekjum sínum ef þurft hefur að loka vegna sóttkvíar. Eldri borgarar og öryrkjar telja sig margir hafa orðið útundan þegar horft er til aðgerða vegna áhrifa kórónuveirunnar. Horfa þarf til afleiðinganna á börn og ungmenni eftir langvarandi tímabil takmarkaðra félagstengsla sem fylgir skertu skóla, íþrótta- og tómstundastarfi. Okkur hefur verið send tillaga um að lengja tímabil vinnuskólans þannig að hann nái yfir allt sumarið. Þetta er bara eitt af mörgu sem þarf að huga að í þessu sambandi. Skorað er á borgarstjóra að vinna með minnihlutanum að raunhæfum lausnum fyrir alla. Fordæmi eru allt um kring ekki síst í löndunum sem hafa staðið sig hvað best í þessu fordæmalausa ástandi.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um að dýpka möguleika á snalllausnum:

Tæknilausnir á borð við fjarfundi eru í fullri þróun og voru innleiddar af brýnni nauðsyn og er vonandi eitt af því góða sem mun koma út úr þessum skelfilega faraldri. Fjarfundir munu eiga eftir að spara mikla peninga. Nú er t.d. hægt að nota þær tugir milljóna sem farið hefur í ferðir á vegum borgarinnar til að t.d. greiða niður skólamáltíðir. Sú tillaga sem hér er lögð fram er hvatning til að skoða frekari möguleika með fjarfundi. Nefnt er að nota reynsluna í skólakerfinu. Flokkur fólksins vill setja varann á þegar kemur að börnunum og grunnskólunum. Fjarkennsla má aldrei verða til þess að tækifæri verði tekið af börnum að koma saman. Börn eru nú þegar mikið í snjalltækjum. Snjalltæki koma aldrei í stað mannlegra tengsla. Nú þarf einmitt að stuðla að stöðugum og viðvarandi félagslegum tengslum. Ef horft er til verklegra greina þá er fjarkennsla erfið og í mörgum greinum ógjörningur. Loks vill Flokkur fólksins nefna að ganga skal hægt um gleðinnar dyr. Gæta þarf að öryggi þegar kemur að snjalllausnum enda hafa fréttir borist að því að óprúttnir aðilar hafi ráðist inn á fundi hjá einstaka fjarfundafyrirtækjum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu íþróttastefnu til samþykktar:

Flokkur fólksins fagnar að í íþróttastefnunni er þó alla vega minnst á að endurskoða eigi reglur um frístundakort. Borgarfulltrúi Flokks fólksins getur ekki samþykkt þessa íþróttastefnu á meðan svo miklir annmarkar eru á reglum um frístundakort sem raun ber vitni. Í borgarráði 2. maí 2019 lagði Flokkur fólksins til rýmkun á reglum um frístundakort m.a. til að heimila notkun kortsins í stutt tómstundaverkefni. Tillagan var felld. Að skilyrða notkun frístundastyrksins í námskeið sem eru 10 vikur að lágmarki nær ekki nokkurri átt. Þetta skilyrði lokar fyrir alla nýtingu þess í sumar- og vetrarnámskeið sem vara skemur en 10 vikur. Sumarnámskeiðin eru flest stutt, allt niður í 4 daga. Í hverfi 111 þar sem flestir innflytjendur búa og fátækt er mest nær nýting ekki 70%. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkurnar á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið. Vonandi er sá hópur sem vinnur að endurskoðun kortsins að vinna með þær tillögur um lagfæringar á reglum frístundakortsins sem Flokkur fólksins hefur lagt til.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Miðflokksins að borgarstjórn samþykki að hefja nú þegar viðræður við ríkið til að hefja stórfellda uppbyggingu hjúkrunarrýma í borginni:

