Borgarstjórn 19. september 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um kynfræðslu og hinsegin fræðslu.

Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi ályktunartillögu borgarstjórnar:

Vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu vill Borgarstjórn Reykjavíkur árétta stuðning sinn við það mikilvæga starf sem á sér stað í skólum borgarinnar. Fræðsla um fjölbreytileika samfélagsins, meðal annars þegar kemur að kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu er mikilvægur þáttur í að undirbúa ungmennin okkar fyrir lífið og stuðlar að betra og mannvænna þjóðfélagi. Á liðnum árum hafa orðið miklar umbætur og framfarir þegar kemur að réttindum hinsegin og kynsegin fólks sem mikilvægt er að standa vörð um. Borgarstjórn ber fyllsta traust til kennarastéttarinnar og skólastjórnenda og afar mikilvægt er að fólkið sem fræðir börnin okkar geti gert það án þess að þurfa að þola áreiti og árásir frá einstaklingum sem vilja skerða réttindi annarra.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um leikskólamál:

Neyðarástand hefur ríkt í leikskólamálum Reykjavíkurborgar lengi vegna þess að loforð um leikskólapláss hafa ítrekað verið svikin. Aldrei hafa foreldrar verið sviknir svo gróflega eins og í þessum málaflokki. Flokkur fólksins krefst þess að meirihlutinn endurskoði forgangsröðun sína hið snarasta og setji barnafjölskyldur og þar með leikskólamál í algeran forgang. Það byggist ótrúlega margt á að þessi mál séu í lagi. Foreldrar þurfa að mæta til vinnu til að eiga fyrir nauðsynjum. Þetta er kannski ekki aðeins spurning um fjármagn heldur einnig skipulag og rétta röðun á ferlum. Það var sem dæmi gengið allt of harkalega að dagforeldrakerfinu þegar ekkert annað var tilbúið að taka við. Myglumálin hafa sannarlega sett strik í reikninginn en það er eitthvað sem meirihlutinn, sá síðasti og þar síðasti, hefði mátt gera sér grein fyrir. Leggja þarf meira fé til leikskólamálanna, viðgerða á híbýlum leikskóla vegna myglu, lagfæra laun og minnka álag með því að fjölga starfsfólki til að laða fólk til starfa. Flokkur fólksins hefur lagt sitt af mörkum til að bæta þennan málaflokk. Tillögur eins og heimgreiðslur/styrkir geta verið einn valmöguleiki í því úrræðaleysi sem nú ríkir. Aldrei komu nein viðbrögð frá meirihlutanum við þeim tillögum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að Borgarstjórn samþykkir að breyta fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði þannig að skatturinn verði 1,65% af fasteignamati húss og lóðar í stað 1,60%:

Lagt er til af borgarfulltrúum Sósíalista að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði hækkaðir í 1,65% af fasteignamati húss og lóðar í stað 1,60%. Þessir skattar voru lækkaðir árið 2021 þar sem borgin kynnti slíkt sem hluta af viðbrögðum vegna áhrifa COVID-heimsfaraldurs. COVID-faraldurinn er liðinn, þó vissulega haldi fólk áfram að smitast en faraldurinn er ekki lengur að hafa áhrif á atvinnulífið. Áætlað er að hækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði vegna ársins 2024 geti skilað borgarsjóði vel yfir 500 milljónum. Flokki fólksins líst vel á þessa tillögu og mun því styðja hana. Það veitir ekki af að auka tekjur í borgarsjóð. Best væri að þessar auknu tekjur væru notaðar til að bæta þjónustu við börn og aðra minnihlutahópa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um snjallsímanotkun í grunnskólum og hugsanlegt bann:

Meðan fullorðna fólkið ræðir fram og til baka um símanotkun barna í skólum er skólaganga hafin og fjöldi barna fer í skólann með síma sína í handraðanum. Staðfest hefur verið með fjölda rannsókna og kannana að sími truflar einbeitingu nemenda í námi. Einhverjir skólar hafa lagt blátt bann við snjallsímum jafnvel á skólalóðinni, aðrir skólar eru með mildari útfærslu. Enn aðrir skólar skipta sér lítið af því hvort nemendur eru með síma á skólatíma. Mikilvægt er að samtal verði haft við alla hlutaðeigendur, ekki síst foreldra. Ákvörðun um hvort símar skuli bannaðir í skólastofunni hlýtur engu að síður að þurfa að koma frá yfirvöldum. UNESCO hefur kallað eftir því að blátt bann verði lagt við notkun snjallsíma í skólum. Eitt af hverjum fjórum ríkjum heims hefur nú þegar orðið við þessu. Stofnunin segir að símnotkun barna í skólum auki á lærdómserfiðleika, einelti og almenna vanlíðan. Margir eru uggandi yfir hversu háðir nemendur eru símanum. Það er útilokað að vera með óskerta athygli á námi og samskiptum í skólastofunni með símann í augsýn. Það er freistandi að skoða símann þegar hann lýsist upp eða gefur frá sér veikt píp. Sími ofan í tösku sem slökkt er á truflar minna.

