Svona lítur eineltisstýrihópur borgarinnar út:
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, formaður hópsins. Þorsteinn Einarsson, Geir Finnsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragnhildur Alda
Vilhjálmsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.
Erindisbréfið:
Inngangur:
Stefna Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi var samþykkt í borgarráði þann 22. desember 2016. Á fundi borgarráðs þann 19. júlí 2018 var samþykkt að skipa stýrihóp í þeim tilgangi að endurskoða stefnuna sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fer fyrir og er jafnframt formaður hópsins.
Hlutverk stýrihóps:
Hlutverk stýrihópsins er að leggja fram drög að endurskoðaðri stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar.
Markmið:
Að styrkja og styðja stofnanir og fyrirtæki borgarinnar í að vera sem mest sjálfbær í forvarnarmálum og úrvinnslu þeirra kvartana um einelti eða áreitni sem kunna að berast og í að
tryggja öryggi starfsmanna.
Helstu verkefni:
Að yfirfara núverandi stefnu Reykjavíkurborgar og leggja fram drög að endurskoðaðri stefnu. Gera tillögu að úrbótum á verkferlum Reykjavíkurborgar í eineltis- og áreitnimálum og á starfi og hlutverki eineltis- og áreitniteyma (t.d. aukið gagnsæi, andmælarétt og
jafnræði). Að ræða annað það sem hópurinn telur mikilvægt að skoða hvað varðar hlutverk og ferla eineltis- og áreitniteyma.
Með hópnum starfar ritari frá skrifstofu mannauðsdeildar.
Hópurinn hefur samráð við
ofbeldisvarnarnefnd, eineltis- og áreitni teymi, stéttarfélög og fleiri ef þurfa þykir.
Starfstímabil:
Stýrihópurinn skili ábyrgðarmanni niðurstöðum fyrir lok janúar 2019.
Bókun Flokks fólksins vegna umræðu undir lið fyrirspurnar Miðflokksins um dómsmál- E3132/2017
Flokkur fólksins mótmælir því að stjórnsýsla borgarinnar geti tekið punkta úr umræddum dómsskjölum og litið á það sem kveikju, að kröfu meints geranda, til að gera rannsókn eða einhvers konar forathugun á meintu einelti skrifstofustjóra gegn fjármálastjóra. Meintur þolandi er ekki aðili þessa máls, hann hefur ekki lagt fram eineltiskvörtun og frábýður sér nokkra þátttöku í forathugun, rannsókn eða hvað á að kalla það. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst stjórnsýsla borgarinnar hér vera komin á hálan ís. Að ákveða að einhver sé aðili í máli af þessu tagi án þess að tilkynning eða kvörtun liggur fyrir frá viðkomandi og fara ítrekað fram á þátttöku hans má jafnvel túlka sem áreitni.
Borgarfulltrúa finnst vísbending um meðvirkni af hálfu stjórnsýslunnar með hinum meinta geranda. Allt kapp virðist lagt á að verða við kröfu hans um einhvers konar vinnslu þrátt fyrir að meintur þolandi hefur margsinnis hafnað því að vilja koma nálægt nokkru slíku enda lauk málinu, að hans mati, með fullnægjandi hætti í dómsalnum með umræddum dómi. Stjórnsýslan er hvött til að virða að fullu afstöðu fjármálastjórans og horfast í augu við þá staðreynd að ekki verði um frekari vinnslu í þessum máli.
Tillaga Flokks fólksins um að hunda- og kattahald í félagslegum íbúðum í Reykjavík verði leyft
Lagt er til að borgarráð samþykki að leyfa hunda- og kattahald í félagslegu húsnæði í eigu borgarinnar. Leyfið er háð þeim skilyrðum að ef um sameiginlegan inngang eða stigagang er að ræða er hunda- og kattahald háð samþykki 2/3 hluta eigenda. Ef um sérinngang er að ræða er gæludýrahaldið leyfilegt. Þetta er í samræmi við Samþykkt um hundahald í Reykjavík dags. 16. maí 2012.