Mikil þörf er á að byggja íverustaði fyrir aldraða svo sem hjúkrunarrými og tryggja aðstoð við umönnun. Í alla þjónustu hafa verið biðlistar og eldri borgarar mátt bíða mánuðum saman á sjúkrahúsi þar sem ekki er húsnæði fyrir þá eða skortur er á heimaþjónustu. Eftir þjónustuíbúðum fyrir aldraða bíða nú um 140 manns. Reykjavíkurborg  hefur skipulagsvaldið og getur haft mun meira og markvissara frumkvæði í að byggja upp hjúkrunarrými í samvinnu við ríkið. Borgin stýrir þessum verkefnum. Flokkur fólksins leggur áherslu á skyldu meirihlutans að hefja viðræður við stjórnvöld séu þær þá ekki þegar í gangi. Borgin fjármagnar 15% af stofnkostnaði. Í framkvæmdasjóð aldraðra greiða allir í til 70 ára aldurs.  Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og skal fé úr honum varið til byggingar stofnana fyrir aldraða, þjónustumiðstöðva og dagdvala. Það er ekkert sem bannar borginni að mynda meiri þrýsting en gert hefur verið undanfarin ár t.d. með enn ríkara framboði á lóðum á hentugum stöðum. Góð rök eru fyrir því að hefja framkvæmdir þegar framboð er á vinnuafli og atvinnuleysi með mesta móti.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir borgarráðs frá 19. og 26. mars og 2. og 16. apríl. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. og 23. lið í fundargerðinni frá 16. apríl:

Liður 23 í fundargerð borgarráðs frá 16 apríl, undir þessum lið vill Flokkur fólksins ræða um börn og ungmenni en áhrif og afleiðingar COVID-19 eiga eftir að birtast í mörgum myndum. Hvað börnin varða þarf að huga að þeim til skemmri og lengri tíma. Lengja þarf vinnuskóla Reykjavíkur þannig að það dekki tímabilið frá skólalokum til skólabyrjunar. Mikilvægt er að börn komist á sumarnámskeið. Breyta þarf reglum um frístundakort þannig að hægt sé a nota það á öll námskeið á vegum borgarinnar. Læknar og fagfólk m.a. á BUGL eru uggandi yfir stöðu barna sem glímdu við vanda fyrir. Gera þarf allt sem í okkar valdi stendur til að hindra að neikvæð áhrif og afleiðingar fylgi börnum okkar inn í framtíðina. Liður 6 í fundargerð borgarráðs frá 16. apríl; borgarfulltrúi vill taka undir þá skoðun og upplifun Landssambands eldri borgara (LEB) að þau hafi orðið útundan þegar horft er til aðgerða vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið. Mun meirihlutinn sem dæmi taka upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingu heim til sín. Fjárhagsáhyggjur hrjá marga í Reykjavík, öryrkja sem dæmi, og var staða stórs hóps fólks slæm áður en veiran kom til.

 

Bókun Flokks fólksins undir 10 lið í fundargerð velferðarráðs og fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs:

Að vísa frá tillögu Flokks fólksins um að afnema skilyrðið um að umsækjandi um fjárhagsaðstoð verði fyrst að nýta réttinn til frístundakorts til að fá aðstoð fyrir barn sitt er óásættanlegt þar sem ákveðið var að gera nákvæmlega það sem tillagan kveður á um. Flokkur fólksins bar þessa tillögu upp í borgarstjórn árið 2019. Borgarfulltrúi minnist þess að hafa orðið fyrir háði þegar tillaga var flutt í borgarstjórn. Formaður velferðarráðs veit vel að það væri ekki búið að ákveða að fella úr gildi þetta ákvæði í drögunum þ.e. að skilyrða aðstoð við að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkvæmt frístundakorti nema vegna tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins sem lagði þetta til, tillaga sem búin er að fara í gegnum borgarkerfið og kemur til afgreiðslu í velferðarráð. Fundargerð menningar- íþrótta og tómstundaráðs frá 6. apríl. Flokkur fólksins spyr, eru engin skoðanaskipti í þessu ráði? Fyrir Flokk fólksins sem ekki á fulltrúa í ráðinu er treyst á að fundargerðin gefi einhverja mynd af þeirri vinnu sem fram fer í ráðinu. Fundir eru lokaðir svo það sem þar fer fram kemur ekki til eyrna annarra. Óskað er því eftir að skoðanaskipti komist í bókanir svo hægt sé að fá nasaþef af hvað fram fer í ráðinu.

Bókanir í málinu:

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Engar breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð hafa verið samþykktar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Eins og kom fram í bókun Flokks fólksins um þessi undarlegu vinnubrögð að vísa tillögu frá sem er á sama fundi í raun samþykkt að framfylgja þá hefur ávallt verið talað um að um drög sé að ræða. Drögin hafa nú farið í umsagnarferil. Engin talaði um að komin væri endanleg samþykkt en líklegt þykir að þar sem tillagan er komin í drögin, þ.e. að fella á út þetta skilyrði eins og Flokkur fólksins lagði til að þá séu miklar líkur á að það verði samþykkt. Annað væri auðvitað stórfurðulegt.