Greinargerð með umræðunni:

Umræðan um snjallsímanotkun í grunnskólum og hvort eigi að banna þá í skólunum hefur verið í gangi af fullum þunga í sumar og átti skóla- og frístundasvið m.a. fund með skólastjórum borgarinnar þar sem rætt var um möguleikann á símalausum skólum. Engin niðurstaða fékkst í málið og er það miður. Meðan fullorðna fólkið ræðir þessi mál fram og til baka er skólaganga hafin og fjöldi barna fer í skólann með síma sinn í handraðanum. Staðfest hefur verið með fjölda rannsókna og kannana að síminn truflar einbeitingu þeirra í náminu. Hér þarf að taka skýra afstöðu og fá niðurstöðu.
Einhverjir skólar hafa lagt blátt bann við snjallsímum jafnvel á skólalóðinni en aðrir skólar eru með mildari útfærslu. Enn aðrir skólar skipta sér lítið af því hvort nemendur eru með símana við hönd sem þeir vakta í kennslustundum. Mikilvægt er að samtal verði haft við alla hlutaðeigendur, ekki síst foreldra. Fræðsla er lykilatriði og ræða þarf við foreldra um síma- og samfélagsmiðlanotkun barna þeirra. Ákvörðun um hvort þeir skuli bannaðir í skólastofunni hlýtur engu að síður að þurfa að koma frá yfirvöldum. Flokkur fólksins vill fá markvissa umræðu um þetta mál í borgarstjórn og að sú umræða leiði til samhljóms og einhverrar niðurstöðu sem þjónar hagsmunum nemenda.
Margir eru uggandi yfir hversu háðir krakkarnir eru símanum. Krakkar geta ekki verið með óskerta athygli á námi og samskiptum í skólastofunni séu þau með símann í augsýn. Með símann í vasanum, í kjöltunni eða jafnvel undir stílabókinni á borðinu getur verið erfitt að einbeita sér að samfélagsfræði, íslensku eða stærðfræði. Þegar síminn lýsist upp eða gefur frá sér veikt píp þá verður maður að athuga hvaða skilaboð eru komin á skjáinn. Við þekkjum þetta allflest. Sími ofan í tösku sem slökkt er á truflar vissulega minna. Við þetta má bæta að
Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna UNESCO hefur kallað eftir því að blátt bann verði lagt við notkun snjallsíma í skólum. Eitt af hverjum fjórum ríkjum heims hefur nú þegar orðið við þessu en stofnunin segir að símanotkun barna í skólum auki á lærdómserfiðleika, einelti og almenna vanlíðan.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. og 14. september og einstaka liði hennar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september og 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. september:

Liður 16: í fundargerðar borgarráðs frá 7. september: Flokkur fólksins er mótfallinn styttingu á opnunartíma félagsmiðstöðva. Félagsmiðstöðvar borgarinnar gegna mikilvægu hlutverki í mótun ungmenna. Flokkur fólksins óttast að svona hagræðingaraðgerð muni kosta samfélagið meira þegar til lengri tíma er litið. Starfsemi félagsmiðstöðva hefur ríkt forvarnargildi. Sparnaðurinn af styttingu opnunartíma er rýr og næg tækifæri annars staðar í borgarkerfinu til að spara álíka fjárhæð. 16. liður fundargerðar borgarráðs frá 14. september: Flokki fólksins líst vel á að það verði þak á fasteignamati í einstökum hverfum til þess að grípa tilvik þar sem fasteignamat hækkar umfram meðaltal. Það er jákvætt að leiguverð sé sem jafnast óháð staðsetningu og aldri íbúðar og að breytingar á leiguverði verði ekki í stökkum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þeim 5,5% leigjenda þar sem leigan mun hækka um meira en 12.000 kr. á mánuði. Fjöldi leigjenda hefur kvartað undan stöðugum hækkunum á leiguverði undanfarið. Flokkur fólksins hvetur Félagsbústaði til að sýna sveigjanleika þar sem leigjendur eru í miklum erfiðleikum og jafnframt tilkynna leigjendum þessa breytingu sem fyrst svo fólk geti gert ráðstafanir. Flokkur fólksins mótmælir harðlega að vangreidd leiga sé send lóðbeint til lögfræðinga Motus. Leigjendur Félagsbústaða eru viðkvæmur hópur og margir eru efnalitlir og fátækt fólk.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 13. september og 6. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. september:

Liður 9 í fundargerðar stafræns ráðs frá 14. september: Flokkur fólksins spurði um vúlgar stigann í Breiðholti sem lenti í 8. sæti í kosningunni Hverfið mitt og hvort verkefnin sem voru í sæti 1-7 hefðu verið framkvæmd en þau voru jólaljós í tré og við Seltjörn, nýjar ruslatunnur, bætt lýsing í hverfið, gróðursetning trjáa, ærslabelgur og trampólíngarður. Í svari segir að fjárheimildir, 130 m.kr. hafi rúmað stigann, 36 m.kr. Þess er ekki getið hvað hin verkefnin kostuðu en gefið er í skyn að öll hafi verið framkvæmd. Í ljós hefur komið að það er ekki rétt. Hvergi bólar t.d. á bættri lýsingu og nýjum tunnum.

Liður 9 í  fundargerðar velferðarráðs frá 6. september: Stytta á opnunartíma unglingasmiðjanna Stígs og Traðar og draga úr starfshlutfalli forstöðumanna. Með þessu næst hagræðing upp á 12,7 m.kr. á ári. Fulltrúa Flokks fólksins finnst lítið sparað með þessu ef horft er til neikvæðra áhrifa á unglingana. Óheyrilegur tími og kostnaður hefur farið í að klípa fáeinar krónur af þessu frábæra úrræði. Flokkur fólksins mótmælti harðlega þegar meirihlutinn samþykkti þessa þjónustuskerðingu í sparnaðarskyni. Halda hefði átt óbreyttri starfsemi.