Greinargerð:
Ekkert getur komið í stað tengsla við aðra manneskju en gæludýr getur uppfyllt þörf fyrir vináttu og snertingu. Gæludýr þar með talið hundar og kettir eru hluti að lífi fjölmargra og skipa stóran tilfinninga- og félagslegan sess í hjörtu eigenda þeirra. Öll þekkjum við ýmist persónulega eða hjá vinum og vandamönnum hvernig gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt, ekki síst hjá þeim sem eru einir og einmanna. Átakanleg eru þau fjölmörgu tilvik þar sem fólk hefur orðið að láta frá sér hundana sína vegna þess að þeir eru ekki leyfðir í félagslegum íbúðum á vegum borgarinnar.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif af umgengni manna við dýr. Rannsóknir sýna að umgengni við dýr eykur tilfinningalega og líkamlega vellíðan og eykur m.a. sjálfstraust, einbeitingu, athygli og minnkar streituviðbrögð. Dýr veita einstaklingnum vinskap, líkamlega snertingu og sýnir áhuga og væntumþykju án nokkurra skilyrða. Ást til gæludýrsins síns getur verið djúpstæð. Hundar og kettir sem dæmi eru oft hluti af fjölskyldunni. Sú sorg sem nýstir þegar gæludýr fellur frá eða aðskilið frá eiganda sínum þekkjum við mörg, ef ekki af eigin reynslu þá annarra. Að banna gæludýr eins og hunda og ketti í félagslegu húsnæði borgarinnar er ómanneskjulegt og ástæðulaust.
Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins að gjald sem greitt er fyrir skólamáltíðir verði lækkað um þriðjung frá 1. janúar 2019
Greinargerð:
Það er mikilvægt að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Sumir foreldrar hafa ekki efni á að kaupa skólamáltíðir fyrir börn sín. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að stuðla að því með öllum ráðum að foreldrar þeirra hafi ráð á að kaupa handa þeim skólamáltíðir. Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja. Áður hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu um fríar skólamáltíðir en sú tillaga var felld á fundi skóla- og frístundaráðs í ágúst. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að aðgerð af þessu tagi mun lækka tekjur skóla- og frístundasviðs um meira en 1 milljarð kr. á ári sem er vissulega stór biti af öllum tekjum sviðsins. Í stað þess að fara í sparnaðaraðgerðir innan sviðsins er það ábyrgð borgarinnar að forgangsraða í fjárreiðum borgarinnar og í þessari tillögu er Flokkur fólksins að leggja til að borgin forgangsraði fjármunum í þágu barnanna.
Tillaga Flokks fólksins að borgin skilgreini þjónustusamninga mötuneyta borgarinnar og bjóði rekstur þeirra út.
Greinargerð
Markmiðið með þessari tillögu er að skilgreina gæði mötuneytisfæðis betur og auka gæðin. Auk þess eru vísbendingar um að þetta fyrirkomulag er hagstæðara en það sem nú ríkir sbr. niðurstöður útboða.
Fyrirspurnir er varða mötuneyti borgarinnar, matarsóun og stefnu til að sporna við matarsóun
Það er stefna Flokks fólksins að skólamatur verði helst gjaldfrjáls í Reykjavík. Þess vegna finnst Flokk i fólksins mikilvægt að vita heildar-umfangið og vanskilin og hvernig brugðist er við vanskilum á fæðisgjaldi skólamáltíða, og leikskólamáltíða.
Hér eru eftirfarandi fyrirspurnir:.
- Hversu mörg mötuneyti rekur Reykjavíkurborg, t.d. fyrir leik- og grunnskólanemendur, eldri borgara eða starfsfólk Reykjavíkurborgar ? og hversu mörgum stendur til boða að nýta sér þessa þjónustu
- Hversu margir greiða að jafnaði fyrir mat í mötuneytum borgarinnar á hverjum degi ?
- Hversu margir af þeim sem greiða fyrir mat nýta sér að jafnaði þjónustuna á hverjum degi ?
- Hver eru vanskil á fæðisgjaldi mötuneyta Reykjavíkurborgar ? og hvernig er innheimtu háttað ? og hvaða úrræði standa þeim sem ekki greiða fæðisgjald til boða ?
- Eru til næringaútreikningar fyrir mat í mötuneytum borgarinnar?
- Ef já, er einhver sem fylgist með þeim útreikningum?
- Er starfandi næringarfræðingur sem þjónustar mötuneyti borgarinnar og ef svo er hvernig er störfum hans háttað?
- Er vitað hver matarsóun í mötuneytum borgarinnar er?
- Er vitað hversu miklum mat er hent í mötuneytum borgarinnar?
- Er til stefna hjá borginni eða leiðir til að nýta matarafganga?
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu með Vináttuverkefni Barnaheilla
Fjölmargir leikskólar vinna með Vináttuverkefni Barnaheilla í starfi sínu. Einn grunnskóli vinnur með Vináttuverkefnið sem tilraunaverkefni. Spurt er:
Bíður borgin þeim leik- og grunnskólum sem óska eftir að vinna með verkefnið að greiða kostnað við verkefnið, t.d. námskeið fyrir leikskólakennara og/eða starfsfólk og efni: töskur, bangsa og bækur, að hluta til eða öllu leyti?
Ef að hluta til, hversu stór hluti er það?
Greinargerð:
Upplýsingar um Vináttu tekið af vef Barnaheilla: Vinátta er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti ætlað leikskólum og fyrstu bekkjum grunnskóla. Verkefnið felst í útgáfu námsefnis sem ætlað er börnum á leik- og grunnskólaaldri og foreldrum þeirra sem og námskeiðum fyrir kennara. Efnið er danskt að uppruna og heitir á frummálinu Fri for mobberi. Það er þýtt, staðfært og gefið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku. Frá árinu 2014 hefur Vinátta staðið leikskólum á Íslandi til boða. Mikil ánægja er með verkefnið þar sem það er notað og hefur Vinátta breiðst hratt út hér á landi og var í byrjun árs 2018 notað í um 40% íslenskra leikskóla. Rannsóknir í Danmörku hafa leitt í ljós mjög góðan árangur af notkun Vináttu og þau börn sem eru í skólum þar sem unnið er með efnið sýna meiri samhygð gagnvart hvert öðru. Nú hafa Barnaheill einnig gefið út efni fyrir 1.–3. bekk grunnskóla og verður unnið með það í tilraunaskyni í 15 grunnskólum í sex sveitarfélögum veturinn 2017–2018. Í framhaldi af þeirri vinnu mun það efni standa öllum grunnskólum til boða. Haustið 2018 er gert ráð fyrir að efni verði einnig í boði fyrir 0–3ja ára börn í leikskólum og hjá dagforeldrum. Auk Íslands og Danmörku er námsefnið einnig í notkun í Eistlandi, Færeyjum og á Grænlandi.
Fyrirspurnir er varðar sundlaugarbyggingu á Hrafnistu og Norðurbrún
Flokkur fólksins vill spyrjast fyrir um
1) hvort og með hvaða hætti borgin hafi komið að sundlaugarbyggingunni á Hrafnistu og Norðurbrún á sínum tíma .
2) Gaf borgin lóðina, styrkti hún byggingu mannvirkisins, bæði sundlaugar og búningsklefa?
3) Hvernig var notkuninni á sundlauginni háttað á meðan hún var í lagi, var samið sérstaklega um afnot borgarinnar af henni eða fengu þjónustuþegarnir við Norðurbrún að nota hana ókeypis í ljósi góðra samskipta borgarinnar og Hrafnistu?
4) Hefur Hrafnista í hyggju að opna laugina að nýju og hvað stendur í vegi fyrir því ef svo er ekki?
Tillaga frá Flokki fólksins að gerð verði könnun meðal íbúa úthverfa Reykjavíkur.
Tillaga er um að kanna hversu oft þeir sækja miðbæinn 101 og í hvaða tilgangi s.s. til að sækja þangað vinnu eða sækja þangað í öðrum tilgangi en vinnu t.d. til skemmtunar/nýta veitingastaði